24.05.1958
Efri deild: 106. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 898 í B-deild Alþingistíðinda. (883)

130. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Mitt erindi hingað í ræðustólinn er aðallega til að minnast á þann þátt frv., sem snertir skattgjald hjóna, en þó vil ég að gefnu tilefni frá hv. 6. þm. Reykv. í leiðinni minnast örlítið á það, sem hann sagði um vöntun sveitarfélaga á tekjustofnum.

Ég er honum alveg sammála í því, að það er ákaflega æskilegt fyrir sveitarfélögin að fá nýja, öruggari og ekki sízt vinsælli tekjustofna en, þau hafa nú. En það má minna á það, að sjálfsagt verður torvelt að finna tekjustofna, sem ekki koma að einhverju leyti allþungt við gjaldendurna. Það má vafalaust samt finna reiðing, sem liggur betur á heldur en þeir reiðingar, sem nú eru á lagðir.

Hv. 6. þm. Reykv. er genginn úr deildinni um stundarsakir vonandi — en ég ætla samt ekki að láta niður falla að segja það, sem ég ætlaði honum þó að heyra, en það er það, að ég tel, að meðan sveitarfélögin hafa ótakmarkaða heimild til að leggja á útsvar eftir efnum og ástæðum, þá sé minni ástæða fyrir þau að kvarta. Og með þessu frv., sem nú liggur fyrir, er rýmkaður álögurétturinn.

Hann sagði, hv. þm., að það hefði verið n. starfandi undir forustu Skúla Guðmundssonar, sem átti að gera till. um nýja tekjustofna, en hún hefði ekki flutt neinar till., og það var að heyra á honum, að það hefði jafnan verið svo á Alþ., að Framsfl. hefði lagzt á móti till. í þá átt, aðrir flokkar hefðu virzt hafa þar aðra afstöðu. Ég get upplýst það, af því að ég var í þessari n., að ég flutti þar till. einmitt um það, að sveitarfélögin fengju hluta af söluskatti, en það er till., sem hv. 6. þm. Reykv. hefur hreyft hvað eftir annað hér á Álþingi, og í n. var það svo, að sízt tóku sjálfstæðismennirnir þeirri till. bezt. Mér fyndist þess vegna það vera alröng ályktun og vil mótmæla henni, að það sé Framsfl., sem standi þarna á móti, þó að menn úr honum hafi ekki viljað ganga inn á það hér á Alþ. að afhenda hluta af söluskattinum, nema því aðeins að séð væri fyrir, að ekki skertist tekjuöflun ríkissjóðs. Það hefur þá komið í hlut Framsfl. að standa þar sem ábyrgur einmitt af því, að fjmrh. hefur verið framsóknarmaður, eins og hv. 6. þm. Reykv. drap á, en alls ekki af því, að flokkurinn hafi verið mótfallinn því, að sveitarfélögin fengju aukna og nýja tekjustofna. Mér hefur virzt aftur á móti, að þeir, sem undir það hafa tekið með tillöguflutningi, að sveitarfélögin fengju hluta af söluskattinum, vanræki að sjá fyrir því, að ríkissjóður missti þar ekki nauðsynlegan tekjustofn, og þess vegna hafi þeir leikið þar ábyrgðarleysisafstöðuna, sem aldrei er hrósverð.

Hv. minni hl. hefur lagt fram skriflegar brtt. Ein þeirra snertir tekjuskattgjald hjóna, og till. er einfaldlega um það að skipta samanlögðum tekjum hjóna í tvennt og skattleggja hjónin sem tvo einstaklinga. Það út af fyrir sig eru hugmyndir, sem fram hafa komið áður, en þeim fylgja annmarkar. Sérstaklega virðist mér í fljótu bragði mega benda hv. minni hl. á það, að sú till., sem hann flytur hér er, að því er mér virðist, — en ég hef nú ekki haft tækifæri nema rétt til að líta á hana og heyra hana einu sinni upp lesna, — ekki rétt rímuð við frv., sem fyrir liggur. Og það er vegna þess t.d., að samkv. skattalögunum eru tvenns konar skattstigar, og annar þeirra er fyrir hjón. Ef sá skattstigi gildir áfram, hygg ég, að svo færi, að hjónin sem tveir einstaklingar kæmust langt niður fyrir það, sem tveir einhleypingar greiða, og kæmust þá niður fyrir það, sem ég hugsa að flutningsmenn ætlist til. Og enn fremur virðist mér samkv. tillögublaðinu ekki gert ráð fyrir því, að niður falli ákvæði úr frv., sem brjóta í bága við nýja ákvæðið. Mér virðist þess vegna um þessa till. formlega það að segja, að hún hitti ekki í mark, ja, sé eitthvað líkt því, sem fornmenn kölluðu að höggva klámhögg.

Af því að ég var í nefnd þeirri, sem vann að endurskoðun á ákvæðunum um skattamál hjóna, og tók þátt í að semja þann þátt í frv., sem fjallar um þau efni, þá tel ég rétt að skýra frá því, að n. lagði allmikið verk í að kynna sér það, sem fram hefur komið í þessum málum hér á Alþ., og enn fremur að tala við það fólk, sem að undanförnu hefur aðallega lýst óánægju yfir gildandi ákvæðum um skattgjöld hjóna, en það hafa fyrst og fremst verið samtök kvenna, kvenfélagasambönd, og svo einstakar áhugakonur. Til fundar við nefndina komu margir fulltrúar frá kvennasamtökunum og einstakar áhugakonur, og þær lýstu sínum sjónarmiðum um annmarka á gildandi löggjöf, og þær gáfu sínar bendingar um það, hvað þær teldu rétt til úrlausnar. Og til þess að stytta mál mitt, þá get ég sagt það, að ég veit ekki betur, en að með þeim till., sem í frv. eru um skattgjöld hjóna, séu sættir fengnar við þá aðila, sem óánægðastir hafa verið með reglur þær, sem gilt hafa.

Það er enginn vafi á því, að þetta fólk, sem hefur óánægjunni lýst, hefur haft rök að mæla, og því meira hefur verið um misbresti á því, að löggjöfin ætti við, sem lengri tímar hafa loðið, því að atvinnuháttarbreytingar í þjóðfélaginu hafa hnigið í þá átt, að konur haga nú á allt annan hátt vinnubrögðum sínum, en áður. Utan heimilanna er á boðstólum fyrir konur í þéttbýlinu margháttuð atvinna, sem þeim er hagfellt að sinna og þær geta betur sinnt, en nokkurn tíma áður vegna þess, hvað tækni heimilanna hefur farið mikið fram og heimilisstörfin eru fljótunnari og léttari, en þau áður voru. Og þó að segja megi, að það sé þjóðfélagslega og menningarlega og uppeldislega ákaflega þýðingarmikið, að konan annist heimili sitt og uppeldi barna sinna á heimilinu, þá er ekki hægt að neita því, að það er líka þjóðfélagslega mikilsvert, að vinnukraftur konunnar notist fullkomlega og komi til tekjuöflunar fyrir þjóðfélagið. Og það má segja, að það geti líka einmitt verið hættulegt fyrir menningu heimilanna og kvennanna sjálfra, eins og nú er komið á fólksfáum heimilum, þar sem heimilisstörfin eru ekki mikil, ef þær hafa ekki tækifæri til þess að vinna utan heimilanna, telja það ekki borga sig fjárhagslega, heldur taka það upp, sem konurnar sjálfar hafa kallað „slæpingsIíf“.

Ég held þess vegna, að það eigi að taka fullt tillit til þessarar þróunar í þjóðfélaginu og þeirrar óánægju, sem hefur verið mjög áberandi á undanförnum árum. Og sem sagt: í frv. er tekið þannig tillit til þessara atriða, að ég hygg, að konur muni vel við una, enda áttu þær fulltrúa í þessari nefnd.

Hins vegar er það svo, að ef till. minni hl. yrði samþ. og þó að hún yrði nú samræmd frv., svo að hún félli inn í það eðlilega, þá væri rofið það samræmi, sem reynt hefur verið að skapa með þessum tillögum og n. reyndi að skapa í samræmi við vilja þeirra kvenna, sem mest hafa túlkað þessi sjónarmið og bezt sett sig inn í þau.

Lækkun skatta hefur sem sé ekki verið aðalatriðið í ádeilunni á skattgjaldsreglurnar. Aðalatriðið má segja að hafi verið, að komið væri á samræmi milli skattgjalds hjóna annars vegar og einhleypinga. En það er langt frá, að það hafi verið, eins og nál. sýnir í tölum, og líka, að komið væri á samræmi milli skattgjalds hinna einstöku heimila, og í því sambandi má telja, að skipta megi heimilunum í 3 flokka til skýringar. í fyrsta flokki og þeim, sem talið er að hafi orðið harðast úti — þess vegna tel ég hann 1. flokk — eru heimili þeirra giftu kvenna, sem afla mikilla peningatekna með vinnu utan heimilisins. Heimill þeirra hafa orðið að greiða, — ja, það er sýnt í dæmum í frumvarpsgreinargerðinni, — kannske upp undir 20 þús. kr. meira, en heimill manns og konu, sem búið hafa saman án þess að vera gift.

Í öðru lagi, af því að tekjur þessara hjóna hafa verið lagðar saman, peningatekjur konunnar bætzt ofan á tekjur mannanna, þá hafa þessi heimili orðið harðara fyrir skattgjaldinu, en heimili þeirra kvenna, sem verja allri sinni vinnu til að byggja upp heimilið og spara útgjöld þess, af því að slík vinna er skattfrjáls, ekki talin fram, en hefur alveg sama gildi fyrir heimilið og öflun tekna til að borga þau útgjöld, sem hún sparar.

Þá eru einnig konur, sem eru nokkuð hliðstæðar þeim, sem ég nefndi fyrst, konur, sem vinna að fyrirtækjum með mönnum sínum. Þær hafa náttúrlega verið að nokkru leyti rangindum beittar, miðað við þær konur, sem vinna bara að húshaldi og eru á ýmsan hátt hliðstæðar konunum, sem afla tekna utan heimilis síns.

Frv. reynir að gera samræmi á milli þessara giftu kvenna, nefnilega að gefa konum þeim, sem fyrst voru taldar, rétt til 50% frádráttar af tekjum, sem þær afla utan heimilis. Þá er með því móti gert ráð fyrir því, að þær fái skattlinun sambærilega við þá skattinum, sem konurnar, sem vinna heima, fá með því að hafa vinnu sína skattfrjálsa. 50% frádrátturinn svarar til skattfrelsis heimavinnu konunnar, og 50% af matsverði af sameiginlegum hreinum tekjum hjónanna, sem afla teknanna saman, — matshluti konunnar úr þeim tekjum er líka hliðstæða, og á þennan hátt reynir frv. að setja alla þessa þrjá flokka við sama borð. En ef tekjum hjónanna væri skipt til helminga, eins og minni hl. gerir ráð fyrir, þá væri þarna ekki lagað ósamræmið á milli þessara flokka, heldur aðeins lækkaður skatturinn, en það er ekki það, sem konurnar hafa út af fyrir sig beðið um, heldur réttlætið og samræmið innbyrðis.

Hv. þm. V-Sk. hefur lagt fram sérstaka till. og lýsti yfir nú, að hún sé varatill., sem komi til greina á eftir till. minni hl. fjhn.till. út af fyrir sig, hefur þann stóra galla að skapa ekki samræmi, og á margan hátt rýfur hún einmitt samræmið freklega og það frekar, en skiptingin í tvennt.

Það hefur verið bent á það í rökræðum um þetta mál, hvað eftir annað, í blöðunum og á mannamótum, að sumar konur séu þannig settar, að þær séu sá aðilinn, sem aðallega aflar tekna fyrir heimilin. Það er bent á það, að býsna mörg heimili séu þannig sett, að það sé konan, sem vinni aðallega fyrir hinum skattskyldu tekjum, og þá er nefnd kona námsmannsins, kona sjúka mannsins og kona óreiðumannsins eða óreglumannsins. Ég vil nefna dæmi um það, hvernig till. hv. þm. V-Sk. skapar ósamræmi í þessu sambandi, og dæmið vil ég setja þannig upp: Við skulum segja, að slík kona, sem vinnur fyrir öllum tekjum heimilisins, hafi 60 þús. kr. í launatekjur. Ég nefni 60 þús. kr., bæði af því, að það getur vel staðizt, og líka af því, að það eru samkv. brtt. hámarkslaun, sem eiga að fá frádrátt. Eftir frv, á þessi kona, sem fær 60 þús. kr., að fá helming þeirrar upphæðar skattfrjálsan, eða 30 þús. kr., en eftir till. hv. þm. V-Sk. aðeins fjórða part eða 15 þús. kr. Þetta er mikill munur og sýnir, hvað brtt. skákar málinu inn á skakkan grundvöll. En gerum líka samanburð á heimili þessarar konu og annarrar konu, sem vinnur eingöngu að húshaldi, en maður hennar aflar hinna skattskyldu tekna. Hann hefur líka 60 þús. kr. í tekjur. Það eru hinar skattskyldu tekjur heimilisins; eins og fyrrnefnda konan hafði. Frádráttur verður á heimili hans enginn samkv. frv., enginn sérstakur frádráttur, en samkv. till. hv. þm. V-Sk. 15 þús. kr. og auk þess vinna konunnar innan heimills við spörun teknanna. Þannig mundi brtt. verka og rjúfa samræmi og jöfnuð, sem frv. er grundvallað á.

Þessar till., sem í frv. felast um skattgjald hjóna, eru áreiðanlega byggðar á allrækilegri athugun og íhugun og gerðar í samræmi við fólk, sem hefur hugsað mikið um þessi mál, og einnig í samvinnu, þ.e.a.s. fræðilegri samvinnu, við skattstofu ríkisins. Og það er varla von, að hægt sé að skjóta svona skyndigerðri till. inn í slík mál, án þess að hún verði eins og fleygur, sem rífur og umturnar, og ég vara þá, sem vilja þessu máli vel, við því að greiða þessari till. atkv. Ég vara þá líka við að greiða atkv. till. um helmingaskipti teknanna, vegna þess að það er ekki það, sem fólkið hefur beðið um, sem hefur verið óánægt með lögin. Það hefur beðið um jafnrétti og réttlæti, en ekki sérstaklega skattalækkun. Auk þess vil ég endurtaka, að till. rímar áreiðanlega ekki við frv., svo að það yrði vanskapningur, ef hún yrði samþ.

Hv. þm. V-Sk. hefur lagt áherzlu á það, að það sé ranglæti gagnvart konunni, sem vinnur heima, að heimili hennar fái ekki skattaívilnun. Hann byggir þetta, að mér finnst, á því, að hann metur ekki fullkomlega, hversu mikils virði fjárhagslega vinna hennar er fyrir heimilið, og finnst mér honum farast þá í því efni dálítið líkt og fólki, sem lítur svo á, að þeir, sem í landinu framleiða vörur, sem neytt er innanlands, afli ekki þjóðartekna, sem séu jafnverðmætar tekjum af framleiðsluvöru, sem flutt er út og fenginn er fyrir erlendur gjaldeyrir. Það er eitthvað svipaður misskilningur, sem gerir það að verkum, að afstaða hv. þm. V-Sk. er eins og hún er. Það er vitanlega jafnverðmætt peningalega fyrir heimilið, það sem aflað er handa heimilinu innan þess eða sparað, eins og peningar, sem fengnir eru fyrir vinnu utan heimilisins til að kaupa fyrir sams konar þarfir, alveg eins og það er eins þýðingarmikið fyrir þjóðfélagið, að framleidd sé vara, sem er nauðsynleg til neyzlu innanlands, eins og vara, sem flutt er út til að fá erlendan gjaldeyri fyrir, því að ef ekki hefði verið framleidd varan innanlands til neytenda, þurfti vitanlega á erlendum gjaldeyri að halda til að geta fengið hana.