20.02.1958
Efri deild: 54. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 922 í B-deild Alþingistíðinda. (899)

93. mál, kostnaður við rekstur ríkisins

Sigurður Ó. Ólafsson:

Herra forseti. Mér láðist nú að geta þess í minni fyrri ræðu, sem hv. frsm. ítrekaði nú aftur í sinni seinni ræðu, en það var, hvort ég mundi fylgja frv., ef till. mín væri felld. Ég álít, að ef mín till. verður felld, þá verði frv, ekki eins gott og það yrði með henni samþykktri. En ég vil þó taka það fram, að ég álit, að hér sé stefnt í rétta átt með frv., og ég mun fylgja því, þrátt fyrir það þó að mín till. verði felld, vegna þess að ef lögin eru einu sinni komin á, þá er hægara að breyta þeim til batnaðar aftur seinna, heldur en að koma þeim á að nýju. Þess vegna mun ég með þetta sjónarmið fyrir augum fylgja frv., þrátt fyrir það þó að brtt. mín nái ekki samþykki. En annars verð ég nú að segja það, að mér finnst mótmæli hv. frsm, á móti till. vera mjög veigalítil, að þar komi það frekar til, að frv. megi ekki breyta, heldur en hann álíti, að mín brtt. sé til þess að gera frv. verra en það er. — Það var fyrst og fremst þetta, sem ég vildi taka fram.

En svo vil ég aðeins minnast lítillega á, að hv. frsm. sagði, að ég gerði lítið úr tillöguréttinum. Þetta er rétt, og það var það, sem ég átti við, þegar ég sagði, að mér fyndist frv, vera laust í reipum, það vera ekki eins kröftugt og það ætti og þyrfti að vera og næði þess vegna ekki fyllilega tilgangi sínum. En hann vill halda því fram, að tillögurétturinn sé aðhald fyrir ríkisstj. eða viðkomandi ráðh. Það má vel vera, að það sé rétt. En benda má á, að ef tillögurétturinn væri ekki aðhald, til hvers væri frv. þá fram komið. Það er það eina, sem vinnst með frv., ef það verður samþykkt, að það sé þó aðhald fyrir viðkomandi ráðh., en ég vildi láta það vera meira en aðhald.

Hv. frsm. minntist einnig á það, að fjvn. hefði vald til þess að taka fram fyrir hendurnar á ráðh. eða ráðuneytum, ef þar væri um óhóflega fjáreyðslu að ræða. Hann drap einnig á, að það væri líka í verkahring yfirskoðunarmanna ríkisreikninganna að gera athugasemdir við fjárstjórnina. Hann sagði þetta í sambandi við það, sem ég minntist á lauslega að hefði mátt athuga í sambandi við samningu þessa frv., hvort ekki hefði átt að láta þessa menn fá það vald að fylgjast með fjármálum ríkisins. En á þessu starfssviði fjvn. að þessu leyti til og einnig hvað snertir yfirskoðunarmenn ríkisreikninganna er sá stórkostlegi munur, sem mér finnst að hv. frsm, hafi ekki athugað í þessu sambandi, að annar aðilinn starfar eftir á, þegar búið er að framkvæma hlutinn. Með frv. er gert ráð fyrir, að trúnaðarmennirnir starfi áður, en framkvæmt er og komi í veg fyrir, að hluturinn sé gerður, ef þeim svo sýnist. Þetta er það höfuðatriði, sem ekki verður fram hjá gengið í sambandi við þetta frv. Og að bera saman starf væntanlegra trúnaðarmanna, sem frv. gerir ráð fyrir, og yfirskoðunarmanna ríkisreikninganna, er alls ekki sambærilegt, vegna þess að aðrir eiga að kynna sér málin áður, en til framkvæmda kemur, en hinir eiga að segja álit sitt um það, sem þegar hefur verið framkvæmt. Og við vitum ósköp vel, hvernig þetta hefur gengið og gengur enn. Athugasemdir yfirskoðunarmanna ríkisreikninganna eru birtar með ríkisreikningunum, og því, sem athugavert er, vísað til aðgerða Alþingis. Síðan ekki söguna meir. Aldrei neitt frekar aðhafzt í þeim málum. En trúnaðarmenn þeir, sem gert er ráð fyrir að komi til samkvæmt þessu frumvarpi, eiga að koma til skjalanna áður en til framkvæmda kemur og koma í veg fyrir aðgerðir, sem að þeirra áliti eru ekki réttar.

Ég held, að það sé þá ekki fleira, sem ég þarf að taka fram á þessu stigi málsins. En ég vil endurtaka það, að ég fylgi frv., þrátt fyrir það að mín till. verði ekki samþykkt. En mér finnst ekkert vera komið fram enn þá, sem mæli svo gegn henni, að ástæða sé fyrir hv. d. að fella hana.