12.12.1957
Neðri deild: 38. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í B-deild Alþingistíðinda. (90)

5. mál, tollskrá o. fl

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Hæstv, forseti hefur nú þegar lýst þeirri viðbótarbrtt., sem við hv. 5. þm. Reykv. bárum fram, og tel ég, að í sjálfu sér þurfi hún ekki nánari skýringar. Okkur hafði upphaflega sézt yfir það, að ef setning sú, er við viljum fella niður, stendur áfram, þá stangast hún á við það, sem við upphaflega höfðum lagt til, nefnilega þá breytingu á fjáröflun til tollstöðvanna, að í stað þess að 1% sé lagt á tollana, þá sé það tekið af tollunum, innheimtum samkv. núgildandi skattstigum.

Sá misskilningur hæstv. fjmrh., að við værum að leggja til, að ekki yrði veitt fé til byggingar þessara tollstöðva, hefur þegar verið leiðréttur af öðrum hv. þm., sem hér hafa tekið til máls, og hef ég engu við það að bæta. Það er fjáröflunarleiðin, sem við erum ósamþykkir, ekki því málefni, að fé sé varið í þessu skyni.

Ég skal að vísu taka það fram, að heppilegast af öllu hefði ég talið, að féð væri veitt til þessa almennt á fjárl. Ég tel þá leið í sjálfu sér óeðlilega, að það sé farið langt inn á þá braut að binda ákveðnar ríkistekjur við ákveðin útgjöld. Það geta verið sérstakar ástæður fyrir hendi, sem geri þetta eðlilegt, eins og t.d. þegar benzínskatti er varið til viðhalds vega o.s.frv. Ef um er að ræða ráðstafanir, sem telja má fremur í hag tilteknum þjóðfélagsborgurum, heldur en öðrum, þá er það ekki óeðlilegt, að þeir taki sérstaklega þátt í kostnaði við slíkar ráðstafanir, þannig að þeir, sem nota vegina mest t.d., taki sérstaklega sinn þátt í kostnaðinum við viðhald þeirra. Séu ekki slíkar ástæður fyrir hendi, þá tel ég óeðlilegt að hnýta þannig saman ákveðin ríkisútgjöld og ákveðnar ríkistekjur. Svo langt höfum við hv, 5. þm. Reykv, samt ekki hugsað okkur að ganga að fella niður, að fjár til byggingar tollstöðva væri aflað af tollunum, en við teljum óeðlilegt, að það sé í þeirri mynd, sem nú er, og höfum báðir gert fyrir því grein, og ég hef engu við það að bæta.

Ég vil aðeins að lokum taka það fram og taka undir það með hv. 1. þm. Reykv. (BBen), að það er á fullkomnum misskilningi byggt, að það sé um að ræða árekstur á milli brtt. okkar hv. 5. þm. Reykv. og tillögu hans um, að þessu fé megi einnig verja til byggingar lögreglustöðva. Ég styð hans till. fyllilega. Flestir hv. þdm. munu hafa þann kunnugleika á aðbúð lögreglunnar, eins og hún er nú, og aðbúðinni að föngum, að þeim er ljóst, að þau mál eru í óviðunandi horfi og æskilegt að veita fé til þess að ráða á því bót, En það er síður en svo, að það stangist í nokkru á við þá tillögu, sem ég hef hér flutt ásamt hv. 5. þm. Reykv.