03.03.1958
Neðri deild: 59. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 937 í B-deild Alþingistíðinda. (912)

93. mál, kostnaður við rekstur ríkisins

Jón Pálmason:

Herra forseti. Það má nú segja um hæstv. fjmrh, út af þessari síðustu ræðu, að litlu verður Vöggur feginn, því að hæstv. ráðh. fannst það mikill uppsláttur fyrir sig, að ég skyldi taka það fram, að ekki væri öll eyðsla og óreiðan í fjármálum ríkisins öllsömun honum að kenna. Þetta var í rauninni ekki mikið sagt, því að nóg er nú samt, þó að það séu fleiri, sem eru meðsekir í öllu því sukki, sem átt hefur sér stað og á sér stað, og hefur nú tekið fyrst steininn úr, þegar núverandi hæstv. ríkisstj. tók við völdum. En þess ber í þessu sambandi að geta, að það eru þó ekki borgaðar út fjárhæðirnar, sem ríkið greiðir, nema fjmrn. skrifi upp á, og það er þessi hæstv. ráðh., sem núna í meira en 8 ár er búinn að hafa stjórn þess ráðuneytis og ber þess vegna ábyrgðina, þó að það séu að eðlilegum hætti margir fleiri, sem eiga sök á því, að svo langt hefur verið gengið í fjáreyðslunni, og ef það hefði verið nokkur vilji fyrir hendi hjá þessum hæstv. ráðh. til þess að stoppa, þá hefur hann alltaf haft það í hendi sinni að skrúfa fyrir eða þá a.m.k., ef hann vildi eitthvað breyta til, sem hefur aldrei komið mikil viðleitni fram frá hans hálfu, þá hefur hann þó alltaf haft tækifæri til þess að setja hnefann í borðið og segja hingað og ekki lengra. Það hefur hann ekki gert, heldur hefur alltaf sokkið dýpra og dýpra og það undir hans stjórn og á hans ábyrgð.