22.04.1958
Neðri deild: 82. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 939 í B-deild Alþingistíðinda. (916)

93. mál, kostnaður við rekstur ríkisins

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. þetta um ráðstafanir til að draga úr kostnaði við rekstur ríkisins er stjórnarfrv., sem þegar hefur verið samþ. í hv. Ed. Í frv. er lagt til, að þrem mönnum verði falið að gera till. um hagfelldari vinnubrögð í ríkisstofnunum til að spara mannahald og annan rekstrarkostnað. Einn þessara þriggja manna sé ráðuneytisstjórinn í fjmrn., annar tilnefndur af fjvn. Alþingis til eins árs í senn og sá þriðji tilnefndur af ríkisstj. í heild, einnig til eins árs.

Í 1. gr. frv. segir, að óheimilt skuli að fjölga starfsliði við ríkisstofnanir, nema leitað hafi verið till. þessara þriggja manna. Enn fremur er óheimilt að ráða í stöðu, sem losnar, nema tillagna þeirra hafi verið leitað með sama hætti.

Í 2. gr. er svo kveðið á, að enga nýja ríkisstofnun megi setja á fót nema með lögum og um starfsmannafjölda skuli leitað tillagna þessara þriggja trúnaðarmanna, að svo miklu leyti sem lög um stofnunina geyma ekki fyrirmæli um mannahald.

Þá segir í 4. gr. frv., að ef fram kemur ósk um fjölgun starfsmanna við ríkisstofnun eða ráðningu í lausa stöðu, þá skuli hlutaðeigandi ráðuneyti senda beiðnina um það til trúnaðarmanna þeirra, sem á að fela þetta eftirlit, og að skipun, ráðning eða setning í stöðu sé ógild, þar til tillögur þeirra hafa borizt, en það á að vera eigi síðar, en hálfum mánuði eftir að erindi barst til trúnaðarmannanna, nema hlutaðeigandi ráðh. hafi samþ. lengri frest til að skila tillögunum, Þar er þó tekið fram, að ráðh. hafi að sjálfsögðu úrskurðarvald um þessi efni. En fari hann ekki eftir tillögum hinna þriggja trúnaðarmanna, þá er honum skylt að gera fjvn. Alþ. rökstudda grein fyrir ástæðunum, sem því valda.

Í 5. gr. frv. er enn fremur ákveðið, að ef stofnun, sem lögin taka til, vill auka við húsnæði sitt, kaupa bifreið eða gera aðrar ráðstafanir, sem auka verulega rekstrarkostnað stofnunarinnar, þá skuli leita um það álits þessara þriggja manna, eins og um starfsmannafjölgun eða ráðningu í lausa stöðu væri að ræða.

Þetta, sem ég nú hef nefnt, er efni frv., sem hér liggur fyrir.

Oft hefur verið rætt um það, hvaða ráð væru tiltækilegust til þess að koma á eftirliti og aðhaldi í ríkisrekstrinum, sem gæti orðið til þess að koma í veg fyrir óeðlilega útþenslu og leitt gæti til sparnaðar. Hafa komið fram till. um þetta efni áður hér á Alþingi, án þess að samkomulag hafi orðið um lögfestingu þeirra. ríkisstj. hefur nú eftir athugun málsins lagt fram sínar till. um þetta í því frv., sem hér er til umr. Ég tel rétt, að Alþingi fallist á þær og samþykki frv. Að vísu er ekki unnt að fullyrða um það fyrir fram, hversu mikill árangurinn verður, en eigi að síður sýnist mér rétt, að þessi tilraun sé gerð, og ég vil vekja athygli á því í þessu sambandi, að samkvæmt frv. er ekki gert ráð fyrir að ráða menn til eftirlitsstarfsins nema um skamman tíma í senn, og er þá auðveldara að gera breytingar á fyrirkomulaginu, ef ástæða þykir til, eftir að nokkur reynsla er fengin.

Fjhn. var falið að athuga þetta mál, og hefur hún skilað áliti á þskj. 414. Þegar greidd voru atkv. um frv. í n., greiddu tveir hv. nm. ekki atkv. um það, eins og greinir í nál., en meiri hl. n. mælir með því, að frv. verði samþ., einn þeirra, hv. 3. þm. Reykv., undirritar þó álitið með fyrirvara.

Ég sé, að tveir hv. nm. í fjhn., hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) og hv. 9. landsk. þm. (ÓB), gera hér brtt. við frv., sem verið var að útbýta prentuðum nú fyrir fáum mínútum hér á fundinum. Ég mun ekki gera þær að umtalsefni að svo stöddu, þar sem ekki er búið að mæla fyrir þeim af hálfu flm. En ég vil að lokum láta þess getið, að til fjhn. var einnig vísað öðru frv., sem segja má að sé um sama efni, flutt af hv. þm. A-Húnv. um eftirlit til varnar gegn ofeyðslu hjá ríkinu og stofnunum þess, minnir mig að það nefnist, og nefndin er þegar búin að afgreiða það mál einnig, þó að ekki sé búið að prenta nál., en það mun vera komið í prentun og afgreiðsla n. á því var með þeim hætti, að hún leggur til, að því verði vísað til hæstv. ríkisstj, til athugunar, og var ekki ágreiningur í n. um þá meðferð á því máli.