22.04.1958
Neðri deild: 82. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 945 í B-deild Alþingistíðinda. (919)

93. mál, kostnaður við rekstur ríkisins

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég hafði skrifað undir þetta nál. með fyrirvara, því að þótt ég sé fylgjandi því frv., sem hér liggur fyrir, þá álít ég rétt að nota þetta tækifæri til að koma fram með nokkrar athugasemdir í sambandi við okkar ríkisrekstur.

Það er raunverulega ekki aðeins ástæða til þess að gera ráðstafanir til þess að draga úr kostnaði við rekstur ríkisins, það væri líka ástæða til þess að koma fyrir yfirleitt meira eftirliti við sjálft ríkisbáknið og ríkisreksturinn á öllum sviðum, eins og hann er hjá okkur. Þegar svo er í okkar þjóðfélagi, eins og þróunin hefur nú orðið, að ríkisrekstur hefur orðið þar sífellt meiri og meiri þáttur, þá er það raunverulega ekki nema eðlilegt, að það væri til þess hugsað að koma upp meira eftirlitskerfi um, hvernig þessi ríkisrekstur fer fram og hvort þar er gætt yfirleitt þeirrar hagsýni, sem þyrfti. Það er vitanlegt mál, að það, hvernig ríkisreksturinn hefur vaxið hjá okkur, hefur ekki verið gert skipulega. Hann hefur miklu frekar vaxið eins og villiskógur. Það hafa verið samþykkt á þessu þinginu þessi lögin um ríkisrekstur og á öðru þinginu önnur, jafnvel máske um ríkisrekstur á sama sviðinu, og þannig hefur hverri stofnuninni verið bætt ofan á aðra, jafnvel stundum þannig, að verkefnin eru orðin það lík, að það er næstum því eins, og það er ruglazt á forstjórunum í þeim, þegar á að fara að vinna. Ég tek t.d. suma okkar ríkisbanka. Jafnhliða þessu hefur svo aðstaðan orðið þannig í sjálfu atvinnulífinu, að ríkisreksturinn hefur farið þar stórkostlega vaxandi, og sum af stærstu fyrirtækjum, sem rekin eru á landinu, eru ríkisfyrirtæki, en raunverulega ekkert af öllum þessum ríkisfyrirtækjum kemur inn í sjálf fjárlögin, hvort heldur það eru gömul eða ný, hvort það eru síldarverksmiðjurnar, áburðarverksmiðjan, tilvonandi sementsverksmiðja eða raforkuverin eða annað slíkt. Þetta er allt saman stórrekstur hjá ríkinu, sem heyrir ekki á neinn hátt raunverulega undir neitt sérstakt eftirlit nema þeirra rn., sem eiga að stjórna þessu í hvert sinn, og alveg efasamt, hvað þau skoða sig yfirleitt eiga að hafa mikið eftirlit með þessum stofnunum, enda er það orðið víða svo í ríkiskerfinu hjá okkur, að þessar stofnanir eru eiginlega reknar með hugsunarhætti alveg eins og þetta væru einkastofnanir. Og í samræmi við það er það fyrirkomulag, að þeir, sem eru forstjórar í svona stofnunum, sitji þar raunverulega ævilangt, eins og verið hefur um dómara eða aðra slíka, sem haft hafa skv. stjórnarskrá og lögum alveg sérstök réttindi til þess að tryggja sjálfstæði þeirra embættisvalds. En sama skipanin hefur raunverulega verið höfð á um forstjóra fyrir stofnanir hjá ríkinu, fjárhagslegar stofnanir, atvinnurekstur eða verzlunarrekstur, þó að engin ástæða væri til slíks, þannig að sú embættismennska, sem þótt hefur gilda í því gamla ríkisbákni og var þar eðlileg, á meðan starf ríkisins var fyrst og fremst hin hreina embættismennska, dómarastörf og annað slíkt, hún hefur verið látin gilda, eftir að mikill meiri hluti af öllu ríkisbákninu er raunverulega orðinn hreint fjárhagslegs og atvinnulegs eðlis og ætti þess vegna að hlíta allt öðrum lögmálum og allt öðru eftirliti í því sambandi. Og það er engin tilviljun, að einmitt margt af þeirri gagnrýni, sem fram kemur á ríkisrekstrinum á sviði atvinnu og verzlunar, stafar m.a. af því, að það hefur verið yfirfært á hann það gamla fyrirkomulag, sem var á embættisrekstri, þegar það snerti dómarastörf eða annað þess háttar. Og ég, sem fyrir mitt leyti eða eins og sá flokkur, sem ég tilheyri, er með ríkisrekstri, ég er dálítið óttasleginn við, að það séu ekki fundnar upp aðferðir til þess að geta haft slíkt eftirlit með ríkisrekstrinum, að sú sjálfkrafa gagnrýni, sem raunverulega kemur fram á rekstri einstaklinganna frá okkur sjálfum, þegar þeim þykir hann ekki bera sig, sé raunverulega til hvað snertir sjálfan rekstur ríkisins á sviði atvinnu og verzlunar. Ég held, að það væri ákaflega nauðsynlegt fyrir okkur, að þetta mál yrði mjög alvarlega athugað, það muni vera þörf fyrir almennt eftirlit á þessu sviði. Hins vegar mun nokkuð erfitt að finna út, hvernig því eftirliti yrði bezt fyrir komið, þannig að hagsmunir almennings yrðu sem bezt tryggðir í því sambandi. Í því stjfrv., sem hér liggur fyrir, er hins vegar ekki farið neitt inn á þetta svið, Það er hér aðeins rætt, eins og líka hv. 5. þm. Reykv. gerði nokkra grein fyrir, um þær stofnanir, sem heyra beinlínis undir fjárlögin, og það er raunverulega mikill minni hluti í ríkisrekstrinum á Íslandi.

Fyrir 20 árum rúmum var gerð nokkur tilraun til þess að skapa eftirlit með þeim atvinnustofnunum og verzlunarstofnunum, sem ríkið hefði, mynduð svokölluð rekstrarráð einmitt af þeim mönnun, sem þar unnu. Það tókst ekki vel, og það er líka máske nokkurn veginn gefið, að jafnvel þó að það væri kannske eðlilegt við slíkar stofnanir, að menn, sem í þeim vinna, hefðu þar fulltrúa, þá mundi þurfa að blanda þar mjög vel saman þeim fulltrúum, sem eftir þessu ættu að líta, til þess að það yrði eitthvað meira, en nafnið tómt. Ég held þess vegna, að þegar á annað borð væri farið út í að semja frv. um svona hluti, þá hefði verið þörf á, að þarna hefði verið tekið dýpra í árinni um að skapa eitthvert eftirlitskerfi með ríkisrekstrinum í heild til þess að tryggja hann betur, en núna er. Hins vegar er það góðra gjalda vert að gera það, sem hægt er, til þess að draga úr kostnaði við þann rekstur ríkisins innan ramma fjárlaganna. En í þessu frv. er þetta fyrst og fremst takmarkað við það, sem snertir nýjar stofnanir eða nýja starfsmenn, sem bætt yrði við, eða nýjan kostnað, sem lagt yrði í. Það er sem sé ekki á valdi þeirra manna, sem þarna ættu að athuga, að gera sérstakar tillögur um breytingar á sjálfu ríkiskerfinu í þessu efni, niðurlagningu ákveðinna stofnana hjá ríkinu eða annað slíkt.

Ég skal ekki neita því, að það er oft vafalaust mjög erfitt að komast að samkomulagi um, hvernig slíku eftirliti yrði bezt fyrir komið. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar í fjhn. hafa lagt fram brtt., sem mundi þýða það, að stjórnarandstaðan hefði líka aðstöðu, eins og hún nú er a.m.k., til þess að hafa þarna eitthvað að segja. Þetta er náttúrlega mál, sem alltaf er til athugunar, hve mikinn rétt eigi að gefa stjórnarandstöðu á hverjum tíma í slíku efni, og það væri vissulega ákaflega æskilegt, ef hægt væri að koma sér saman um það hér á Alþ., ekki bara í þessu máli, heldur fleirum, hvaða rétt stjórnarandstaða eigi að hafa yfirleitt. Sannleikurinn er a.m.k. af minni reynslu að dæma um rúma 20 ára setu hér á Alþ., að þá hefur ekki farið mikið fyrir þeim rétti, sem stjórnarandstaðan hefur haft lengst af, og það bæri vissulega að fagna því, ef það yrði breyting þar á. En þá þyrfti það líka að verða breyting, sem tryggði það, að stjórnarandstaða hefði slíkan rétt, hver svo sem hún væri, þannig að það væri ekki bara sagt, ef einhverjir vissir séu í stjórnarandstöðu: Ja, það er nú svo vond stjórnarandstaða, það er ómögulegt að láta slíka menn hafa neinn rétt. En væri aftur á móti um aðra að ræða, þá væri það svo góð stjórnarandstaða, að það væri sjálfsagt, að þeir hefðu sinn rétt. — En vissulega væri hitt æskilegast, að hægt væri að komast hér að samkomulagi á Alþ., þar sem stjórnarandstaða bæði í þessum málum og öðrum hefði sinn rétt, en það væri samkomulag um, að þeim leikreglum yrði ekki breytt, taflið slegið um koll, þegar önnur stjórnarandstaða væri, en nú er t.d. í augnablikinu. Ég vil nú aðeins skjóta því inn, af því að það hafa oft komið hér fram bæði tilmæli og tillögur frá núverandi stjórnarandstöðu, um, að öðruvísi yrði tekið á þessum málum, og það væri vissulega mjög ánægjulegt, ef við gætum komið okkur niður á það hér á Alþingi, að breytt yrði um í þessum efnum frá þeirri venju, sem gilt hefur undanfarna áratugi, en þá líka með það fyrir augum, að við létum það gilda um komandi áratugi.

Ég vildi sem sé aðeins segja þessi orð sem hugleiðingar út frá því, sem þetta frv. gefur tilefni til. Ég stend með þessu frv., — það hefur orðið samkomulag um það hjá stjórnarflokkunum, — en vildi ekki láta hjá líða að segja það, sem mér býr í brjósti viðvíkjandi því vandamáli, sem þarna liggur fyrir, og sérstaklega því vandamáli, sem eftirlitið með öllum ríkisrekstrinum hjá okkur hlýtur að verða, og fyrir alla þá, sem vilja nú hafa ríkisreksturinn góðan, hve mikil nauðsyn er á því að finna út hentugar aðferðir til þess eftirlits og til þess að tryggja betur stjórn ríkisfyrirtækjanna, ekki aðeins þeirra, sem undir fjárlögin koma, heldur líka annarra, heldur en verið hefur fram að þessu.