22.04.1958
Neðri deild: 82. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 955 í B-deild Alþingistíðinda. (923)

93. mál, kostnaður við rekstur ríkisins

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er í sjálfu sér ekki mikillar umræðu vert. Það er algert sýndarmál, sem enga raunhæfa þýðingu hefur. Það bætir að vísu einni nýrri nefnd við í ríkisbáknið, en hún sýnist vera með öllu valdalaus og hefur ekki heimild til þess að vinna annað verk en það, sem fjmrn. nú þegar landslögum samkvæmt á að inna af höndum. Það virðist jafnvel svo eftir þessu frv., að valdsvið fjmrn. eigi að verða takmarkaðra, en verið hefur, þannig að opnari leið verði til eyðslu, en hingað til hefur verið. Þannig vill fara, þegar frv. eru samin, ekki af heilum hug, ekki til þess að finna lausn á raunverulegum vanda, heldur til þess að sýnast, eins og í þessu máli er. En það er ljóst, þegar ákvæði gr. eru borin saman við gildandi rétt, að einmitt þessi verður afleiðingin, ef frv. verður að einhverju haft, sem ég nú hef sagt.

Málið er þess vegna eitt hið ómerkilegasta, sem sézt hefur á Alþingi lengi, og er þá mikið sagt, og er lagað til þess að hafa þveröfug áhrif, ef nokkur verða, við það, sem látið er í veðri vaka. En það má segja, að það er merki um slæma samvizku hjá hæstv. ríkisstj., ber því vitni, að hún sjálf geri sér grein fyrir, að eyðslan er komin úr hófi og að almenningsálit er að skapast um það, að hér þurfi raunhæfra aðgerða við. En til þess að koma í veg fyrir þær raunhæfu aðgerðir er þetta frv. samið og lagt fram, og það hæfir einmitt ákaflega vel, að einmitt hv. þm. V-Húnv. skuli vera sérstakur talsmaður frv. hér, hann, sem umfram aðra beitti sér á móti með miklu offorsi því frv., sem þm. Á-Húnv. bar fram hér fyrr á þinginu og var þó raunhæf leið að lausn á þessum vanda, þó að það skuli játað, eins og hv. þm. A-Húnv. gerði, að þar var ekki um fullkomna lausn vandans að ræða, en þó miklu raunhæfari í frv. þm. A-Húnv., en í þessu frv.

Að öðru leyti eru ákvæði einstakra greina frv. ákaflega óljós, þannig að endalaust má togast á um, hvað í þeim felst. Ég nenni nú ekki að fara að telja það upp eða spyrja hv. þm. V-Húnv. um, hvað átt sé við með einstökum greinum, enda veit ég, að það mundu verða goðsvör fullkomin, sem frá honum kæmu, ef hann færi að leitast við að skýra greinarnar.

Ég skal þess vegna ekki eyða orðum að því að ræða mikið um frv. En það var út af ummælum hv. þm. A-Húnv. og hv. 3. þm. Reykv., sem ég vildi segja nokkur orð.

Hv. þm. A-Húnv. gat þess, að því færi fjarri,

að ætíð hefði stjórnarandstaða fullkominn eftirlitsrétt með ríkisrekstrinum, eins og nú er, ef átt er við það starf, sem endurskoðendur ríkisreikninga hafa með höndum.

Þetta er rétt hjá hv. þm. A-Húnv., að vel getur staðið þannig á, að stjórnarandstaðan hafi ekki afl til þess að fá einn af þremur kosinn. En þá vil ég benda minni hluta hv. fjhn. á það, að sami ágalli er varðandi brtt. þeirra. Það er að vísu til bóta að láta Alþingi kjósa þrjá menn í stað þess að hafa nefndina kosna eins og nú er. En ef tryggja á, miðað við reynslu, við skulum segja síðustu tveggja áratuga, að líklegt sé, að stjórnarandstaða hafi alltaf mann í þessari nefnd, þá nægir það ekki að hafa þrjá, heldur yrði að hafa mennina fimm.

Hv. 3. þm. Reykv. talaði almennt um þetta efni, að rétt væri að tryggja rétt stjórnarandstöðu, og fór um það nokkrum orðum, að þá yrði að sjá svo til, að það væri ekki einungis góð stjórnarandstaða, sem sumir kölluðu, sem hefði þennan rétt, heldur einnig slæm stjórnarandstaða. Það er út af fyrir sig rétt, að ef menn vilja tryggja það fyrirkomulag, að stjórnarandstaða hafi tiltekin réttindi, þá verður að haga þannig til fyrirmælum, að líklegt sé, að sæmilega sterk stjórnarandstaða hafi ætíð þennan rétt, þó að þar séu auðvitað ætíð viss mörk, sem setja verði. Ég vildi því skjóta því til hv. 3. þm. Reykv., sem ég að vísu sé ekki hér inni í d. í bili, hvort hann yrði því fylgjandi, — ég beini því til hans, vegna þess að hann gerðist upphafsmaður þessa umtals hér, hvort hann yrði því fylgjandi, að reynt yrði að koma á samkomulagi um það innan þingheims, að yfirleitt þegar nefndir eru kosnar eða sérstakir trúnaðarmenn af hálfu Alþingis til þess að vinna mikilvæg störf, þá yrði tekin upp sú regla, að fimm menn yrðu kosnir. Ef þingflokkar kæmu sér saman um að hafa þennan hátt á, núv. þingflokkar, þá eru allar líkur til þess, að sú skipan gæti haldizt áfram, þó að stjórnarskipti yrðu eða einhverjir núv. stjórnarflokkar kæmust í andstöðu, annaðhvort einhverjir eða allir þeirra.

Við vitum, að allt þetta er miklum breytingum undirorpið. En því nefni ég töluna fimm, að með því eru líkur til þess, að sá flokkur, sem eitthvert verulegt þingfylgi hefur, hafi þó möguleika til þess að fá sinn trúnaðarmann kosinn. Það kom í ljós á þeim árum, þegar var samstjórn þriggja flokka, þar sem Sósfl. var í andstöðu, að þá hafði hann ekki afl til þess að fá endurskoðanda landsreikninga kosinn einn út af fyrir sig. Hann mundi hins vegar hafa átt þess kost að fá einn kosinn af fimm. Vera kynni, að hann hefði haft afl til þess að fá einn kosinn af fjórum, en yfirleitt er það óheppilegt í nefndum, — það gerir að vísu minna til um endurskoðendur en aðra, — en yfirleitt er það óheppilegt í nefndum að láta jafna tölu vera þar, þannig að hreinn meiri hluti geti ekki myndazt, og eru síðustu dæmi þess, að einn af úthlutunarmönnum á listamannastyrk, sem eru tilnefndir af þinginu fjórir, hefur skrifað um það mjög rækilega nú nýlega, að oddaatkvæði yrðu að vera í þeirri nefnd, ótæk skipun væri að hafa mennina fjóra. Þingflokkar eru hins vegar fjórir, eins og nú er, hafa stundum verið fimm, svo að hvernig sem á er litið, þá virðist það vera eðlilegt, að þegar slíkar nefndir eru skipaðar, væri komið á samkomulagi um það milli flokkanna, að fimm væru kosnir og þá eðlilegast fimm kosnir hlutfallskosningu í sameinuðu þingi. — Þessu varpa ég fram að gefnu tilefni frá hv. 3. þm. Reykv., einnig til athugunar varðandi þá brtt., sem hér er flutt af hv. minni hl. fjhn.