12.12.1957
Neðri deild: 38. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í B-deild Alþingistíðinda. (93)

5. mál, tollskrá o. fl

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Það er rétt, að mínum ræðutíma er lokið, og verð ég því mjög að stytta mál mitt.

Ég verð að segja, að ég hef sjaldan heyrt öllu lélegri rökfærslur, en hjá þeim hæstv. tveimur ráðh., sem hér hafa talað.

Hæstv. menntmrh. taldi það örugga sönnun fyrir því, að nú hlyti að vera farið að í núverandi stjórn á þann veg, að fleiri kæmu að úthlutun atvinnubótafjár en hæstv. fjmrh, og hæstv, félmrh., að slíkt hefði alls ekki getað viðgengizt í síðustu ríkisstj. Er það þá virkilega svo, að núverandi hæstv. ríkisstj. taki sér fyrrv. ríkisstj. í einu og öllu til fyrirmyndar? Rökfærsla hæstv. ráðh. gæti því aðeins staðizt, að þetta væri rétt. En því miður er það svo, að því fer mjög fjarri, og verð ég að lýsa það sem alger meiðyrði um fyrrv. ríkisstj., að hún líkist á nokkurn veg þeirri, sem nú er, nema því einu, sem að vísu var ekki ánægjulegt fyrir fyrrv. ríkisstj., að hæstv. fjmrh, er í þeim báðum.

Rökfærsla hæstv. fjmrh. kom fram í því, að hann sagði, að allir þm. hefðu séð, að hæstv. sjútvmrh. hefði ekki kinkað kolli. Nú er hægt að athuga þá fullyrðingu aðeins með því einu að benda á, að hér um bil helmingur þm. á þess ekki kost eftir sætaskipun að sjá framan í hinn göfuga koll hæstv. sjútvmrh., svo að þeir gátu hvorki séð eitt né annað í þeim efnum, og fullyrðing um það, að allir þm. hefðu fylgzt með þessu, gæti því aðeins staðizt, ef allir þm. hefðu hlaupið til, jafnskjótt og þeir heyrðu, að var farið að tala um hæstv. fjmrh., og horft á sjútvmrh. og vitað, hvernig honum væri skemmt, ef félaga hans væri hallmælt, og biðu í ofvæni eftir að sjá svipbreytingar hans af því tilefni. Nei, þvílík rökfærsla fær auðvitað ekki staðizt. Þeir, sem horfðu á hæstv. sjútvmrh., sáu, að hann kinkaði kolli og var því mjög sammála, sem mælt var. Þeir, sem ekki horfðu á hann, sáu það vitanlega ekki. En vera kann, að hæstv. sjútvmrh. hafi gert sína höfuðhreyfingu óafvitandi, vegna þess að það hafi verið hans innri maður, sem brauzt þarna út, undirvitundin, án þess að hann ætlaði að láta hann koma fram í dagsljósið, en ég vil leiða hæstv. sjútvmrh, til vitnis um það. Er hann sammála úthlutun atvinnubótafjárins, eins og hún fór fram? Telur hann, að hún hafi á allan veg farið fram á þann veg, sem hann sjálfur kysi? Og enn fremur vildi ég spyrja hæstv. sjútvmrh.: Telur hann, að hæstv. fjmrh. hafi aldrei sýnt það í stjórnarstörfum sínum, að hann gerði upp á milli samstarfsmanna sinna, þannig að hann mæti tillögur sinna flokksmanna og sína flokkshagsmuni meira, en flokkshagsmuni andstæðinganna, jafnvel þótt innan ríkisstj. sé? Ég mundi meta það töluvert, ef hæstv. sjútvmrh, fengist til þess að lýsa þessu yfir, að hæstv. fjmrh. hefði gert þvílíka breytingu á atferli sínu frá því, sem áður var. Þá kæmi sem sagt á daginn, að þó að hann hefði versnað að sumu, þá hefði hann batnað að öðru og væri þess vegna að því leyti ekki eins illa kominn og að sumu leyti mætti ætla.

Loks vil ég taka það fram út af því, sem hæstv, fjmrh, sagði um samstarf okkar í ríkisstj., að ég hefði verið með einhvern söguburð um það. Ég var einmitt að gefa skýringu á því, sem hæstv, fjmrh, hefur haldið fram opinberlega, þegar hann sagði, að við sjálfstæðismenn hefðum með óhæfilegri ágengni sótzt eftir fjárveitingum til okkar rn. Það var til þess að bæta úr þvílíku neyðarástandi eins og er í þeim tveimur málum, sem ég nefndi áðan, sem hæstv. fjmrh. leyfði sér að ávíta okkur með þeim hætti, sem hann gerði í eyru alþjóðar.