29.04.1958
Neðri deild: 85. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 962 í B-deild Alþingistíðinda. (933)

93. mál, kostnaður við rekstur ríkisins

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Mig undraði mjög á ræðu hv. þm. V-Húnv. hér, því að svo gersamlega var hún laus við, að gerð væri nokkur tilraun til að rökstyðja það, að rétt væri að hafa frv. í því formi, sem það er hér. Hins vegar lagði hann mikla áherzlu á að reyna að sýna fram á, að það sýndi fjandskap okkar sjálfstæðismanna við sparnað í ríkisrekstri, að við skyldum leyfa okkur að bera fram brtt. við þetta frv. Raunverulega er þessi fáránlega fullyrðing ekki svaraverð, svo gersamlega er hún út í bláinn, því að allar okkar till. hafa að því miðað að gera þetta frv. að einhverju öðru, en einberu pappírsplaggi, eins og það er nú.

Afstaða hv. þm. V-Húnv., sem er jafnframt formaður fjhn., virðist ótvírætt benda til þess, að það sé ætlunin að anza engum lagfæringum á frv., hversu nauðsynlegar sem þær eru, og ætlunin sé að knýja frv. í gegnum þingið nákvæmlega í því formi, sem það er nú og var lagt fyrir þingið. Og það var í rauninni ekki önnur röksemd fundin í ræðu hv. þm. gegn okkar till. en sú, að ef þær yrðu samþykktar, væri hætt við, að frv. yrði ekki samþykkt, m.a. vegna þess, að Ed. hefði ekki viljað fallast á að gera breytingu á skipan þessarar n., sem hér um ræðir.

Þessi fullyrðing hv. þm. V-Húnv. er gersamlega haldlaus, því að hann veit það mætavel, að ef samkomulag gæti um það náðst að breyta þessu ákvæði frv. og koma því í örlítið skynsamlegra horf og slíkt samkomulag tækist hér í Nd., þá eru engar líkur til þess, að ekki væri hægt að fá því samkomulagi einnig á komið í Ed. En þá stóðu sakir aðeins þannig í þessu máli, að þar var að mæta þvermóðsku hæstv-. fjmrh. og stuðningsmanna hans við nokkra lagfæringu á málinu, og það er fram borin hér aftur þessi till. í von um, að það kunni eitthvað að hafa skipazt í betri átt í því efni og ráðh. hafi fengið eitthvað betri skilning á því, að það er ekki sæmandi að þykjast vera að gera ráðstafanir eins og hér er um að ræða, sem vitanlega allir eru efnislega sammála og öll þjóðin telur æskilegt að gerðar verði, en að gera þær í því formi, að það augljóslega skin í gegnum málið allt, að þetta sé gert til þess eins að blekkja og reyna að fá þjóðina til að trúa því, að hér sé verið að gera einhverja stóra hluti, þegar staðreynd málsins er hins vegar sú, að hér er um algeran hégóma að ræða, sem engin áhrif getur haft, ef á að hafa þann losarabrag á þessu, eins og gert er ráð fyrir í frv. Það er vitanlega ekki verið að taka á neinn óeðlilegan hátt vald af neinum ráðh., þó að þetta sé samþykkt, sem hér um ræðir, þegar vegna þess, að það hefur um margra ára skeið verið sérstakt ákvæði í fjárlögum um það, að einum ráðherra er falið það vald að synja öðrum ráðherrum um að fá að fjölga starfsmönnum við þau embætti, sem undir þá heyra. Það er því ekki um að ræða að taka neitt vald af öðrum ráðh. í þessu sambandi. Það er aðeins um það að ræða, að valdið sé lagt í hendur öðrum aðila, en hefur haft það. En nú er lagt til, að allur hemill sé af þessu tekinn. Það er nú sparnaðarúrræðið, sem í þessu frv. felst.

Þrátt fyrir orð hv. þm. V-Húnv. vil ég ekki trúa því, að það sé staðfastlega ákvörðun stuðningsliðs ríkisstj. og hæstv. fjmrh. að vilja ekki anza neinum lagfæringum á þessu frv., því að þær till., sem hér eru fram bornar, eru vissulega lágmark þess, sem verður að teljast nauðsynlegt að lagfæra, til þess að eitthvert skynsamlegt útlit sé á þessu frv. eða væntanlegri löggjöf.