29.04.1958
Neðri deild: 85. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 964 í B-deild Alþingistíðinda. (936)

93. mál, kostnaður við rekstur ríkisins

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég skal ekki fjölyrða miklu meira um þetta fram yfir það, sem orðið er. En varðandi launagreiðslur til nefndarinnar, sem nokkuð hefur borið á góma, þá viljum við sjálfstæðismenn um það efni hafa þann hátt, að það sé sagt í frv., sem við teldum að eðlilegt væri, og samkvæmt till. okkar, ef þær hefðu verið samþykktar, hefði hér verið um að ræða nefnd, sem átti að gegna bæði mikilsverðum og miklum störfum, og því vildum við taka það fram í frv., að þessi nefnd skyldi vera launuð. Hitt er svo annað atriði, að þegar þetta frv. er ekkert orðið nema sýndarmennskan, þá er náttúrlega alveg ástæðulaust að launa hana. En þá er líka betra að taka það alveg fram, og þess vegna vil ég leyfa mér að flytja hérna skriflega brtt., að við 7. gr. frv. bætist, að trúnaðarmenn samkv. 3. gr. skuli ekki taka laun fyrir störf sín samkv. lögum þessum.

Mér þykir vænt um að hafa heyrt það á máli hv. þm. V-Húnv., að hann hefur, eftir því sem næst varð komizt, ekki gert ráð fyrir því, að þessir nefndarmenn yrðu launaðir, og það m.a. vegna þess, að um það er þá ekkert ákveðið í lögunum, og væri þá mjög óeðlilegt, að þeir færu að taka laun úr ríkissjóði, án þess að nokkuð væri ákveðið um það. En þar sem þetta er aðalstuðningsmaður málsins, þá tel ég rétt um þetta atriði, að það sé skýrt kveðið á um það, og leyfi mér að afhenda hæstv. forseta þessa skriflegu brtt. með ósk um, að hún verði borin undir atkvæði.