29.04.1958
Neðri deild: 85. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 965 í B-deild Alþingistíðinda. (939)

93. mál, kostnaður við rekstur ríkisins

Jón Pálmason:

Herra forseti. Það var nú náttúrlega ekkert undarlegt við það, þó að hv. þm. V-Húnv. lýsti því hér yfir, sem allir máttu áður vita, að það var til þess ætlazt, að þessi nefnd fengi sín laun. Hann hefur tvisvar sinnum haft orð á því, að ég hefði haldið því fram, að tilgangurinn væri aðallega sá að veita ráðuneytisstjóranum í fjmrn. launaviðbót. En ég tók fram, að það yrði auðvitað jafnt með alla mennina, og ég geri ráð fyrir því eftir þeirri reglu, sem gildir um embættismenn, að það þætti ekki viðeigandi, ef ráðuneytisstjórinn er í þriggja manna nefnd og tveir mennirnir fá laun, að hann fengi þá ekki neitt. Það yrði alveg á móti því, sem algengt er nú í svona starfsemi. Annars virðist mér áhugi hv. þm. V-Húnv. fyrir þessu máli benda mjög til þess, að hann ætli sér að verða einn af þessum nefndarmönnum væntanlegu.

Hv. 2. þm. Eyf. hefur sýnt fram á það með rökum, hvílíkt sýndarmál og hve þýðingarlaust málið er í raun og veru. En það er auðséð, til hvers það er ætlað. Það er ætlað til þess að blekkja landslýðinn, að nú hafi verið samþykkt frv., það hafi verið samþykkt lög um að draga úr kostnaði við rekstur ríkisins. Samtímis því, sem það er orðið kunnugt allri þjóðinni, að núv. hæstv. ríkisstj. hefur á tveimur árum hækkað útgjöldin um nokkur hundruð milljóna og ætlar að bæta næstu daga töluvert ríflegri fúlgu þar við, þá á að auglýsa það fyrir landslýðnum: Jú, það hefur verið samþykkt frv., sem ber það heiti að draga úr kostnaði við rekstur ríkisins. En í frv. sjálfu er það augljóst, að það er sýndarmál eitt. Og svo á það að notast sem árásarefni á okkur sjálfstæðismenn, að við höfum verið á móti þessu frv., af því að það er búið að drepa fyrir okkur eða vísa til ríkisstj. frv., sem allur flokkurinn stóð að og ég var flm. að um miklu viðtækari og þýðingarmeiri ráðstafanir, eða frv., sem gat haft verulega þýðingu í þessa átt.

Þessi blekkingahugsun er ekki ný. Hún er algeng, og hún minnir mig ákaflega á eitt atriði, sem ég sá nýlega í blaði hæstv. fjmrh. og framsóknarmanna. Þar var því yfir lýst eins og einhverri dýrð. Á tveimur árum hefði ríkisstj. tekizt að fá lán upp á 418 millj., sem sagt bæta því við erlendar skuldir, og því var hnýtt aftan við, að hæstv. fjmrh. hafi lagt á það áherzlu, eftir að hann var búinn að upplýsa þetta, að nú yrði að fara að fara varlega í að taka enn þá meiri lán, en þegar væri búið. Og flest þessi lán eru með þeim skilmálum, að það þurfi ekki að borga af þeim afborganir, fyrr en eftir tvö ár, sem mun vera við það miðað, að þá hljóti þó þessi hæstv. ríkisstj. að vera farin frá.