14.05.1958
Neðri deild: 95. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1023 í B-deild Alþingistíðinda. (951)

186. mál, útflutningssjóður o. fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti, Ég vil leyfa mér í tilefni af því frv., sem nú er fram komið, að reyna að setja hér fram nokkuð mína skoðun um efnahagslíf okkar þjóðar og þær aðgerðir, sem séu nauðsynlegar á því. Það, sem knýr mig sérstaklega til þess að setja þessar skoðanir hér fram, er í fyrsta lagi, að ég er andvígur þessu frv., í öðru lagi, að ég álit, að sú ríkisstj., sem ég styð, sé með þeirri stefnu, sem fram kemur í þessu frv., komin á fremsta hlunn með að glata trausti verkalýðshreyfingarinnar og þá fyrst og fremst hér í Reykjavík og nágrenni, og í þriðja lagi, að ég álít alveg sérstaka ástæðu til þess að vara Framsfl., ef hann vill reyna að reka vinstri pólitík á Íslandi og vinna með verkalýðshreyfingunni og verkalýðsflokkunum, við því, að það eru síðustu forvöð að fara hér eftir að sýna í verki, að hann vilji vinna að raunverulegri vinstri stefnu og taka meira tillit til verkalýðshreyfingarinnar en hann hefur gert fram að þessu.

Það er talað um þessi mál sem efnahagsaðgerðir, og það hefur verið svo undanfarið, þegar talað hefur verið um efnahagsmálin, að það er talað um allt, sem heitir tekjuöflun, eða annað slíkt, eins og þetta væru einu efnahagsmál þjóðarinnar. Og mér finnst satt að segja skorta nokkuð á, að þessi mál séu tekin þannig, að það sé grafizt fyrir ræturnar að öllum þessum hlutum og athugað um okkar þjóðarbúskap og hvernig stjórnin þurfi að vera á honum, því að allt það, sem við erum að tala um, þegar við höldum okkur við hvers konar uppbætur, styrki eða annað slíkt, sem þurfi að vera eða sé, það eru einungis gárarnir á yfirborðinu.

Það, sem er aðalatriðið í efnahagslífi einnar þjóðar, er skynsamleg heildarstjórn á þjóðarbúinu, og hjá okkur Íslendingum hlýtur tilgangur slíkrar heildarstjórnar fyrst og fremst að vera sá að afla meiri gjaldeyris. Það þýðir frá sjónarmiði þjóðarinnar að tryggja meiri framleiðslutæki og rekstur þeirra til þess að útvega meiri fisk, á meðan ástandið er þannig og meðan við erum í þeirri aðstöðu — fyrir utan allar hinar náttúrlegu aðstæður okkar um fiskimið og annað slíkt — að geta selt allan þann fisk, sem við framleiðum, og hafa meira að segja ekki nóg til þess að fylla upp í þá markaði, sem til eru, á meðan aðrar þjóðir eru í vandræðum og sjá kreppu vera að nálgast í kringum sig, af því að þær eru í vandræðum með að selja sína framleiðslu.

Þess vegna er fyrsta spurningin, sem fyrir liggur í efnahagslífi okkar þjóðar og hefur legið nú á undanförnum árum og áratugum, hvort á að vera stjórn á efnahagsmálum þjóðarinnar með hagsmuni almennings fyrir augum, með hagsmuni þjóðarheildarinnar fyrir augum, eða hvort á að vera óstjórn, skipulagsleysi, þar sem hver hleypur eftir sínum duttlungum, flokkshagsmunum, sérhagsmunum eða einhverju slíku, og fjárfestingunni þá líka stjórnað eftir þessu sama.

Við verðum að gera okkur ljóst, að stefnan, sem barizt er um í sambandi við efnahagsmál, er sú, hvort eigi sífellt að vera að hugsa af hálfu þess opinbera um efnahagsþróunina, sem eigi að vera, hvort hugur þeirra, sem stjórna, sé vakandi og virkur um það, hvernig búið sé í haginn fyrir þjóðina með hennar þjóðarbúskap, eða hvort allt sé látið dankast, látið eiga sig, treyst á, að hver einstaklingur reyni að bjarga sér sem bezt.

Ef það er ákveðin, vakandi hugsun með ákveðið takmark fyrir augum um þjóðarbúið í heild, um fjárfestingu þess og allan rekstur þess, þá er hægt að skapa öryggi og framfarir í þjóðfélaginu. Ef hins vegar allt er látið eiga sig, eins og verið er að prédika nú hvað eftir annað, þá leiðir það til ófarnaðar, kyrrstöðu, hnignunar og kreppu.

Íslenskur þjóðarbúskapur er þannig, að hann krefst þess, að það sé hugsað um hann sem eina heild, hugsað um hann af viti og réttsýni, framsýni og stórhug, og sé það ekki gert, þá hefnir það sín, fyrr eða seinna.

Það hafa verið kröfurnar, sem verkalýðshreyfingin hefur alltaf borið fram, frá því að hún fór fyrst að hafa áhrif á stjórn á Íslandi, að það væri ákveðin heildarstjórn á þjóðarbúskapnum, og um það hafa átökin verið meira eða minna í þau 25 ár, sem liðin eru síðan verkalýðsflokkur í fyrsta skipti hafði áhrif á ríkisstj. á Íslandi. Og ég er hræddur um, að nú sé komið að þeim tímamótum, að það verði að gerast upp, hvort það, sem barizt hefur verið um meira eða minna í íslenzkum þjóðarbúskap öll þessi ár, eigi að verða knúið fram, sú heildarstjórn á þjóðarbúskapnum, eða ekki.

Það er talað um í sambandi við efnahagsaðgerðirnar varanlegar lausnir og annað slíkt. Ég vil taka það fram, að ég álít, að varanleg lausn sé ekki til. Það er engin varanleg lausn, það er engin sjálfkrafa vél, sem hægt er að setja í gang viðvíkjandi efnahagsaðgerðum einnar þjóðar. Sumir tala hér um gengislækkun sem einhverja varanlega lausn. Gengislækkun er engin varanleg lausn og hjálpar ekki nokkurn skapaðan hlut í slíku. Það væri sama, hvort það væri auðvaldsskipulag eða sósíalistískt skipulag í einu ríki, — ef það væri ekki hugsað um á hverjum tíma að sjá fyrir því, að framleiðslutækin væru sífellt að eflast, hugsað um það, að þjóðarbúskapurinn væri rekinn sem skynsamlegast, þá verða engar framfarir hjá einni þjóð og engin varanleg lausn.

Efnahagur hverrar þjóðar og fyrst og fremst lífskjör einnar þjóðar fara eftir því, hvernig hennar efnahag er stjórnað. Það, hvort hægt er að bæta lífskjör einnar þjóðar eða hvort verður að skerða þau, fer eftir þessari stjórn á efnahagslífinu og þá í fyrsta lagi því, að það sé stjórnað, en það sé ekki stjórnleysi. Það, að efnahagslífinu sé stjórnað, þýðir, að því sé stjórnað eftir ákveðinni áætlun, samkvæmt ákveðinni hugsun, sem menn hafa komizt að niðurstöðu um eftir að vera búnir að brjóta til mergjar út frá sinni fyllstu þekkingu á þjóðarbúskapnum, hvað sé hentugast og réttast fyrir þjóðarbúskapinn í heild, og þar með líka, þegar öllu verður á botninn hvolft, fyrir hvern einstakling þjóðarinnar.

Í fyrsta lagi er það skilyrðið fyrir batnandi lífskjörum, að efnahagslífinu sé þannig stjórnað, en það sé ekki stjórnleysi, í öðru lagi, að þjóðarbúskapnum sé stjórnað af viti, með hagsýni og raunsæi. Og fyrsta spurningin, sem liggur fyrir okkur Íslendingum í þessu sambandi, sú spurning, sem enn þá hefur ekki fengizt gerð upp og enn þá er ekki tekið fullt tillit til í öllum þeim bollaleggingum, sem fara fram um efnahagslíf þjóðarinnar, er: Á hvaða atvinnuvegi ætlar þjóðin að lifa? Hver er grundvöllurinn og undirstaðan undir öllu hennar atvinnulífi, öllum hennar velfarnaði og öllum hennar lífskjörum?

Við skulum gera okkur ljóst, að sá tiltölulega hái lífs-„standard“, sem íslenzka þjóðin hefur, á rót sína að rekja til sjávarútvegsins, til þess, að sjávarútvegurinn er grundvöllur þjóðarbúsins, og að öll aukning og bót á lífskjörum þjóðarinnar stafar af því, að sjávarútvegurinn hefur verið aukinn eins mikið og raun ber vitni um. Hann er þess vegna grundvöllurinn að öllum öðrum atvinnugreinum þjóðarinnar, og það verður að hugsa um hann þannig, svo framarlega sem maður ætlar að sjá til þess, að það séu rétt hlutföll og réttilega stjórnað í okkar efnahagslífi. Það er sjávarútvegurinn, sem framleiðir allan þann gjaldeyri, sem við þurfum. Það er sjávarútvegurinn sem stendur þannig undir landbúnaðinum á Íslandi og öllum þeim tækjum, sem hann þarf að kaupa fyrir útlendan gjaldeyri. Það er sjávarútvegurinn, sem stendur undir iðnaðinum á Íslandi og öllum þeim hráefnum, sem iðnaðurinn þarf. Það er sjávarútvegurinn, sem stendur undir okkar embættiskerfi og þeim tiltölulega háa lífs-„standard“, sem í því er. Þetta verðum við að gera okkur ljóst, og við verðum um leið að gera okkur ljóst, af hverju það kemur, að sjávarútvegurinn, sem viða um lönd er bara stundaður af tiltölulega fátækum fiskimönnum og þykir ekki neitt sérstaklega þýðingarmikil atvinnugrein, — af hverju hann skuli vera höfuðundirstaðan undir öllum okkar þjóðarbúskap. Það kemur fyrst og fremst af því, að afköstin í sjávarútveginum eru meiri, en í nokkurri þeirri iðngrein, sem við höfum getað komið upp á Íslandi. Eins og allir hv. þm. vita, eru afköst íslenzks sjómanns við að afla fisks sjö sinnum meiri, en þess sjómanns, sem næst kemur í veröldinni, almennt um 70 tonn á mann, sem sjó stundar, þar sem það er í því landi, sem næst kemur, um 10 tonn á mann. Vegna okkar góðu fiskimiða, vegna okkar ágætu tækja og vegna okkar duglegu fiskimanna eru afköst íslenzkra sjómanna og þar með íslenzks þjóðarbúskapar svona gífurleg og geta því staðið undir þeim þjóðarbúskap, sem við höfum. Og það, sem gerir þetta allt saman svo verðmætt, er, að við höfum næga markaði fyrir þennan fisk og að við getum framleitt meira af honum, selt meira, ef við aðeins getum framleitt. Þetta er það, sem við verðum að gera okkur ljóst, þegar við erum að hugsa um íslenzkan þjóðarbúskap, og ef við gleymum þessu og vanrækjum þetta, þá hefnir það sín í lækkandi lífskjörum, efnahagserfiðleikum og öðru slíku rétt á eftir. Og þetta á við ekki aðeins í dag, heldur næstu 10 ár. Þó að farið væri að hugsa um að hafa eitthvað meiri framsýni um íslenzkt atvinnulíf en nú er gert, þó að við ákvæðum og fyndum út í dag, hvaða stóriðju við vildum byrja að reka á Íslandi, þá tæki það okkur 10 ár, þangað til við værum búnir að koma henni upp, þannig að íslenzkt atvinnulíf gæti að einhverju leyti farið að byggja á henni. Þetta verðum við að hafa í huga, þegar við erum að ráðstafa m.a. fjárfestingunni í okkar atvinnugreinum, og ef þetta gleymist og ef önnur sjónarmið en heildarhagsmunir þjóðarinnar koma þarna til greina, þá fer illa hjá okkur.

Við skulum aðeins leiða hugann að því, ef það væri t.d. landbúnaðurinn, sem væri 95% af öllum útflutningi Íslands, ef það væri sá útflutningur, sem hefði svona mikil afköst og bæri sig svona vel fyrir þjóðarbúið eins og sjávarútvegurinn gerir, og ef fiskimiðin hérna væru eins léleg og þau eru í sumum löndum, þar sem fiskimennirnir verða þó að stunda sjóinn og markaður er fyrir fisk álíka slæmur og var einu sinni hjá okkur, þá mundum við þurfa að leggja höfuðáherzluna á að auka landbúnaðarframleiðsluna og þurfa lítið að hugsa um fiskinn. Við yrðum alltaf að taka fyrst og fremst tillit til þess, hvað það er, sem heldur þjóðarbúinu uppi, og við verðum að gera okkur það ljóst, að meðan ekki er skapaður skilningur hjá þeim, sem ráða í þjóðfélaginu, á þessu, þá er okkar efnahagslíf og öll stjórnin á því í hættu. Meðan jafnvel voldugustu menn í okkar bankalífi eiga til að neita fiskimönnum um net, en heimta fyrir milljónatugi traktora inn í landið, skilja ekki, að traktorarnir eru borgaðir með þeim fiski, sem kemur í netin, þá er ekki von, að vel fari um stjórn efnahagslífs á Íslandi. Við verðum að skilja, að sjávarútvegurinn er undirstaða alls efnahagslífsins og að heildarstjórn á okkar efnahagslífi er nauðsynleg til þess að taka tillit til þessarar staðreyndar og til þess að tryggja þessa undirstöðu. Það getur ekki leitt nema til ólukku, að það sé lítið á t.d. sjávarútveginn og landbúnaðinn sem eitthvað jafnþýðingarmikið fyrir þjóðina í slíkum efnum, eða hvaða aðra atvinnugrein sem væri, að það þurfi jafnvel að fara í hrossakaup til þess að fá fram þá hluti, sem eru nauðsynlegir fyrir undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar. Það er ekki hægt að reka þjóðarbúskap af viti á Íslandi og halda uppi góðum lífskjörum, ef það þarf að kaupa hvert spor, sem stigið er af viti í þágu sjávarútvegsins og gjaldeyrisframleiðslu þjóðarinnar og þar með í þágu þjóðarheildarinnar, með því móti að stíga t.d. vitlaust spor í þágu óhagrænnar aukningar á landbúnaðarframleiðslunni á kostnað þjóðarheildarinnar. Við verðum að horfast í augu við staðreyndirnar á Íslandi, efnahagslífið á Íslandi, eins og það er og eins og það þarf að vera, svo framarlega sem við ætlum að reyna að móta pólitík þjóðarinnar af einhverju viti í þessum efnum.

Það hefur, frá því að verkalýðshreyfingin fór að hafa áhrif á stjórnarstarf og stjórnarstefnu á Íslandi, verið hennar krafa, að það væri tekinn upp áætlunarbúskapur. Vinstri stjórn og vinstri pólitík verður ekki rekin af viti, nema tekin sé upp heildarstjórn á þjóðarbúinu, og þetta held ég að Framsfl, verði að gera nú upp við sig, hvort hann ætlar að fallast á eða ekki.

Þegar Framsfl. fyrir 24 árum myndaði fyrstu vinstri stjórnina á Íslandi, ríkisstj. með Alþfl., þá var það höfuðkrafa Alþfl., að slíkur áætlunarbúskapur yrði tekinn upp.

Ég skal, með leyfi hæstv. forseta, minna á það, sem var aðalatriðið í starfsskrá Alþfl. þá, þeirri starfsskrá, sem hann vann á sinn mesta kosningasigur í sinni sögu. Hún hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hrundið verði þegar í stað í framkvæmd með löggjöf og framtaki hins opinbera auknum atvinnurekstri og framleiðslu eftir nákvæmri áætlun, er gerð sé til ákveðins tíma, 4 ára, og hafi það markmið að útrýma með öllu atvinnuleysinu og afleiðingum kreppunnar og færa nýtt fjör í alla atvinnuvegi þjóðarinnar með aukinni kaupgetu og neyzlu hinna vinnandi stétta og auknum markaði innanlands. Stofnuð sé ráðgefandi nefnd sérfróðra manna þingi og stjórn til aðstoðar, er geri nákvæmar áætlanir um allar opinberar framkvæmdir í landinu og stjórni vísindalegum rannsóknum til undirbúnings þeim og geri jafnframt till. um, hvernig komið verði fastri stjórn og skipulagi á allan þjóðarbúskapinn, jafnt opinberar framkvæmdir og fyrirtæki sem atvinnurekstur einstaklinga, svo að þau verði sem hagkvæmast rekin og aukin með hagsmuni almennings fyrir augum.“

Þetta var höfuðkrafa Alþfl. þá og sömuleiðis á því þingi, sem Alþfl. hélt haustið 1934, þar sem sett var hæst risið á kröfur þess flokks og þá um leið verkalýðshreyfingarinnar, — það var Alþýðusambandið um leið þá, — til þess að móta stefnuna í efnahag Íslendinga. Í samþykktinni, sem þing Alþýðusambandsins og Alþfl. þá gerði, 1934, segir svo, með leyfi hæstv. forseta, — ég held það sé gott að sumu leyti að rifja þetta upp nú, því að ég efast ekki um það, að við stöndum á sömu uggvænlegu tímamótum í sambandi við meðferð þessa máls, sem gerir rétt, að við lítum nokkuð yfir sögu þessara ára og viðskipta verkalýðsflokkanna við Framsfl. — Alþfl. samþykkti á sínu þingi þá einróma eftirfarandi:

„Fyrir tilstyrk hinna vinnandi stétta alþýðunnar til sjávar og sveita hafa völdin verið tekin af herrum auðvaldsskipulagsins íslenzka, og hún vill, að völdunum sé beitt gegn þeim. Henni er orðið það ljóst, að hún á nú fyrir höndum úrslitabaráttu fyrir atvinnu sinni, fyrir frelsi og lífi, og vill berjast til þrautar undir forustu Alþfl. Hún skilur, að ef hún bíður ósigur í þessari baráttu, vofir yfir henni ekki aðeins atvinnuleysi og örbirgð, heldur einnig ófrelsi og kúgun um ófyrirsjáanlegan tíma. Hún veit, að ef sleppt er því tækifæri, sem nú er fyrir hendi, meðan stjórn lýðræðisflokkanna fer með völdin í landinu, til þess að koma nú þegar nýju skipulagi á allt atvinnulíf þjóðarinnar samkvæmt fyrir fram ákveðinni áætlun, er miði að því að tryggja hverjum þeim, sem vinna vill, atvinnu og leggja þannig grundvöll að nýju þjóðskipulagi í anda jafnaðar- og samvinnustefnunnar með fullkomnu lýðræði í stjórnmálum og atvinnumálum, þá bíða hennar sömu örlög og alþýðunnar í þeim löndum, sem nú eru ofurseld ofbeldis- og einræðisstjórnum auðvaldsigs. Fyrir því skorar 12. þing Alþýðusambands Íslands“ — og þá um leið þing Alþfl. — „á flokka þá, sem fara með völdin í landinu, að neyta valdanna til þess að forða alþýðu þessa lands frá þeim örlögum, og heitir til þess fulltingi þeirra mörgu þúsunda vinnandi manna og kvenna, sem Alþýðusambandið skipa, og öllu því harðfylgi, sem alþýðusamtökin hafa yfir að ráða.“

Svona voru kröfurnar, sem voru gerðar þá af hálfu verkalýðshreyfingarinnar og Alþfl. til þeirrar stjórnar, sem Framsókn og Alþfl. þá myndaði. Það var erfitt við að eiga þá. Það voru miklir erfiðleikar, sem sú stjórn stóð frammi fyrir. Höfuðerfiðleikinn var kreppan. Þá var auðvaldsskipulagið enn þá sterkt í heiminum, og kreppan og atvinnuleysið fór þá þannig með þá stjórn hinna vinnandi stétta, eins og hún þá var kölluð, að hún beið að lokum skipbrot. Sú stjórn hafði þá ekki þá aðstöðu, sem hæstv. ríkisstj. hefur í dag, að geta siglt fram hjá allri kreppu og þurfa ekki að leiða neina kreppu yfir Ísland vegna þeirra markaða, sem hæstv. ríkisstj. hefur útvegað fyrst og fremst í sósíalistísku löndunum og tryggja Íslandi að geta haldið áfram að auka sína fiskframleiðslu án þess að þurfa að óttast, að til nokkurrar kreppu eða nokkurra markaðsvandræða þurfi að koma. Það, sem misheppnaðist þá, höfum við tækifæri til að láta takast núna, ef við erum menn til að stjórna okkar málum þannig hér innanlands, að við siglum fram hjá þeim skerjum, sem þá var strandað á, og það sker, sem þá strandaði á um samstarf Alþfl. og Framsóknar, var skilningsleysi Framsóknar á nauðsyn heildarstjórnar á þjóðarbúskapnum og tillitsleysi til þeirra krafna, sem verkalýðshreyfingin og Alþfl. gerðu.

Ég er hræddur um, að ef menn eiga að læra af þeirri sögu, sem þá gerðist, þá þurfi Framsfl. að læra það, að hann á að venja sig á að taka tillit til þeirra verkalýðsflokka, sem hann starfar með, jafnvel þó að honum finnist, að þeir séu með kröfur, sem ekki séu að hans skapi. Framsfl. verður að skilja, að það er verkalýðshreyfingin og verkalýðsflokkarnir, sem eru það vald, sem öll vinstri stjórn í landinu verður að byggjast á, og svo vanur sem sá flokkur er að stjórna og svo harður sem hann er í samningum, þá verður hann að læra, að það verður ekki hægt að halda uppi vinstri stjórn í landinu með þessum flokkum, svo framarlega sem honum ekki skilst þetta.

Sú ríkisstjórn strandaði m.a. á þessu skilningsleysi og á ytri erfiðleikum, sem þá var mjög erfitt að yfirvinna. En hún gerði eitt, sem var mjög gott, sem stendur enn. Hún lét fara fram þá beztu úttekt, sem gerð hefur verið á íslenzku þjóðarbúi, með skipulagsnefnd atvinnumála, Rauðku svokölluðu. Með þeirri rannsókn, sem hún framkvæmdi á íslenzku þjóðarbúi, var gerð bezta úttektin, sem enn er til um íslenzkt þjóðskipulag og íslenzkt þjóðarbú og hvað þurfi að gera í því.

1944 gerðu verkalýðsflokkarnir næst tilraun til þess að mynda stjórn í þessu landi, í það skiptið með Sjálfstfl. Og þá var gerð sú tilraun, sem mest hefur verið gerð á Íslandi enn sem komið er, til þess að einhverju leyti að koma áætlunarbúskap í framkvæmd. Það, sem gerði, að sú stjórn, verkalýðslokkanna og Sjálfstfl., gat unnið það góða, sem hún vann, var, að hún gerði sér ljóst, að sjávarútvegurinn var sú lyftistöng þjóðarbúsins, sem varð fyrst og fremst að tryggja og efla, svo framarlega sem þjóðinni ætti að vegna vel, og þess vegna var lögð höfuðáherzla allan þennan tíma á aukningu sjávarútvegsins með þeim afleiðingum, sem öllum eru kunnar. Ég þarf ekki að rekja það, það vita meira að segja þeir, sem voru andstæðingar þeirrar stjórnar, bæði í Framsfl. og Sjálfstfl., að vegna þess, sem þá var gert, er þjóðarbú Íslendinga það í dag, sem það enn þá er. Þau tæki, sem þá voru útveguð til gjaldeyrisöflunar, eru þau, sem enn þá standa undir gjaldeyrisöfluninni á Íslandi fyrst og fremst. Og það var ekki aðeins, að það væri farið inn á þá leið að stórauka þannig framleiðslutækin og þar með framleiðsluna, heldur voru líka stigin þau spor, sem valda úrslitum um það, að hægt sé að auka og bæta okkar þjóðarbúskap, að tryggja örugga markaði, og það var alveg sérstaklega gert með því að vinna slíka markaði þá í löndum sósíalismans, eins og nú hefur verið endurtekið, þannig að sú stjórn opnaði þá leið, sýndi Íslendingum fram á, að það var mögulegt fyrir okkur að þroska og þróa okkar sjávarútveg án þess að eiga nokkra kreppu á hættu.

Á þeirri nýsköpun, sem þá fór fram með togurunum, fiskibátunum og flutningaskipunum, og þeirri umhyggju, sem þá var sýnd fyrir íslenzkum þjóðarbúskap í heild, byggir okkar þjóð enn í dag,

Síðan tók við tímabilið 1949–56, og það, sem einkenndi það tímabil, var fyrirhyggjuleysi, planleysi og hirðuleysi um stoðir þjóðfélagsins, sem er frægast af því, að enginn togari var keyptur í 8 ár, en 5.000 bílar. Það var grafið undan lífskjörum þjóðarinnar og gengi krónunnar, það var vanrækt að efla þau tæki, sem afla þjóðinni gjaldeyris. Ég veit ekki, hvort þessi fjandskapur við sjávarútveginn, sem þá kom fram, stafaði af því, að Ameríkumenn voru svo mikils ráðandi um efnahag Íslands á þeim tíma, — þeir hafa venjulega verið mjög andvígir því, að við settum okkar peninga í togarana eða bátana, — eða hvort það er hitt, að hagfræðingarnir fóru að hafa svo mikil áhrif á, hvaða leiðir væru farnar í sambandi við okkar þjóðarbúskap. Og það, sem hefur einkennt ýmsa þá annars ágætu hagfræðinga, sem þar hafa verið að verki, er, að þeir reikna aldrei út frá öðru en því, sem er, eru eins og reikningsvélar út frá því ástandi, sem fyrir er, hvernig „ballansinn“ þurfi að vera út frá því. Þeir geta ekki hugsað sem skapandi menn, menn, sem segi: það þarf að gera þetta, afla þessara tækja, skapa þessi tæki, til þess að þjóðinni geti liðið betur, og draga úr hinum.

Það, sem gerðist á þessu tímabili, 1949–56, var, að þeir menn réðu, sem höfðu trú á því, að það væri bezt fyrir þjóðina, að hver réði sinni fjárfestingu sjálfur, þá mundi öllum vegna vel, lofa bara hverjum að gera það, sem hann vildi, öllu að vera sem frjálsustu, fjárfestingunni og öðru, þá mundi það á endanum koma rétt út fyrir þjóðina. Afleiðingin var, að menn voru ósköp fúsir á það, að þeir keyptu sér fleiri bíla, og enginn vildi kaupa togara. Það er ekki til neins að ætla að stjórna íslenzkum þjóðarbúskap með svona móti. Skipulagsleysi og frjáls samkeppni og öll slík aðferð mun alltaf bíða skipbrot hér á Íslandi, ef við ætlum að hafa sjálfstæðan þjóðarbúskap. Það er máske hægt með því að innlima okkur í t.d. einhvers konar fríverzlunarsvæði, skapa slík sjálfkrafa áhrif, svokallaða frjálsa samkeppni, en það er ekki hægt að efla íslenzkan þjóðarbúskap sem íslenzkan þjóðarbúskap. Til þess að gera slíkt verður að hugsa fyrir hann sem eina heild. Þá verður að skipuleggja hann sem sjálfstæða heild og hugsa fyrir honum, eins og einn maður hugsar fyrir sínu eigin búi eða sínu eigin heimili.

Það, sem við súpum seyðið af í dag, og það, sem við stöndum frammi fyrir, og þeir efnahagserfiðleikar, sem við eigum við að glíma núna, stafa af vanrækslu þessa sjö ára tímabils. Ef á að gera sakirnar upp við einhverja fyrir, hvernig komið sé nú, þá er það við þá, sem réðu stefnu þjóðarinnar á þessum tíma. Við erum nú að súpa seyðið af því, og það, sem þurfti að gera 1956, þegar stjórnarskiptin urðu, var að gera sér þetta ljóst tafarlaust til þess að bæta einmitt úr syndum þeirrar afturhaldsstjórnar, sem verið hafði við völd fram að því.

Þegar hæstv. núverandi ríkisstj. tók við, var ýmsu lofað um að breyta þessu. Því var lofað í fyrsta lagi, að það skyldi fara fram úttekt á þjóðarbúinu, það skyldi fara fram rannsókn á þjóðarbúinu. Hvað á maður við, þegar maður talar um rannsókn á þjóðarbúinu, ef að einhverju leyti eigi að vera hægt að byggja á slíkri rannsókn það, sem gera eigi í efnahagsmálum einnar þjóðar á næstunni? Það, sem maður á við, er í fyrsta lagi, að rannsakaður sé þjóðarauður Íslendinga, hver er hann, hvernig skiptist hann, hvernig skiptist hann í fyrsta lagi milli stéttanna í landinu, á milli atvinnugreinanna í landinu og milli þjóðfélagsstéttanna í landinu, hvernig skiptist hann á milli yfirstéttanna, millistéttanna og undirstéttanna í landi. Þetta er ein frumstæðasta rannsókn, sem á að fara fram á einu þjóðarbúi til að hafa einhverja hugmynd um, hvernig það stendur, að vita, hve mikinn hluta af þjóðarauðnum t.d. auðmannastéttin á, hve mikinn hluta verkalýðsstéttin á. Þetta er hlutur, sem enn þá hefur ekki fengizt rannsakaður. Þetta er hlutur, sem maður getur, ef maður flettir upp í hagskýrslum t.d. Bandaríkjanna, séð í einu vetfangi, og eigi að fara að tala um það við einhverja stétt í þessu landi, að ein þeirra hafi of mikið og önnur hafi of lítið, það sé hægt að taka af einni og láta til annarrar, þá er maður með fullyrðingar, svo lengi sem maður hefur ekki fengið þessa rannsókn í gegn. Það, sem í öðru lagi þarf að rannsaka, er þjóðartekjurnar, hvernig eru þjóðartekjurnar, hvernig skiptast þær á milli atvinnugreinanna hjá þjóðinni, hvernig skiptast þær á milli sjávarútvegs, landbúnaðar, iðnaðar, verzlunar og annars slíks og hvernig skiptast þær á milli stéttanna, hve mikið af þeim fer til auðmannastéttar og atvinnurekendastéttar, hve mikið fer til verkamannastéttar, til hinna ýmsu annarra launþega, til millistéttanna í þjóðfélaginu og annars slíks. Ekkert af þessari rannsókn liggur fyrir. Við getum deilt um það endalaust, hvernig þetta sé, í staðinn fyrir að hafa það svart á hvítu.

Ég veit, að það hefur verið nóg hjá hagfræðingum að vinna undanfarið. Þeir hafa verið uppteknir að reikna m.a., hvernig ætti að lækka gengið og hvað mundi koma út, ef gengið væri lækkað svona eða á hinn veginn, og ef styrkir væru svona og ef styrkir væru á hinn veginn. En þeir hafa ekki verið settir í að rannsaka, hvernig þjóðarbúið væri, hvernig þjóðarauðurinn væri, hvernig hann skiptist, hvernig þjóðartekjurnar væru, hvernig þær skiptust. Það eina, sem maður hefur ofur lítið getað fengið upp um þetta, er nokkuð um fjárfestinguna, hvernig hún hafi verið á undanförnum árum, en maður hefur ekki getað fengið upp „rentabilltet“ þeirrar fjárfestingar á hverju sviði, í hverri atvinnugrein út af fyrir sig, hve vel hafi borgað sig það fjármagn fyrir þjóðina, sem lagt hafi verið í sjávarútveginn, hve vel hafi borgað sig það, sem lagt hafi verið í landbúnað, hve vel hafi borgað sig það, sem lagt hafi verið í verzlun, fyrir þjóðarbúið „nota bene“, en ekki fyrir þá einstaklinga, sem hafa með sérstökum ráðstöfunum, getað fengið gróða af þessu.

Þessi úttekt hefur ekki farið fram, og þegar við deilum í dag og deilum í haust máske um skiptinguna á þjóðartekjunum og skiptinguna á þjóðarauðnum og hverjir það séu, sem geti borið byrðarnar, og hvort lífskjörin séu of há og hvort þurfi að skerða þau, þá stöndum við enn þá í sömu sporunum og við stóðum 1956. Við höfum hvorugur, sem þarna mundum deila, nein sönnunargögn í þessu fram að færa.

Í öðru lagi var því lofað þegar ríkisstj. tók við, að það yrði komið upp meiri eða minni heildarstjórn á fjárfestingunni í landinu, meiri eða minni áætlunarbúskap, þó að þau orð væru ekki notuð. Það stóð í samningi þeim, sem lagður var til grundvallar fyrir ríkisstj. og ríkisstjórnarsamstarfinu, svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: „Ríkisstj. mun nú þegar í samráði við stéttasamtökin skipa nefnd sérfróðra manna til þess að rannsaka ástand efnahagsmála þjóðarinnar með það fyrir augum, að sem traustastur grundvöllur fáist undir ákvarðanir hennar í þeim málum. Mun ríkisstj. leggja sérstaka áherzlu á að leysa efnahagsmálin í náinni samvinnu við stéttasamtök vinnandi fólks. Ríkisstj. mun beita sér fyrir að skipuleggja alhliða atvinnutryggingu í landinu, einkum í þeim þremur landshlutum, sem nú eru verst á vegi staddir í atvinnulegum efnum. Ríkisstj. mun láta gera heildaráætlun um framkvæmdir á næstu árum og nýmæli í því sambandi og birta hana þjóðinni. Nú þegar hefur verið tekin ákvörðun um í fyrsta lagi að leita samninga um smíði á 15 togurum og lánsfé til þess, enda verði skipunum ráðstafað og þau rekin af hinu opinbera og á annan hátt með sérstöku tilliti til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins.“

Og síðan var áfram um að beita sér fyrir framhaldsvirkjun Sogsins og erlendum lánum til framkvæmda í landbúnaði, iðnaði og hafnargerð. Því var alveg sérstaklega fagnað, að ríkisstj. lýsti því yfir, að hún mundi undirbúa slíka áætlun og fara þannig að vinna að því að koma meira og betra skipulagi á þjóðarbúskapinn.

Þegar 25. þing Alþýðusambands Íslands haustið 1956 fagnaði komu ríkisstj., þá var í þess samþykkt um þau efni sagt m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Til þess að tryggja, að fjárfestingu þjóðarinnar verði fyrst og fremst varið til þess, sem þjóðhagslega sé nauðsynlegast, og til þess að hægt verði að bæta kjör alþýðunnar, telur þingið, að eftirfarandi sé nauðsynlegt: 1. Tekin verði upp heildarstjórn á þjóðarbúskapnum, þannig að gerðar verði heildaráætlanir um þróun þjóðarbúskaparins bæði fyrir eitt ár í senn og 5–10 ára tímabil. 2. Tekin verði stór lán erlendis, enda fáist þau án óeðlilegra skilmála með hagstæðum vaxtakjörum til langs tíma og helzt með tryggingu fyrir, að hægt verði að greiða þau í íslenzkum afurðum. Þess sé vandlega gætt, að slíkum lánum verði fyrst og fremst varið þannig, að þau verði til þess að auka hagnýta framleiðslu þjóðarinnar og þó einkum gjaldeyrisframleiðslu hennar.“

Þetta var yfirlýsing Alþýðusambandsþings 1956 um fylgi við heildarstjórn á íslenzkum þjóðarbúskap.

Ég veit, að fyrir mörgum mun þessi krafa um áætlunarbúskap, um heildarstjórn á þjóðarbúskapnum, hljóma eins og eitthvert slagorð eða sósíalistísk krafa. En ég vil undirstrika það alveg sérstaklega, að fyrir okkur Íslendinga, eins og þróunin hefur orðið í öllum okkar þjóðarbúskap á síðustu 25 árum, er þetta hlutur, sem við getum ekki komizt af án. Fyrir 30 árum var ríkisstj. á Íslandi fyrst og fremst stjórn á dómsmálum, kirkjumálum og öllu mögulegu slíku. Hún var stjórn, sem skipti sér lítið af atvinnulífinu. Ríkisstjórnin var gagnvart atvinnulífinu, svo að ég noti nú slagorð, sem einu sinni var notað í Englandi á 19. öldinni: hún var eins og eins konar næturvörður. Hún átti að gæta þess, að menn ekki væru að brjótast inn og stela, og annað slíkt, en atvinnulífið átti að ganga sinn gang, án þess að ríkisstj. skipti sér af því. Þróunin, sem orðið hefur á Íslandi síðustu 25 árin sérstaklega, hefur leitt til þess, að stjórnin á atvinnulífi þjóðarinnar, stjórnin á þjóðarbúskapnum er orðin verkefni Alþingis og ríkisstj., og meginið af öllu því, sem Alþingi og ríkisstj. gerir nú upp á síðkastið, er að hugsa um þessa stjórn á þjóðarbúskapnum. En stjórnarkerfi landsins hefur aldrei verið lagað eftir þessari breytingu. Það er látið dankast í sömu gömlu formunum og var meðan ríkisstj. var bara næturvörður, þó að hún eigi að sjá um þetta daglega líf þjóðarinnar og standa undir og sjá um, að það sé staðið undir öllum hennar þjóðarbúskap.

Raunverulega er heildarstjórn á þjóðarbúskapnum eins og önnur ríkisstjórn. En stjórnarkerfið hefur ekki verið lagað af þessu, og meðan við ekki drögum þær ályktanir af þeirri þróun, sem orðið hefur á Íslandi, þá getum við ekki stjórnað okkar þjóðarbúskap af viti. Menn vilja kannske ætla, að ég sé með þessu að segja, að við ættum tafarlaust að koma á sósíalisma á Íslandi, og það sé óhugsandi að koma slíkri heildarstjórn á öðruvísi. Ég er ekki að meina það, þó að ég álíti það mjög æskilegt. Við skulum bara taka okkar næsta nágrannaland eins og Noreg. Noregur er nú frá stríðslokum búinn að stjórna fyrst og fremst sínum atvinnumálum á þann hátt að gera áætlun um þjóðarbúskapinn fyrir hvert ár í senn og fyrir langan tíma. Alveg eins og fjárlög eru lögð fyrir norska þingið og fjárlög lögð fyrir okkar þing, eins er lögð áætlun um heildarþróun í þjóðarbúskapnum norska fyrir hvert einasta þing, sem þar kemur saman. Ég hef fengið þessar áætlanir fyrir öll þessi ár, ég hef þær hérna, ef menn hafa áhuga á að athuga þær. Hvert einasta ár er þykk bók lögð fyrir um, hvernig norskur þjóðarbúskapur skuli þróaður á næsta ári, hvað mikið „kapítal“ skuli sett í þessa og þessa grein, hvað mikið vinnuafl, og allt annað slíkt. Það er unnið alveg skipulega vitandi vits út frá öllum þeim forsendum, sem menn þekkja og menn geta ráðið við, um það, hvernig skuli þróa þjóðarbúskapinn, hvaða greinar hans, hvaða greinum skuli draga úr. Við skulum segja t.d., að norsk stjórn gæti leyft sér að stilla málunum þannig viðvíkjandi t.d. landbúnaði: hvað mörgum bændum þarf að hjálpa á ýmsan hátt, hvað margir bændur komast af án nokkurrar hjálpar, og hvaða bændum má kannske hjálpa til að flytjast burt til bæjanna? Norsk ríkisstjórn ræður því og athugar á hverju einasta ári, hvernig henni finnst skynsamlegast að stjórna þjóðarbúskapnum, hvernig það komi út úr því, bezt lífskjör fyrir norsku þjóðina.

Það er óhjákvæmilegt fyrir okkur Íslendinga að koma upp slíkri heildarstjórn á okkar þjóðarbúskap, fyrir utan það, að sjálf ríkisafskiptin af þjóðarbúskapnum, beinlínis framleiðsla þeirra ríkisfyrirtækja, sem komið hefur verið upp á undanförnum áratugum, er svo mikil, að það veitti ekki af að skipuleggja hana út af fyrir sig, þannig að annað eins kæmi ekki fyrir og er að koma fyrir núna, að það er kannske reist sementsverksmiðja á einum stað og raforkuver á öðrum, sem ríkisstj. og það opinbera á hvort tveggja, án þess einu sinni að ríkið sjálft hugsi um að samræma þessa hluti þannig, að það sé til rafmagn handa sementsverksmiðju, þegar sementsverksmiðjan væri komin upp. Það algera planleysi, sá skortur á allri heildarstjórn og áætlunarbúskap í íslenzku þjóðlífi, sem einkennt hefur okkur að undanförnu, er óþolandi og verður að breytast.

Þegar undirbúnar voru breytingar á bankalöggjöfinni síðasta ár, var ég í n., sem ríkisstj. setti til þess að undirbúa þá löggjöf, og ég gerði það að minni till., að stjórn seðlabankans hefði það verkefni að semja slíka áætlun, og í þeirri till., sem ég lagði fyrir ríkisstj. þá, var annar kafli þeirra laga um áætlun um þjóðarbúskapinn. Ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp þær till., sem ég flutti þá. Það var 11. gr. í því frv., sem ég var með:

„Seðlabanki Íslands sér um að semja og framfylgja heildaráætlun um þjóðarbúskap Íslendinga, er gerð skal í samráði við ríkisstj. Áætlanirnar skulu vera tvenns konar: Í fyrsta lagi heildaráætlanir um eflingu atvinnulífsins og fjárfestingu þjóðarinnar fyrir 5–10 ára tímabil eftir nánari ákvörðun bankastjórnar og ríkisstj., í öðru lagi áætlanir fyrir eitt ár í senn um allan þjóðarbúskap.

12. gr. Bankinn skal miða áætlanir við eftirfarandi:

1) Öll framleiðslugeta landsmanna sé hagnýtt til fulls og öllum verkfærum mönnum tryggð næg og örugg atvinna.

2) Auðlindir lands og þjóðar verði sem bezt hagnýttar í þágu þjóðarheildarinnar til þess að auka velmegun og tryggja afkomu þjóðar og einstaklinga.

3) Atvinnuvegir landsmanna verði efldir og nýir skapaðir, til þess að þjóðin eignist sem fjölbreyttast atvinnulíf, en þó einbeitt að því að efla fyrst og fremst þær atvinnugreinar, er veita í senn bezta hagnýtingu á auðlindum þjóðarinnar og mesta afkastagetu landsmanna og bezt lífskjör fyrir heildina.

Til þess að ná þeim tilgangi, er lög þessi mæla fyrir um að stefna skuli að með framkvæmd áætlana þessara, skal bankinn vinna að því að sameina og efla framtak jafnt einstaklinga, samvinnufélaga, sveitarfélaga og ríkisins. Höfuðmarkmiðið skal vera að tryggja sem fullkomnasta hagnýtingu auðlinda, framleiðslutækja, vinnuafls og fjármagns þjóðarinnar á grundvelli beztu rannsókna á þessum sviðum, sem hægt er að gera á hverjum tíma.“

Ég skal ekki lesa lengra af þessu. Mér var alveg ljóst, að ef það átti að verða einhver samræmd stjórn á þjóðarbúskap Íslendinga, þá þurfti stjórn seðlabankans að vera þannig, að hún hugsaði í samræmi við þá pólitík, sem ríkisstj. ákvæði á hverjum tíma, og í samræmi við þá hagsmuni þjóðarheildarinnar, sem stefna bæri að.

Þessar till., sem ég þarna flutti, voru byggðar á till., sem Alþfl. hafði flutt 1937, fluttar þá af hv. núverandi þm. Hafnf. (EmJ), till. um skipulagninguna bæði viðvíkjandi gjaldeyrisöfluninni og áætluninni um það og um heildarbúskapinn, þannig að það var byggt raunverulega á þeim gömlu áætlunum, sem Framsfl. hafði ekki viljað taka tillit til í stjórnarsamvinnunni 1934–37, Það fór á sömu leið nú, þegar þessar áætlanir voru lagðar fyrir, Framsfl. þótti ekki rétt að taka neitt tillit til þeirra.

Ég held, að afleiðingin af þessu hafi orðið sú, að síðan hefur seðlabankinn og seðlabankastjórnin verið vettvangur baráttu um, hvernig eigi að stjórna og hvernig eigi að skipta sér af efnahagsmálum Íslands. T.d. seðlabankastjórinn hefur núna undanfarið verið að prédika gengislækkun á Íslandi og nauðsyn á henni, sá maðurinn, sem mest „autoritet“ ætti að hafa og mest ætti að vinna að því að halda uppi trú manna á gjaldeyri í landinu og tryggja gengi okkar peninga.

Ég held, að það hefði verið nauðsynlegt, að Framsfl. hefði frá upphafi tekið tillit til þeirra till., sem uppi hafa verið um heildarstjórn á íslenzkum þjóðarbúskap, og ekki látið fara eins og nú hefur farið, að allt sé látið ganga, þangað til komið er í erfiðleika, og þá sé gripið til úrræða, sem verða alltaf meiri eða minni óyndisúrræði. Það þurfti að taka á þessum málum af viti og af framsýni, en ekki láta skeika að sköpuðu, í hvert skipti.

En það var ekki aðeins lofað heildaráætlun, þegar þetta var gert, það var líka ákveðið að byrja á að framkvæma hana, og það var ákveðið að byrja að framkvæma heildaráætlunina með því að kaupa 15 togara erlendis. Það var eitt af því, sem Alþb. alveg sérstaklega fékk inn í þá samninga, sem þá voru gerðir, og við vissum hins vegar ósköp vel, að meira að segja ákvörðunin um kaup á þeim 15 togurum var ekki nema rétt til að bæta úr vanrækslunni á tímabilinu frá 1949 til 1956.

Það er ekki farið að gera samninga um þessa togara enn þá, þessa stóru togara. Það hefur verið allt undirbúið af hálfu sjútvmrh., sem snertir tæknina í þessum efnum, og það hafa verið til lánsmöguleikar til þess að kaupa þessa togara, en það hefur ekki verið gert enn sem komið er. Það er hins vegar Alþb. og þessum ráðh. fyrir að þakka, að það hafa verið keyptir bátar til landsins og það hafa verið smíðaðir litlir togarar, 250 tonna togarar, sem koma hingað í ár, eru í smíðum nú í Austur-Þýzkalandi, þannig að það hefur ekki verið vanrækt að reyna þó að einhverju leyti að sjá fyrir því, að byrjað væri á því fyrir alvöru að efla sjávarútveginn og tryggja þannig fulla atvinnu í landinu.

Það er búið á þessu tímabili að taka erlend lán upp á milli 300 og 400 millj, kr. Það hefur ekki 10% af þessum lánum farið til sjávarútvegsins, undirstöðunnar í atvinnulífi Íslendinga. Það hefur mikið farið til raforkuframleiðslu, það hefur mikið farið til landbúnaðar, þessar greinar hafa fengið þessi lán. En hver á að borga lánin, hver á að útvega peningana, gjaldeyrinn, til þess að borga þau með? Það er sjávarútvegurinn, og það verður að borga þau með fiski, því að annað er ekki til að borga með. Það er gott og nauðsynlegt að hafa Sogsvirkjun, það er gott líka að fá rafmagn út á land, en það, að við höfum efni á að hafa þetta rafmagn og kaupa til þess tæki, er vegna þess, að við rekum sjávarútveg og rekum hann í það stórum stíl, að við getum enn þá staðið undir þessu. En ef við vanrækjum að efla hann, eins og gert hefur verið undanfarið, þessi sjö mögru ár, sem ég talaði um áðan, þá brotnar efnahagsbygging þjóðarinnar undan þeim þunga, sem raforkuframkvæmdir og landbúnaður og annað slíkt verður. Þetta verðum við að gera okkur ljóst. Ef við vanrækjum að efla þennan sjávarútveg, þá brotnar allt.

Það hefur ekkert lán verið tekið enn þá í stóru togarana. Okkar vinstri ríkisstj. lofaði því að vera hálfdrættingur á við nýsköpunarstjórnina hvað togarakaup snertir, kaupa 15, þar sem hún keypti 30. Það er ekki enn búíð að undirskrifa þessa samninga. Það er enn ekki farið að hagnýta þá lánsmöguleika, sem eru búnir að vera í meira en eitt ár, til þess að kaupa þessa togara. Og hvað á það að ganga lengi til? Ég veit, hvernig ráðh. Alþb. hafa rekið á eftir þessu í ríkisstj., og ég veit, hvernig staðið hefur verið á móti þessu. Svona getur þetta ekki gengið áfram. Það er sízt af öllu til nokkurs að koma til verkalýðshreyfingarinnar og segja við hana, kannske í haust eða ég veit ekki hvenær: Ja, það er nú slæmt með efnahagsmálin, og það er nú lélegt með lífskjörin, og það verður nú að fara að skerða þau, og menn verða að fórna. — Hún kemur til með að spyrja: Hvað hafið þið gert til þess að undirbyggja þetta? Hvernig hefur Framsókn tekið undir kröfurnar, sem komið hafa fram frá okkar ráðh. í þessari ríkisstj., og kröfurnar, sem fram hafa komið frá verkalýðshreyfingunni í þessu efni?

Ég veit vel, að það þarf að gripa til allróttækra ráðstafana hér á Íslandi til þess að stjórna efnahagsmálum þjóðarinnar rétt. Það er ekki nóg að ákveða að hafa heildarstjórn á þjóðarbúskapnum, það þarf líka að framkvæma þá heildarstjórn, og sú heildarstjórn getur vel komið við ýmsa, það skulum við gera okkur ljóst.

Ég skal nefna nokkur dæmi um, hvað ég álít að þurfi að gera.

Við skulum taka í fyrsta lagi verzlunina og þá í fyrsta lagi heildverzlunina hér í Reykjavík. Í þeirri einu úttekt, sem fram hefur farið á þjóðarbúinu, úttekt Rauðku 1934–36, var komizt að þeirri niðurstöðu, sem er sígild fyrir allt þetta 25 ára tímabil, að það væri of mikið af fjármagni þjóðarinnar í verzluninni og of lítið í sjávarútveginum. Ef ég man tölurnar rétt, sem voru þá, reiknaði Rauðka með, að það væru 100 millj. kr. — og það voru þá miklir peningar — í verzluninni og 22 millj. kr. í sjávarútveginum, og ályktanirnar, sem skipulagsnefnd atvinnumála dró, voru: Þetta hlutfall verður að breytast. Það verður að reka fjármagnið út úr heildverzluninni, það verður að knýja fjármagnið inn í sjávarútveginn, og til þess er raunverulega aðeins einn möguleiki í kapítalistísku skipulagi, og hann er að þjóðnýta svo og svo mikið af innflutningsverzluninni, að hindra það, að einkafjármagn geti verið þar, að knýja það fjármagn burt úr því svæði og knýja það inn í framleiðslugreinarnar, inn í þá skapandi framleiðslu. Það er hvort sem er alltaf sú tilhneiging í sambandi við verzlunina og auðmagn hjá einni þjóð að verða þar svo að segja til þess að lifa hálfgerðu sníkjulífi á þjóðinni, á sama tíma sem það skapandi fjármagn í framleiðslugreinunum sé meira eða minna flæmt í burtu eða brotni saman undir þunga verzlunarauðmagnsins. Það er mín skoðun, að það hefði þurft að taka svona þriðjunginn af innflutningsverzluninni á Íslandi og þjóðnýta hana, taka ríkisrekstur á t.d. olíu, vélum, bifreiðum, rafmagnstækjum og fleira slíku. Nú sem stendur er mjög mikið af einkakapítali á þessum sviðum, og ég álit, að það þurfi fyrir íslenzkan þjóðarbúskap að knýja einkakapítal út úr þessu sviði og hætta að láta einkakapítalið hafa hagsmuni af því að fara inn á þessi svið.

Ég skal taka eitt dæmi í þessu sambandi, það er af olíunni. Það er öllum landsmönnum vitað, að það hefur verið eytt of fjár á undanförnum áratug í hringavitlausa fjárfestingu í sambandi við olíuna og dreifingu olíunnar á Íslandi, með hringavitleysu, svokallaðri samkeppni á milli þeirra olíufélaga, sem hér eru að verkum, og allt of miklu af fjármagni þjóðarinnar hefur verið sóað á þennan hátt. Einmitt um þetta atriði, olíueinkasölu ríkisins, hafa farið fram í ríkisstj. átök. Það hefur verið till. Alþfl., og það hefur verið till. Alþb., það hefur legið fyrir í ríkisstj. frv. frá hálfu ráðh. Alþb. um olíueinkasölu ríkisins, og það hefur ekkert fengizt fram. Það hefur legið fyrir hér á Alþ. till. til þál. um olíueinkasölu ríkisins frá tveim þm. Alþb., og nú alveg nýlega var fjvn. að klofna um þetta mál, Alþfl. og Alþb. stóðu þar saman um að láta athuga og fela ríkisstj. að undirbúa löggjöf um þessi efni. Framsfl. hefur ekki getað hugsað sér að fallast á þetta atriði. Ég held, að afstaða Framsfl. til olíueinkasölu sé gott dæmi um tillitsleysi þessa flokks til verkalýðshreyfingarinnar og verkalýðsflokkanna. Og það eru ekki hagsmunir samvinnuhreyfingarinnar, sem þarna eru í veði, því að það eru ekki hagsmunir samvinnuhreyfingarinnar, að olíusalan sé rekin eins og hún er rekin núna. En það er svo, að þegar á að höggva í eitthvað af auðvaldinu hér í Reykjavík, þá er eins og vissir aðilar í námunda við Samband íslenzkra samvinnufélaga kippist við, eins og þetta væru samvaxnir tvíburar, og það er ástand, sem ekki getur gengið. Það verður að vera hægt að gera þær ráðstafanir, sem þarf til þjóðnýtingar á vissum sviðum á Íslandi, með Framsfl., ef hann ætlar sér til frambúðar að halda uppi vinstri stjórn með verkalýðsflokkunum í landinu, þannig að hægt sé að skipuleggja í þjóðarþágu vissa hluti og vissa þætti í íslenzkum þjóðarbúskap, þó að ýmsum finnist þar nærri sér höggvið.

Það er hart að ástandið skuli vera þannig, að ríkið skuli kaupa inn alla olíu til landsins og afhenda þetta síðan nokkrum hlutafélögum í landinu til þess að dreifa því út til fólksins og græða á því. Ég veit, að það eru ýmsir, sem koma og segja: Ja, olíufélögin græða ekki neitt, og þau kvarta og kvarta og kvarta. - Það verður ekki hægt að telja nokkrum manni trú um, að þau græði ekki, á meðan þau eru til og meðan þau halda áfram að starfa.

Það er engum efa bundið, að meðan ekki er hægt að skakka leikinn milli verzlunarauðmagnsins á Íslandi annars vegar og framleiðsluauðmagnsins hins vegar, þá er ekki hægt að reka íslenzkan þjóðarbúskap af viti. Það er ekki hægt að reka þjóðarbúskapinn af viti, meðan meginið af fjármagninu sækir til verzlunarinnar, af því að því finnst þar helzt gróðavon, en flýi burt frá sjávarútvegi eða iðnaði, vegna þess að þar finnst því ekki vera mögulegt að skapa gróða.

Það er gefið mál, að það þurfti líka að breyta til viðvíkjandi landbúnaðinum. Sú pólitík, sem verið hefur rekin viðvíkjandi honum, getur ekki gengið. Það er ekki hægt að halda áfram þeirri fjárfestingu, sem þar hefur verið Sú fjárfesting er að brjóta niður fyrir okkur allt það, sem verkalýðshreyfingin hefur viljað gera til þess að tryggja góð kjör íslenzkra bænda, vegna þess að til að tryggja þau góðu kjör varð að skipuleggja landbúnaðinn jafnt og aðra hluti á Íslandi, og ég skal koma að því nánar síðar.

Það er enn fremur alveg víst, að aldrei verður tekin í mál af hálfu verkalýðshreyfingarinnar nein lífskjaraskerðing, meðan ekki er búið að taka embættiskerfið á Íslandi og ríkiskerfið sjálft fyrir. Ríkiskerfið hefur vaxið eins og villiskógur, meira að segja svo, að þegar bankar eru stofnaðir í hreinni vitleysu, eins og Framkvæmdabankinn, þá fást svona bankar meira að segja ekki einu sinni lagðir niður, þó að það séu engin rök til lengur fyrir að halda þeim lifandi, bara af því að þeir eru orðnir til.

Það gildir sama viðvíkjandi raforkuplaninu í dreifbýlinu, sem um 250 millj. kr. nú bráðlega eru komnar í. Það er ákaflega góður hlutur að gera þetta, og það er ánægjulegt að geta veitt fólkinu í landinu það að geta haft rafmagn á svona og svona mörgum stöðum, en skilyrðið til þess, að við höfum efni á þessum hlutum og getum staðið undir því og getum afskrifað þessa hluti, það er, að við höfum eflt sjávarútveginn þannig, að okkar þjóð sé það rík, að hún geti leyft sér slíkt. Það er hægt að gera þessa hluti í hófi, ef ekki er látið ógert að efla nógu skjótt og nógu skörulega undirstöður þjóðarbúskaparins. En það er það, sem hefur verið vanrækt. Það er það, sem hefur farið okkur Íslendingum í stjórninni á okkar þjóðarbúskap, einna verst úr hendi upp á síðkastið.

Ég skal taka hér nokkur dæmi úr þeim einu skýrslum einmitt, sem maður hefur um, hvað gerzt hefur í íslenzkum þjóðarbúskap á undanförnum árum, skýrslunum um fjármunamyndun eða fjárfestingu. Við getum séð af þeirri mynd, sem er dregin upp í þeim skýrslum, hvort það hefur verið stjórnað af hugsun og viti eða hvort það hefur verið hending og hver einstaklingur út af fyrir sig verið látinn ráða. Ég held, að menn efist ekki um, hver þörf þjóðinni var á því, að fjármyndun væri fyrst og fremst í sjávarútveginum á Íslandi, og það hefur miðað í rétta átt, eftir að vinstri stjórnin var mynduð, bara ekki nógu hratt, og ég ætla að leyfa mér að taka nokkrar tölur um samanburðinn annars vegar á fjármunamyndun og fjárfestingu þjóðarinnar í sjávarútveginum og svo hins vegar í landbúnaðinum og minna menn á um leið, að það ræður úrslitum um, hvernig þjóðarbúið ber sig, hvernig þessi fjárfesting er. Ef á að stjórna þjóðarbúinu vel, þarf fjárfestingin fyrst og fremst að vera í því, sem er undirstaðan undir öllu saman, sjávarútveginum.

1954 var fjárfesting í sjávarútveginum 60 millj. kr. 1955 var hún 91 millj. 1956, þegar vinstri stjórnin tekur við, er hún 140 millj. 1957 með þeim bráðabirgðatölum, sem fyrir liggja, er hún 147 millj. Á öllum þessum fjórum árum er fjármunamyndun í sjávarútveginum alls um 440 millj. Á sama tíma er hún í landbúnaðinum á árinu 1954 175 millj., þegar hún er 60 í sjávarútveginum 1955 er hún í landbúnaðinum 194 millj., þegar hún er 91 í sjávarútveginum. 1956 er hún 229 millj. í landbúnaðinum, þegar hún er 140 millj. í sjávarútveginum. Og 1957 er hún 214 millj. í landbúnaðinum, þegar hún er 147 í sjávarútveginum.

Við sjáum það aðeins af þessari þróun og af þessu hlutfalli, að það er skökk áherzla, sem lögð er í þjóðarbúinu á eflingu þeirra atvinnugreina, sem þurfa að standa undir þjóðarbúinu, og þeirra, sem við þurftum að draga dálítið úr. Við höfum ekki einbeitt fjármunamynduninni hjá þjóðinni rétt. Þjóðartekjurnar munu vera, t.d. á þessu síðasta ári, um 4.500 millj. kr. Af því fara 1.445 millj. í fjárfestingu, eða um þriðjungurinn. Það, hvernig við verjum þessum 1.445 millj. kr., ræður úrslitum um, hvernig við búum í haginn fyrir lífskjör þjóðarinnar. Meðan við ráðstöfum þessu svona, meira að segja þó að okkar vinstri stjórn hafi tekið við og næstum því hefur verið þrefaldað það, sem þarna er lagt inn, er það þó ekki komið nema upp í 147 millj. kr. Það kann ekki góðri lukku að stýra, meðan efnahagspólitíkin er svona vitlaus hjá okkur. Slík vitlaus efnahagspólitík gengur út yfir lífskjörin.

Hæstv. menntmrh, minntist á það hér áðan, að lífskjörin gætu því aðeins batnað, að fjárfestingin minnkaði. Það er engin bein andstæða milli lífskjaranna og fjárfestingarinnar þannig. Lífskjörin batna við rétta fjárfestingu, fjárfestingu, sem er hnitmiðuð við það að geta staðið undir batnandi lífskjörum. Þau rýrna við ranga fjárfestingu.

Hæstv. menntmrh. sagði, að áhrifin af núverandi frv., ef að lögum yrði, mundu verða að draga úr fjárfestingunni. Það væri ekki efnilegt fyrir framtíð þjóðarinnar, ef þessi lög yrðu til þess að draga úr fjárfestingunni í sjávarútveginum. Það, sem þarf að gera, er að sjá um, að fjárfestingin í því, sem er undirstaðan undir íslenzkum þjóðarbúskap, eflist. Því aðeins getum við bætt lífskjör þjóðarinnar. En við verðum að draga úr fjárfestingu, þar sem það verður til þess jafnvel að þræla duglegum mönnum eins og íslenzkum bændum út í að framleiða máske osta, sem þeir fá í hausinn aftur, af því að þeir seljast ekki. Þannig getum við ekki stjórnað þjóðarbúskap af viti. Við verðum að hnitmiða okkar fjárfestingu við það, að hún verði til að efla okkar lífskjör, en ekki til þess að rýra þau.

Hver verður nú hins vegar afleiðingin, ef búið er um langt tímabil að stjórna fjárfestingu þjóðarinnar skakkt eða láta hana vera stjórnlausa, með þeim afleiðingum, að það, sem þjóðinni lá á að aukið væri og eflt, eins og sjávarútvegurinn á hinum sjö mögru árum, hefur ekki verið eflt, en aftur á móti framleiðsla á þeim hlutum, sem þegar er orðin offramleiðsla af, eins og t.d. landbúnaðarafurðunum, væri aukin? Hver verður afleiðingin af skakkri fjárfestingu þannig? Afleiðingin verður sú, að þeir, sem fest hafa féð á skakkan hátt, hafa hagsmuni af því að afskrifa þessa röngu fjárfestingu með verðgildisrýrnun peninganna, gengislækkun eða öðrum slíkum ráðstöfunum. Og ég er hræddur um, að þetta mikla tal, sem ég verð alltaf var við hjá Framsfl., svo að ég nú ekki tali um Sjálfstfl., um gengislækkun og nauðsynina á henni og það sem eina bjargráðið, eigi rætur sínar að rekja til þess, að þessir flokkar finni til þess, að þeir þurfi að afskrifa afleiðingarnar af vitlausri fjárfestingarpólitík þeirra með gengislækkun á einn eða annan hátt.

Ég hef séð það af skrifum Framsfl, og heyrt það raunar líka hjá nokkrum af hans forustumönnum, að hann vildi og jafnvel vill beina gengislækkun, og ég veit, að íhaldið er reiðubúið til að hjálpa honum til slíks, eins og þessir flokkar hjálpuðust við það 1950, og er reiðubúið til að gera það með meiri lífskjaraskerðingum, en í þessu frv. felast.

Ég álít, að undirrótin til þessarar sífelldu ásóknar í gengislækkun, þessarar gengislækkunarkröfu, sem nú er farin að koma fram í íslenzku þjóðfélagi með 5–10 ára millibili, þessi krafa sé afleiðing af rangri fjárfestingarpólitík, af stjórnleysi á þjóðarbúskapnum. Ef svona verður haldið áfram eins og gert hefur verið, þá verður gengi íslenzku krónunnar á 7–10 ára fresti lækkað til þess að þurfa ekki að horfast í augu við afleiðingarnar af rangri fjárfestingarpólitík, og svo tala menn um í hvert skipti efnahagserfiðleikana, sem þá séu, og annað slíkt, en þora ekki að kryfja til mergjar orsakirnar til þessa.

Ég held, að hin ranga stefna Framsóknar í fjárfestingarmálunum verði því aðeins stöðvuð, að verkalýðsflokkarnir knýi hana inn á áætlunarstefnu í þjóðarbúskapnum, heilbrigða, viturlega og raunhæfa heildarstjórn á þjóðarbúskapnum út frá hagsmunum þjóðarheildarinnar, knýi hana til að hætta því stjórnlausa, meira eða minna hreppapólitíska braski í úreltri og ranglátri kjördæmaskipun, sem hefur staðið á bak við svo og svo mikið af þeirri fjárfestingarpólitík, sem hún hefur knúið fram.

Ég hef talað svona mikið um heildarstjórnina á íslenzkum þjóðarbúskap vegna þess, að ég geri mér ljóst, að beri verkalýðsflokkarnir ekki gæfu til þess að knýja Framsfl. inn á að breyta hér um stefnu og taka upp slíkt skipulag á þjóðarbúskapnum, þá misheppnast sú tilraun, sem verkalýður Íslands hefur gert til þess að mynda vinstri stjórn með Framsfl., og þá sé spurning um þolinmæði íslenzku verkalýðshreyfingarinnar, hve lengi hún vilji bíða eftir því að sjá, að slík tilraun hafi mistekizt.

Þess vegna vil ég vara við því spori, sem hérna er stigið, en þó alveg sérstaklega vara við þeim sporum, sem vanrækt hefur verið að stíga á undanförnum árum, m.a. vegna þvermóðsku og tillitsleysis Framsfl. gagnvart samstarfsflokkum hans. Og ég vara við þessu vegna þess, að ég vil, að þetta stjórnarsamstarf geti staðið, af því að ég vil, að verkamenn og bændur á Íslandi geti unnið saman. Þess vegna mæli ég þessi orð í fullri alvöru og vil vonast til þess, ef ekki á illa að fara, að tillit verði tekið til þeirra.

Hvað snertir það frv. út af fyrir sig, sem hér liggur fyrir, þá vil ég segja, að eins og nú er komið, þá á það svo að segja ekkert skylt við þau vandamál, sem lágu fyrir í vetur um tekjuöflun til ríkissjóðs annars vegar og útflutningssjóðs hins vegar. Þar var um að ræða gat í fjárl. upp á 65 millj. kr., sem hægt var að deila um, hve miklu þyrfti að bæta við. Þar var um að ræða það, sem vantaði e.t.v. í útflutningssjóð, á milli 20 og 40 millj. kr. Líka var hægt að deila um, hvort það munaði nokkrum milljónatugum eða ekki. Og það var ekki út af fyrir sig vandi að ráða fram úr þeim málum að útvega þessar tekjur. Það var hægt að gera það án þess að breyta um kerfi, eins og nú er gert, og fara inn á þá leið, sem hér er farin. Það var meira að segja að sumu leyti hægt að gera það með gjaldeyrisráðstöfunum einvörðungu. Ég skal aðeins minna á sem dæmi, að ef þær 30 millj. kr. af útlendum gjaldeyri, sem notaðar hafa verið til þess að flytja inn fóðurmjöl til landsins, voru notaðar til þess að flytja inn hátollavörur, þá gáfu þessar 30 millj. kr., ef þær voru notaðar til að kaupa hátollavörur, 70 millj. kr. í ríkissjóð, enda er meira að segja í grg. þessa frv. sýnt fram á, að það er eins mikið og frekar ráðstöfunin á gjaldeyrinum, röng ráðstöfun á honum, stjórnlaus ráðstöfun á honum, sem skapar þau vandræði, sem þá stóðu fyrir dyrum, heldur en hitt, að það hafi vantað svo stórkostlega peninga. Og svo mun líka verða nú á næstunni. Ákvörðunin um, hvernig gjaldeyririnn er notaður, verður eins þýðingarmikil og allt, sem við ræðum um nú viðvíkjandi ýmsum álögum. Stjórnin sjálf á þjóðarbúskapnum, stjórnin á innflutningnum, er eins þýðingarmikil í þessu og allt, sem Alþingi er að ákveða viðvíkjandi lögum um álögur, skatta, tolla, útflutningsgjöld og annað slíkt. Þannig er komið í okkar þjóðarbúi.

Það er vitanlegt, að ekki aðeins frá því í vetur í desember, heldur líka þar áður, hafa dunið á Alþýðubandalaginu kröfurnar um gengislækkun, og það hefur ekki vantað, að Sjálfstfl., sem hér setur nú upp sitt helgiandlit og fórnar höndum, hafi verið til í að taka undir þær kröfur. Við höfum staðið einir uppi, Alþb., í því að reyna að berjast fyrir því að viðhalda gengi íslenzku krónunnar og viðhalda trú manna á peningunum í landinu. Það er orðið hálfundarlegt, að þessir karlar, sem venjulega eru kallaðir kommúnistar, skuli vera orðnir þeir einu, sem reyna að baksa við það að halda uppi gengi gjaldeyris sinnar þjóðar, og að borgarastéttin í landinu skuli ganga fram fyrir skjöldu og allir, sem að einhverju leyti standa með henni, skuli berjast fyrir því að lækka gengi krónunnar. Í hverju einasta landi hér í kringum okkur bregzt ein borgarastétt ekki verr við, en ef sagt er, að nú eigi t.d. hennar sterlingspund að fara að falla, og hennar æðstu menn, seðlabankastjórar og aðrir, lýsa því yfir, að slíkt komi ekki til greina. Hérna eru jafnvel sjálfir seðlabankastjórarnir að ganga fram fyrir skjöldu í tíma og ótíma um að lýsa því yfir, að það þurfi endilega að fella gengi krónunnar. Það er þessi hamslausi áróður og þessar hamslausu kröfur, þar sem Alþb. hefur staðið eitt, sem nú verða þess valdandi, að þarna er látið undan að nokkru leyti.

Það er búið að rægja og ófrægja þá verðstöðvunarstefnu, sem verkalýðshreyfingin hefur viljað beita sér fyrir og fulltrúar Alþb. í ríkisstj. hafa barizt fyrir, með þeim afleiðingum, að nú er það knúið fram, að hún sé yfirgefin. Þetta er rétt að menn geri sér ljóst. Menn hafa verið nægilega duglegir í því að reyna að ófrægja þessa stefnu. Menn koma kannske til með að sjá það, þegar verðhækkunaraldan dynur yfir á næstunni, hvert það leiðir að yfirgefa þetta og hvert það leiðir að gefast upp við að þora að taka t.d. olíuhringunum tak í landinu, að þora ekki að skerða hagsmuni auðvaldsins í þessu landi að minnsta leyti, standa vörð um þá innan ríkisstj., eins og Framsfl. hefur gert, og utan hennar, eins og Sjálfstfl. gerir.

Nú er það auðséð, að um leið og þessi stefna er yfirgefin, en hins vegar ekki gengið inn á þá beinu opinberu og ófyrirleitnu gengislækkun, sem heimtuð var, er farið inn á eins konar millispor og ætlazt til þess, að hlutirnir standi þannig til hausts, og það er vitað af öllum, að í hæsta lagi stendur það þannig til hausts, ef það stendur þangað til. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég lauk þar áður ræðu minni, að ég hafði sagt, að það væri engin lausn á efnahagsmálunum í þessu frv., sem hér liggur fyrir, og það hafa raunar líka þeir ráðh., sem hér hafa talað, viðurkennt. Hæstv. menntmrh, sagði sjálfur, að þetta væri aðeins frestur til hausts. En erfiðleikarnir eru þeir, að það verður miklu erfiðara að leysa þessi mál í haust, þegar svona er búið að fara af stað. Maður keyrir þetta á undan sér og gerir þannig sjálf viðfangsefnin, sem þá hlaðast upp, miklu óviðráðanlegri. Það skellur yfir nú gífurleg verðhækkunarskriða, sem bætist við þau vandamál, sem fyrir voru. Og það, sem ég er sérstaklega hræddur um að verði ein af hættulegustu afleiðingum þessa frv., er, að það verði rifin niður trú manna á gildi peninganna, einmitt trú, sem reynt hefur verið að byggja upp á undanförnum árum, og það vita allir, hvers konar afleiðingar það hefur í þjóðarbúskapnum.

Það er eitt sérstakt atriði, sem ég vildi koma inn á í sambandi við afleiðingar af þessu frv. Hæstv. menntmrh. talaði um, að þetta væri m.a. sérstaklega til þess að forða frá atvinnuleysi. Ég held, að hann hafi tekið óþarflega djúpt í árinni viðvíkjandi því. En það er eitt, sem þyrfti hér að liggja alveg skilyrðislaust fyrir, áður en endanlegar ákvarðanir verða teknar um þetta mál, og það er, hver verði afstaða seðlabankans til að auka veltuféð í landinu. Það er alveg vitanlegt, að við þær verðhækkanir, sem af þessu leiðir, ekki sízt fyrir aðalframleiðsluatvinnugreinarnar og þá sérstaklega sjávarútveginn, þegar það, sem hann þarf af rekstrarvörum, kemur til með að hækka almennt jafnvel um 50%, þá þarf hann náttúrlega að fá mjög miklu meiri lán en áður, og það er vitanlegt, að sjávarútvegurinn hefur átt erfitt uppdráttar í bönkunum og ekki hvað sízt þegar undir seðlabankann hefur þurft að sækja. Það er vitanlegt, að þeir bankar, sem fyrst og fremst lána sjávarútveginum, standa þannig núna, að þeir verða að borga af sínum lánum 12% vexti hjá seðlabankanum nú og lána út með frá 5 upp í 7%, þannig að öll útlán, sem við bætast að óbreyttri pólitík seðlabankans einmitt til þeirra banka, sem sérstaklega lána sjávarútveginum, eru þannig beint tap fyrir þessa banka.

Þessi pólitík er bókstaflega alveg óþolandi í landinu. Og þessi þröngsýna pólitík, sem eingöngu horfir á tekjuafgangshliðarnar í seðlabankanum án þess að skeyta nokkurn skapaðan hlut um þjóðarbúskapinn, er jafnvel að sumu leyti alveg táknræn fyrir þá þröngsýni, sem ríkt hefur á vissum sviðum, og skilningsleysi á hagsmuni undirstöðuatvinnuvegar þjóðarinnar.

Ég álít, að eitt af því, sem þarf skilyrðislaust að liggja fyrir, áður en svona frv. sé afgr., sé slík yfirlýsing frá stjórn seðlabankans um, að það verði séð til þess, að a.m.k. sjávarútveginum og öðrum slíkum undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar verði séð fyrir nægilega auknu veltufé, til þess að þessar ráðstafanir verði ekki til þess að þjarma að þeim, því að annars gæti þetta beinlínis leitt til þess að skapa atvinnuleysi.

Hver verður svo afstaða verkalýðshreyfingarinnar til þessa frv.? Verkalýðshreyfingin hér í Reykjavík hefur raunverulega sameinazt um þá afstöðu án tillits til pólitískra skoðana, og það álit kom alveg fram í till., sem borin var fram á fundum miðstjórnar og efnahagsmálanefndar Alþýðusambandsins og flutt var af fjórum forustumönnum verkalýðsins í Reykjavik og hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Efnahagsmálanefnd og miðstjórn Alþýðusambands Íslands hafa á fundum sínum að undanförnu kynnt sér og rætt till. þær í efnahagsmálum, sem ríkisstj. nú hyggst leggja fyrir Alþingi. Áður hafði sérstaklega verið rætt við stjórn Alþýðusambands Íslands um það atriði tillagnanna, er varðar 5% grunnkaupshækkunina. Að loknum þessum athugunum ályktar efnahagsmálanefndin og miðstjórnin eftirfarandi:

25. þing Alþýðusambands Íslands lýsti yfir því, að gengislækkun eða aðrar hliðstæðar ráðstafanir kæmu ekki til mála sem úrlausn efnahagsmálanna. Þær ráðstafanir, sem nú er hugsað að gera, hafa á ýmsan hátt hliðstæð áhrif og gengislækkun. Hins vegar virðist tryggt, að þær hafi ekki í för með sér almenna skerðingu á kaupmætti vinnulauna næstu mánuði. Greinilegt er, að þessar ráðstafanir í efnahagsmálum muni leiða til frekari verðbólguþróunar og eru því fráhvarf frá þeirri stefnu, er 25. þing Alþýðusambands Íslands fagnaði og lýsti fylgi sínu við og efnahagsmálanefnd og miðstjórn Alþýðusambands Íslands síðan hafa ítrekað, þ.e. að stöðva verðþensluna. Ráðstafanirnar brjóta því í bága við þá stöðvunarstefnu, er verkalýðssamtökin og ríkisstj. þá tóku höndum saman um.

Efnahagsmálanefnd og miðstjórn Alþýðusambands Íslands vísa því frá sér þeim tillögum um ráðstafanir í efnahagsmálunum, er nú liggja fyrir, þar sem þær eru ekki í samræmi við það, er síðasta Alþýðusambandsþing heimilaði þessum aðilum að semja um.“

Þessi till. var felld með eins atkvæðis mun í miðstjórninni, en bak við hana standa sem sé verkalýðsfélögin raunverulega í Reykjavík og Hafnarfirði. Og við skulum gera okkur það ljóst, að þegar sterkasti hluti verkalýðshreyfingarinnar hefur mótað sína afstöðu svona, þá er hætta á ferðum, hætta, sem alveg sérstaklega Framsfl. þarf að taka tillit til, vegna þess að Framsfl. hefur í sínum samningum við verkalýðshreyfinguna nú knúið hana til þess að fallast á vissa hluti, fara alveg fram á yztu nöf.

Það er aðvörun til Framsfl. um að taka meira tillit til verkalýðshreyfingarinnar, en hann hefur gert, sem þarna kemur fram. Það er mismunandi mikið langlundargeð verkalýðshreyfingarinnar í landinu. Hún er öll gagnrýnin á þessar ráðstafanir, alveg eins og ráðh, Alþb. eru gagnrýnir á þessar ráðstafanir. Hún er mismunandi tilbúin í að fara að berjast nú aftur upp á gamla móðinn, verkalýðshreyfingin á Íslandi. Verkalýðshreyfingin í Reykjavik er máske reiðubúnari til slíkrar baráttu, ef henni finnst ráðizt á hennar lífshagsmuni, heldur en verkalýðshreyfingin úti um land, sem veit, hve mikið hún á í húfi, ef stöðvun yrði á þeirri stefnu uppbyggingar á landsfjórðungunum þremur, sem var byrjað að leggja í eyði með þeirri pólitík, sem rekin var á þeim sjö mögru árum. Verkalýðshreyfingin er kannske mismunandi reiðubúin til baráttu, og verkalýðshreyfingin í Reykjavík hefur sérstaklega gefið sínar aðvaranir í þessu, aðvaranir, sem alveg sérstaklega Framsfl. þarf að taka tillit til, ef hann vill hafa samstarf við verkalýðshreyfinguna á Íslandi áfram.

Verkalýðshreyfingin á Íslandi öll fagnaði þessari stjórn, þegar hún tók við. Hún sýndi skilning á hennar tilmælum til verðstöðvunarinnar 1956 í ágúst–september. Verkalýðshreyfingin hefur sýnt þessari stjórn hollustu, og Framsfl., sem hefur forustu þessarar ríkisstj., þarf ekki að kvarta yfir því, að verkalýðshreyfingin hafi ekki viljað reyna að ná við hann góðu samkomulagi. En það dugir ekki að misnota slíka hollustu og slíka tillitssemi. Verkalýðshreyfingin á Íslandi er nú eins og fyrr reiðubúin til þess að berjast, ef á þarf að halda.

Ég vil alveg sérstaklega segja það út af því, sem hæstv. forsrh. minntist á viðvíkjandi vísitölukerfinu, — og það virðist liggja honum þyngst á hjarta, þegar hann byrjaði sína ræðu hér í dag, og ég hef séð líka í Tímanum árásir á það nú að undanförnu og jafnvel komið inn á það í grg. þessa frv., að þar þurfi alvarlega að fara að endurskoða, — ég vil minna á, að verkalýðurinn fann sér vísitölukerfið með því að brjóta á bak aftur gerðardómslög, sem Sjálfstfl. og Framsfl. settu í sameiningu í janúar 1942, og skóp þá það vísitölukerfi, sem síðan hefur nokkurn veginn staðið. Verkalýðshreyfingin á Íslandi hefur sýnt sig að vera nægilega sterkt vald til þess að knýja slíkt fram. Og út af því, sem hv. þm. G-K. var að tala um, hvílíkur háski væri af því, að Alþ. og ríkisstj. væru að taka tillit til afla utan þingveggjanna, þá vil ég aðeins minna hann á tvennt, annað til varnaðar og hitt til eftirbreytni: Annars vegar á það, að hann var einn af þeim ráðh., sem stóðu að gerðardómslögunum í jan. 1942, og ég býst við, að hann hafi löngum síðan óskað þess, að hann hefði þar aldrei komið nærri. Verkalýðurinn sýndi það þá, að hann hefur vald, ef þannig er gengið á hans hagsmuni, til þess að verja sig og til þess að sækja á. Og ég vil hins vegar minna hv. þm. G-K. svo á til eftirbreytni, að hann hefur sjálfur í þeirri einu almennilegu stjórn, sem hann hefur veitt forsæti á Íslandi, samið við Alþýðusambandið og verkalýðssamtökin utan þingveggjanna, vegna þess að hann skildi þá og sá, að það var það vald, sem þurfti að semja við, ef það átti að vera eitthvert vit í stjórn á Íslandi, þannig að það er bezt fyrir hann að gleyma ekki reynslu þessara ára, áður en hann fer að prédika yfir Framsfl., hvílíkur háski það sé að taka tillit til lýðsins í landinu, þegar á að vera lýðræði í því. Vísitölukerfið er fyrir þann almenna verkamann sjálfsvörn hans gegn slæmri stjórn á þjóðarbúskapnum. Vísitölukerfið er engin vonlaus sjálfhreyfivél, eins og hæstv. forsrh. vildi gera það að. Það er hægt að gera það að slíku með ýmsum vitlausum ráðstöfunum, en það er ekki verkalýðshreyfingin, sem hefur beitt sér fyrir því.

Hæstv. forsrh. talaði mikið um, að það þyrfti raunverulega bara að reikna í prósentum, hvernig framleiðsluháttunum væri komið. Það er nú nokkuð grunnt tekið hjá honum að taka það þannig. Slík prósenta gæfi aldrei annað, en hvernig dýrtíðin yxi í landinu á vissum vörum eftir því, hvernig stjórnað væri. Hún lagaði ekki neitt um og sýndi ekki, hvort grundvöllurinn væri heilbrigður, sem þarna væri um að ræða. Það er vissulega hægt að nota vísitöluna sem hitamæli þannig, ef manni finnst þjóðlífið sjúkt. En almennt telur maður, að ef um sjúkling er að ræða og mældur er í honum sótthiti, þá sé ekki nóg bara að mæla sótthitann, heldur þurfi þá að reyna að lækna veikina, sem sjúklingurinn þjáist af, finna orsökina og útrýma henni. Og einmitt um orsakir til þess, sem getur gert þjóðlífið veikt, hef ég rætt hér nokkuð og ætla ekki að endurtaka það.

Hæstv. forsrh. talaði um, að jafnan þyrfti að binda vísitöluna við þjóðartekjur. Það færi þá kannske nokkuð eftir því, hvernig þeirra þjóðartekna væri aflað, hve skynsamlega þjóðarbúskapnum væri stjórnað, hvort slíkt væri yfirleitt fært. Vísitalan er vörn verkalýðsins við afleiðingum af rangri efnahagsstefnu, og vísitalan er alveg óhjákvæmileg fyrir þann almenna verkamann, sérstaklega meðan hann fær ekki að ráða þjóðarbúskapnum, meðan hann fær ekki að ráða efnahagspólitíkinni. Það er rétt, að það getur komið til athugunar, að það þurfi að endurskoða í fyrsta lagi samhengið á milli þeirrar vísitölu, sem hinn almenni verkamaður fær, og þeirrar vísitölu, sem gildir nú á kaupi bóndans, vegna þess að forsendan, sem lá fyrir 1943, þegar samið var um þau mál, var, að landbúnaðurinn væri líka skipulagður með þarfir þjóðarinnar fyrir augum. Það er gefið, að það er alveg óhugsandi að halda uppi kaupi bónda sömu eins og kaupi verkamanns í kaupstað, ef sú afurð, sem bóndinn framleiðir, er t.d. óseljanleg. Það er gengið út frá viti í grundvelli búskaparins og framleiðslunnar, sem rekin er, ef á að samræma þetta. Það getur verið, að þarna þurfi að kippa úr sambandi, ef ekki verður tekin upp skynsamlegri pólitík, en þarna hefur verið rekin. Í öðru lagi getur líka verið, að það þurfi að kippa úr sambandi vísitölu þess almenna verkamanns og vísitölu hálaunamannanna. Það var ekki það, sem verkalýðurinn barðist fyrir í upphafi, að hæst launuðu menn þjóðfélagsins fengju tvöfaldar uppbætur á við almennan verkamann. Það eru aðrir, sem hafa sett það inn á móti fulltrúum verkalýðsins á Alþ. á sínum tíma. En hitt, að ætla sér á einhvern hátt að afnema vísitölukerfið sem vörn þess almenna verkamanns gegn rangri efnahagsstefnu, gegn dýrtíð í þjóðfélaginu og öðru slíku, það kemur ekki til neinna mála, og það fellst ekki verkalýðshreyfingin á.

Hitt aftur á móti, að hæstv. forsrh. skuli gera svona mikið úr þessu, bendir til þess, að Framsfl., ef hann áttar sig ekki í tíma á, hvert hann er nú að fara, mun ætla sér að stíga önnur skref á þeirri braut, sem hæstv. forsrh. vildi álíta að þetta frv. væri fyrsta skrefið á.

Verkalýðurinn mun standa vörð um vísitölukerfið, sem tryggir þann almenna verkamann gegn dýrtíð. Það er eitt af því dýrmætasta, sem hann hefur áunnið sér, ein hans dýrmætasta vörn gagnvart því, ef þjóðfélaginu er stjórnað meira eða minna ranglátt, skakkt eða vitlaust.

Þá að síðustu: það hefur verið lýst hér eftir ráðum Sjálfstfl. við efnahagsvandamálum okkar þjóðarbús. Ég býst við, að það verði mjög erfitt að fá Sjálfstfl. til að koma fram með þau. Ég býst satt að segja við, að Sjálfstfl. hafi ekkert á móti því, að þetta frv. sé samþykkt, og þó að hann leiki nú stjórnarandstöðu við það, þá muni hann hugsa gott til glóðarinnar um það, sem á eftir komi.

Ég vil benda á öllum þeim, sem unna vinstri stjórn og vinstri pólitík, að það er að verða nokkuð góð aðstaða, sem auðmannastéttin í þessu landi og Sjálfstfl. sem flokkur hennar hefur nú. Það eru ekki skert völd auðmannastéttarinnar að neinu leyti. Till. okkar um það fást ekki fram. Auðmannastéttin fær að halda sínum völdum óskertum, þótt krukkað hafi verið í hennar gróða. Hún fær þá aðstöðu að geta leikið stjórnarandstöðu við þær ráðstafanir, sem ríkisstj. álítur nauðsynlegt að grípa til, og það jafnvel þegar þær ráðstafanir eru eins og partur af þeim ráðstöfunum, sem Sjálfstfl. mundi framkvæma sjálfur, ef hann væri við völd. Hvað mundi Sjálfstfl. hafa gert, ef hann hefði verið við völd nú undir þessum kringumstæðum? Hann hefði sett svona lög, gengið enn þá lengra og bætt því við, að í stað 5% lögskipaðrar kauphækkunar skyldi binda kaupið og skerða þannig lífskjörin. Nú stendur Sjálfstfl. í þeirri aðstöðu, að þegar vinstri stjórn þorir ekki að reka vinstri pólitík, pólitík áætlunarbúskapar og þjóðnýtingar, þá er spilað upp í hendurnar á Sjálfstfl. með því lýðskrumi, sem hann hefur um hönd.

Ég skal vera viss um það, ef hæstv. fjmrh. gengi yfir til hv. þm. G-K., sem hér var að tala áðan, — mér fannst eiginlega afstaða hans gagnvart frv. koma bezt fram í því, hve honum var nú glatt í geði, raunverulega lék hann við hvern sinn fingur, honum þótti svo vænt um að sjá nú vinstriflokkana vera að koma þessu í gegn, sem væri eins og eitthvert spor, sem hann ætlaði sér að halda áfram að stiga, — ég skal vera handviss um, ef Eysteinn gengi yfir til Ólafs Thors og segði við hann: „Heyrðu, ég ætla nú bara alveg að hætta við þetta frv., fyrst þér er svona voðalega illa við það“ — þá mundi Ólafur segja: „Nei, góði bezti, haltu bara áfram, mér er ekki eins leitt og ég læt.“ Það er alveg gefið, að Sjálfstfl. kýs ekki að láta neitt uppi um, hvað hann vill núna. Hann ætlar að bíða og sjá og leika tveim skjöldum. Hann hefur hjálpað til undanfarið að prédika gengislækkun og prédika, að það væri þörf á lífskjaraskerðingu. Það má vel vera, að Sjálfstfl, geti leikið þann leik nokkurn tíma, en að því getur komið, að meira að segja þeir menn af verkalýðsstétt og launþegum, sem Sjálfstfl. fylgja, eigi eftir að taka sumt af því í alvöru, sem Sjálfstfl. hefur verið að prédika stundum um launahækkanir, og það komi þá e.t.v. ekki til að skorta á forustu um að knýja það fram. Ég vil minna Sjálfstfl. á, þegar hann leikur svo tveim skjöldum eins og hann gerir nú, að hann er að leika sér með eld, sem getur brennt hann sjálfan, þegar þar að kemur. Það er aldrei þægilegt fyrir aðalauðmannaflokk einnar þjóðar að ætla að þykjast vera verkamannaflokkur um leið.

Hitt skulum við gera okkur ljóst, að þó að Sjálfstfl. þykkist yfir því, sem hér er gert, og reyni að spila sig í andstöðu við það, þá hugsar hann til hreyfings undir haustið, ekki máske endilega þess hreyfings að beita sér fyrir harðvítugri sókn launþeganna í þjóðfélaginu, heldur til annars hreyfings: að knýja fram eins og 1950 gengislækkun með meiri eða minni kaupbindingu þá.

Verkalýðurinn hér í Reykjavík hefur sett fram sína viðvörun út af því frv., sem hér á að samþykkja. Verkalýðurinn í Reykjavík stendur að mínu áliti saman um þessa viðvörun án tillits til þess, hvar í flokki hann stendur, hvort hann fylgir Alþb., Alþfl. eða jafnvel Sjálfstfl. Ég vil segja það við verkalýðinn hér í Reykjavik og annars staðar á landinu, ef verkalýðurinn ber ekki gæfu til þess að sameinast og rísa upp án tillits til sinna pólitísku skoðana og ef verkalýðsflokkarnir hér á Alþ. bera ekki gæfu til þess að taka höndum saman án tillits til þess, sem skilur þá, til þess að knýja fram breytingu á efnahagspólitíkinni og knýja fram forustu verkalýðsins í íslenzkri pólitík, þá verður næsta skrefið á Íslandi það, að Framsókn og Sjálfstfl. taka höndum saman um opinbera gengislækkun á Íslandi, eða við skulum segja um hækkun í útlendu gengi um yfir 100%, um kaupbindingu og kjaraskerðingu, sem mundi samsvara 17–20% launalækkun hjá íslenzkum verkalýð. Þetta er það, sem við skulum horfast í augu við, og þetta er það, sem við skulum vígbúast undir.

Í sambandi við þetta frv. og þann frest, sem hefur gefizt til haustsins með því, þá er þessi hætta, sem vofir yfir. Og þetta er rétt að allur verkalýður og allir launþegar hafi í huga, líka gagnvart þeirri afstöðu, sem Sjálfstfl. kemur til með að taka hér. Við stöndum nú á örlagastund fyrir alla íslenzka verkalýðshreyfingu. Hún þarf að sameinast á sviði stjórnmálanna eins og á sviði hagsmunamálanna, sameinast um að vernda sin lífskjör með því fyrst og fremst að knýja fram skynsamlega stjórn á okkar þjóðarbúi. Undir því er það komið, hver lífskjör verkalýðsins verða í framtíðinni, undir því er það komið, hvers konar ríkisstj. verður á Íslandi á næstunni. Það er stuttur tími, sem íslenzk alþýða hefur til þess að átta sig á þessu, en ef hún notar þann tíma rétt, þá er enn þá hægt að bæta, meira að segja líka úr því óheillaspori, sem að mínu áliti yrði stigið með því að samþykkja þetta nú.