16.05.1958
Neðri deild: 96. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1077 í B-deild Alþingistíðinda. (956)

186. mál, útflutningssjóður o. fl.

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Það er rétt, að ég byrji mál mitt með því að svara nokkrum fsp., sem hæstv. menntmrh. beindi til mín við umr. málsins í fyrrinótt.

Fyrsta spurningin var sú, hvort ég teldi rétt að fella gengi krónunnar, eins og nú stæðu sakir. Ég mun víkja nokkuð að henni síðar í ræðunni, en ekki svara henni þegar.

Önnur spurningin var sú, hvort ég teldi fært að hafa uppbætur þær til útflutningsins, sem ákveðnar eru í lögunum, lægri.

Um þetta atriði verð ég að segja það, að ég hef því miður ekki haft aðgang að neinum þeim upplýsingum um rekstrarafkomu útvegsins, sem skoðun á því yrði að byggjast á, og treysti ég mér því ekki til að svara henni.

Þriðja spurningin var sú, ef ég tók rétt eftir, hvort ég teldi, að skipta bæri innflutningnum á annan hátt í gjaldaflokka, heldur en gert er. Ég tel vist, að ef ég hefði heildaryfirlit yfir þessa skiptingu, þá mundi ég vilja breyta henni í mörgum einstökum atriðum. En eins og hæstv. menntmrh. er einmitt vegna sinnar menntunar mjög vei kunnugt, þá er ekki til neinn einhlítur mælikvarði á það, hvernig slíka skiptingu eigi að gera, og er þar um að ræða einmitt einn af göllum þess kerfis, sem hér er lagt til að tekið verði upp.

Að öðru leyti vil ég byrja mál mitt með því að lýsa því yfir, að ég harma það, hverja meðferð þetta mál hefur fengið til þessa hér í þinginu, að þingið skuli ekki hafa haft lengri tíma til athugunar á málinu og að ekki skuli hafa verið lagðar fram meiri upplýsingar um þessi atriði, heldur en raun er á.

Menn hafa kannske tekið eftir því, að ég notaði það orð, að ég harmaði þessi vinnubrögð, Ég sagði ekki, að ég teldi þau eða vítti þau, sem e.t.v. væri þó ástæða til. En ástæðan til þess, að ég hagaði orðum mínum á þennan veg, er sú, að mér er kunnugt um eða ég tel miklar líkur á því, að það sé einmitt eymdin á stjórnarheimilinu, sem er orsök þessara vinnubragða, ekki hitt, að ýmsir einstakir ráðherrar, jafnvel ríkisstj. í heild, hefði í sjálfu sér ekki óskað eftir því, að málið fengi aðra meðferð.

Það er sérstök ástæða til þess að harma þetta, ekki eingöngu vegna þess, hversu viðamikið mál er hér um að ræða, heldur einnig vegna þess, að þótt að vísu séu hér í meginatriðum gamlir kunningja á ferðinni, þannig að lagðir eru á hærri skattar og tollar til þess að bæta upp útfluttar afurðir, þá hafa þó viss ný sjónarmið komið fram í sambandi við þær till., sem hér eru lagðar fram, og það er alltaf þannig, að það verður nokkru erfiðara að átta sig á því, sem nýtt er, heldur en því, sem er gamalkunnugt. Ég er ekki með þessu að segja, að það nýja þurfi endilega að veragott, því að sennilega gildir það nokkurn veginn sem regla í mannlífinu, að það, sem er nýtt, er venjulega ekki gott, en aftur á móti það, sem er gott, er að jafnaði ekki nýtt. En þó er svo ekki alltaf, eins og allir vita.

Ég býst við því, að stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. hafi orðið varir við það, að almenningi þyki afkvæmi það, sem nú er í heiminn borið eftir langar og strangar fæðingarhríðir, ekki frítt. Ég er þó ekki í tölu hinna vonsviknu hvað þetta snertir, og veldur því ekki eingöngu lítið traust, sem ég ber til hæstv. ríkisstj., heldur líka hitt, að mér er ljóst, að það eru ekki til nein galdralyf, sem leyst geti efnahagsvandamálin án þess, að nokkur finni til óþæginda.

Málgögn hæstv. ríkisstj. hafa undanfarið brýnt mjög fyrir þjóðinni nauðsyn þess að efnahagsvandamálin væru rædd af alvöru og ábyrgðartilfinningu. Ég get fyllilega undir það tekið, því að ég geri mér ljóst, að einmitt þetta er skilyrði þess, að málum þessum verði nokkurn tíma skipað á viðunandi hátt. En hitt get ég þó ekki stillt mig um að minna á, að þeim leikreglum, sem hæstv. stjórnarsinnar nú heimta að fylgt sé af öðrum, hefur ekki undanfarið verið fylgt af þeim, ef litið er á þá sem heild. Það, að ég minni á þetta atriði, er þó ekki sprottið af löngun til stríðni eða hvefsni, slíkt væri óviðeigandi, þegar svo alvarlegt mál er til athugunar, heldur hinu, að óábyrgur málflutningur og ólýðræðislegar bardagaaðferðir sumra þeirra, er nú hossa sér í ráðherrastólunum, eru einmitt meginorsök þess öngþveitis, sem nú ríkir í efnahagsmálum. Hef ég þar fyrst og fremst í huga kommúnista og bardagaaðferðir þeirra, er þeir voru í stjórnarandstöðu. Ég vil nú leyfa mér að rekja þá þróun í allra stærstu dráttum.

Þegar Sjálfstfl. myndaði minnihlutastjórn sína seint á árinu 1949, ríkti hér algert öngþveiti og upplausn í efnahagsmálum, eins og kunnugt er, og rek ég það ekki nánar. Ríkisstj, Sjálfstfl. lét það þá verða sitt fyrsta verk að leggja fram alhliða till. til viðreisnar efnahagsmálunum og framkvæmdi þær till. síðan, eins og kunnugt er, í samstarfi við Framsfl. Vegna óviðráðanlegra ástæðna, sem ekki urðu séðar fyrir veturinn 1949–50, þegar þessar till. voru undirbúnar, — á ég þar fyrst og fremst við Kóreustyrjöldina og þær miklu verðhækkanir, sem urðu af völdum hennar, sem sköpuðu okkur óhagstæðari viðskiptakjör, — vegna þessa reyndust þessar ráðstafanir ekki fullnægjandi til þess að rétta við hag sjávarútvegsins í heild. Veturinn eftir var þá gripið til bátagjaldeyriskerfisins svokallaða. Sumir hafa haldið því fram, að það, að bátagjaldeyriskerfið hafi verið tekið upp, sé sönnun þess, að gengislækkunarráðstafanirnar hafi runnið út í sandinn, eins og það hefur verið orðað. Það hefði vitanlega verið hægt að fara aðrar leiðir, en þær, að taka bátagjaldeyrisfyrirkomulagið upp. Það hefði verið hægt að framkvæma viðbótargengisfellingu, sem ekki hefði þurft að vera stórvægileg. Hún hefði að vísu kostað nokkru meira í bili, en verið til þess fallin að skapa fullkomið jafnvægi í efnahagsmálum, þegar frá leið. Ástæðan til þess, að sú leið var ekki farin, var sú, að sterkir aðilar í þjóðfélaginu, sem hafa mikið vald í efnahagsmálum, lýstu sig andvíga því, eða það var vitað, að þeir væru því algerlega andvígir, að sú leið væri farin, og á ég þar fyrst og fremst við launþegasamtökin. Það má e.t.v. ámæla þeirri ríkisstj., sem þá sat við völd, fyrir það að hafa tekið tillit til þess. En það situr þó sízt á þeim, sem einmitt höfðu forustu fyrir mótspyrnu gegn því, að þessi leið væri farin, eða vitað var að mundu hafa forustu í því efni.

En þótt segja megi þannig, að bátagjaldeyrisfyrirkomulagið hafi verið þjófur í spilunum, þá tókst þó að skapa einmitt vegna þeirra ráðstafana, sem gerðar voru með gengislækkuninni 1950, frá seinni hluta árs 1952 til vorsins 1955 það mesta jafnvægi í efnahagsmálum þjóðarinnar, sem þjóðin hefur átt við að búa allt síðan 1929. Verðlag var stöðugt, þannig að vísitala framfærslukostnaður var sú sama í maí 1955 sem hún hafði verið í október 1952. Það var hægt að losa mjög verulega um innflutningshöftin, veita frelsi til almennra byggingarframkvæmda og koma á sæmilegu jafnvægi á sviði peningamála og gjaldeyrismála, þannig að þrátt fyrir mjög verulegar framkvæmdir á þessu tímabili var hægt að komast hjá því að taka erlend lán, svo að nokkru verulegu næmi. Þessi var árangur þeirra ráðstafana, sem gerðar voru, þannig að sú fullyrðing, að þær hafi með öllu runnið út í sandinn, er auðvitað algerlega úr lausu lofti gripin. Stjórnarandstæðingar, sem þá voru, börðust með hnúum og hnefum gegn þessum ráðstöfunum, eins og kunnugt er. Í málflutningi kommúnista sérstaklega var ráðh. þeim, sem með völdin fóru, nánast lýst sem „sadistum,“ sem hefðu ánægju af því að pína almenning með gengisfellingu, bátagjaldeyri, tollum og sköttum, án þess að slíks væri í rauninni nokkur þörf. Nei, það á ekki að gera þetta, sögðu kommúnistar, það á að leysa þessi mál með öðrum hætti, það á að leita nýrri og betri markaða, það á að auka útflutningsframleiðsluna, og með þessu er hægt að ná þeim árangri, sem gera mundi allar áður nefndar ráðstafanir óþarfar. Að því leyti sem það kynni ekki að duga, þá átti að leggja byrðarnar á breiðu bökin, eins og það var orðað. Hitt var með öllu óþarft, að leggja nokkrar fórnir á almenning vegna þessara mála.

Hámarki sínu náði ábyrgðarleysi kommúnista í verkfallinu 1955, og eins og kunnugt er, var giftuleysi Alþfl. því miður svo mikið, að hann fylgdi þeim út í ævintýrið. Sú verðbólgualda, sem þá var hrundið af stað, er undirrót þeirra vandamála, sem nú er við að etja. Þá var vakinn upp sá draugur, sem hæstv. núverandi ríkisstj. er að verða undir í viðureigninni við, sem segja má að sé að makleikum. En hitt er verra, að það er hætta á því, að efnahagslíf þjóðarinnar í heild kunni einnig að verða undir í þeirri viðureign.

Afleiðingin af verkfallinu varð sú, að verðlag fór stórum hækkandi og ný vandamál sköpuðust, sem sú ríkisstj., sem þá fór með völdin, samstjórn Framsfl. og Sjálfstfl., gat ekki komið sér saman um, hvernig leysa ætti. Í því tilefni var efnt til kosninganna 1956, eins og kunnugt er, og upp úr þeim kosningum var svo núverandi hæstv. ríkisstj. mynduð.

Það er kannske einhver versta afleiðing verkfallsins frá 1955, að með því mátti í rauninni segja, að verkföll væru af öðrum, en kommúnistum, viðurkennd sem tæki til þess að hafa áhrif á þróun stjórnmálanna í landinu. Þarf ekki að lýsa því nánar, hverjar hættur það hefur í för með sér, þegar farið er að nota framleiðslustöðvanir ekki eingöngu sem tæki til þess að ná hagstæðum samningum við gagnaðila, þegar atvinnurekendur og launþegar semja um kjörin, heldur einnig til þess að hafa áhrif á gang þjóðmálanna. En um það atriði skal ég ekki fjölyrða frekar.

En hvernig hefur svo þróunin í þessum málum verið, síðan vinstri stjórnin kom til valda? Hæstv. sjútvmrh. talaði um það á miðvikudaginn var, að sú 6%, — það var helzt að skilja hann þannig, — sú 6% kauphækkun, sem eitt ákveðið stéttarfélag, nefnilega Iðja, fékk hér í bænum, hefði í rauninni orðið til þess að setja stöðvunarstefnu hæstv. ríkisstj. algerlega úr böndunum. Ég gat ekki skilið það öðruvísi. En í þessu sambandi vil ég leyfa mér að minna á það, að sumarið 1955 gerði Alþýðusambandið undir stjórn núverandi hæstv. félmrh. ýmsar samþykktir um það, sem birtar voru í blöðum, að það væri dæmalaus verkalýðsfjandskapur, að nokkrar verðhækkanir ættu sér stað af völdum þeirra allt að því 20% kauphækkana, sem knúnar voru fram með verkfallinu 1955 og urðu svo í rauninni meiri vegna vísitöluáhrifanna. Í þessum samþykktum var tekið fram, að það væri e.t.v. eðlilegt, að vegna þessara 20% kauphækkana hækkaði verðlagið um 2 eða 3%. Nú eiga aftur á móti 6% kauphækkanir til handa einu stéttarfélagi að setja allt verðlagskerfíð úr böndunum. Þetta er nú samræmið í þeim málflutningi.

Eins og kunnugt er, var það fyrsta verk vinstri stjórnarinnar að framkvæma vísitölubindinguna haustið 1956. Í því sambandi er dálítið gaman að minnast á það, að á Alþýðusambandsþinginu 1956 voru lagðir fram útreikningar, gerðir af sérfræðingum Alþýðusambandsins í efnahagsmálum, er áttu að sýna það, að kaupmáttur launa hefði frá því fyrir verkfallið 1955 aukizt um 7%, og var það auðvitað að frádreginni vísitöluskerðingunni. En nú minnast kannske ýmsir, sem hér eru, þess, að í byrjun verkfallsins 1955 buðu atvinnurekendur 7% kjarabætur, ekki kauphækkanir, því að það er náttúrlega engin trygging fyrir því, að 7% kauphækkanir gefi sams konar kjarabætur. Með þessu var m.ö.o. vísindalega sannað, að allur sá árangur, sem varð af verkfallinu 1955 fram yfir það, sem stóð til boða af hálfu atvinnurekenda án verkfalls, var tekinn aftur með bráðabirgðalögunum haustið 1956, sem var það fyrsta, sem sú ríkisstj, gerði.

Það var þó ekki nóg að skerða launin með þessu móti. Næsta sporið var svo hin fræga jólagjöf um áramótin 1956–57. Það kerfi, sem þá var tekið upp, fólst í því, að hækkaðar voru verulega álögur á flestum innfluttum vörum, en þó var leitazt við að hlífa hinum svonefndu vísitöluvörum, þannig að það tókst þrátt fyrir þessar álögur að halda vísítölunni nokkurn veginn óbreyttri. En auðvitað var það á kostnað þess, að aðrar vörur hækkuðu meira.

Ég skal ekki ræða hér það mál, sem dálítið hefur borið á góma fyrr í þessum umr., hvernig reikna beri út skattbyrðina fyrir þjóðfélagið í heild. Í því efni eru ýmsar skoðanir uppi, bæði meðal leikra og lærðra. En hvað sem því atriði líður, þá getur þó ekki verið neinn vafi á því, að sá tekjutilflutningur, sem hér er um að ræða, hlýtur alltaf að skerða kjör þeirra, — miðað við það ástand, sem áður var, — sem tekjurnar eru færðar frá, þannig að um skerðingu kaupmáttar launa hefur auðvitað verið að ræða. En það, að hún kemur ekki fram, þegar miðað er við vísitölu, er auðvitað fólgið í því, að aðrar vörur en vísitöluvörurnar, sem almenningur þó notar, komu til að hækka meira. Í þessu sambandi verð ég að segja eins og hv. 2. þm. Eyf. (MJ) hér fyrr við umr., að ég skildi ekki fyllilega röksemdir hæstv. menntmrh. fyrir því, að þessi skerðing kaupmáttar launa kæmi ekki til greina, fyrr en tekjurnar væru orðnar yfir 60–65 þús. kr. Mér var ekki fyllilega ljóst, á hverju það væri byggt. Það væri e.t.v. hægt að halda því fram með nokkrum rétti, að vísitalan sýndi rétta mynd af verðlaginu hvað snertir þær fjölskyldur, sem hafa sömu raunveruleg laun og verkamenn þeir, sem héldu þá búreikninga, sem vísitalan byggðist á 1939–40, en það tekjumark skilst mér að sé allmiklu lægra en þessi 60–65 þús. kr. Það ætti, að því er ég bezt veit, að vera eitthvað um 35 þús. kr. En þetta atriði skiptir nú í rauninni ekki meginmáli. Og varðandi þær till., sem hér liggja fyrir, eins og allar aðrar slíkar till., þá verður þýðingarmesta spurningin sú, hvort til eru nokkrar aðrar ráðstafanir, sem mundu valda minni óþægindum í bráð eða lengd heldur en það, sem hér er um að ræða.

En áður en sú spurning verður tekin til meðferðar, sem ég skal hér ræða nokkuð, hvaða leiðir væru hugsanlegar út úr þeim ógöngum, sem nú er við að etja, þá verður þó áður að gera sér grein fyrir tveimur mikilvægum atriðum: Í fyrsta lagi þeirri spurningu, hvað varanlegar þær ráðstafanir, sem um er að ræða, eiga að vera. Það á nefnilega sama við um ráðstafanir í efnahagsmálum og um vegg, sem hlaða á, að fyrirhöfn og árangur standa nokkurn veginn í réttu hlutfalli hvort við annað. Á sama hátt og hrófatildur kostar minni fyrirhöfn, en vel hlaðinn veggur, kosta varanleg úrræði meiri óþægindi í bili, en þau, sem vænta má að geti orðið til einhverrar frambúðar. Til að skýra þetta dæmi nánar er það þannig, miðað við núverandi aðstæður, að það mundi kosta minnst óþægindi næstu vikurnar að gera ekki neitt, en jafna hallann á ríkissjóði og útflutningssjóði með yfirdrætti í seðlabankanum. Það er nokkuð, sem ekki mundi snerta neina í bili. Eftir sem áður treysti ég mér ekki til að mæla með þessari leið, því að það er mér ljóst, að þegar frá liði, mundi myndast hér svipað ástand og hæstv. menntmrh. hefur áður lýst í umr. hér.

Sú leiðin, fyrir utan þessa, sem minnst útgjöld mundi hafa í för með sér í bili, er ráðstafanir byggðar á svipuðum sjónarmiðum og hin svonefnda jólagjöf byggðist á: að greiða mismunandi háar útflutningsuppbætur og láta hverja einstaka grein útvegsins aðeins hafa það minnsta, sem hægt er að komast af með. Vilji maður jafna hallann, mundi þessi leið hafa minnst óþægindi í för með sér. Annað mál er það, að þegar frá líður, hlýtur þetta kerfi allt að fara úr böndunum, en það mun ég ekki rekja hér nánar. Sú ráðstöfunin, sem mest mundi kosta þannig reiknað, væri gengisfelling, en með því móti væri hægt að skapa jafnvægi til frambúðar. Með því er þó ekki sagt, að ég telji rétt, að sú leið sé farin að svo stöddu. Að því mun ég víkja hér á eftir. En yfirleitt er það þannig, að því varanlegri ráðstafanir sem um er að ræða, þeim mun meiri óþægindi hljóta þær að kosta í bili.

Annað atriði, sem fyrir fram verður að gera sér ljóst, þegar rætt er um till. í efnahagsmálum, er það, að þeir, sem slíkar till. gera, verða að hafa stefnu í efnahagsmálum, vita, hvers konar ástand það er, sem þeir óska að keppa að. Stjórnarsinnar hafa núið sjálfstæðismönnum því um nasir, að þeir hefðu raunverulega enga stefnu fram að færa í þessum efnum.

Þetta er algerlega úr lausu lofti gripið, því að flokkurinn hefur ávallt haft fastmótaða stefnu í þessum efnum, sem verið hefur óbreytt frá stofnun flokksins. Stefnan er sú að skapa sem mest frjálsræði í viðskiptamálum innanlands og utan á grundveili jafnréttis mismunandi atvinnurekstrar, einkarekstrar og félagarekstrar í mismunandi formi. Það er meiri ástæða til þess að spyrja um það, hvaða stefnu ríkisstj. hafi, þegar litið er á hana sem heild, En að því atriði mun ég koma síðar.

Ég ætla ekki að ræða þá leið, sem að undanförnu hefur verið farin hér á landi í þessum efnum, uppbótaleiðina, því að hún kemur ekki til greina sem varanleg úrlausn. Þessari leið má að mínu áliti líkja við vegg, sem ekki er hlaðinn í samræmi við lögmál um burðarþol og undirstöðu, hann hlýtur fyrr eða síðar að hrynja. Það er hægt að skjóta slíku á frest með því að setja við hann skáskífur, en eftir sem áður hlýtur slíkur veggur að hrynja.

Spurningin er þá sú, hvaða varanleg úrræði í þessum efnum væru hugsanleg. Þar koma ýmsar leiðir til greina, en í þessu efni er í rauninni hægt að halda í tvær áttir. Önnur leiðin er sú, sem bent er á af sósíalistum, að taka upp allsherjar þjóðnýtingu og áætlunarbúskap. Ég er þessari leið vissulega andvígur og tel, að hún mundi hafa verulega kjaraskerðingu í för með sér fyrir almenning í landinu. En það skiptir ekki máli í þessu sambandi. Hér gæti verið um lausn að ræða á þeim vandamálum, sem við er að etja. Það, hvort jafnvægi er í gjaldeyrismálum o.s.frv., skiptir ekki sama máli fyrir þjóðarbúskap Sovétrússa eins og okkar. Þetta er ein af hinum hugsanlegu leiðum. Hin meginstefnan er sú að skapa það, sem kallað hefur verið á seinni tímum jafnvægi í efnahagsmálum, en gekk undir heitinu „frjáls samkeppni“ í kringum 1930. Með þessu er í meginatriðum átt við það, að hægt sé að gefa verzlunina við önnur lönd frjálsa, án þess að halli sé á viðskiptajöfnuði, og skapa skilyrði fyrir framkvæmdir á grundvelli einkaframtaks innanlands. Ég ræði það atriði ekki nánar, enda mundi það leiða of langt að lýsa því, hvað í þessu jafnvægi felst í einstökum atriðum, enda geta um minni háttar atriði verið dálitið skiptar skoðanir. Til þess að ná slíku jafnvægi koma mismunandi leiðir til greina.

En áður en svo langt er haldið að minnast á þær leiðir, er þó rétt að drepa á tvennt, sem er skilyrði fyrir því, að það þýði nokkuð að leggja inn á slíkar brautir. Annað atriðið er það, að taka verður það vísitölukerfi, sem við höfum hingað til búið við, til gagngerðrar endurskoðunar. Ég segi ekki, að vísitölukerfi í einhverri mynd geti ekki samrýmzt sæmilegu jafnvægi í verðlagsmálum, en ekki þó í þeirri mynd, sem við eigum nú við að búa. Um þetta atriði hef ég, eins og hv. þdm. e.t.v. er kunnugt, flutt till. í samráði við minn flokk fyrr á þinginu. Og sú hugmynd, sem í þeirri till. felst, er að vissu leyti tekin upp í grg. fyrir þessu frv., og er auðvitað frá mínu áliti ekki nema gott eitt um það að segja, en þó með einum meginmun, nefnilega þeim, að sú athugun á þessum málum, sem gert er ráð fyrir í grg. frv., á eingöngu að vera mál ríkisstj. og stéttasamtakanna. Alþ. á þar hvergi að koma nærri, eins og hugmyndin var þó í minni till., þótt að sjálfsögðu væri einnig gert ráð fyrir því, að fulltrúar hinna þýðingarmestu stéttasamtaka hefðu aðild að slíkri athugun.

Annað grundvallaratriði, sem máli skiptir, er fjárfestingarmálið. Það hefur mikið verið talað um það, að fjárfesting hér á landi væri of mikil. Nú er það þannig, að við því er í sjálfu sér ekki nema gott eitt að segja, að mikil fjárfesting eigi sér stað í þjóðfélaginu, því að slíkt er einmitt undirstaða áframhaldandi framfara. Hitt er aftur á móti nauðsynlegt, að möguleiki sé á því að afla fjár til þeirrar fjárfestingar, sem um er að ræða, með heilbrigðum hætti. Það æskilegasta í þessum efnum væri að sjálfsögðu ekki það að skera fjárfestinguna niður, heldur að auka svo sparnað í landinu, að hægt sé að afla fjár til fjárfestingarinnar með heilbrigðum hætti. Sé það ekki hægt, verður auðvitað að takmarka fjárfestinguna við þann sparnað, erlend lán o.s.frv., sem fyrir hendi er. En grundvallarskilyrðið er, að verðbólgufjáröflun til fjárfestingar eigi sér ekki stað. Meðan svo er, er ekki hugsanlegt að ná neinu jafnvægi í efnahagsmálum.

Ég hef minnzt hér á tvö grundvallarskilyrði fyrir því, að slíku jafnvægi megi ná. En það má enn nefna hið þriðja. Það þarf vissulega að samræma innlent og erlent verðlag, það er ekki nokkur vafi á því, og nú ætti að vera öllum ljóst, að það verð, sem nú er greitt, eða gengið á íslenzkri krónu, eins og það hefur verið orðað, er rangt. Með þessu er ekki sagt, að það sé sjálfsagt að breyta því þegar í stað, en gengi íslenzku krónunnar er rangskráð. Hafi þetta ekki verið ljóst áður, þá ætti það að vera hverjum manni ljóst nú, eftir að svo er komið, ef frv. það verður samþ., sem hér liggur fyrir, að það eiga sér bókstaflega ekki stað neinar gjaldeyrisyfirfærslur á hinu skráða gengi. Þær einu gjaldeyrisyfirfærslur, sem eiga sér stað, eru í sambandi við viðskipti við varnarliðið, en það er nokkuð, sem ekki snertir almenning. Hér er í rauninni orðið um að ræða alveg hliðstæðu við það, að til væri eitthvert svokallað skráð mjólkurverð, sem væri t.d. 2 kr., þó að mjólkin gengi hins vegar kaupum og sölum á kr. 3.30 lítrinn, eða hvað sem það nú er.

Í þessu sambandi má benda á það, að í sambandi við meðferð hæstv. ríkisstj. á efnahagsmálunum hefur þó eitt skeð, sem telja verður gott, það hafa verið gerðar nokkrar endurbætur á íslenzkri tungu, og er það, sem ég á við í því sambandi, það, að í staðinn fyrir að tala um gengi, sem að ýmsu leyti er óheppilegt orð, er nú farið að tala um yfirfærslugjald fyrir erlendan gjaldeyri. Orðið gengi og þau orð, sem af því eru dregin, gengislækkun og gengishækkun, eru alls ekki heppileg orð, og stendur það í sambandi við það, að það er nú einu sinni þannig, að hætt er við því, að þeir, sem eru góðir íslenzkumenn og orðhagir, eru sjaldnast jafnframt góðir hagfræðingar, og hitt líka sjaldgæft, að hagfræðingar séu góðir íslenzkumenn.

Það að tala um gengi krónunnar skapar mjög eðlilega þann misskilning, sem almennur er, að verðgildi krónunnar sé komið undir gengisskráningunni og engu öðru. Þetta er auðvitað algerlega rangt. Ef við tækjum lönd eins og Bandaríkin, og ég býst við, að sama sé tilfellið um Sovét-Rússland t.d., þá mundi sjálfsagt 100% gengisfelling í þessum löndum ekki hækka verðlagið nema e.t.v. um 1%. Hér á landi er erlenda verðlagið vissulega miklu stærri þáttur í verðlaginu. Hitt er fjarstæða, að verðgildi peninganna sé eingöngu komið undir gengisskráningunni. Það mætti með alveg sama rétti halda því fram, að verðgildi peninganna eða gengi krónunnar væri komið undir verðinu á landbúnaðarafurðum eða einhverju slíku. Yfirfærslugjald er í rauninni betra orð, þannig að þótt það sé eftir mínum smekk ekki fallegt, þá gefur það betur til kynna, hvað þarna er um að ræða, enda er það, sem hingað til hefur verið kallað gengisbreyting, ekkert annað en almenn hækkun á því gjaldi, sem greitt er fyrir það að yfirfæra í erlenda mynt. Hins vegar má auðvitað gera greinarmun á hlutfallslegri breytingu á yfirfærslugjaldi, þ.e.a.s. því sem hingað til hefur verið átt við með gengisfellingu, og mismunandi mikilli hækkun á slíku yfirfærslugjaldi.

En hvaða leiðir mundu það þá vera, sem til greina kæmu til þess að koma á jafnvægi í efnahagsmálum og þ. á m. til þess að samræma innlent og erlent verðlag? Ein af þessum leiðum er það, sem hingað til hefur verið kallað gengislækkun, þar sem um er að ræða hlutfallslega jafna breytingu á yfirfærslugjaldi. Það er ein af hinum hugsanlegu leiðum. En þeirri leið fylgja vissulega margir og stórir annmarkar, sem ekki skal fara nánar út í.

Önnur meginleiðin, sem til greina kæmi, væri að taka upp nýja og verðmeiri mynt og endurskoða uppbyggingu verðlagsins, þannig að það yrði í meira samræmi við markaðsaðstæður. Á þessu eru vitanlega örðugleikar líka. En þessi leið hefur verið farin í ýmsum löndum til úrlausnar efnahagsvandamálunum og hlýtur þá auðvitað að koma til athugunar eins og aðrar hugsanlegar leiðir, þegar þessi mál eru rædd,

Hæstv. forsrh. nefndi í sinni framsöguræðu það, sem hann kallaði jöfnunarleiðina, sem mér skilst nú í rauninni að sé aðeins annað form fyrir almenna gengislækkun.

Auk þeirra leiða, sem hér hafa verið nefndar, er ef til vill hugsanlegur möguleiki, ef gengisbreytingarleiðin er farin, að fara þessa leið í áföngum, eins og það er kallað. Hvort það er mögulegt og hvernig, er atriði, sem ég hef enn ekki krufið til mergjar, það verð ég að játa. En hér er einmitt um að ræða eitt það nýja meginsjónarmið, sem sett hefur verið fram í sambandi við þá till., sem hér er um að ræða, nokkuð, sem áður hefur ekki verið rætt í sambandi við þessi mál.

Ég hef þegar lýst þeim leiðum, sem hér koma til greina. Ég treysti mér hins vegar ekki til þess að kveða upp úr með það, hverja af þessum leiðum heppilegast sé að fara. Og ég tel, að það sé ekki með sanngirni hægt að heimta það af mér heldur, að ég geri það. Áður en úr því yrði skorið, yrði auðvitað að fá sem nánastar upplýsingar um ýmsa þætti efnahagslífsins, hvernig þessar mismunandi leiðir kæmu við kjör hinna mismunandi stétta í þjóðfélaginu o.s.frv. Og auðvitað verður svo að taka visst stjórnmálalegt tillit í þessu sambandi, fyrir því má ekki loka augunum. Það verður að taka tillit til afstöðu þýðingarmikilla stéttasamtaka o.s.frv. Um það hefur aldrei verið neinn ágreiningur, aðeins í hvaða mynd það væri gert. Það er fyrst þegar allt þetta liggur fyrir, sem tímabært mundi vera að meta, hvaða úrræði mundu hér vera heppilegust til úrlausnar. — Með þessu tel ég mig hafa svarað, að því leyti sem ég get á þessu stigi málsins, þeirri fsp., sem hæstv. menntmrh. beindi hér til mín, varðandi gengisbreytinguna.

Hvað svo að lokum snertir þá lausn, sem hér er boðið upp á, þá er ljóst, eins og komið hefur fram í ræðum margra flokksbræðra minna, að hún mun hafa í för með sér stórfelldar verðhækkanir og röskun á allri aðstöðu atvinnurekstrarins í landinu. Hið margfalda gengi, sem verið hefur hér á landi undanfarin ár og komst í algleyming með jólagjöfinni, er bundið í kerfi einfaldara í framkvæmd, en áður var. Mismunur útflutningsuppbóta er gerður minni, en áður var, og komið er á nokkru meiri samræmingu milli innlends og erlends verðlags. Ef gert væri ráð fyrir hagstæðri þróun þeirra annarra þátta efnahagsmálanna, sem frv. fjallar um, gæti það frá tæknilegu sjónarmiði séð verið áfangi á leið til jafnvægis. En með því er ekki sagt, að líklegt sé við núverandi aðstæður, að svo verði.

Fyrir utan hið tæknilega sjónarmið kemur einnig til greina hið stjórnmálalega sjónarmið, og það skiptir ekki minna máli. Hvert þeirri för yrði heitið, sem hér er lagt upp í, verður vitanlega komið undir stefnu þeirrar ríkisstj., sem með völdin fer. Hæstv. forsrh. er vel að sér í hagfræðilegum efnum, og sá hluti ræðu hans, er um þá hlið fjallaði, var að mínu áliti góður. En mér þótti það ekki eins gott, er hann ræddi um stefnu ríkisstj. í efnahagsmálum. Hann sagði að vísu, að frv. væri spor í rétta átt, eins og hann orðaði það. En þá leyfi ég mér einmitt að spyrja með hv. þm. G-K. (ÓTh): Spor í hvaða átt? Það er það, sem skiptir meginmáli. Það mátti þó svo skilja, að sjálfur hæstv. forsrh. teldi æskilegasta þróun í jafnvægisátt eftir gengislækkunarleiðinni. Hvort svo yrði eða reynt yrði að byggja á þessu kerfi til frambúðar, væri hins vegar undir því komið, hvað gerðist á stéttaþingum þeim, sem haldin yrðu í haust, og þar nefndi hæstv. forsrh. bæði þann möguleika, að reynt yrði að byggja á þessu kerfi til frambúðar, sem ég hef nú ekki trú á að væri í fyrsta lagi hægt og heldur ekki æskilegt, en hann gerði líka ráð fyrir þeim möguleika, að eitthvað yrði gert þessu til viðbótar, sem skapaði endanlegt jafnvægi, en hvað það væri, var ekki talað um.

En hæstv. sjútvmrh. gerði þessi atriði líka að umræðuefni, eins og eðlilegt var. Hann virtist líka lita á samþykkt frv., sem hér var um að ræða, sem eins konar áfanga, en bara áfanga í allt aðra átt. Hann talaði um það, að hann vonaðist til þess, að þess yrði ekki langt að bíða, að horfið yrði að hinni svokölluðu stöðvunarstefnu, nefnilega þeirri stefnu, sem lá til grundvallar jólagjöfinni í fyrra og hingað til hefur verið látið í veðri vaka að væri hin sameiginlega stefna hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálum. Sá veggur, sem þá var hlaðinn, er nú að vísu hruninn, og ég hef ekki trú á því, að annar veggur, sem hlaðinn yrði eftir sömu sjónarmiðum, væri líklegur til þess að endast betur. Mér kemur þessi stöðvunarleið svipað fyrir sjónir, svo að ég haldi þeirri samlíkingu, sem ég hef notað, eins og ég býst við að bændunum, sem hér eru inni, kæmi fyrir sjónir fjósveggur, sem hlaðinn væri af mér. En það er nú önnur hlið á þessu máli. Hitt er aðalatriðið, að hér er um að ræða algerlega andstæðar stefnur, og það er erfitt að spá um það, hvers konar skapningur það verður, sem kemur út úr þeirri togstreitu, sem hér er um að ræða. Og einmitt þessar ræður hæstv. forsrh. og hæstv. sjútvmrh. og ekki síður aðrar ræður, sem hér hafa verið fluttar af hálfu hv. stjórnarsinna, og kemur mér þar í hug ræða hæstv. forseta, 3. þm. Reykv., — eru að mínu áliti einmitt bezta sönnunin fyrir því, að því grundvallarskilyrði, sem ég nefndi áðan að yrði að vera fyrir frambúðarlausn efnahagsmálanna, nefnilega því, að það verður að vera stefna, sem liggur þessu til grundvallar, því skilyrði fullnægir hæstv. ríkisstj. ekki. Það hafa allir lýst sig meira eða minna óánægða með þau úrræði, sem hér eru lögð fram. En afsökunin fyrir því, að enginu telur sig hafa fengið fram það æskilegasta, er sú, að það er sagt sem svo af hálfu hæstv. ráðh. og annarra stjórnarsinna, sem hér tala: Það er ekki mögulegt að skapa pólitísk skilyrði fyrir hinni æskilegu lausn. Hér er vitanlega um að ræða stórfellt þjóðfélagslegt vandamál, e.t.v. stærsta vandamálið, sem við er að etja í okkar þjóðfélagi nú. En á það má þó minna hæstv. ríkisstj. og hennar stuðningsmenn, að það var einmitt þetta vandamál, sem hæstv. ríkisstj. lofaði að leysa, þegar hún tók við völdum, svo að það að segja þetta er í rauninni gjaldþrotayfirlýsing, svo að ekki sé tekið dýpra í árinni.

Ég ætla ekki að lýsa frekar afstöðu minni til þess máls, sem hér liggur fyrir, en óbeint hefur komið fram í minni ræðu, enda hægt að geyma það til 2. umr. málsins. En mér kemur málið þannig fyrir sjónir, að ég og við aðrir sjálfstæðismenn séum í þessu tilliti í svipaðri aðstöðu og t.d. hv. 10. landsk., sem eins og kunnugt er á sæti í innflutningsnefnd, væri, ef til hans kæmi umsókn frá einhverjum þremur mönnum um það að fá að flytja inn til landsins eitthvert dýrt tæki, sem hægt væri að nota á mjög mismunandi vegu. Ég býst við, að hæstv. 10. landsk. mundi spyrja þessa þrjá félaga að því, til hvers ætti að nota þetta tæki, og einn segði, að hann ætlaði að nota það til tiltekins verks, sem hv. 10. landsk. teldi, ef til vill nytsamlegt, annar, að hann ætlaði að nota það til einhverrar starfsemi, sem hv. 10. landsk. teldi að ekki kæmi til mála að greiða fyrir, og sá þriðji segði eitthvað það þriðja. Ég býst við, að viðbrögð hv. 10. landsk. við þessu væru þau, að hann mundi ekki sjá sér fært að veita þetta leyfi, fyrr en úr því fengist skorið, til hvers ætti að nota þetta tæki.