16.05.1958
Neðri deild: 96. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1088 í B-deild Alþingistíðinda. (957)

186. mál, útflutningssjóður o. fl.

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég vildi gjarnan fá að segja nokkur orð almennt um þetta mál, áður en það fer til n. Ég mun e.t.v. í því sambandi minnast á sumt af því, sem hv. andstæðingar hafa sagt um þetta frv., en þó verður það ekki nema lítið eitt. Ég mun aðallega ræða um þetta málefni almennt og gera nokkra viðbótargrein fyrir því.

Ég hygg, að það sé nauðsynlegt fyrir hv. þm. og aðra, sem vilja kryfja þetta mál til mergjar, að hafa það í huga, að þannig er ástatt hjá okkur, að útflytjendur eru skyldaðir til þess að láta gjaldeyri þann, sem kemur fyrir afurðir þeirra, renna til bankanna með ákveðnu verði, og að sannleikurinn er sá, sem margir virðast þó fara í kringum eins og köttur í kringum heitt soð, að þannig er ástatt um framleiðslukostnað á Íslandi, að enginn útflytjandi getur lengur rekið atvinnurekstur sinn, ef þessu ákvæði væri haldið til streitu, eins og það er, og ekkert annað aðhafzt.

Þetta er undirstaða þess vanda, sem nú er við að glíma í íslenzku efnahagslífi og hefur lengi verið. En þetta ósamræmi hefur alltaf verið að aukast, og nú er svo komið, að sumar útflutningsgreinar, sem hafa dregizt áfram, jafnvel með engar uppbætur eða minni uppbætur en aðrar, þær eru alveg komnar að þrotum. Það hefur verið reynt að ráða bót á þessu á undanförnum árum, ekki með því að breyta skráðu gengi krónunnar, þó að öllum hljóti að vera það ljóst, að krónan hefur verið skakkt skráð æði lengi, heldur með því að draga saman fjármagn innanlands og verja því til þess að borga útflytjendum uppbætur. En vegna þess, hvað það er erfitt hlutverk að draga þannig saman fé og borga það aftur til atvinnuveganna eða framleiðendanna sem uppbætur, hefur verið reynt að skera þessar uppbætur sem allra mest við nögl. Framleiðendum hafa verið skammtaðar uppbæturnar, og þær hafa verið skammtaðar misjafnt. Sumir útflutningsframleiðendur hafa fengið miklu lægri útflutningsuppbætur, en aðrir eða réttara sagt sumar framleiðslugreinar hafa fengið miklu lægri útflutningsuppbætur, en aðrar greinar og einstöku útflutningsgreinar hafa engar uppbætur fengið.

Það ætti ekki að vera vafamál, að í þessu er fólgin mjög mikil hætta. Í þessu er fólgin hættan á því, þegar uppbótakerfið verður ákaflega stórt, að þær atvinnugreinar, sem engar uppbætur fá eða minni uppbætur en aðrar, veslist upp og dragist saman, framleiðsla þjóðarbúsins fari minnkandi, þau úrræði notist ekki, sem þjóðin hefur þó ráð á til þess að bjarga sér, og þannig getur uppbótakerfið orðið bókstaflega stórhættulegt, þegar það er orðið stórt, þó að segja megi, að það megi notast við það, á meðan ósamræmið er ekki gífurlega mikið og meðan stendur þannig á, að það eru aðeins einstakar atvinnugreinar, sem kemur til greina að þurfi á uppbótum að halda.

Eitt allra gleggsta dæmið um þær hættur, sem uppbótakerfið hefur í för með sér, er það, hvernig komið er fyrir íslenzkri togaraútgerð, og mætti þó færa fleiri dæmi til. Upphaflega var ekki talin þörf á öðru varðandi sjávarútveginn en að greiða uppbætur til bátaútgerðarinnar, en togararnir voru taldir geta siglt sinn sjó stuðningslaust. Fljótlega komust menn að þeirri niðurstöðu, að það var ekki hugsanlegt, að togararnir gætu komizt af án stuðnings. Og þá var þeim bætt inn á uppbótakerfið, en þó með miklu lægri uppbætur, er síðar voru nokkuð hækkaðar. En tregðan við að hækka uppbæturnar til togaranna vegna þess, hve erfitt er að afla fjárins í uppbótakerfið, hefur verkað þannig, að það lætur nærri, að búið sé að murka lífið úr íslenzkri togaraútgerð.

Þetta er eitt allra gleggsta dæmið um þann háska, sem í uppbótakerfinu er fólginn.

Þá má í þessu sambandi t.d. benda á síldveiðarnar. Þeim var haldið lengi utan við uppbótakerfið og talið, að þær þyrftu ekki á því að halda. Síðan var farið að taka einstakar greinar síldveiða undir kerfið, eins og t.d. síldveiðarnar við Faxaflóa, og loks var svo Norðurlandssíldveiðunum bætt við, en uppbæturnar hafðar margfalt minni, en til annarra atvinnugreina, eins og kunnugt er. Og þótt þetta frv., sem hér liggur fyrir, geri ráð fyrir að jafna mjög mikið uppbæturnar, þá er samt hafður verulegur munur á uppbótum til síldarútgerðarinnar og annarra þátta sjávarútvegsins, en sá munur er þó miklu minni, en verið hefur.

Það er enginn vafi á því, að þessi þróun eða þessi uppbótabúskapur hefur einnig haft stórhættulegar afleiðingar í för með sér fyrir síldarútgerðina og síldariðnaðinn.

Það má segja, að ef uppbótakerfið verður ákaflega stórt og látið ná aðeins til sumra þátta framleiðslunnar, þá fer þannig að lokum, ef ekki er breytt um stefnu, að í raun og veru verður allur atvinnurekstur lögbannaður annar en sá, sem hefur hæstu uppbæturnar. Þannig verður þróunin vitaskuld, þegar til lengdar lætur. Þetta kemur einfaldlega af því, að til uppbótanna er náð saman fé með alls konar álögum, og þessar álögur hljóta vitanlega að hafa í för með sér hækkaðan framfærslukostnað og hækkað kaupgjald í landinu og svo hækkaðan framleiðslukostnað. Allar greinar verða fyrir þessum hækkaða framleiðslukostnaði, en uppbótanna njóta aðeins sumir. Það gefur því auga leið, að ef þetta kerfi verður mjög stórfellt, þá jafngildir það því að banna allar nýjar atvinnugreinar í landinu og koma þeim atvinnugreinum á vonarvöl, sem fyrir kunna að vera og ekki njóta uppbótanna eða njóta svo lítilla uppbóta, að þær geti ekki þrifizt.

Þá kemur annað atriði í þessu sambandi, sem er mjög stórt, þó að það sé máske ekki alveg eins stórt og þetta. Þegar farið er af stað með uppbótakerfin bæði hér og annars staðar, þá er reynt að afla tekna til þeirra með því að hafa álögurnar mjög misjafnar eftir vörutegundum. Það er reynt að þræða hjá því t.d. að leggja álögur á nauðsynjar til framleiðslunnar sjálfrar, sjálfar notaþarfir framleiðslunnar. En þegar til lengdar lætur og uppbótakerfin verða stór, þá myndast í þessu sambandi stórkostlega hættulegt ósamræmi í verðlaginu, sem verður mörgum atvinnurekstri mjög þungt í skauti og að algeru banameini, ef þetta gengur langt. Þetta þýðir vitanlega, að vörur til framleiðslunnar, t.d. eins og fóðurbætir, vélar og hvers konar slíkar vörur, sem haldið er niðri í verði með því að láta þær sleppa við álögurnar, þessar vörur komast í algert ósamræmi hvað verðlag snertir við verðlag almennt innanlands og framleiðslukostnað í landinu sjálfu. Þetta þýðir, að öll innlend úrræði í sambandi við framleiðsluna verða sífellt dýrari og dýrari í hlutfalli við þau erlendu úrræði, sem hægt er að grípa til. T.d. vex stöðugt kostnaðurinn við ræktun og heyskap, en að sama skapi verður erlendur fóðurbætir ódýrari í hlutfalli við kostnaðinn við ræktunina og heyöflunina. Alveg nákvæmlega sama er að segja um vélar. Það kemur að því að lokum, að það borgar sig yfir höfuð ekki að gera við vélar vegna þess, hvernig þessum hlutföllum er háttað. Þetta þýðir yfirleitt á mörgum sviðum svo mikla gjaldeyriseyðslu, að þjóðin getur ekki undir því risið, og grefur undan, þegar til lengdar lætur, innlendum atvinnugreinum eins og landbúnaði og iðnaði, — grefur grundvöllinn undan þessum atvinnugreinum, sem eru í raun og veru í keppni við erlendar atvinnugreinar og verða að koma til samanburðar við þær. Það mætti einnig nefna í þessu sambandi dæmi eins og skipasmíðar, skipaviðgerðir og margs konar annan iðnað.

Þetta eru helztu hætturnar, sem eru samfara stórkostlegu uppbótakerfi, og þær eru ekki smávægilegar. Samt sem áður hafa menn, vegna þess að samtök hafa ekki fengizt um annað, reynt að búa við uppbótakerfi og koma þannig í veg fyrir, að stærstu framleiðsluþættirnir stöðvuðust.

Á s.l. hausti kom til greina, hvað núverandi ríkisstj, gæti komið sér saman um í efnahagsmálunum. Niðurstaðan af því varð sú að reyna að halda uppbótakerfinu áfram og tryggja þannig áframhaldandi framleiðslu, taka það, sem þá vantaði inn í uppbótakerfið, með því að leggja mjög mismunandi gjöld á aðfluttar vörur, þar sem langhæstu gjöldin voru lögð á ýmsar vörur, sem voru hátollaðar fyrir, en leggja ekki almennt gjald á allan innflutninginn.

Það mátti því segja, að þær ráðstafanir, sem gerðar voru í fyrra, urðu ekki til þess að leiðrétta það misræmi, sem orðið var í verðlaginu, nema að því leyti sem þá var gerður minni munur á uppbótum til togaraútgerðarinnar t.d. og bátaútvegsins, en áður hafði verið. Ætlunin var að gera tilraun með þetta og sjá, hversu það mundi gefast og hvort það gæti staðizt.

Reynslan varð sú á s.l. ári, að þetta stóðst ekki, og komu margar ástæður til: Í fyrsta lagi, að innflutningur á hátollavörum gat ekki orðið eins mikill og hann þurfti að vera, ef tekjuöflunin hefði átt að hrökkva í kerfið. Í öðru lagi vegna þess, að til þess að koma í veg fyrir hækkun á kaupgjaldi innanlands voru stórauknar niðurgreiðslur á verðlagi innlendra vara, en fé vantaði til þess að standa undir þessum niðurgreiðslum, þótt út í þær væri lagt. Varð því verulegur halli á ríkisbúskapnum af þessum sökum. Í þriðja lagi vegna þess, að einkanlega fyrir ráðstafanir, sem stjórnarandstæðingar beittu sér fyrir, var kaupgjald hækkað í mörgum greinum og margs konar drög lögð að því að reyna að koma af stað nýrri hækkunaröldu kaupgjalds og verðlags. Varð hv. stjórnarandstæðingum þó nokkuð ágengt í þessu efni, eins og kunnugt er. Þá kom hér til, að á s.l. hausti varð að gera ráð fyrir auknum hlunnindum til útgerðarinnar, fyrst og fremst vegna þess, að fiskimenn urðu að fá kauphækkun til samræmis við aðra kauphækkun, sem orðið hafði í landinu, og fleira kom þar einnig til greina. Þá var augljóst, að togararnir gátu ekki komizt af með þær uppbætur, sem þeir höfðu fengið samkvæmt löggjöfinni árið áður. Enn fremur var ljóst, að það þurfti að hækka uppbætur til síldarútvegsins og raunar fleiri atvinnugreina. Loks var það nokkuð fyrirsjáanlegt, að einhverjar kauphækkanir mundu vera fram undan. Allt þetta gerði það að verkum, að augljóst varð, að það þurfti á stórfé að halda, og kom þá yfir höfuð til greina, hvort væri hægt að halda áfram því uppbótakerfi, sem við höfðum búið við, eða þyrfti að gera nýjar ráðstafanir, breyta um stefnu frá því, sem verið hefur.

Það frv., sem hér liggur fyrir, má segja að sé eins konar millileið í þessum efnum, sem gerir ráð fyrir mjög þýðingarmiklum breytingum á uppbótakerfinu eða efnahagskerfinu, hvort sem við viljum kalla það, frá því, sem áður hefur verið. Þessar breytingar eru fyrst og fremst fólgnar í því, að kerfið allt er gert einfaldara, en það hefur verið. Það er gerður minni mismunur á uppbótum, en áður hefur átt sér stað, og það er gert ráð fyrir því, að allar útflutningsgreinar geti komið til greina um að fá uppbætur. Þá er gert ráð fyrir því að leggja yfirfærslugjald á allar aðfluttar vörur, allar duldar greiðslur og að greiða yfirfærsluuppbætur á tekjur íslenzkra atvinnuvega, eins og t.d. flutningsgjöld í siglingu, fargjöld í utanlandsflugi o.s.frv., o.s.frv. Í þessu er fólgin stórkostleg breyting frá því, sem áður hefur verið, breyting, sem minnkar mjög mikið þá stórfelldu hættu, sem var orðin á því, að núverandi uppbótakerfi yrði til þess að lama framleiðsluna í mörgum greinum, gera ólíft ýmsum atvinnurekstri, sem varð að geta átt sér stað, og fyrirbyggja hættu, sem var orðin alvarleg, á því, að engar nýjar atvinnugreinar yfir höfuð gætu komið til greina, vegna þess að þær gátu ekki fengið uppbætur eins og þær, sem fyrir voru.

Hér er því frá mínu sjónarmiði tvímælalaust um stórkostlega endurbót að ræða frá því, sem áður hefur verið.

Þá er önnur endurbót, sem með þessu fæst fram, og hún er sú, að með þessu minnkar stórkostlega ósamræmið, sem orðið var á milli erlends og innlends verðlags í ýmsum greinum. Kemur það af því, að nú er aðflutningsgjaldið lagt á allar aðfluttar vörur. Þetta er tvímælalaust spor til bóta og tvímælalaust spor, sem styður stórkostlega ýmiss konar þýðingarmikinn atvinnurekstur í landinu.

Hv. 9. landsk. þm. (ÓB) spurði hér áðan, og fleiri hafa spurt, hvað hæstv. forsrh. hafi átt við, þegar hann lýsti því yfir, að hann teldi þetta frv. spor í rétta átt. Það, sem þá er átt við, er fyrst og fremst það, sem ég nú hef verið að skýra.

Þetta eru spor í rétta átt, svo stórkostleg spor í rétta átt, að þau réttlæta fullkomlega þá málamiðlun, sem hér hefur átt sér stað. Þau réttlæta það fullkomlega, að þessu máli sé hrundið fram af fullri alvöru. Hér er ekki um neinar smávegis endurbætur að ræða frá því, sem áður hefur verið. Hér er stigið stórt spor í rétta átt frá þeim háska, sem yfir okkur hefur vofað vegna þess, hvernig uppbótakerfið hefur sífellt vaxið og myndað sífellt meira og meira ósamræmi í okkar efnahagslífi og þjóðarbúskap.

Ég heyrði það líka á hv. 9. landsk. þm., að hann viðurkenndi þetta, og það er auðheyrt á fleiri sjálfstæðismönnum, sem á þetta mál minnast, að þeir viðurkenna þetta berum orðum. Er því andstaða þeirra gegn þessu máli lin, enda er það engin furða, enda mætti það fyrr vera, ef þeir menn, sem telja sig talsmenn frjáls atvinnurekstrar og frjáls framtaks, vildu ekki viðurkenna það, að þetta spor, sem nú er stigið til meira samræmis í þessum efnum, er stórkostlega þýðingarmikil endurbót frá því, sem verið hefur.

En það er þá einnig dálítið eftirtektarvert, að um leið og þetta er viðurkennt af hálfu hinna skynsamari talsmanna flokksins og þeirra, sem ekki vilja algerlega loka fyrir allar umræður af nokkru viti um þetta mál, að á sama tíma sem þetta kemur fram hjá þeim, þá gera aðrir hv. þm. flokksins einmitt þessar endurbætur að aðalárásarefni á ríkisstj. og stjórnarflokkana, eins og hv. þm. Rang. gerði hér í fyrrinótt, þegar hann með öllu móti reyndi að koma af stað tortryggni og úlfúð hjá framleiðendum og m.a. bændastéttinni út af því, að nú væri lagt jafnt aðflutningsgjald á allar vörur, t.d. á vélar til sjávarútvegs og landbúnaðar, t.d. á fóðurbæti og aðrar slíkar nauðsynjar. Hann reyndi með öllu móti að halda því fram, að þetta væri mjög óhagstætt fyrir bændastéttina, þeir ættu að taka upp þykkjuna út af þessu og að því er manni skildist ekki síður framleiðendurnir við sjóinn, þeir ættu einnig að taka upp þykkjuna út af því, að þetta væri gert. Það er eftirtektarvert, að þetta skuli koma fram, þegar aðrir talsmenn Sjálfstfl. telja það frv. helzt til gildis, eins og líka skynsamlegt er, að með því sé minnkað hið stórkostlega ósamræmi, sem verið hefur í uppbótunum, og dregið úr því gífurlega ósamræmi, sem myndazt hefur á milli verðlags hér innanlands og verðlags á innfluttum vörum til stórtjóns fyrir atvinnurekstur þjóðarinnar,

Það er ekki nokkur vafi á því, að þetta, sem nú er gert, að leggja á þetta jafna gjald og láta það ganga út og inn í kerfinu, einkum eftir að búið er að leggja á hátollavörur eins háaðflutningsgjöld og hugsanlegt er yfirleitt af þeim að taka, er mjög þýðingarmikill þáttur í þessu máli, þáttur, sem styrkir innlenda framleiðslu og innlendan atvinnurekstur, en ekki hið gagnstæða.

Þeir, sem tala á móti þessu og reyna að gera þennan þátt í málinu tortryggilegan, vilja sennilega láta líta þannig út, að þeir hefðu nú enn viljað leggja á mörg hundruð milljónir í nýjum aðflutningsgjöldum og sneiða þá hjá því að leggja nokkuð á tæki til landbúnaðar og sjávarútvegs og aðrar þarfir þessara atvinnugreina.

En hver hefði viljað taka á sig ábyrgðina á því að auka þannig enn stórkostlega það ósamræmi, sem orðið er í verðlaginu, frá því, sem nú er? Ég efast um, að nokkur ábyrgur maður hefði látið sér detta slíkt í hug, að það væri yfirleitt hugsanlegt eða mögulegt. Og allra sízt er náttúrlega hægt að taka svona gagnrýni alvarlega frá mönnum, sem við vitum að líta á gengislækkun sem hyggilegasta og réttmætasta úrræðið í þessum efnum, eins og við vitum að sjálfstæðismenn yfirleitt álíta. Er ég ekki að segja þeim það neitt til lasts, því að við vitum, að gengi íslenzkrar krónu er skakkt skráð, og ein af þeim leiðum, sem koma til greina, er að breyta gengi krónunnar. En þeim mun ámælisverðari eru þessir menn fyrir að ætla sér það að geta gagnrýnt þessa þætti málsins, jafnframt því sem þeirra skynsömustu talsmenn lýsa því yfir, að einmitt þessar ráðstafanir séu þær, sem gefi málinu gildi og geti orðið til góðs fyrir þjóðarbúskapinn.

Það er auðvitað enginn ávinningur að því fyrir framleiðendur, þegar til lengdar lætur, þó að menn hafi lagt út í það vegna þess, hve örðugt hefur verið að afla tekna í uppbótakerfin, að það sé óeðlilega lágt verð á þeim vörum, sem þeir þurfa til framleiðslunnar. Það er t.d. enginn ávinningur að því; þegar til lengdar lætur, fyrir sjávarútveginn, að það sé óeðlilega lágt verð á innfluttum skipum, eða fyrir landbúnaðinn, að það sé óeðlilega lágt verð á innfluttum tækjum, samanborið við annað verðlag í landinu. Þetta verður hreinlega til þess, að allt of lítið er leyft að reikna inn í verðlagið á afurðum þessara framleiðslugreina til afskrifta á skipum og tækjum. En það, sem ætlað er til afskrifta á skipum og tækjum í verðlaginu, er vitanlega ætlað til endurnýjunar á þessum sömu tækjum. Ef óeðlilega lágt verð stendur til lengdar og óeðlilega lágar afskriftir eiga sér stað með þessu móti, þá kemur það stórkostlega í koll, þegar kerfið brestur og gengislækkun fellur yfir, sem vitanlega hlýtur að koma að lokum, ef þannig er á haldið. Þá hækka þessar vörur allt í einu og þessi tæki stórkostlega í verði, en þá eru endurnýjunarsjóðirnir litlir eða sama sem engir, vegna þess að þeir eru byggðir upp, miðað við hið falska, lága verð, sem þessar atvinnugreinar hafa — sem sumir kalla „notið“ — eða búið við árum saman.

Þess vegna er sú fölsun í þessu efni, sem orðið hefur smátt og smátt í núverandi kerfi, ekki til hags fyrir framleiðendurna, eins og sumir hafa viljað bera sér í munn nú, þegar á að leiðrétta þetta, heldur er hún til tjóns fyrir framleiðsluna, bæði til lands og sjávar, auk þess sem þessi tilhögun eyðileggur ýmsar innlendar atvinnugreinar, eins og t.d. skipasmíðar, járniðnaðinn og fleiri og fleiri atvinnugreinar, sem eiga fullkomlega rétt á sér. Þessi háttur, sem hafður hefur verið á í þessu efni, hefur í raun og veru þýtt það, að innlendur framleiðslukostnaður hefur verið hækkaður ár frá ári, öll innlend úrræði hafa verið skattlögð og orðið dýrari ár frá ári, en menn hafa reynt að halda erlendu vörunum óeðlilega niðri til tjóns fyrir alla, þegar til lengdar lætur.

Þegar menn ræða um það, sem nú er að gerast í þessum efnum, er stundum talað um fórn, sem ætlazt sé til að menn taki á sig. En er réttmætt að tala um fórn í þessu sambandi? Við skulum athuga það örlítið nánar. Við skulum hugsa okkur, að það væri ekki farið fram á það við neinn að „fórna“ neinu. Þar með er ég ekki að segja, að þetta sé fórn. Við skulum samt orða það svo.

Hvað skeður, ef ekkert verður gert? Það mundi geta skeð, að því er mér skilst, annað af tvennu, að hætt yrði að greiða niður innlendar afurðir og verðið á þeim látið hækka, — það vantar stórfé til þess að halda þessum niðurgreiðslum uppi, — og útflutningssjóðurinn kæmist gersamlega í þrot með að standa undir útflutningsuppbótunum. Þetta er annar möguleikinn, að það yrði að hætta niðurgreiðslunum og láta verðið hækka, vísitalan kæmi kaupinu upp og framleiðslan stöðvaðist, að útflutningssjóðurinn kæmist í greiðsluþrot og gæti ekki greitt allar útflutningsuppbæturnar. Þetta gæti skeð. Hitt gæti líka skeð, að menn notuðu seðlabankann til þess að halda áfram að greiða útflutningsuppbæturnar og stofnuðu þar skuld til þess, að menn notuðu seðlabankann einnig til þess að halda áfram að greiða niður innlendu afurðirnar. Þá mundu menn kannske spyrja: Er þá ekki allt í lagi? Getur ekki allt gengið þannig?

Þetta mundi vitanlega verða til þess, að hér mundi verða í landi eftir tiltölulega stuttan tíma gersamlega óþolandi vöruskortur á öllum sviðum, vöruskortur til neyzlu, vöruskortur til framleiðslu, sem mundi hafa truflandi áhrif á allan atvinnurekstur í landinu, vöruskortur til bygginga, sem mundi hafa í för með sér stöðvun bygginga og atvinnuleysi. Síðan mundi koma svartamarkaðsverð á vörurnar sem afleiðing af þessum vöruskorti. Þannig mundi hin raunverulega kjararýrnun koma fram. Þetta mundi gerast, ef þeir menn fengju sinn vilja, sem virðast vera á móti öllu, sem virðast líta svo á að þurfi ekki að gera neitt.

Það, sem hér liggur fyrir, er till. um að gera nýjar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir, að þetta eigi sér stað, og gera í leiðinni nýjar ráðstafanir til þess að lyfta undir allan atvinnurekstur í landinu stórkostlega frá því, sem verið hefur. Það er ekki svo, að í þessu frv. felist aðeins það að halda áfram uppbótakerfinu í gamla forminu, heldur eru með þessu máli, eins og ég hef sýnt fram á í því, sem ég hef sagt, gerðar nýjar ráðstafanir fyrir fjöldamargar atvinnugreinar, sem hafa verið að því komnar að veslast upp vegna þess ósamræmis, sem hefur verið í gamla uppbótakerfinu. Það er einmitt þetta, sem er það stóra nýja í þessu máli, og það er þetta, sem gerir það að verkum, að hér er raunverulega um nýjung að ræða, raunverulega um nýtt spor að ræða, en ekki bara þetta gamla, sem við höfum verið að reyna að komast af með nú um nokkur ár. Með þessu móti koma fram nýir möguleikar fyrir margar atvinnugreinar í landinu, sem hafa staðið stórkostlega höllum fæti undanfarið. Með þessu, sem nú er gert, eru líka skapaðir möguleikar fyrir nýjar atvinnugreinar að koma upp, sem áður hafa í raun og veru ekki verið til vegna þess, hversu uppbótakerfið var orðið stórkostlegt og hversu með því var búið að skrumskæla íslenzkt atvinnu- og fjármálalíf.

Engum hefur í raun og veru í alvöru getað dottið í hug nú upp á síðkastið, þegar uppbætur eru orðnar svo gífurlega miklar og svo óskaplega misjafnar, að það gæti þróazt hér eðlilegt efnahagslíf eða atvinnulíf, þar sem ný úrræði fengju að koma til greina til samanburðar við þau eldri. Það er einmitt þessi stórkostlega nýjung í þessu máli, sem gefur því gildi og veldur því, að það er þýðingarmikið mál og þýðingarmeira en önnur hliðstæð frv., sem hafa komið fram nú um sinn.

Auðvitað verður reynt, eins og ég var að minnast á áðan, að koma af stað rógi einmitt út af þessum nýju þáttum í málinu, sem eru þýðingarmiklir. Það verður auðvitað reynt að segja við bændurna: Það er verið að hækka vélarnar, það er bara af fjandskap Framsóknar. Og það verður sagt við sjávarsíðuna: Það er verið að hækka mótorvélarnar í innkaupi og mótorbátana. Það er fjandskapur Framsóknar og kommúnista og Alþýðuflokksmanna, — verða sennilega nefndir allir til við sjávarsíðuna. Þetta verður vitanlega reynt, og þetta verða þeir, sem þykjast vera talsmenn frjáls atvinnurekstrar í landinu, sem þykjast vilja jafnvægi í þjóðarbúskapnum og láta skynsömustu menn sína hér um leið lýsa því yfir, að einmitt þetta séu þættir í málinu, sem gangi í rétta átt. Það verða þessir menn sem taka að sér þetta hlutverk. Þeir eru ekki öfundsverðir af þessu. Ég öfunda þá ekki af því. Það er ekki öfundsvert hlutskipti. Inn á sér vita þessir menn ákaflega vel, að einmitt hér er verið að gera nauðsynlega leiðréttingu, bráðnauðsynlega endurbót í efnahagsmálum landsins, sem verður einmitt til góðs fyrir sjávarútveg og fyrir landbúnað. Þeir vita það vel, en þeir munu segja hitt samt, af því að þeir meta róginn meira, en það að standa með réttu máli, ef þeir halda, að það kynni að vera hægt að fá einhvern mann til þess að leggja þykkju á stjórnarflokkana fyrir að þora að stíga þetta skref. Ég segi þora, vegna þess að það má kannske búast við því, að það sjái ekki allir á augabragði, að nauðsynlegt sé að gera þessar ráðstafanir, sem hafa í för með sér hækkanir á vörum til framleiðslunnar.

Það er alveg sérstaklega „ánægjulegt,“ að það skuli vera talsmenn fyrir jafnvægi í þjóðarbúskapnum, fyrir frjálsum atvinnurekstri og menn, sem segjast hafa hina mestu andúð á óeðlilegum afskiptum ríkisvaldsins o.s.frv., o.s.frv., og menn, sem þykjast vera talsmenn þess, að allt eigi að „vigta sig“ o.s.frv., o.s.frv. og ganga eftir eðlilegum hagfræðilögmálum, — það er einmitt eftirtektarvert, að það skuli vera þeir, sem nú dæma sjálfa sig til þess að viðhafa málflutning eins og þennan.

Svo er verið að tala í þessu sambandi — og það ekkert lítið - um álögur á þjóðina. Ég er búinn að tala um fórnarhliðina í málinu. Ég er búinn að sýna fram á, að það er svo langt í frá, að hér sé verið að fara fram á fórnir, að hér er einmitt verið að reyna að gera ráðstöfun til að koma í veg fyrir stórkostlega kjaraskerðingu og til þess að fá grundvöll fyrir það að sækja fram með nýjum úrræðum að kjarabótum.

Þessir menn tala í þessu sambandi mikið um álögur á þjóðina, og sjálfstæðismenn reikna og reikna, og þeir tala um 790 millj. í því sambandi. Þeir geta reiknað eins mikið og þeir vilja fyrir mér. Mér er alveg hjartanlega sama, hvaða tölur þeir nefna. En það er á hinn bóginn rétt í þessu sambandi að vekja athygli á því, eins og hæstv. menntmrh. gerði í fyrradag, hvað sjálfstæðismenn hefðu viljað telja það miklar álögur á þjóðina, ef gengisskráningin hefði verið leiðrétt. Eða vilja þeir kannske halda því fram, að atvinnureksturinn gæti búið við það gengi, sem núna er, án uppbóta? Hvað mundu þeir hafa talið það miklar álögur á þjóðina, ef gengið hefði verið leiðrétt, gengisskráningin sjálf? Og hvað töldu þeir gengislækkunina 1950, sem við stóðum að, Framsfl. og Sjálfstfl., hvað töldu þeir hana miklar álögur á þjóðina? Mér skilst, að hæstv. menntmrh. hafi upplýst, að ef ætti að reikna eins og þeir reikna núna, þá hefði átt að telja hana 900 millj. kr. álögur á þjóðina. Ætli þeir hefðu verið ánægðir með þann málflutning þá, ef það hefði verið túlkað þannig?

Í þessu sambandi og öllu þessu moldviðri held ég, að það sé hollt fyrir menn að spyrja sjálfa sig, hvort það fé, sem framleiðslunni er skilað til baka vegna falskrar gengisskráningar, hvort það séu raunverulega álögur á þjóðina.

Hvað mundi þjóðin hafa til þess að lifa af, ef þetta væri ekki gert? Hún mundi ekkert hafa annað, en verðlausa pappírsseðla, sem mundu þó sennilega vera kallaðir peningar, ef þetta væri ekki gert. Er hægt að kalla það fé álögur á þjóðina, sem dregið er saman til þess að bæta framleiðendunum upp það tjón, sem þeir bíða vegna rangrar gengisskráningar? Ég held, að það orðalag sé a.m.k. fullkomlega villandi, að ekki sé meira sagt.

Ef við svo lítum á viðhorf atvinnuveganna í sambandi við þetta mál, þá er það þannig frá mínu sjónarmiði:

Þessar ráðstafanir verða tvímælalaust til bóta fyrir allar atvinnugreinar landsins, enda þetta fyrst og fremst miðað við að reyna að hleypa auknu fjöri í framleiðsluna, nýju lífi í atvinnureksturinn og skapa skilyrði fyrir fjölbreyttari atvinnurekstri, en áður hefur verið nú um sinn.

Fyrir sjávarútveginn lítur dæmið t.d. þannig út, að þetta verður vitanlega til hags fyrir hann. Í fyrsta lagi eru uppbæturnar jafnaðar, þannig að togaraútgerðin á að sitja framvegis við sama borð og bátaútvegurinn. En ekki nóg með það, heldur er líka gert ráð fyrir því, að sjávarútvegurinn fái að afskrifa tæki sín á eðlilegu verði, eða a.m.k. eðlilegra verði, en verið hefur. Undanfarið hefur útveginum verið skammtað, miðað við að afskrifa tæki sín á verði, sem vitað var að eftir nokkur ár mundi vera óhugsandi að fá nokkurt skip fyrir. Nú verður þetta nýja verð á skipum, sem þetta mál myndar, lagt til grundvallar afskriftunum í sjávarútveginum.

Hv. 1. þm. Rang. taldi í fyrrinótt, að þetta mál mundi verða m.a. nokkuð hættulegt landbúnaðinum, af því að hér væri gert ráð fyrir því að draga úr kaupmættinum, með þessu væri gert ráð fyrir því að draga úr kaupmætti íslenzku þjóðarinnar og það væri sérstaklega hættulegt fyrir landbúnaðinn vegna þess, hve hann ætti mikið undir innlenda markaðinum. Þetta er algerlega glórulaust, að þessu máli sé ætlað að draga úr kaupmætti þjóðarinnar. Þetta er fullkomið öfugmæli, eins og þessi hv. þm. var náttúrlega líklegastur til að búa til óafvitandi. Hér er þvert á móti verið að gera ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir það, að stórkostlegur samdráttur verði í kaupmætti þjóðarinnar á næstu mánuðum og næstu missirum, því að hér mundi verða blátt áfram hrun, ef ekki væru gerðar nýjar ráðstafanir til viðreisnar sjálfum atvinnuvegunum og til þess að styrkja sjálfan grundvöll þjóðarbúsins, eins og þetta mál er miðað við.

Hér er verið að gera ráðstafanir til þess með því að gera mörgum atvinnugreinum léttara fyrir, en áður hefur verið, — gera ráðstafanir til þess að auka þjóðarframleiðsluna, að auka þjóðartekjurnar, að auka kaupmátt fólksins í landinu. Þess vegna er þetta mál stórkostlegt hagsmunamál einnig frá því sjónarmiði fyrir landbúnaðinn og ekki sízt fyrir landbúnaðinn. Hvernig halda menn að mundi fara fyrir landbúnaðinum, sem á mest sitt undir innlendum markaði, ef hér væri allt saman látið dankast, eins og manni skilst helzt að þessir hv. þm. vilji, ef nokkra glóru á að telja í þeirra máli? Ástandið yrði þannig hér eftir tiltölulega stuttan tíma, að komið væri stórkostlegt atvinnuleysi og samdráttur í fjöldamörgum þýðingarmestu iðngreinum og atvinnugreinum landsins.

Það þarf varla að taka það fram, — það er öllum ljóst, — að gert er ráð fyrir því, að bæði sjávarútvegur og landbúnaður fái hækkað verð á framleiðsluvörum sínum fyllilega í hlutfalli við hækkun á verði þeirra vara, sem þeir þurfa að kaupa til framleiðslunnar.

Fyrir iðnaðinn í landinu er þetta frv. alveg sérstaklega þýðingarmikið og eflingu hans á mörgum sviðum. Við vitum, að sumar iðngreinar hljóta að leggjast niður og hafa þegar dregizt stórkostlega saman vegna þess ósamræmis, sem hér hefur ríkt í verðlagi innlendra og erlendra vara, — í verðlagi innlendra vara samanborið við erlendan framleiðslukostnað. Það er nægilegt í því sambandi að benda t.d. á járniðnaðinn og vélaiðnaðinn, skipasmíðarnar, en þannig mætti lengi telja. Með því fyrirkomulagi, sem verið hefur, hefur sífellt hallað undan fæti fyrir fjöldamörgum iðngreinum og fyrir margvíslegri þjónustu, sem með nýjum ráðstöfunum hefur verið gerð sífellt dýrari og dýrari, á sama tíma sem hliðstæðri erlendri þjónustu hefur verið haldið niðri með falskri skráningu á krónunni og með því að mismuna gífurlega í yfirfærslu- og aðflutningsgjöldum. Á sama hátt verður þetta frv, mjög þýðingarmikið fyrir íslenzkar siglingar og loftferðir á milli landa, og þannig mætti lengi telja.

Vitanlega þarf fleira að gera, en samþ. þetta frv. En ég skal ekki fara langt út í það. Það þarf að halda áfram að byggja upp framleiðsluna í sem flestum greinum. Það verður að stilla fjárfestingunni betur í hóf, en gert hefur verið.

Ég vil einnig í þessu sambandi benda á þá breytingu á skattalögunum, sem stjórnin beitir sér fyrir hér á hv. Alþ., þar sem gert er ráð fyrir, að endurskoðuð séu ákvæðin um skattgreiðslur félaga og þær reglur gerðar stórum hagstæðari, en áður. Ætti þetta að geta orðið veruleg lyftistöng ýmsum atvinnurekstri og gert menn djarfari í þeim efnum en verið hefur um skeið.

Fjöldamargt fleira mætti minnast á, sem ég mun ekki gera til þess að tefja ekki málið.

Það verður að vonast eftir því, að skilningur almennings á þeim vandamálum, sem frv. þetta fjallar um, sé orðinn svo ríkur, að þetta frv. og framkvæmd þess geti orðið upphaf að heppilegri þróun í efnahagsmálunum, en verið hefur. En vitanlega er framtíðin alveg í óvissu að þessu leyti. Það veit enginn okkar, hvað hún ber í skauti sér. Það veit enginn okkar, hvað muni ske hér í efnahagsmálum eða öðrum málum á næstunni.

Enn þá er talsvert mikið ósamræmi í uppbótakerfinu, sennilega meira ósamræmi, en getur staðizt til lengdar. Þegar við lítum á uppbótaprósenturnar og sjáum þann mikla mun, sem gerður er t.d. á síld- og þorskveiðum, þá er vafasamt, að það standist til lengdar, að sínu leyti eins og það stóðst ekki til lengdar að gera þann mun, sem gerður var á uppbótum til togara og báta, þó að menn reyndu að viðhalda því allt of lengi í vandræðum sínum með að afla fjár. Enn er því mikið ósamræmi í þessum málum, þó að langt hafi verið gengið í rétta átt, með því að jafna metin.

Það má líka vel vera, að það komi í ljós, að í þeim áætlunum, sem liggja til grundvallar þessu nýja efnahagskerfi, sé of mikið treyst á innflutning á hátollavörum og það sé veikur hlekkur í þessu máli og eigi eftir að sýna sig. Það má vel vera, að svo fari.

Það má vel vera einnig, að það auðnist ekki að fá samtök um nýja stefnu í kaupgjaldsmálunum. En eins og augljóst er af þeim athugunum, sem farið hafa fram undanfarið, er ekki hægt að gera ráð fyrir því, að hér myndist jafnvægi í þjóðarbúskapnum eða stöðugt verðlag, nema hætt verði að nota framfærslukostnaðarvísitöluna sem mælikvarða fyrir launum og verðlagi á sama hátt og gert hefur verið undanfarið. Það liggur fyrir ómótmælanlega sem staðreynd, að það er ekki hægt að gera ráð fyrir því að ná jafnvægi, ef ekki verður breytt um stefnu að þessu leyti, enda munum við nú vera nær eina þjóðin, sem byggir á þessu kerfi.

Eins og getið er um í grg. frv., þá er vonazt eftir því, að stéttasamtökin í landinu taki þessi mál til meðferðar og taki sínar ákvarðanir, sem geta orðið örlagaríkar um þróun efnahagsmálanna á næstu árum hér hjá okkur. Það væri ákaflega æskilegt, að hægt væri að fá samvinnu við þessi samtök um nýja stefnu í þessu tilliti, en um það er ekkert hægt að fullyrða. Þess vegna er framtíðin mjög óviss.

En eitt er það þó, sem ekki verður rifið og ekki er unnið fyrir gýg, hvernig sem fer að öðru leyti. Og það er einmitt þetta, sem gefur þessu máli sérstakt gildi. Með þessu frv. er minnkað stórkostlega það hættulega ósamræmi, sem orðið var í efnahagslífi okkar, atvinnulífi og þjóðarbúskap yfir höfuð. Einmitt þetta verður ekki unnið fyrir gýg, hvernig sem fer um þessi mál að öðru leyti. Ef þetta verður samþ., mun því ekki verða kippt til baka af neinum og ekki einu sinni af þeim, sem nú munu gera það að miklu máli að reyna einmitt að rógbera þessa hlið málsins. Þeim mundi aldrei detta í hug að kippa þessu til baka. Þetta er miklu þýðingarmeira, en menn ef til vill gera sér grein fyrir í fljótu bragði. Það er þetta, sem gerir það að verkum fyrst og fremst, að frv. er tvímælalaust spor í rétta átt og spor, sem er ástæða til þess að berjast fyrir að geti orðið stigið.

Ég vil svo að endingu aðeins minna á það aftur, sem ég minnti á í fyrradag, að vitanlega verður að gera ráð fyrir því, að hv. stjórnarandstæðingar láti það ekki undir höfuð leggjast að gera till. af sinni hálfu um það, hvað þeir vilja láta gera í þessum málum.