16.05.1958
Neðri deild: 99. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1158 í B-deild Alþingistíðinda. (969)

186. mál, útflutningssjóður o. fl.

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Það hefur oft verið svo, þegar á undanförnum árum hafa verið umr. á Alþingi um úrræði í efnahagsmálum, að það mætti heyra það í gegnum ræður stjórnarandstöðunnar, að þeir væru engir andstæðingar málsins. Það var mikið tómahljóð í ræðu hv. þm. G-K. (ÓTh), þegar hann hóf hér andmæli gegn frv. Það duldist engum manni, og sízt af öllu, held ég, að það hafi farið fram hjá Sjálfstæðisflokksmönnunum hérna á Alþingi.

Það er vitanlega þannig, að hv. þm. G-K. viðurkennir allra manna fyrst, að það verði að gera ráðstafanir til þess, að framleiðsluatvinnuvegirnir geti haldið stanzlaust áfram, og þess vegna neitar hann heldur ekki þeirri nauðsyn, að þá verði að afla til þess tekna. Og þetta hefur mátt heyra á ræðum hvers einasta þm. Sjálfstfl. En fagnaðarhljóðið var mest áberandi eiginlega í hinni síðustu ræðu, sem nú hefur verið haldin, sem sé í ræðu hv. þm. A-Húnv. (JPálm). Hann er reglulega með hýrri há nú, og ég gæti bezt trúað því, að vonirnar um breytingar á vísitölukerfinu geri það að verkum, að hann gangi annaðhvort í Alþb. eða jafnvel í Framsókn og greiði atkvæði með málinu.

Hv. 9. landsk. (ÓB) játaði, að vísitöluveggurinn, sem hann tók þátt í að byggja hér 1949 og 1950, hefði sannarlega ekki orðið varanlegur, hann hefði hrunið. En það voru ytri atvik, sem eyðilögðu gengislækkunina þá, það var sem sé Kóreustyrjöldin, og hún hristi jarðarkúluna svo mikið, að vísitöluveggurinn hrundi.

Þetta má vel vera, að ytri atvik hafi verið óhagstæð, eftir að Sjálfstfl. framkvæmdi þá gengislækkunina. En það sýnir þá, að það getur ýmislegt gerzt, jafnvel í fjarlægum löndum og heimshlutum, sem gerir jafnvel gengislækkun ekki að varanlegri lækningu í efnahagsmálum. Og það gæti gerzt ýmislegt það í okkar eigin landi, þó að gengislækkun væri gerð, að hún væri lítið varanleg. Það þyrfti ekki annað en t.d., að það kæmi atvinnuleysi á því sama ári, sem gengislækkunin væri gerð, þá væri hún búin að verða sér til skammar og það þyrfti á ný að gera ráðstafanir til þess að koma framleiðsluatvinnuvegunum til hjálpar. Það gætu þess vegna gerzt, ekki aðeins í fjarlægum löndum, heldur einnig innanlands, þeir atburðir, sem gerðu gengislækkun að mjög lítið varanlegri efnahagsmálaráðstöfun.

Hitt er alveg rétt, sem hv. þm. sagði, að það er engin varanleg lausn til í efnahagsmálum og því síður nokkur eilífðarlausn. Þetta er alveg hárrétt. Það varanlegasta, sem hægt er að gera í efnahagsmálum okkar þjóðar nú, er að afla nýrra atvinnutækja, auka framleiðsluna, auka þjóðartekjurnar, og að því stefnir núverandi ríkisstj. Hún þarf að fá tíma til þess að efla atvinnutækin og þjóðarframleiðsluna, þá er meira til skiptanna í okkar þjóðfélagi. Það er varanlegasta lausnin.

Hv. 2. þm. Eyf. (MJ) sagði, að það væri rangt, að formaður Sjálfstfl. væri á móti aðstoðinni við atvinnulífið, vitanlega væri hann það ekki. Ef hann er það ekki, er hann þá á móti þeirri fjáröflun, sem þarf til þess að koma atvinnulífinu til hjálpar? Hvaða vit er í því? Og ef hann er það ekki heldur, þá er hann á móti hvorugu af því, sem er meginefni þessa frv. Annars vegar er það aðstoðin við atvinnulífið, og hins vegar er það tekjuöflunin, sem kemur við ýmsa í þjóðfélaginu, til þess að geta veitt þá aðstoð. Ég vil vænta, að það sé rétt, að formaður Sjálfstfl. sé á móti þessu hvorugu, aðstoðinni við atvinnulífið eða fjáröfluninni til þess að geta veitt þá aðstoð.

Þá talaði hann um þá verkalýðsforingja, sem hefðu verið á móti aðgerðum ríkisstj. Það voru engir nema e.t.v. einn, sem var á móti aðgerðum ríkisstj. Það var nokkur skoðanamunur um það, hvernig ætti að orða þær undirtektir, sem verkalýðshreyfingin veitti, og það fór svo, að sú jákvæða ályktun, sem samþykkt var, fékk ekki mótatkvæði nema eins manns, 12 sátu hjá og 16 greiddu efnahagsmálaaðgerðum stjórnarinnar atkvæði á þann veg, að þeir töldu rétt, að verkalýðshreyfingin beitti sér ekki móti aðgerðunum og gerði ekkert til að torvelda þær.

Þá vék hann að uppáhaldsefninu um það, að ég hefði komið af stað verkfallinu 1955. Ég hef þá sjálfsagt komið af stað verkfallinu 1952 líka. Í verkfallinu 1952 var þáverandi ríkisstj. knúin til þess að gera ráðstafanir til verðlækkunar í landinu, en það varð að heyja verkfall til þess, harðvítugt verkfall. Sú ríkisstj. var ekki alveg á þeim buxunum að vilja stöðva verðlag í landinu eða lækka það. Nei, verkalýðshreyfingin háði þá langvarandi og harðvítugt verkfall í jólamánuðinum til þess að knýja fram stöðvun á verðlagi. Það er þess vegna ekkert nýtt, að verkalýðshreyfingin hafi beitt sér til þess að fá aukið jafnvægi í þjóðfélaginu og mótmæla hækkunum, af því að þær hafa alltaf orðið á kostnað verkalýðsins. Verkfallið 1952 var háð, eins og alkunnugt er, til þess að knýja fram verðlækkanir, og það tókst. Og hvað gerðist þá? Jú, þá kom einmitt stöðvunar- og kyrrstöðutímabil í tvö ár, en svo fór að hallast á ógæfuhliðina. Það voru gerðar pólitískar ráðstafanir meira að segja til þess að eyðileggja áhrifin af þeirri stöðvun, sem gat skapazt eftir verkfallið 1952, í árslokin þá, verkfallið er þá rétt fyrir áramótin. Og svo á ég að hafa komið af stað verkfalli aftur 1955. Hvað hafði þá gerzt? Á nokkrum árum frá því 1948 hafði það gerzt, að kaupmáttur launa hafði rýrnað um nálægt 20% smátt og smátt á því tímabili, og það var það, sem verkalýðshreyfingin þoldi ekki og ákvað — þ.e.a.s. allmörg stór stéttarfélög, — að segja upp samningum til þess að reyna að vinna þessa kjararýrnun upp. Það var hvorki ég né neinn einstaklingur, sem gat áorkað því, að fjöldi verkalýðsfélaga sagði þá upp samningum. Þá var farið fram á kauphækkanir til þess að vinna upp þá kjararýrnun, sem sannanlega hafði orðið. Góðir hagfræðingar reiknuðu það út, að kjaraskerðingin næmi þá í kringum 20%, á nokkuð mörgum árum að vísu, og var þá ekki talin sú breyting á húsnæði hér í Rvík og suðvestanlands, sem þá hafði hækkað stórkostlega og rýrt mjög kjör verkalýðsins. Hagfræðingarnir sögðu: Við getum ekki tekið það með í dæmið, við vitum ekki, hvað hin raunverulega húsaleiga er, hún er í mörgum tilfellum miklu hærri. en gefið er upp, og þess vegna reiknum við dæmið án tillits til húsaleigunnar. — En þegar það var reiknað svona út, þá kom samt út, að kjararýrnunin væri um 20%. Hvað fékkst út úr þessu verkfalli? Það var langt og hart, því er ekki að neita. Það fékkst 10 eða 11% kauphækkun út úr því, það á að hafa komið öllu úr skorðum hér, –og það fékkst stofnaður sjóður atvinnuleysistrygginga, sem við teljum vera aðalsigur þess verkfalls.

Það hefur farið svo með atvinnuleysistryggingarnar, að mesti sparnaður, sem nú á sér stað í okkar þjóðfélagi, er í gegnum fjársöfnunina, sem fer nú inn í atvinnuleysistryggingasjóðinn. Atvinnuleysistryggingasjóðurinn er nú að verða um 90 millj. kr. og er þegar farinn að starfa í þá átt að hjálpa til við ýmiss konar framkvæmdir, sem geta síðar orðið grundvöllur að blómlegu atvinnulífi í hinum ýmsu byggðum landsins og komið í veg fyrir atvinnuleysi. Þetta er einn af ávöxtum verkfallsins 1955, og ég hygg, að þeim fækki óðum, sem harma, að það verkfall var háð. Það leiðrétti þá kjaraskerðingu að verulegu leyti, sem orðin var, og það kom fótum undir atvinnuleysistryggingar í okkar landi, sem verkalýðsstéttin mun blessa um langa framtíð.

Þá fór hv. 2. þm. Eyf. nokkrum orðum um það, að þetta mál væri ekki svo einfalt sem ég vildi vera láta, og stendur enn þá fastur á því, að málið sé svo flókið, að sjálfstæðismenn skilji það ekki enn þá, þess vegna séu þeir löglega afsakaðir um það að koma með engar till. Kenningin er sem sé sú: Við skiljum það, að þetta mál er vitlaust, — það skilja þeir, en við skiljum ekki hitt, hvaða till. á að koma með, til þess að þetta sé umbætt, — það geta þeir ekki. Þá leyfist mér að segja: Þeir vilja enn þá og í rauðan dauðann halda því fram, að allur þingflokkur Sjálfstfl. sé svo einfaldur, að hann skilji ekki þetta flókna mál, og það er ekki traustvekjandi gagnvart þjóðinni. Það verður áreiðanlega talið furðulegt, að Sjálfstfl. gefi sjálfum sér þá einkunn, að hann skilji ekki þetta mál og geti ekki þess vegna borið fram neinar till. til breytinga. Ég er að vona, að það verði þeim til bjargar, að fólk trúi þessu ekki. (Gripið fram í: Er þá nokkuð betra, að hann sé tvöfaldur og hann vilji segja eitthvað annað en er?) Ja, þeim þykir það enn þá verra afspurnar, að þeir séu tvöfaldir. Þeir vilja frekar, að þjóðin líti á þá sem einfeldninga, það er greinilegt, — það er þeirra höfuðósk núna.

Þá var það út af samráðum, sem höfð hafa verið við samtök útgerðarmanna og samtök verkalýðsins, það sé gengið allt of langt, þegar maður getur séð það í blöðunum, að verkalýðssamtökin séu að fagna lögfestingu þessa og hins máls, sem ekki er komið fyrir Alþ. Mikið lifandis ósköp er þetta hryggilegt, að verkalýðssamtökin eru farin að samþykkja ánægjuyfirlýsingar yfir því, að það verði komið á fót lífeyrissjóði fyrir togarasjómenn, þegar stjórnin hefur lagt það fyrir samtökin, að hún hafi komið sér saman um að gera þetta, og það er aflað fjár m.a. til þess, að þessi byrði lendi ekki á atvinnuvegunum, 7 millj. kr. tekjuöflun, til þess að útgerðarmennirnir fái þetta upp borið. Hvaða hneyksli er það, þótt verkalýðshreyfingin segi frá því, að hún gleðjist yfir því, að svona löggjöf verði sett, þegar hún hefur fengið vitneskju um, að ríkisstj., sem hefur sterkan meiri hluta á Alþingi, hafi orðið sammála um að bera slíkt frv. fram? Og það lá fyrir, samið af mþn. og búið að leggja það til einróma í ríkisstj., að málið yrði flutt ásamt þessu máli, því að fjáröflun vegna málsins var í þessum aðgerðum. Ég sé ekkert athugavert við þetta og hygg, að menn geti ekki tekið neitt undir þessar aðfinnslur, hvorki formanns Sjálfstfl. né hv. 2. þm. Eyf. Hér er ekkert athugavert. Menn láta í ljós ánægju sína yfir lausn góðs máls, þegar ríkisstj. hafði lýst því yfir til verkalýðshreyfingarinnar, að þetta mál yrði flutt, og þá efaðist enginn um, að það yrði gert.

Það er smáatriði, að hv. 2. þm. Eyf. talaði um atkvgr. um till. fjórmenninganna, Það er alger misskilningur hjá honum. Það fór engin atkvgr. fram um þá till. Atkvgr. fór fram um brtt. og um till. svo breytta, og það var lokaatkvgr. Hitt skiptir miklu máli, að sá fulltrúi verkalýðsfélags í okkar hópi, sem vildi, að niðurstöðuályktun 19 manna nefndar og miðstjórnar Alþýðusambandsins væri mótmæli gegn efnahagsmálaaðgerðum stjórnarinnar, — hvaða undirtektir fékk hann? Það er meginatriði málsins. Hann fékk sitt eigið atkvæði og einskis manns annars, eitt atkvæði, en því taldi formaður Sjálfstfl. ástæðu til að þegja yfir, en það skipti öllu máli.

Þá fór hv. 2. þm. Eyf. nokkrum orðum um vísitöluna og það, sem um hana hefði verið sagt, og hann hafði sjálfur látið í ljós, að hún gæti truflað jafnvægi og ýtt verðhækkunum og kaupgjaldshækkunum af stað, og ég hafði ekki heyrt betur, en hann teldi verkanir hennar vera óheppilegar. En hitt er rangt hjá honum, þegar hann heldur því fram, að vísitölukerfið hafi verið tekið upp fyrir kröfur frá verkalýðshreyfingunni. Það hefur ekki verið gert. Verkalýðshreyfingin hefur ekki gert neinar kröfur um það nokkurn tíma, að vísitölukerfið í því formi, sem það er, væri sett á fót, og árum saman hefur það verið skoðun innan verkalýðshreyfingarinnar, að hún gæfi ýmsum öðrum meira, en láglaunafólkinu í þjóðfélaginu. Og það hefur hún gert, hún hefur gefið hálaunamönnunum í sumum tilfellum helmingi meiri bætur, þegar dýrtíð hefur vaxíð, heldur en láglaunamönnunum.

Hv. þm. A-Húnv. veit líka ósköp vel, að hann hefur ekki verið að berjast við verkalýðshreyfinguna, þegar hann hefur verið að berjast á móti vísitölukerfinu. Hann veit ósköp vel, við hvern hann var að berjast. Hann var að berjast við sinn eigin flokk. Hann hefur snúið geiri sínum gegn sínum flokki og verið hrópandans rödd þar og oft sagt það hér í þingsölunum, að hann fengi ekki þessu um þokað, því að sinn flokkur væri á móti sér í þessu máli. Það er sannleikurinn í málinu, að það hefur ekki verið háð barátta við verkalýðshreyfinguna um það að viðhalda vísitölukerfinu, það hefur verið barátta við allt aðra aðila, sem hafa viljað halda þessu kerfi við óbreyttu og í því formi, sem það er.

Ég sé ástæðu til þess að ljúka 1. umr. málsins af minni hendi með því að spyrja Sjálfstfl.: Hvað vill Sjálfstfl. gera? Telur hann aðstoð við sjávarútveginn óþarfa? Þá gætum við orðið sammála um, að það þyrfti engar aðgerðir kannske. Telur hann aðstoðina, sem sjávarútveginum er veitt með þessu frv., of mikla? Þá væri æskilegt, að það kæmi fram og væri rökstutt, svo að menn gætu þá athugað, hvort ekki mætti þá draga úr tekjuöfluninni. En ef ekki, þá þarf Sjálfstfl. að horfast ærlega í augu við það, að aðstoðar sé þörf, og greiða þá atkvæði með þeirri fjáröflun, sem lögð er til, til þess að fullnægja henni. Og ýmsir sjálfstæðismenn hafa haldið því fram, að aðstoðin við atvinnuvegina væri of lítil. Þá ættu þeir að koma með brtt. um tekjuöflunina, að auka hana, ef þeir meina það. Ég held, að það þýði ekki stærsta stjórnmálaflokki landsins að segja: Ég veit ekkert, ég veit ekki, hvað á að gera, ég veit ekki, hvort það er nokkur þörf að gera nokkuð atvinnuvegunum til aðstoðar. — Ég held, að Sjálfstæðisflokknum heppnist ekki að spila sig sem einfeldning í þessu máli. Ég held, að það sé ákaflega ólíklegt, að hann sleppi með það.

En svona er þetta. Fram á þessa stund hefur ekki örlað á neinni till. frá Sjálfstfl. um það, hvernig eigi að koma atvinnuvegunum til hjálpar á annan hátt, en hér er lagt til, og heldur ekki verið viðurkennt af þeim, því að þá væru þeir að neita staðreyndum, að það væri óþarft að gera neitt.

Nú fer málið til n. sennilega hvað af hverju, og þar gefst hv. fulltrúum stjórnarandstöðunnar enn kostur þess að láta það sjást, hvort þeir eru þeir einfeldningar, sem þeir þykjast vera, eða hvort þeir koma með einhverjar brtt. Komi þær ekki í n., þá er ólíklegt, að nokkrar brtt. verði frá þeirra hendi, að þeir hafi nokkurn hlut að segja um málið nema bara nöldra hér, eins og þeir hafa gert, sem hefur enga þýðingu.

Ég er alveg viss um það, að þegar fólkið les í Morgunblaðinu og blöðum Sjálfstfl., að hérna sé um að ræða 790 millj. kr. tekjuöflun nýja, þá heldur fólk, að það sé ákaflega vel séð fyrir þörfum framleiðsluatvinnuveganna með svona ríflegri fjáröflun. En Sjálfstfl. segir, að þetta sé ekki nóg, það sé of lítið, það þurfi meira, sérstaklega þurfi að hækka aðstoðina við síldveiðarnar upp í 85%. Kannske það sé þá von á till. frá Sjálfstfl. um, að þessi tala hækki, að það fari upp í 1.000 milljónir? Við sjáum til. En það rekst hvað á annað að halda því fram, að þessar tölur séu allt of háar, óþarfaálagning á mannfólkið í landinu, og hins vegar, að framleiðsluatvinnuvegirnir þurfi að fá meira. Það rekst alveg á, það skilur enginn.

En svona er samhengið lítið í málflutningi sjálfstæðismanna, og þetta skýrist ekki á nokkurn hátt fyrir fólki, fyrr en koma fram einhverjar till. frá Sjálfstfl. um málið. Af þeim og þeim einum verður hægt að sjá, hvort flokkurinn hefur nokkra skoðun á málinu, eða ef hann er ekki skoðanalaus, þá hverjar skoðanir hans eru. Það hlýtur að koma fram í brtt. hans við málið, þegar það fer nú til fjhn.