24.05.1958
Neðri deild: 104. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1166 í B-deild Alþingistíðinda. (975)

186. mál, útflutningssjóður o. fl.

Frsm. 2. minni hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða í upphafi máls míns að lýsa furðu minni yfir því, að þetta mál skuli vera tekið fyrir með þeim hætti, sem raun er á í dag. Að vísu hefur það dregizt úr hömlu, að málið yrði afgreitt, vegna þess, hvernig ástandið hefur verið undanfarna daga í stjórnarherbúðunum. En hitt finnst mér furðulegt, þar sem hér er um að ræða aðalumræðu málsins hér í d., að þannig skuli vera farið að að boða með mjög skömmum fyrirvara fund á laugardegi fyrir stórhátíð, þar sem vitað er, að margir menn muni hafa farið úr bænum og ekki vænzt þess, að málið yrði tekið fyrir.

Við sjálfstæðismenn höfum ekki gert neitt til þess að tefja afgreiðslu þessa máls hingað til hér í d., eins og öllum er kunnugt, heldur þvert á móti höfum við nm. í fjhn. Nd. einmitt reynt að greiða fyrir því eftir föngum, að málið tefðist ekki, svo að einmitt með tilliti til þessa vil ég lýsa furðu minni yfir því, að þannig skuli vera með málið farið.

Það stóð þannig á fyrir mér í gær, eins og hér mun hafa komið fram, þegar málið var þá tekið fyrir, að yfir stóðu próf í háskólanum. Ég lét það berast til hæstv. forseta, að ég mundi samt reiðubúinn til þess að fresta prófunum, þó að það ylli miklum óþægindum, en yrði þó að gera til þess nokkrar ráðstafanir, þannig að ég gæti ekki mætt fyrr en klukkan fimm. Fundi var þá slitið fyrr og ekki boðaður eftirmiðdagsfundur af ástæðum, sem flestum hv. dm. munu vera kunnar, svo að það skipti ekki máli þá. Á tíunda tímanum í morgun hringdi ég á skrifstofu Alþingis og spurði eftir því, hvort fundur hefði verið boðaður í dag. Því var svarað neitandi, og varð það til þess, að ég batt mig þá það sem eftir var morgunsins. Nokkru siðar var að vísu hringt og sagt, að fundur væri boðaður. Ég hafði því ekki þann tíma, sem ég hefði talið æskilegan til þess að byggja upp mína ræðu, en taldi þó rétt að sýna þann þegnskap að mæta hér. Hitt vona ég að verði virt mér til vorkunnar, þó að ég verði, vegna þess hvað þetta ber fljótt að, langorðari en ég ella hefði orðið.

Það, sem ég mun taka til meðferðar hér, er í fyrsta lagi að gera nokkra grein fyrir því frá mínu sjónarmiði, hvað í þessu frv. felst, því að ég tel mig nú geta gert mér nokkru gleggri grein fyrir því en við 1. umr. málsins. Í öðru lagi mun ég svo ræða líkleg áhrif þessara aðgerða, bæði það atriði, hvort líklegt sé, að hér geti að einhverju leyti verið um frambúðarlausn að ræða, og því næst, að hve miklu leyti þetta gæti verið heppileg bráðabirgðalausn. Því næst mun ég víkja að einstökum atriðum málsins og þeim brtt., sem við sjálfstæðismenn í fjhn. höfum gert, og svo að lokum draga nokkrar ályktanir um afstöðu okkar til málsins.

Svo að ég víki þá fyrst að fyrsta atriðinu, nefnilega hvað það er, sem í þessu frv. raunverulega felst, þá sýnist mér, að kjarni málsins sé sá, að þar er um að ræða 55% gengisfellingu. Það er að vísu ekki nefnt gengisfelling í frv. af skiljanlegum ástæðum, heldur er notað þar annað orð, sem ég minntist á í ræðu minni við 1. umr., að væri kannske betra orð, en gengislækkun, nefnilega hækkun á yfirfærslugjaldi. Það á sér stað 55% almenn gengislækkun, en þar sem þessi gengislækkun er ekki talin nægja til þess að afla fjár til þess að standa undir uppbótunum til útflutningsatvinnuveganna og til þess að standa undir niðurgreiðslum, jafna halla á fjárl. o.s.frv., þá er til viðbótar þessari gengisfellingu lagt á innflutningsgjald eða áfram lagt innflutningsgjald á allmikinn hluta innflutningsins, og er þar fylgt þeirri reglu að áliti þeirra, sem frv. hafa samið, að taka undir innflutningsgjöldin þær vörur, sem ekki eru taldar heyra til brýnustu nauðsynja. Þó að meginreglan sé sú, að það er 55% yfirfærslugjald á öllum yfirfærslum til útlanda, þá er þó gerð frá því undantekning hvað snertir nokkra einstaka vöruflokka og einstakar yfirfærslur aðrar, þannig að þetta fer fram á 30% yfirfærslugjaldi. Þar sem 55% yfirfærslugjaldið er það almennasta, þá er í rauninni eðlilegt að líta á þetta 30% gjald sem eins konar niðurgreiðslu hvað snertir þær vörur, sem fluttar eru inn á þessu lága gjaldi. Enn fremur er námskostnaður og sjúkrakostnaður með 30% yfirfærslugjaldi, sem er þá eðlilegt að líta á sem eins konar styrktarstarfsemi í þessari mynd. Þetta eru að mínu áliti meginatriðin í því kerfi, sem hér er um að ræða. Enn fremur er, eins og kunnugt er, gert ráð fyrir 5–7% almennum kauphækkunum, og þarf ekki að fjölyrða meir um þau ákvæði þessa frv., því að öllum er ljóst, hvað hér er um að ræða.

Spurningin er þá þessi, hvort gengislækkun í þessari mynd ásamt áframhaldandi uppbótakerfi sé líkleg til þess að vera í fyrsta lagi frambúðarlausn á efnahagsvandamálunum, og ef svo er ekki, hvort hér sé um heppilega bráðabirgðalausn að ræða. Það er full ástæða til þess að ræða fyrra atriðið, af því að mjög mismunandi sjónarmið hafa komið fram hjá hv. stjórnarflokkum einmitt varðandi það atriði. Af grg. frv. verður ekki dregin önnur ályktun en sú, að þeir, sem grg. hafa samið, geri ekki ráð fyrir, að þetta geti orðið annað, en bráðabirgðalausn. En önnur sjónarmið hafa þó komið fram. Hæstv. forsrh. lét m.a. að því liggja, að það væri hugsanlegt að reyna að halda þessu kerfi áfram, og ég sé, að í málgögnum hv. stjórnarflokka hafa verið gagnrýnd m.a. ummæli mín í þá átt, að hér væri ekki tjaldað nema til einnar nætur, og annarra sjálfstæðismanna, sem ummæli hafa látið falla í sömu átt.

Eins og ég minntist á í ræðu minni við 1. umr., hefur sú hugsun glögglega komið fram hjá sumum hv. stjórnarsinnum, þegar þeir hafa rætt málið, og e.t.v. einna skýrast hjá hæstv. forsrh., að hér væri um að ræða áfanga í áttina til einhvers betra. Það kom að vísu ekki skýrt fram, hvert förinni væri heitið, og liggja til þess eðlilegar ástæður. En eftir því sem næst varð komizt af ræðu hæstv. forsrh., þá talaði hann a.m.k. um þann möguleika, að hér væri um að ræða áfanga í áttina til gengislækkunar. Um þetta sagði ég það eitt í ræðu minni við 1. umr., að hér kæmi fram nýtt sjónarmið. Ég tók ekki afstöðu til þess, hvort hugsanlegt væri að fara þessa leið í áföngum, en lét í ljós efasemdir um, að svo væri. Síðan hef ég hugsað þetta mál nokkru nánar og finnst, að eftir því sem ég velti því meira fyrir mér, þá komist ég meir að þeirri niðurstöðu, að það geti ekki verið skynsamleg hugmynd að ætla sér að fara slíka leið í áföngum. Hvaða leiðir sem farnar væru til þess að koma á einhvers konar jafnvægi í efnahagsmálum, eða það hafa hagfræðingar a.m.k. kennt hingað til, þá virðist eðlilegra og hagkvæmara, að sú ráðstöfun sé gerð í einum áfanga, en ekki fleirum. Ef gengislækkunarleiðin er valin, sem ég fullyrði ekkert um að mundi vera það skynsamlega í þessum efnum, þá dreg ég ekki í efa, að gengislækkunin í heild þyrfti að vera meiri, ef þá leið á að fara í áföngum, heldur en ef skrefið væri tekið í einu, og ástæðurnar fyrir því, að telja verður líklegt, að svo sé, finnst mér í rauninni við nánari athugun að hljóti að liggja í augum uppi.

Hér er um að ræða 55% gengislækkun. Það liggur ekkert fyrir um það, hvað gengislækkunin þyrfti að vera mikil, ef ætti að leysa vandamál útvegsins eftir þeirri leið. En hvað sem því líður, er nú ekki hætta á, að það verði þannig, ef sagt er við fólkið: Við fellum gengið um 55% í dag, svo ætlum við í haust eða kannske á næsta vetri að fella gengið kannske um 35%, kannske um önnur 55% eða meir, — að það hafi mjög óheppileg áhrif á efnahagsþróunina? Það er vitað mál, að þetta verður mjög til þess einmitt að örva það, að fólk kaupi vörur, þar sem það býst við hækkandi verðlagi á þeim síðar, eins og raunar hefur nú þegar orðið vart við. Enn fremur hlýtur eftirspurn eftir lánum að vaxa, ásókn í það að ráðast í meiri fjárfestingu o.s.frv., þannig að ég tel, að sú hugmynd að fara gengislækkun í áföngum sé síður, en svo skynsamleg.

Annað mál er það, að það er kannske þannig með allar ráðstafanir í efnahagsmálum, hversu fáránlegar sem þær kunna að vera í sjálfu sér, að það geta verið hugsanlegar þær kringumstæður, að skynsamlegt væri að fara slíkar leiðir. En sú hlið á málinu finnst mér ekki hafa svo ákaflega mikla raunhæfa þýðingu. Það er sjálfsagt hægt að hugsa sér þær forsendur, að það gæti heppnazt að fara þessa svokölluðu áfangaleið, en ákaflega ólíklegt virðist það í fyrsta lagi, að þær forsendur geti verið fyrir hendi, og undir öllum kringumstæðum virðist mér ljóst, að þær eru engan veginn fyrir hendi í okkar þjóðfélagi nú.

Hér hefur verið vikið að spurningunni um það, hvort sú hugmynd að taka gengislækkun, sem nægileg mundi þykja til þess að skapa rekstrargrundvöll fyrir útflutningsatvinnuvegina, í áföngum sé skynsamleg í sjálfu sér. En þó að gengislækkunin sé að vísu þýðingarmesta atriðið að mínu áliti í þessu frv., þá er þarna um margt fleira að ræða, og því fer mjög fjarri, ef litið er á þetta frv. í heild, að það sé líklegt til þess að geta komið nokkru jafnvægi á í efnahagsmálunum. Að vísu er það þannig, að ef litið er á uppbótahliðina eingöngu, þá er nú minni munur gerður á uppbótunum til einstakra atvinnugreina en var áður, og ég hef áður tekið fram, að það atriði út af fyrir sig teldi ég til nokkurra bóta. Sé hins vegar litið á innflutningshliðina, þá er jafnvel enn þá meiri munur á þeim gjöldum, sem lögð eru á mismunandi innflutning, heldur en áður var, enda skýrt tekið fram í grg, og tölum, sem okkur hafa verið fengnar, útbúnar af þeim sérfræðingum, sem að þessu hafa unnið, að gert er ráð fyrir einmitt meirihækkun á þeim vörum, sem miklar álögur voru á áður, heldur en hinum. Það má nefna sem dæmi af handahófi, að gert er ráð fyrir því, að innflutningsgjaldið af vörum, sem áður voru með lægsta innflutningsgjaldi, hækki úr 97.9% af fob-verði upp í 112.8% af fob-verði. Aftur á móti þær vörur, sem áður voru með hæsta innflutningsgjaldinu, hækka úr 153.4% upp í 206%, þannig að bilið breikkar þarna frá því, sem áður var, þannig að hvað þetta atriði snertir, þá er síður en svo um það að ræða, að hér sé spor í áttina til jafnvægis, heldur miklu frekar það gagnstæða.

Rökin fyrir því að gera þennan mikla mismun á mismunandi vörum eru þau, að það þurfi að hlífa nauðsynjavörunum, eins og það er orðað, og á það sjónarmið er út af fyrir sig hægt að fallast. En á tvennu er þó rétt að vekja athygli í sambandi við þetta. Í fyrsta lagi því, eins og kom fram í minni fyrri ræðu, að ekki er til neinn algildur mælikvarði á það, hvað sé nauðsynjavara og hvað ekki nauðsynjavara. Það er nú yfirleitt þannig, að það, sem er nauðsynjavara fyrir einn, getur verið óþarfi fyrir annan o.s.frv. Nú er t.d. þannig komið, að einhver hæsti gjaldaflokkurinn mun nú vera, fyrir utan bíla, nýir ávextir, en á þeim hvílir, að mér skilst, eitthvað 221% álag. Ég býst við, að hér meðal hv. þdm. og áheyrenda séu, svo að ekki sé meira sagt, mjög skiptar skoðanir um það, hvort nýir ávextir séu yfirleitt mesti óþarfinn, sem fluttur er til landsins. Það er hugsanlegt, að til séu einstakir menn, sem líta þannig á. Ég er síður en svo í þeirra hópi. Ég tel, að margt sé óþarfara, en nýir ávextir, og býst við, að margir séu mér sammála um það. Hér er um að ræða mjög holla fæðu, oft nauðsynlega fyrir sjúklinga t.d., þannig að þetta er atriði, sem mjög má um deila. Önnur er sú vörutegund, sem ég tel að gefnu tilefni mega nefna í þessu sambandi. Það eru gólfteppi. Eitt af fleiri mótmælaerindum, sem liggja nú fyrir fjhn., er frá innflytjendum þessarar vöru, sem telja, að gólfteppi verði svo dýr, að það hljóti að taka að mestu eða öllu fyrir innflutning á þeim, ef þessar háu álögur eru lagðar á. Það má auðvitað um það deila líka, hvort gólfteppi séu óþarfi eða ekki. Fyrir suma er það e.t.v. þannig. Aftur á móti hvað snertir fólk, sem er að stofna heimili o.s.frv., þá má telja þetta til nauðsynja, og þannig má ábyggilega nefna fjöldamörg önnur dæmi um, að mjög skiptar skoðanir hljóta að vera um það, hvaða vörur eigi að telja til óþarfa og hvaða ekki.

Annað atriði má líka nefna í þessu sambandi. Hvað sem líður þeirri spurningu, hvaða vörur séu óþarfar og hvaða ekki, og jafnvel þó að allir væru sammála í því efni, þá verður það auðvitað alltaf mjög varhugavert að leggja gífurlegar álögur á þær vörutegundir, sem hugsanlegt er að smyglað sé til landsins, því að það er nú einu sinni staðreynd, sem ekki er hægt að komast fram hjá, að fullkomið eftirlit með smygli er aldrei hægt að hafa, og verði mismunurinn á verði vörunnar tollaðrar og án tolla gífurlega mikill, þá fer ekki hjá því, að það verður meira eða minna um smygl. Fyrir þessari hættu er ekki hægt að loka augunum.

Fyrir utan þau atriði, sem ég hef nú nefnt til stuðnings því sjónarmiði, að það séu ekki líkur á því, að þetta frv., ef að lögum verður, verði til þess að skapa jafnvægi, þá er ástæða til þess að undirstrika sérstaklega kaupgjalds- og vísitölustríðið. Það kemur að vísu fram í grg. frv., að þegar vísitalan hefur hækkað um meira en 9 stig, — en samkvæmt öllum áætlunum, sem gerðar hafa verið í þessu efni, þá má fullyrða, að hækkunin verði meiri, — þá tekur vísitöluskrúfan til á nýjan leik, ekki satt? Og komist útflutningurinn ekki af án minni uppbóta en þetta, þá þýðir það auðvitað, að greiða verður hærri uppbætur og svo koll af kolli. Það kerfi, sem hér er um að ræða, er þannig laust í annan endann, ef svo mætti segja, þannig að af þessu ætti að vera ljóst, að hér er aðeins um bráðabirgðaúrræði að ræða, miðað við þær aðstæður, sem nú eru fyrir hendi í okkar atvinnu- og efnahagslífi, og það er auðvitað aðalatriðið, Það eru engar líkur á því, að hér sé um annað að ræða, en að tjaldað sé til einnar nætur, þannig að þetta frv. verður fyrst og fremst að ræðast sem bráðabirgðalausn.

En nú er spurningin sú, hvort það er þá einu sinni víst, að hér sé um bráðabirgðalausn að ræða, og satt að segja, miðað við þær undirtektir, sem þetta frv. hefur fengið hjá hinum ýmsu stéttasamtökum, þá leyfi ég mér, svo að ekki sé dýpra í árinni tekið, að draga mjög í efa, að svo verði. Ég hef áður verið viðriðinn ráðstafanir í efnahagsmálum og þekki það vel, með hverri tortryggni slíkum ráðstöfunum er að jafnaði tekið af almenningi, svo að það er í rauninni ekki nýtt, að gegn slíkum ráðstöfunum komi mótmæli einhvers staðar frá. Hitt hugsa ég að varla hafi komið fyrir, að mótmælaaldan gegn slíkum ráðstöfunum hafi verið jafnalmenn og nú, og vekur það í rauninni enga furðu með tilliti til þess, hvernig þetta mál hefur borið að. Ef hér væri um að ræða aðila, sem komizt hefðu til valda á grundvelli ábyrgs málflutnings í þessum málum, þá mætti segja með tilliti til þess, hversu alvarleg vandamál hér er um að ræða, að þessir aðilar ættu siðferðiskröfu á því, að þeim till., sem fram eru lagðar, hvað sem í þeim felst að öðru leyti, yrði sýndur nokkur skilningur. En þessu er nú ekki að heilsa. Eins og kunnugt er, þá eru sumir þeir, sem nú sitja í valdastólunum, einmitt komnir þangað vegna þess, að þeir höfðu áður talið fólkinu trú um það, að efnahagsvandamálin væru ekki raunveruleg, það væri auðvelt að leysa þessi mál með aðgerðum, sem enginn eða a.m.k. ekki launastéttirnar í þjóðfélaginu þyrftu að finna neitt fyrir. Með tilliti til þessa gegnir það ekki neinni furðu, þegar fólk nú stendur gagnvart þeim gífurlegu álögum, sem um er að ræða, að viðbrögð almennings í þessu efni séu þau, sem raun er á.

Í sambandi við öll þessi mörgu mótmæli, fyrst og fremst frá launaþegasamtökum og ýmsum öðrum stéttasamtökum, þá vaknar í fyrsta lagi spurningin um það, t.d. hvað snertir launþegasamtökin, hvort sitja verður látið við mótmælin ein og hvort hæstv. ríkisstj. er fær um að koma í veg fyrir það, að álögur þessar leiði til þess, að um miklu stórfelldari kauphækkanir verði að ræða, en frumvarpið sjálft gerir ráð fyrir.

Annað atriði, sem hér skiptir máli, er spurningin um það, hvort þetta frv. í rauninni nær þeim bráðabirgðatilgangi, sem það hefur, nefnilega að skapa rekstrargrundvöll fyrir sjávarútveginn á næstu mánuðum. Samkvæmt því, sem fyrir liggur, verður að draga þetta mjög í efa. Við sjálfstæðismennirnir í 2. minni hl. fjhn. leyfðum okkur t.d. í því sambandi að birta hér sem fskj. með okkar nál. erindi frá Landssambandi ísl. útvegsmanna. Ég vil — með leyfi hæstv. forseta — lesa hér eina eða tvær greinar úr þessu nál., sem gefa þó nokkra hugmynd um, hvert álit þeirra er á þessum efnum. Um uppbæturnar á Norður- og Austurlandssíldina segja þeir m.a.:

„Niðurstaða vor af þessum athugunum er sú, að útflutningsprósenta b-liðs 3. gr. frv. megi eigi vera lægri, en útflutningsprósenta sú, er vér höfum reiknað út fyrir annan fisk og fiskafurðir, eða 85%. Enn fremur höfum vér gert athugun á þörfum útgerðarmanna og fiskvinnslustöðva vegna veiði og verkunar á annarri síld, Faxasíld, reknetasíld og smásíld, á sama grundvelli og að ofan er getið um Norðurlandssíldina, og komizt að raun um, að bátar og vinnslustöðvar munu ekki geta starfað að framleiðslu þessarar síldar á lægri útflutningsprósentu en 85%.“

Enn fremur segir í þessu sama erindi, með leyfi hæstv. forseta:

„Þá leyfum vér oss að geta þess, að fyrirsjáanlegt er, að með ráðstöfunum þeim, sem fyrirhugaðar eru með frv. þessu, muni sjávarútvegur og fiskvinnsla einnig stöðvast, verði ekki jafnhliða gerðar sérstakar ráðstafanir til þess að útvega sjávarútveginum aukin stofnlán og rekstrarfé. Rekstrarfjárskortur hefur hamlað útgerðinni að undanförnu, og fyrirsjáanlegt er, að þörfin fyrir rekstrarfé muni stóraukast við þessar ráðstafanir, sbr. greinargerð frv.“

Það kemur þannig ljóst fram, að það er álit Landssambandsins, að hækka þurfi uppbæturnar töluvert frá því, sem hér er gert ráð fyrir, til þess að um rekstrargrundvöll sé að ræða. Ég er ekki bær að dæma um það, hvort þetta er rétt eða ekki. Það hafa ekki verið lagðar fram neinar upplýsingar um rekstrarafkomu útvegsins, þannig að hægt sé að mynda sér skoðun á því, hver þörfin í rauninni er. Hitt finnst mér sjálfsagt í sambandi við meðferð þessa máls, að álit útvegsmannanna sjálfra komi fram í þessu efni. Það verður því einnig, a.m.k. á þessu stigi málsins, að draga það mjög í efa, hvort frv. einu sinni verður sú bráðabirgðalausn, sem til er ætlazt.

Ég leyfi mér þá að víkja að þeim brtt., sem við sjálfstæðismenn í 2. minni hl. fjhn. höfum flutt við frv. Við gerum í nál. nokkra grein fyrir afstöðu okkar almennt til breytingartillagna. Við urðum ásáttir um það, að ekki væri rétt á þessu stigi málsins að flytja till., sem röskuðu verulega því kerfi, sem frv. byggir á, þannig að þær fáu brtt., sem við flytjum, eru að okkar áliti innan ramma þess kerfis. Hins vegar tökum við fram, að full ástæða gæti verið til slíks, og í því, að við flytjum ekki fleiri brtt., liggur að sjálfsögðu ekki, að við höfum að neinu leyti bundið hendur okkar með tilliti til brtt., sem fluttar kynnu að vera af öðrum. Við höfum þannig að fullu óbundnar hendur með að fylgja brtt., sem kynnu að vera fluttar af okkar flokksbræðrum og öðrum hv. þdm., en að svo stöddu máli, töldum við eftir atvikum ekki rétt að fara lengra í þessu efni, en fyrir liggur í okkar brtt. Þær eru því tiltölulega smávægilegar.

1. brtt. er við 20. gr. frv. Seinni málsgrein hennar hljóðar nú þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Útflutningssjóður skal endurgreiða yfirfærslugjald af þeim afborgunum og vöxtum af lánum til kaupa á flutningaskipum, sem greiddir hafa verið á tímabilinu 1. jan. til 14. maí 1958.“ Við leggjum til, að á eftir „flutningaskipum“ komi: flugvélum. Við teljum eðlilegt, að í þessu efni sé ekki gerður greinarmunur á flutningaskipum og flugvélum.

2. brtt. okkar er við 36. gr., sem fjallar um heimild fyrir ríkisstj. til þess að fella niður innflutningsgjald af ilmefnum til sápugerðar o.s.frv. Við teljum eðlilegt að gera þessa heimild víðtækari, þannig að það nái einnig til annarra hráefna til iðnaðar, ef það er talið nauðsynlegt vegna afkomu einstakra iðngreina. Hér er aðeins um heimildarákvæði að ræða, og við sjáum ekki, að það geti undir neinum kringumstæðum spillt neinu, þó að þessi heimild sé fyrir hendi. En vitanlega getur oft staðið þannig á, að það væri eðlilegt að nota slíka heimild í öðrum tilfellum, en gert er ráð fyrir í frv.

Í þriðja lagi leggjum við til, að sú breyting verði gerð á 43. gr. frv., að 150% álagið á innlendar tollvörur verði lækkað ofan í 100%. Nú er þetta álag 80%, þannig að þarna er um gífurlega hækkun að ræða, úr 80% upp í 150%. Mér eru satt að segja einmitt út frá þeim grundvallarsjónarmiðum, sem mér virðist að þetta frv. byggi á, ekki skiljanlegar röksemdirnar fyrir því að hækka það álag, sem hér er um að ræða, svo gífurlega sem raun er á. Við fengum þær upplýsingar frá þeim sérfræðingum, sem að þessu frv. hafa unnið, að þeirri reglu væri hér fylgt að láta innlendu tollvörurnar koma í hæsta gjaldaflokk innfluttra vara, Þetta sjónarmið virðist mér satt að segja mjög furðulegt. Það er eðlilegt eða a.m.k. skiljanlegt sjónarmið, þegar um gjaldeyrisskort er að ræða, að háir tollar og há innflutningsgjöld séu lögð á vissar vörutegundir, sem taldar eru miður nauðsynlegar, beinlínis í þeim tilgangi að takmarka innflutning á þessum vörutegundum. Það er sjónarmið, sem skynsamleg rök má færa fyrir. Hitt er einkennilegt, ef sama á að gilda um innlenda iðnaðarstarfsemi, þar sem bæði er um að ræða mjög almennar neyzluvörur, eins og kunnugt er, og auk þess getur það ekki eða verður því a.m.k. ekki að óreyndu trúað, að þar sé um að ræða markvissan tilgang í þá átt að skapa samdrátt og atvinnuleysi í þessum iðngreinum. Ef til vill verður því svarið við þessari till. um lækkun á innlenda tollvörugjaldinu, sem að okkar áliti er ekki meira en svo, að það verði þá í samræmi við aðrar álögur, sem þarna er um að ræða, — því verður ef til vill til svarað, að útflutningssjóðurinn megi ekki við þeim tekjumissi, sem af því mundi leiða að lækka þetta gjald. En ég dreg satt að segja mjög í efa, að til þess tekjumissis komi, því að það hljóta þó að vera takmörk fyrir því, hvað hátt er hægt að skattleggja vörutegundir sem þessar, ef það á ekki að skapa hættu á því, að sala á þeim dragist mjög saman. Við teljum, að í þessu efni sé boginn orðinn spenntur svo hátt, með tilliti til þess, að mjög þungar álögur hvíldu á þessum vörum fyrir, að telja megi nokkurn veginn víst, ef gjaldið verður hækkað svo sem raun er á, að þá muni salan minnka mjög frá því, sem nú er, þannig að líklegt má einmitt telja, að út frá tekjuöflunarsjónarmiðinu mundi vera hagstæðara að hafa þetta gjald lægra.

Að endingu vil ég víkja örfáum orðum að því, sem af andstæðingum okkar sjálfstæðismanna hefur verið mjög hamrað á að undanförnu. Þeir neita því ekki, því að það er staðreynd, sem hver maður getur þreifað á, að hér verður um að ræða mjög tilfinnanlegar álögur á allan almenning og stórfelldar verðhækkanir, sem hljóta að hafa í för með sér meiri eða minni röskun á aðstöðu atvinnuveganna í landinu. Þeir segja sem svo: Öllum er ljóst, að eitthvað þarf að gera í þessum efnum, það þarf að sjá ríkissjóði og fyrst og fremst tvíburabróður hans, útflutningssjóðnum, fyrir tekjum með einhverju móti. Ef sjálfstæðismenn eru á móti því, sem hér er lagt til, hvaða ráðstafanir benda þeir þá á aðrar og betri en þessar, sem hægt væri að gera til þess að leysa þessi vandamál? — Ég vil í fyrsta lagi benda á það, að þessari spurningu hafa hv. stjórnarsinnar í rauninni svarað sjálfir, og í því efni leyfi ég mér að vísa til hinnar snjöllu ræðu formanns Sjálfstfl., hv. þm. G-K., sem hann hélt við 1. umr. málsins, þar sem hann m.a. vitnaði í viðtal við hæstv. forsrh. frá því fyrir um mánuði, þar sem hæstv. forsrh. fór mörgum orðum um það, hvað nauðsynlegt væri að gera víðtækar rannsóknir, sem taka mundu langan tíma, áður en hafizt yrði handa um að gera till. um úrræði í efnahagsmálum. Ég er alveg sammála hæstv. forsrh, um, að það mundi vera alveg út í bláinn að gera slíkar till. nema hafa viðað að sér mjög viðamiklum upplýsingum um hina ýmsu þætti þessara mála, og til þess að halda mig að meira ákveðnum atriðum, bendi ég t.d. á þetta: Auðvitað er það þannig, að þótt það sé ljóst, að það er þjóðarheildinni nauðsynlegt, að útflutningsframleiðslan truflist ekki, þá ætti ekki að vera um það ágreiningur, að auðvitað ber ekki að leggja á meiri álögur í þessu efni, en brýna nauðsyn ber til, þannig að fyrir það fyrsta verður maður að gera sér grein fyrir því, hver er þörf útflutningsatvinnuveganna í heild og einstakra útflutningsgreina. Engar upplýsingar hafa legið fyrir um afkomu útflutningsatvinnuveganna, sem geri stjórnarandstöðunni mögulegt að átta sig á þessu mjög svo mikilvæga atriði. Enn fremur hefur það verið skoðun okkar sjálfstæðismanna, að í þessum efnum bæri að keppa að einhverri þeirri lausn, sem verið gæti til einhverrar frambúðar. Við gerum okkur vissulega ljóst, að það eru ekki til nein úrræði í efnahagsmálum, sem leysi þann vanda í eitt skipti fyrir öll. En við teljum þó æskilegt, að keppt sé að því, að þau úrræði, sem gripið er til, gætu orðið til einhverrar frambúðar. Þær aðstæður geta verið fyrir hendi, bæði stjórnmálalegar og aðrar, að þau úrræði, sem gætu verið til frambúðar, séu ekki framkvæmanleg. Það er önnur hlið á málinu. En áður en menn sætta sig við það að grípa til einhverra úrræða, sem fyrirsjáanlegt er að ekki geti verið nema til bráðabirgða, þá þarf þó a.m.k. að ganga úr skugga um það, hvort ekki séu möguleikar á hinu.

Í fyrri ræðu minni vék ég nokkuð að þeim möguleikum, sem kæmu til greina í sambandi við frambúðarlausn þessara mála. Minntist ég þá á mismunandi leiðir, sem þar kæmu til greina, og tel ég víst, að í því, sem ég sagði þá, hafi ekki allt verið upp talið í þessum efnum. Ég tel því, að áður en til greina kemur að gera ákveðnar till. til lausnar þeim vandamálum, sem hér er um að ræða, beri að athuga, hvaða möguleikar eru á því að gera einhverjar ráðstafanir, sem vænta má að verði til frambúðar. Í því sambandi má nefna gengislækkunarleiðina eða jöfnunarleiðina, sem hæstv. forsrh. talaði um, einnig niðurfærsluleiðina, þá leið að skipta um mynt, og ýmislegt fleira kæmi til greina. Það ber að athuga, hvaða áhrif þetta mundi hafa o.s.frv. Það er hugsanlegt, að pólitískar og efnahagslegar aðstæður í þjóðfélaginu séu með þeim hætti, að það komi svo í ljós við athugun á þessum varanlegu leiðum, að þær séu óframkvæmanlegar og þess vegna verði að sitja við bráðabirgðaúrræðin sem neyðarráðstöfun. Ég skal ekki segja um það, nema niðurstaðan gæti orðið sú. En hitt er augljóst, að áður en ákveðnar till. eru gerðar, verður að framkvæma viðtæka rannsókn í þessu efni. En eins og kunnugt er, er það þannig, að jafnframt því, að hv. stjórnarsinnar gera mjög strangar kröfur á hendur stjórnarandstöðunni í því efni, að hún leggi fram ákveðin úrræði í þessum málum, þá gæta þeir þess vandlega, að stjórnarandstaðan hafi engan aðgang að þeim upplýsingum, sem þeir sjálfir hafa þó lýst yfir að slíkar till. yrðu að byggjast á.

Með tilliti til þessa, sem sagt hefur verið, verður niðurstaða okkar nm. Sjálfstfl. í fjhn. sú, að við erum þessu frv. andvígir. Við teljum ekki undir neinum kringumstæðum, að hér geti verið um neina frambúðarlausn á efnahagsvandamálunum að ræða. Við drögum í efa, að þetta geti heldur orðið bráðabirgðalausn, og með tilliti til þess, að stjórnina vantar, eins og skýrt hefur komið fram, algerlega stefnu í þessum málum, þar eð algerlega andstæð sjónarmið togast á innan hennar, þá vitum við ekki, hvert stefnt er. Það eina, sem er augljós staðreynd í þessu máli, er það, að hér er um að ræða mjög miklar álögur á allan almenning í landinu, þannig að ég tel ósanngjarnt að lá okkur það, þó að afstaða okkar til þessa máls sé sú, sem lýst hefur verið, enda er það ábyggilega í samræmi við vilja þess fólks, sem við erum hér umboðsmenn fyrir.