24.05.1958
Neðri deild: 104. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1175 í B-deild Alþingistíðinda. (976)

186. mál, útflutningssjóður o. fl.

Frsm. 3. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur athugað þetta frv. allgaumgæfilega, fjhn. beggja d. hafa unnið saman að því, og við höfum sumpart kvatt á okkar fund fulltrúa fyrir ýmis samtök og stofnanir í landinu, og sumpart hafa ýmis samtök óskað eftir að koma til fundar við okkur og tjá okkur sínar skoðanir.

Fyrst og fremst fór fram langt viðtal við Landssamband ísl. útvegsmanna, þar sem voru fulltrúar fyrir hinar ýmsu greinar sjávarútvegsins, atvinnurekendanna þar í. Enn fremur komu fulltrúar Vinnuveitendafélagsins á fund beggja n. sameinaðra, og enn fremur fannst okkur ástæða til þess sérstaklega að kveðja á okkar fund stjórn Seðlabanka Íslands til þess að spyrja um ýmis atriði, sem snerta mundu framkvæmd þessa frv., ef að lögum yrði. Þá barst okkur og allmikið af bréfum, eins og þegar hefur verið skýrt frá, frá ýmsum samtökum sérgreina í landinu.

Það tók eðlilega nokkurn tíma fyrir fjhn. og hefði þó raunverulega þurft enn þá meiri rannsókn, ef þarna hefði átt að kryfja allt til mergjar, eins og nauðsynlegt hefði verið. Það er mín reynsla frá því fyrr í fjhn. að hafa meðhöndlað svona hluti, að þeim sérfræðingum, sem settir eru í þetta, með allri virðingu fyrir þeirra lærdómi, hættir oft við að gleyma ýmsum atriðum. Ég man eftir því 1950, þegar við hér í fjhn. þessarar hv. d. ræddum gengislækkunarfrv. þá, og ýmsir hafa síðan verið að afsaka ýmislegt í því, að þess útreikningar skuli ekki hafa staðizt, meðan Kóreustyrjöldin og aðrir slíkir atburðir hafi gerzt, sem ekki hafi verið hægt að reikna með, þá kom það í ljós, að í undirbúningnum undir það frv. hafði gleymzt að reikna með þeirri gengislækkun, sem fram fór í september 1949, þegar pundið féll gagnvart dollar, og afleiðingunum, sem það átti eftir að hafa á íslenzkan þjóðarbúskap. Og það er oft svo, að þeim mönnum, sem eru of einhliða þannig, miða allt sitt of einhliða við „statistikina“, við hagfræðina í þrengstu merkingu þess orðs, þeim hættir oft við að yfirsjást um ýmsar afleiðingar af þeim aðgerðum, sem þeir gera, sérstaklega þegar þær afleiðingar hafa m.a. áhrif á fólkið sjálft og þess viðbrögð. Það hefði þess vegna verið nauðsynlegt, að það hefði verið miklu betri tími fyrir fjhn. þessarar d. til þess að rannsaka þetta mál heldur en hún hefur fengið, ekki sízt með tilliti til þess, að ég býst ekki við, að neinn af þeim, sem í fjhn. eru, hafi haft tækifæri til þess að kynna sér þetta frv., áður en það var lagt fyrir þingið.

Þá vil ég fyrst víkja að vandamálunum, sem þessu frv. er ætlað að leysa, í heild og koma inn á mína till. um, hvernig þetta mál verði afgreitt. Niðurstaðan í mínu nál. er sú, að afgreiða beri þetta mál með svo hljóðandi rökstuddri dagskrá:

„Í trausti þess, að ríkisstj. leggi hið bráðasta fyrir þingið frv. til laga um heildarstjórn á þjóðarbúskapnum, er tryggi eflingu atvinnulífsins samkvæmt fyrirframgerðum áætlunum, og leggi fram tekjuöflunartill., er geri ráð fyrir að halda verðstöðvunarstefnunni, eftir því sem unnt er, og valdi sem minnstri almennri verðhækkun, tekur d. fyrir næsta mál á dagskrá.“

Viðvíkjandi fyrri hlutanum í þessari dagskrá minni um, að fyrst og fremst bæri að leggja hér fyrir frv. um heildarstjórn á þjóðarbúskapnum, þá er það höfuðatriðið fyrir mér í allri afstöðunni til alls þess, sem heitir lausn á efnahagsvandamálum Íslands, og meðan ekki er tekið tillit til þess að gera þennan hlut, ákveða að gera hann eða undirbúa að gera hann, þá er ekki einu sinni um bráðabirgðalausn að ræða, hvað þá heldur lausn, sem gæti dugað nokkurn tíma fyrir okkar þjóðarbúskap.

Ég gerði við 1. umr. þessa máls allýtarlega grein fyrir þeirri pólitísku hlið þessa máls, fyrir þeirri baráttu, sem fram hefði farið af hálfu t.d. verkalýðshreyfingarinnar og hennar flokka í landinu fyrir því að fá slíka heildarstjórn í gegn á þjóðarbúskapnum, og ég ætla ekki að endurtaka það að neinu leyti nú, en koma hins vegar nokkuð inn á í sambandi við þá hluti þau algerlega hagrænu atriði í sambandi við þetta.

Ég held, að það sé alveg óhjákvæmilegt, ef hv. þm., þeir sem á annað borð gefa sér tíma til þess að hugsa nokkuð um, hlusta nokkuð á eða brjóta yfirleitt heilann um þessi mál, en láta sér ekki nægja að láta stólana vera sína fulltrúa, — ég býst við, að þeir mundu, ef þeir brytu þetta mál til mergjar, komast að þeirri niðurstöðu, að það er alveg óhugsandi að ætla að leysa vandamálin, sem fyrir liggja í efnahagsmálum Íslands, án þess að taka fyrst og fremst fjárfestingarpólitíkina fyrir.

Það eru sem sagt tvenns konar tilhneigingar, sem eðlilega verða í einu þjóðfélagi viðvíkjandi fjárfestingu og viðvíkjandi almennri neyzlu. Það er alveg gefið mál, að hver einasti einstaklingur í þjóðfélaginu, þegar hann hugsar fyrir sig út frá sínum persónulegu hagsmunum, hvað er það þá, sem hann óskar eftir? Jú, hann óskar eftir því, að hann fái mikinn og góðan mat, hann fái góð föt, hann fái góð húsgögn, hann fái góða íbúð, hann fái ýmis þægindi, hann fái radíógrammófóna, hann fái ísskápa, hann fái allt mögulegt af slíku, sem við köllum neyzluvarning. Þetta verður þess vegna sú almenna tilhneiging í þjóðfélaginu hjá öllum borgurum þess, hjá öllum þegnum þjóðfélagsins. Og hvert mundi þessi tilhneiging leiða? Ef þessi tilhneiging, almenna, eðlilega, blinda tilhneiging er látin ráða í þjóðfélaginu, mundi hún leiða til þess, að menn alls staðar fara fyrst og fremst fram á þessa hluti og vilja fá þá, meira að segja þeir, sem þjóðfélagið, eins og ég siðar mun koma að, ætti mjög erfitt með að láta það í té, við skulum segja hin og þessi raftæki í dreifbýlið í sveit. Mörgum mönnum mun finnast þar, að þegar fólk í Reykjavík og bæjum er farið að sanka þessu að sér, þá eigi þeir sem borgarar í íslenzku þjóðfélagi svo sem líka sama rétt, og vilja þess vegna mjög gjarnan fá raforku og raftæki og allt mögulegt til sín. Einstaklingurinn hugsar þannig, og einstaklingurinn ýtir þannig á, og einstaklingurinn óskar eftir þessu í sambandi við kosningar, í sambandi við tímabilið milli kosninga, í sambandi við þau áhrif, sem hann reynir að hafa á sína þm., og annað slíkt.

Auðvitað er alveg óhugsandi, að þjóðfélagið gæti gengið með því móti, að allir „spekúleruðu“ bara í því að láta undan þessum tilhneigingum. Það er það eðlilega og það almenna og það nauðsynlega að fullnægja þeim. En til þess að geta fullnægt þessu, til þess að þjóðfélagið standi undir því að geta fullnægt þessum eðlilegum neyzluþörfum almennings, þarf að sjá fyrir því, að sjálf framleiðslutæki þjóðarinnar séu aukin. Það er hlutverk forráðamanna þjóðfélagsins. Það er hlutverk þeirra manna, sem kosnir eru af þjóðinni til þess að stjórna henni, að sjá um, að þessari hlið sé sýndur fullur sómi, og gera þjóðinni það skiljanlegt, að þetta sé undirstaðan undir því, að hún geti veitt sér föt og fæði og að hún geti veitt sér ýmiss konar munað. Það, sem er þess vegna um að gera í þessu efni, er, að forráðamenn þjóðarinnar á hverjum tíma segi þjóðinni satt um þessa hluti, þeir þori að segja henni satt og þeir viti, hvað satt sé, þeir þori að kryfja þjóðfélagið þannig til mergjar, að þeir komi fram fyrir þjóðina og segi: Þetta hérna þarf að gera, til þess að þér geti liðið vel, kannske ekki strax, en seinna meir. Og ef menn hafa ekki þessa afstöðu til hlutanna, þá eru menn ekki ábyrgir í sinni hugsun. Ef menn segja t.d.: Við getum veitt öllum mönnum í landinu raforku, og það er sjálfsagt að láta alla togara og allt þess háttar gums sitja á hakanum og bara láta menn fá raforku í hvert einasta sveitabýli, — þá erum við að skrökva að þjóðinni. Það var einu sinni fyrir 10, 12, 14 árum, að það var sagt, þegar lagt var í að kaupa nýsköpunartogarana: Ja, þetta átti ekki að gera, það átti að hefjast handa um rafvirkjanir úti um allt land. — Það var að segja þjóðinni ósatt. Það, sem þurfti að gera, var að ráðast í togarana, bátana og annað slíkt, sem þýddi framleiðslu þjóðarinnar, framleiðslu á gjaldeyri, vegna þess að það var undirstaðan undir því, að menn gætu seinna veitt sér m.a. rafmagn.

Það er undirstaðan undir allri afstöðu við að móta efnahagspólitík einnar þjóðar, að menn í fyrsta lagi kunni að hugsa rétt um þessa hluti, að menn hafi hug til þess að segja þjóðinni satt og að menn láti ekki leiða sig afvega, t.d. af því að eitthvað geti verið mjög vinsælt í sambandi við einstök kjördæmi, erfiðleika manna í þeim og annað slíkt, — að menn þori að skýra þessa hluti fyrir þjóðinni og helzt sannfæra hana um, hvað þetta sé nauðsynlegt.

Ef öllum húsmæðrum í Reykjavík, þeim sem efni hefðu á því að kaupa sér fína kjóla, fyndist ekki nægilegt úrval af kjólum hér, þá er rétt að segja þeim, að það sé vegna þess, að við höfum ekki nógu marga togara eða marga báta, eða vegna þess, að okkur vanti menn á bátana og vanti þess vegna meiri fisk. Þjóðin þarf að vita, að það, sem hún klæðist í, og það, sem hún aflar sér, það er allt saman andvirði fisks. Það er ekki andvirði einhverrar krónu, hún er ekkert nema viðmiðun, það er andvirði fisks.

Efnahagsvandamál þjóðarinnar eru þess vegna fyrst og fremst þau, að hún eigi nógu mikið af framleiðslutækjum og hún geti fengið menn til þess að vinna við þau og framleiða þau. Og þetta þarf látlaust að berja inn í þjóðina. Þetta þurfa hennar forráðamenn að segja á öllum tímum, vegna þess að þetta er henni lífsnauðsyn, svo lengi sem við enn þá verðum að lifa á sjávarútveginum. Og við komum til með að gera það fyrst og fremst enn þá næstu áratugi, jafnvel þó að við getum virkjað okkar heita vatn og okkar fossa. Það tekur okkur 10 ár að koma upp fyrstu stóru verksmiðjunum í því, og meira að segja þær stóru verksmiðjur mundu ekki skapa nema tiltölulega lítið í hlutfalli við afköst á mann, sem okkar togarar skapa. Þess vegna er það lífsspursmál, að þetta sé gert þjóðinni ljóst. En til þess að þjóðinni sé gert þetta ljóst, þarf forráðamönnum þjóðarinnar að vera þetta ljóst, og þá þurfa þeir að hafa það siðferðilega hugrekki á hverjum tíma, það pólitíska hugrekki að geta sagt henni þetta.

Við skulum taka dæmi viðvíkjandi fjárfestingunni, hvernig þetta hefur verið á undanförnum árum, einmitt vegna þess að fjárfestingin hefur verið blind, vegna þess að hver einstakur aðili hefur gert það, sem honum hefur fundizt liggja hendi næst, og ég vil alveg sérstaklega taka þar samanburðinn á fjárfestingunni í landbúnaðinum og sjávarútveginum. Ég rakti það svo greinilega hér við 1, umr., að ég þarf ekki að rekja það nánar, hvernig sjávarútvegurinn er undirstaðan undir gjaldeyrisframleiðslunni og verður það og hvernig landbúnaðurinn hins vegar, eins þýðingarmikill og hann er fyrir þjóðina, er sem stendur á því stigi, að það er offramleiðsla í honum og þá fyrst og fremst hvað mjólkurframleiðsluna snertir, — offramleiðsla, sem er skaðleg þjóðinni í heild og rýrir hagsmuni bændanna, sem framleiða mjólkina. Og við skulum bara athuga, hvernig á því stendur, að svona skuli vera komið.

1954 var heildarfjárfestingin í landbúnaðinum 176 millj. kr. Sama ár var heildarfjárfestingin í sjávarútveginum 60 millj. kr. Hún er næstum því þreföld í landbúnaðinum á við sjávarútveginn. Nú vitum við það, að okkar landbúnaður er rekinn af einstökum bændum, bændum, sem vinna yfirleitt myrkranna á milli, bændum, sem finnst sjálfsagt að vinna að því að reyna að rækta sem mest jörðina til þess að undirbúa sem mesta framleiðslu. Þeim finnst eðlilegur hlutur, að það sé alveg óhætt að rækta þannig og auka sem mest framleiðsluna. Þeir hugsa hins vegar ekki út í það, hver útkoman af þessu verði fyrir þjóðarbúið í heild. Viðvíkjandi fjárfestingunni í sjávarútveginum hins vegar er það svo, m.a. vegna þess, hve þar er um stór tæki að ræða, að það þarf, eins og sýnt hefur sig á undanförnum áratugum, skipulegt framtak þess opinbera til þess að hrinda af stað fjárfestingunni í sjávarútveginum, þannig að ef það framtak vantar, þá verður ekki neitt verulegt framtak, — það verður kannske dálítið í bátaútveginum, skulum við segja, það er svo viðráðanlegt, að menn leggja í það, en það verður máske hverfandi lítið annars vegar í togurunum og hins vegar í þeim stóru vinnslustöðvum.

Þróunin hélt áfram næstu ár. 1955 var fjárfestingin í landbúnaði 194 millj. kr. Á sama tíma er hún í sjávarútveginum tæpar 92 millj. 1956 er fjárfestingin í landbúnaðinum 229 millj. kr. Þá er hún á sama tíma 140 millj. í sjávarútveginum. Það fer fram í sjávarútveginum, það hefur tvöfaldazt frá 1954 til 1956. En samt sem áður er það svo, að yfirgnæfandi meiri hlutinn af fjárfestingu þessara tveggja atvinnugreina er í landbúnaðinum. 1957 er eftir þeim bráðabirgðatölum, sem fyrir liggja, fjárfestingin í landbúnaðinum 214 millj. kr., fjárfestingin í sjávarútveginum 147 millj. Það stefnir í rétta átt, en það stefnir allt of hægt og er allt of dýrt fyrir þjóðarbúið.

Ég skal taka dæmi. Fjárfestingin í útihúsum í landbúnaðinum, útihúsum einum, er á árinu 1955 85 millj. kr., 1956 83 millj. kr. Á sama tíma er fjárfestingin í öllum vinnsluverum sjávarútvegsins 1955 57 millj. kr., 1956 75 millj. kr., aðeins borin saman útihúsin ein í landbúnaðinum við vinnsluverin öll í sjávarútveginum. Þetta er þróun, sem ekki getur gengið. Þetta er hlutfall, sem sligar þjóðarbúskapinn og sporðreisir hann, ef ekki er höfð hugsun á þessu fyrir fram, hvernig þetta skuli vera, og með löggjöfinni, með lánapólitíkinni, með öllum þeim aðferðum, sem hið opinbera hér á Íslandi hefur á sínu valdi, unnið að því að setja þetta á réttan rekspöl. Sannleikurinn er sá, að fjárfestingin, sem ég hef lesið upp hér í landbúnaðinum, er ekki það eina, sem raunverulega fer í dreifbýlið þannig, að það sé á vissan hátt ópraktískt á núverandi augnabliki, þó að það sé gott og nauðsynlegt síðar meir.

Við skulum taka annað dæmi. Svo ánægjulegt fyrirbæri sem það er að koma raforkunni á í dreifbýlinu, þeim raforkustöðvum, sem við nú höfum verið að byggja þar, og koma raforkunni þannig út til þess fólks, sem þar býr og er vissulega ekki of gott að fá þau þægindi, sem í því felast, þá verðum við að muna það, að ef við leggjum í hlut eins og slíka dreifingu raforkunnar, þá þarf okkar þjóðarbú að hafa efni á því. Okkar þjóðarbú hefur efni á því, ef við höfum styrkt þess undirstöður, sjálfa framleiðsluna, þannig, að hún geti borið þetta. Við verðum að gá að því, að raforkan, sem við erum að leggja t.d. til dreifbýlisins núna, það er neyzla, það eru ekki framleiðslutæki, sem við erum að skapa þar, það eru þægindi fyrir fólk, sem er eins vel að því komið og nokkurt annað fólk á Íslandi að fá það. En þeir ráðamenn, sem segja við þetta fólk: Nú skuluð þið fá þetta, — áttu um leið að hugsa um að efla þannig sjávarútveginn, að sú aukna fiskframleiðsla, sem þar við hefði skapazt, stæði undir því að borga þann gjaldeyri, sem við setjum í þessi þægindi. Til dæmis að taka af fjárfestingunni í raforkunni aðeins þann hluta, sem fór á tveim síðustu árum, 1956 og 1957, til rafmagnsveitna ríkisins, þá tek ég alls ekki Sogsvirkjunina eða Rafmagnsveitu Reykjavíkur eða neitt annað slíkt, það voru 64 millj. kr. 1956, 98 millj. kr. 1957, eða um 150 millj. kr. á þessum tveim árum. Og ég býst við, að það láti nærri, að það sé þó nokkuð yfir 200 millj. kr., sem við nú erum búnir að setja í að framkvæma hið svokallaða 10 ára plan um raforku í dreifbýlinu, og að nú sé áætlað, að sú 10 ára áætlun, þegar hún er framkvæmd, muni kosta upp undir 500 millj. kr.

Þarna var búin til áætlun, m.a. vegna þess, að þarna vinna verkfræðingar, sem eru vanir að hugsa skipulega um hluti, sem gera skal, og þeir gera sitt 10 ára plan. Svo koma stjórnarvöldin, sem kannske af mikilli umhyggju fyrir fólkinu, en kannske líka af því, að ýmis kjördæmi og þeirra hagsmunir koma þarna mjög til mála, vilja flýta þessu, og mér sýnist tilgangurinn vera nú að reyna að framkvæma þessa 10 ára áætlun á 7 árum jafnvel og láta hana kosta sínar 500 millj. kr. Það er búin til áætlun um þetta, og það á að framkvæma, en á sama tíma eru ekki búnar til áætlanir um aðra hluti þjóðarbúskaparins, sem eiga að standa undir því, að við getum veitt fólkinu þetta. Það er samið um tiltölulega stutt lán í sambandi við þessar rafvirkjanir. Við eigum að borga þessi lán, auðvitað með fiski eins og allt. En það er ekki sérstaklega hugsað fyrir að flýta þeim litla parti af áætlunum, sem búinn hafði verið til, t.d. af núv. hæstv. ríkisstj., einmitt um togarakaup. Raforkuplani er flýtt, framkvæmd togaraplans er seinkað. Svona er ekki hægt að vinna, að hlaða upp yfirbyggingunni og veikja undirbygginguna eða gleyma að styrkja hana um leið.

Hvað þýðir þetta raforkuplan? Ég býst við, að það þýði framleiðslu á um 6.000 kw. Nýjasta Sogsstöðin var 22 þús. kw. En þetta kostar um 500 millj. kr. Það mundi slaga hátt upp í það, sem t.d. þungavatnsvinnsla, sem nýlega var talað hér um, mundi kosta, eða reiknað var að mundi kosta rúmar 600 millj. Ef við tækjum hins vegar mestu virkjun, sem lægi fyrir okkur hér á Suðurlandi, virkjun til stórframleiðslu á rafmagni, líka til iðnaðar og til framleiðslu, virkjun t.d. í Þórisvatni, mundu 100 þús. kw. líklega kosta um 500 millj. kr., og ég heyri stundum sagt, þegar minnzt er á að byrja þannig að virkja Þjórsá: Ja, það er nú alveg ómögulegt nema fá útlent fjármagn til þess. — Og það er jafnvel skrifað í blöðin. Við getum sett 500 millj. kr. í raforkuáætlun í dreifbýlinu, sem gefur 6.000 kw., en við þykjumst ekki hafa efni á að leggja í það sjálfir að virkja 100 þús. kw. í Þjórsá með 500 millj. kr., sem borga sig. Af hinum 500 millj. verðum við að skrifa niður 3/4 hluta undireins sem afskrifaðar, meira eða minna, af því að dreifbýlið rís ekki undir, eins og eðlilegt er, þeim mikla kostnaði, sem við þetta er.

Við verðum, þegar við ákveðum svona hluti, að hugsa þetta fyrir fram, gera okkur grein fyrir, hvernig við ætlum að standa undir því. Annars mundum við haga okkur eins og bóndi, sem væri að búa til hjá sér einkarafstöð, jafnvel fá sér ísskáp og ýmislegt annað slíkt og fargaði um leið eða hugsaði ekkert um að auka bústofninn, hvorki kindurnar né kýrnar. Ég er þar með ekki — síður en svo — að tala á móti raforku til dreifbýlisins. Það fólk þarf að fá sitt rafmagn. En þeir menn, sem ákveða, að það skuli gerast, þurfa um leið að hugsa um, að við stöndum undir þessu, lofa ekki bara neyzlunni, heldur sjá um framleiðsluna samtímis.

Ég veit, að það eru flutt mörg hugnæm og hjartnæm rök, og mér mundi ef til vill verða svarað með þeim, ef t.d. hæstv. ráðh, Framsfl. væru hér viðstaddir, að maðurinn uppi í sveit, sá duglegi bóndi, sem þrælar myrkranna á milli, eigi ekki síður rétt á þægindum heldur en maðurinn í Reykjavík, t.d. skrifstofumaðurinn, sem mundi kannske ekki vinna nema 7–8 tíma og ekki eins erfitt starf og bóndinn og þar að auki helmingi skemmra og nyti auk þess alls þess skemmtana- og menningarlífs, sem ein höfuðborg hefur að bjóða, þar sem bóndinn verður að búa við sína einangrun og hans kona við þann þrældóm, sem sveitakonurnar á Íslandi búa við.

Jú, vissulega. Hver einasti maður á sama rétt í þessum efnum, hvert einasta mannsbarn. En þeir, sem stjórna þjóðfélaginu á hverjum tíma, hljóta að spyrja: Hvernig á ég að fara að því að veita öllum börnum þjóðarinnar þennan rétt? Hvernig get ég samrýmt það þeirri efnahagslegu undirstöðu þjóðfélagsins? — Ef mér væri svarað: Maðurinn uppi í sveit á sama rétt og verkamaðurinn eða skrifstofumaðurinn á mölinni, — þá mundi ég segja: Vissulega. Þá eigum við líka að skapa það þjóðfélag, sem veitir þessum aðilum sama réttinn og framkvæma hann. — Og hvernig á að fara að því? Það hefur verið byrjað ofur lítið einu sinni á því að reyna þetta. Það var gert með samkomulagi, sem hv. þm. A-Húnv. vitnaði hér í við 1. umr. um þetta mál, samkomulagi, sem gert var í fjhn. þessarar d, 1943 um það, að vinnulaun bóndans í hans afurðum, vinnustundirnar, sem felast í þeim afurðum, sem hann framleiðir, skyldu metnar á sama verði og vinnustundirnar, sem verkamaðurinn í Reykjavík fær og innir af hendi. Þetta var gert út frá siðferðislegum forsendum, ekki út frá efnahagslegum forsendum. Það verk, sem einn maður vinnur í borg eins og Reykjavík við praktíska framleiðslu með fullkomnum vélum og þess vegna með miklum afköstum á hvern mann, — við skulum segja t.d. í fiskframleiðslu og við framleiðslu á afurð, sem við getum selt eins mikið af og við getum framleitt, — sú vinnustund, sem þannig er látin í té, er þjóðfélaginu mjög dýrmæt og oft dýrmætari en vinnustund, sem unnin er af bóndanum, ef hún er unnin við framleiðslu á landbúnaðarafurð, sem þjóðfélagið getur ekki selt á eftir. Efnahagslega forsendan fyrir svona siðferðislegri reglu var sú, að landbúnaðarframleiðslunni á Íslandi væri stjórnað þannig, að hún væri hæfilega mikil fyrir þann bezta markað, sem hún hefur, innanlandsmarkaðinn.

Ég skal taka sem dæmi: Ef bændurnir, sem framleiða mjólkina hér á Suðvesturlandinu, gætu framleitt alla þá mjólk þannig, að þeir hefðu markað fyrir hana sem neyzlumjólk, þá mundu þeir bændur vera ánægðir og þeim mundi farnast vel, og fólkið í kaupstöðunum mundi borga þeim bezta verðið fyrir, sem þeir gætu fengið. Á sama tíma sem það hins vegar kemur fyrir, að þessir bændur fara að framleiða svo og svo mikið af sinni mjólk þannig, að þeir verða t.d. að búa til úr henni osta eða mjólkurduft, sem þeir geta jafnvel ekki selt til annarra landa nema fyrir brot af því verðmæti, sem hefur kostað að framleiða það, jafnvel kannske ekki einu sinni fyrir útlenda gjaldeyrinum, sem það hefur kostað að framleiða það, og ef það svo endar með því, að það verður að senda þessa osta, sem bændurnir þannig hafa þrælað við að framleiða, til bændanna aftur óselda eða jafnvel mjólkurduftið og láta gefa kúnum það á ný, sem voru áður að framleiða mjólkina, þá erum við komnir út í efnahagslega hringavitleysu. Þess vegna þyrftum við að geta stjórnað þessari þróun í landbúnaðinum, geta látið það haldast í hendur, að framleiðsla landbúnaðarafurðanna væri mátuleg fyrir markaðina í bæjunum. Ég segi þetta vegna þess, að sá fallegi mórall, sú rétta siðferðisregla, sem lá til grundvallar þeirri hugsun, sem sex manna nál. byggðist á, — efnahagslega forsendan fyrir þessum móral er, að þjóðfélaginu og þess þróun sé stjórnað af viti og þess vegna rétt hóf haft á þróun hverrar atvinnugreinar út af fyrir sig.

Sannleikurinn er sá, að ég mundi kannske hrella suma hv. þm. Framsóknar með því að segja það, en það, sem þeir raunverulega eru að gera, þegar þeir eru að gera kröfurnar um, að allt fólk í dreifbýlinu eigi að hafa sama rétt og fólkið í bæjunum, þá eru þeir að gera kommúnistískar kröfur. Þeir eru að gera kröfur til þess, að þjóðfélagið hafi slíkar allsnægtir, að það geti án tillits til efnahagslegra aðstæðna útbýtt gæðum þjóðfélagsins til allra. Þeir eru að gera kommúnistískar kröfur til neyzlunnar án þess að hafa þá kommúnistisku undirstöðu á þjóðfélaginu, án þess að geta framleitt allsnægtir. Til þess að geta framleitt allsnægtir þurfum við að hafa svo mikið af framleiðslutækjum, að það, sem við afköstum hér á Íslandi, að það, sem við flytjum út, og það, sem við þess vegna getum keypt inn aftur, sé svo mikið, að hver maður geti fengið það, sem hann vill.

Þetta eru mjög fallegar kröfur að gera þetta, mjög fallegt siðferði, sjálfsagt að viðurkenna það siðferðislega. En það, sem þarf að gera til þess að framkvæma þetta, er að skapa þá undirbyggingu fyrir því, sem er slíkt framleiðslukerfi, að það afkasti svo miklu, að þetta geti allir fengið, og þegar slíkar allsnægtir eru komnar, þá munar okkur ekkert um að leggja rafmagnslínur um allt land, þó að við verðum að afskrifa þær um leið. Ég veit ekki, hvort hæstv. ráðherrar Framsfl. hafa nokkurn tíma gert sér þetta ljóst, en þetta er sannleikurinn.

Efnahagslegar aðstæður okkar eru þannig, að við, þjóðfélagið, við höfum efni á að veita mönnum þennan rétt, sem þá langar til að fá, þegar þeir eru í þéttbýli. Við höfum efni á að veita þeim veg, efni á að veita þeim síma, efni á að veita þeim rafmagn. En það er þjóðfélaginu máske stundum tífalt dýrara, ef það á að veita þeim manni þennan rétt, sem býr lengst uppi í afdölum. Það er ódýrara vegakerfi, símakerfi og rafmagnskerfi í Hafnarfirði, en t.d. á mestöllu Austurlandi, þó að það séu álíka margir íbúar þar. Við megum ekki gleyma þessum hlutum, þegar við erum að ræða um það, hvað við getum veitt okkar þegnum í þjóðfélaginu.

Því er það svo, að því betur sem við búum að sjávarútveginum, því betur sem við hugsum um þróun hans, því betur sem við skipuleggjum þjóðarbúskapinn, því meira sem við eflum framleiðslutækin, því meira efni höfum við á að veita mönnum þetta jafnrétti, hvar sem þeir eru. Þess vegna þarf að byrja á því fyrra, en gleyma ekki heldur því síðara.

Ég man eftir, að það var deilt mikið á okkur, sem stóðum að einhverju leyti að nýbyggingarráði og nýsköpunarstjórninni á sínum tíma, að við skyldum ekki hafa byrjað á raforkuframkvæmdunum, og því var jafnvel haldið fram, að við hefðum gleymt þeim. Það var ekki það. Okkur var bara ljóst, að undirstaðan undir raforkuframkvæmdirnar var fiskur, og hver einasti koparþráður eða vél, sem kaupa þarf, eða alúminíumþráður eða annað slíkt, — allt saman kostar það fisk.

Um leið og ég legg ríka áherzlu á, hver efnahagsleg undirstaða þurfi að vera undir því, að þjóðfélagið geti sinnt þeim fallega móral og veitt mönnum það jafnrétti, sem þeir „teoretiskt“ eiga kröfu á, þá vil ég taka það fram einmitt sérstaklega viðvíkjandi landbúnaðinum og bændastéttinni, að það verði ekki aðeins efnahagslegar aðstæður, sem koma til greina fyrir utan þær mannlegu, þegar það yrði metið, hvað við vildum gera viðvíkjandi landbúnaðinum á hinum ýmsu stöðum landsins. Þar koma aðrir hlutir til, sem okkur ber að taka tillit til, þó að þeir verði aldrei reiknaðir til fjár og máske einmitt af því að þeir verða aldrei reiknaðir til fjár. Okkur mundi ekki langa til þess, sem mundi verða, ef hömlulaus auðvaldsþróun yrði hér á Íslandi, að bændastéttin á Íslandi svo að segja leystist upp og það yrðu nokkur fá stórbú hér á Suðurlandi og við Eyjafjörðinn og í Skagafirðinum og á nokkrum slíkum stöðum, sem framleiddu svo að segja allar landbúnaðarafurðirnar. Gagnvart bændastéttinni ber þjóðfélaginu sem slíku að taka tillit til þess, að í þeirri stétt er áreiðanlega að mjög miklu leyti mesta kjölfestan í sambandi við okkar sögulegu erfð, mestu og dýpstu tengslin við okkar þjóðerni, þannig að hvaða efnahagslegar forsendur sem kynnu að mæla með því, að við gerbreyttum á ýmsan hátt landbúnaðinum, þá kæmu þar alltaf ein önnur rök til greina, að við vildum jafnvel viðhalda byggð í vissum hlutum þessa lands, þótt allt væri að flosna upp og þó að það væri efnahagslega vitlaust, — bara vegna þess, að við vildum viðhalda þessum stöðum, bændabýlum, sem vegna þess að þau væru þarna og við styrktum þá bændur, sem þar væru, þá halda þeir áfram að vera fulltrúar fyrir þátt í íslenzkri þjóð, sem hún er í of mikilli hættu við að slíta eða slitna úr sambandi við. Það vil ég minna á, af því að ég hef talað mikið um efnahagshlið þessa máls, ef einhver skyldi halda, að það ætti ekki að taka tillit til neins annars.

Það, sem íslenzkur landbúnaður þarf, er fyrst og fremst fleiri bæir, stærri bæir. Því fylgir stærri innanlandsmarkaður. Þannig er bændunum í hinum dreifðu byggðum bezt þjónað.

Það var ein af þeim skýjaborgum, sem ég var með, meðan ég var í nýbyggingarráði, að skrifa upp skipulagningu á nokkrum stórum bæjum úti um allt land og hugsa mér, hvar þar ættu að vera á ýmsum stöðum miðstöðvar atvinnu- og menningarlífsins, sem um leið yrðu stórir markaðir fyrir sveitirnar. Það varð eins og fleira, að það fór út um þúfur og varð skýjaborgir einar. En það er eitt af því, sem þeir menn, sem bera hagsmuni sveitanna eða segjast bera þá sérstaklega fyrir brjósti, ættu alveg sérstaklega að hugsa um, þörfin á því að koma slíkum stórum bæjum upp, nokkrum svo stórum bæjum, að þeir væru á stærð við Akureyri. Þá gætu þeir staðið undir sjálfstæðu menningarlífi. Þá væru þeir orðnir það stórir, að t.d. mjólkurframleiðsla þarf að vera handa þeim í sveitunum í kring. Ef við sköpum slíkt, þá mun líka bændunum á þessum stöðum vegna betur. Jafnvel þó að bændunum kynni að fækka um tíma frá því, sem nú er, þá mundu bændurnir sem einstaklingar og sem menn komast betur af, þeim mundi líða betur efnahagslega.

Hitt efast ég ekki um, að íslenzkri bændastétt á eftir að fjölga aftur og jafnvel það, sem verið hefur að fara í eyði á undanförnum árum, á eftir að byggjast aftur. En það kemur til með að byggjast vegna þess, að bæirnir á Íslandi vaxa svo ört, vegna þess að framleiðslutækjunum í þeim bæjum fjölgar svo mikið, að markaðurinn í þessum bæjum kallar á meiri landbúnaðarvörur.

Ég veit, að sumum mun, ef til vill, finnast þetta vera mælt af einhverri andúð gegn landbúnaðinum eða gegn bændastéttinni jafnvel. Því fer ákaflega fjarri. Með því að stjórna þessari þróun er einmitt hægt að tryggja hagsmuni bændanna á Íslandi, tryggja þeirra afkomu miklu betur, en ella og miklu betur, en nú er verið að stefna að, að gera. Hve lítið svo að segja sem bætist við mjólkurframleiðslu héraðanna hér sunnanlands núna í offramleiðsluna, dregur raunverulega úr því, sem bændurnir sem heild fá. Ég er hræddur um, að ef þetta stjórnleysi á þessari framleiðslu allri, öllu okkar atvinnulífi heldur áfram, þá verði bein kreppa í landbúnaðinum, og ég gæti jafnvel trúað, að sumum fyndist hún nú þegar komin, og slík kreppa mundi beinlínis leiða það af sér, að ekki aðeins allt sex manna nefndar álitið, heldur öll skipulagningarmálin á mjólkursölunni verða að takast til endurskoðunar. Öll svona skipulagning, eins og lá á bak við þá hugsun, sem lagt var út í 1934, krefst þess, að maðurinn sjálfur stjórni þróuninni, grípi inn í, ef hann álítur, að þarna sé verið að fara út í vitleysu, dragi úr, ef honum finnst vöxturinn allt of ör, ýti á eftir, þegar hann sér, að það þarf að flýta því. Öll skipulagning, öll svona afskipti af atvinnulífinu, eins og þá voru framkvæmd, krefjast þess, að það sé vísvitandi stjórn á þessum hlutum, sem hugsun liggur á bak við og þekking og skilningur á þessu lögmáli. Það er grundvöllurinn, það er kjarninn í öllu því, sem heitir að skipuleggja, að maðurinn viti, hvað hann sé að gera, sjái afleiðingarnar fyrir, kunni að tempra þetta. Það að skilja lögmál þjóðfélagsins á slíkum tíma þýðir að laga síg að þeim, og það þýðir um leið að stjórna þeim á sama hátt og verkfræðingurinn getur með því að þekkja, hvernig hann á að nota vatnskraft til þess að framleiða rafmagn, látið vatnið framleiða rafmagn fyrir sig, en verður að reikna þetta allt saman út og ráða þessu og getur þannig með því að þekkja lögmál náttúruaflanna í þessu tilfelli gert þau sér undirgefin. Á sama hátt verður það að vera með okkar afskipti af þjóðfélagsöflunum, ef við förum að skipta okkur af þeim. Ef við látum ekki bara það frjálsa athafnalíf og þarfir einstaklingsins fá að ráða, þá verðum við að stjórna þessum þjóðfélagsöflum á sama hátt og maðurinn gerir sér náttúruöflin undirgefin. Þess vegna leiðir skipulagning án slíkrar hugsunar og án slíkrar yfirsýnar til vitleysu. Þá skipuleggjum við offramleiðslu og skipuleggjum kreppu í stað þess að forða okkur út úr kreppu.

Ég skal ekki fjölyrða meira um þetta. Ég tók sérstaklega landbúnaðinn og sjávarútveginn sem dæmi, af því að þetta hafa verið okkar gömlu, þjóðlegu grundvallaratvinnuvegir og af því að þarna er það áþreifanlegast, hvernig skökk fjárfestingarpólitík eða réttara sagt vöntun á fjárfestingarpólitík leiðir til þess, að við stöndum frammí fyrir þeim efnahagslegu vandræðum, sem við stöndum frammi fyrir í dag. Það er verið að kvarta um gjaldeyrisskort. En það er ekki hugsað um að afla nægilega snemma þeirra tækja, sem þarf til þess að framleiða þann gjaldeyri. Svo að ég nefni eitt dæmi, sem er áþreifanlegt í augnablikinu, þá vildi jafnvel sjálfur bankastjóri seðlabankans fara að flytja inn fyrir 10–11 millj. dráttarvélar. Ég hafði ekki orðið var við áhuga fyrir innflutningi togara hjá honum, og þó veit hann, að til þess að borga dráttarvélar, sem við flytjum inn, þurfum við fisk, sem togarar framleiða. M.ö.o.: það, sem einstaka menn langar að fá í þessum efnum, jú, það er satt, til þess þurfum við gjaldeyri, en að framleiða gjaldeyrinn, sem þarf til að borga það, það er ekki hugsað um það. Ég vil taka þetta fram og hef ítrekað þetta hér vegna þess, að þetta er undirrótin að öllum þeim efnahagsvandræðum, sem við stöndum frammi fyrir. Og þetta verða menn að muna. Meðan mönnum skilst þetta ekki, geta menn ekki leyst, ekki einu sinni til bráðabirgða, neitt af þeim vandamálum, sem fyrir liggja.

Ég skal svo ekki ræða meira um þetta viðvíkjandi heildarstjórninni á þjóðarbúskapnum. En ef allt mitt stagl um þá hluti gæti orðið til þess að sannfæra þó einhverja um, að þeir yrðu að fara að endurskoða sína pólitík í þessu, þá væri ekki til einskis barizt.

Ég skal svo taka fyrir það, sem ég álít hafa verið höfuðtilgang hjá hæstv. ríkisstj. með þessu frv., og okkar athugun á því í fjhn. Höfuðtilgangur hæstv. ríkisstj. með þessu frv. er að hennar sögn sá að tryggja rekstur sjávarútvegsins. Fulltrúar fyrir Landssamband ísl. útvegsmanna komu á okkar fund, og þeir sögðu og tilkynntu líka bréflega, að svo fremi sem ekki væru gerðar sérstakar ráðstafanir, þó að þetta frv. væri samþ., þá mundi sjávarútvegurinn stöðvast, þannig að okkur þótti í fjhn. það liggja fyrir, að ganga yrði úr skugga um, hvort það væri öruggt, að þó að þetta frv. væri samþ., þá stöðvaðist ekki sjávarútvegurinn. Það, sem fyrst og fremst var flutt þarna fram, var mjög eðlilegt. Það var, að aukningin á rekstrarlánum til sjávarútvegsins yrði að vera í hlutfalli við þá hækkun, sem yrði á rekstrarvörum sjávarútvegsins samkvæmt þessu frv. Þess vegna kölluðum við í fjhn. d. stjórn seðlabankans á okkar fund til þess að yfirheyra hana og fyrst og fremst aðalbankastjórann í þessum efnum.

Eins og hv. þm. muna máske eftir, þá varð það svo, þegar síðustu stórar breytingar voru gerðar á því, sem raunverulega þýðir gengi krónunnar á Íslandi, 1950, þá varð ein afleiðingin af því sú, að á árunum 1951–52 var kreppa hér og atvinnuleysi, t.d. í Reykjavík, og þá dróst nokkuð saman okkar framleiðsla, þó að þar kæmu að vísu aðrar ástæður líka til greina, Við vildum þess vegna, eftir því sem okkur væri fært, reyna að ganga úr skugga um það, hvort öruggt væri, að þetta frv. leiddi ekki til atvinnuleysis, hvort öruggt væri, að sjávarútvegurinn kæmi til með að ganga. Og okkur sýndist, að forsenda þess væri, og ég lagði þá spurningu beinlínis fyrir aðalbankastjórann, að hvað sjávarútveginn snertir, þá vildi ég fá svar við því, hvort rekstrarlán til sjávarútvegsins yrðu aukin í sama hlutfalli og verð hækkaði á rekstrarvörum sjávarútvegsins. Ég tók hann út úr og spurði alveg sérstaklega að þessu, vegna þess að ég áleit það mína skyldu að geta skýrt þeim hv. þm., sem áhuga hafa fyrir, að þetta frv. geti leitt til góðs, ef það yrði samþykkt, — og þeirra áhugi er mjög sjáanlegur í dag, að ég gæti skýrt þeim frá því, hver þessi svör eru og út frá hverju þeir megi ganga. Aðalbankastjóri seðlabankans svaraði fyrst því, að það væri skoðun seðlabankastjórnarinnar, að það ætti að halda heilbrigðri framleiðslu þjóðarinnar gangandi. Ég hafði nú satt að segja hvorki búizt við að fá þá yfirlýsingu, að seðlabankastjórnin liti á það sem sitt hlutverk að halda óheilbrigðri framleiðslu þjóðarinnar gangandi né heldur að stöðva heilbrigða framleiðslu þjóðarinnar, og sagði honum það og spurði þess vegna alveg nákvæmlega, hvort það væri meiningin að auka útlán til sjávarútvegsins, rekstrarlánin, í sama hlutfalli og þau hækkuðu sem afleiðing af þessu frv. Aðalbankastjórinn fékkst aldrei til þess að svara viðvíkjandi sjávarútveginum beint, en sagði orðrétt: Það er fjarri mér að segja, að útlán eigi að aukast í hlutfalli við aukningu þá, er af frv. leiðir. Lengra komumst við ekki með seðlabankastjórnina í heild. Við heyrðum hins vegar, að það voru mismunandi skoðanir innan hennar, og hvernig sem við reyndum að ganga úr skugga um, hvort við mættum telja það öruggt, að þessi aukning á útlánunum hvað sjávarútveginn snerti færi fram, þá gátum við ekki fengið beint svar um það. Og ég verð að segja það, að þegar á sama tíma gerast hlutir eins og ég minntist hér á áðan viðvíkjandi dráttarvélunum, þá bendir það ekki til þess, að það sé skilningur á því hjá þeim mönnum, sem eru í svona ábyrgðarstöðum, hver alger undirstaða undir þjóðarbúskap Íslendinga sjávarútvegurinn er. Og af því að ég man nú eftir því, að það hefur komið fyrir, að bankastjórar hér í bönkum hafa sagt við menn, sem hafa komið með sitt útgerðarbasl til þeirra: Hver fjandinn biður þig um að vera að gera út? — þá held ég, að það sé ekki að ófyrirsynju, að í þessari stofnun hér sé það rætt og krufið til mergjar, að ef það á að leggja í aðra eins hluti og felast í þessu frv., þá sé gengið út frá því alveg 100% öruggt, að sjávarútvegurinn verði ekki stöðvaður og honum verði ekki aðeins haldið gangandi, heldur verði hann aukinn.

Ég segi þetta hér vegna þess, að þetta er ekki í fyrsta skipti, sem ég hef lent í því hér á því háa Alþingi að þurfa að ræða um afstöðu seðlabanka, hvort sem það hefur þá verið bein deild í Landsbankanum eða ofurlítið sjálfstæðari eins og nú, með sérstakri stjórn, — það er ekki í fyrsta skipti, sem þurft hefur að taka það fyrir hér í sölum Alþingis. Ég get vel hugsað mér það, ef þetta frv. skyldi verða samþ., að hæstv. ríkisstj. meira að segja ætti eftir að eiga í harðvítugum deilum og átökum við meiri hluta stjórnar seðlabankans út af því, hvernig fara skuli að í þessum efnum á eftir. Ég þykist vita, að það er ekki tilgangur hæstv. ríkisstj. að láta verða samdrátt í íslenzku atvinnulífi með þessu. En á meðan ekki er búið að koma slíkri skipan á stjórn seðlabanka, að það sé samræmd stjórn á ríkinu og aðalríkisbankanum, þá veit maður ekkert, hvað út úr þessu kemur.

Það voru mínar till., þegar bankamálunum hér var breytt í fyrra, að það væri tryggt, að stjórnin á seðlabankanum væri í samræmi við stjórnina á ríkinu á hverjum tíma. Menn hafa kannske haldið, að það væri einhver dyntur úr mér, að út af gömlum erjum vildi ég nú nota tækifærið til þess að koma slíku fram. En því fór fjarri. Það var ekki það. Og ég gat ekki aðeins stuðzt við mínar sósíalistísku skoðanir í slíku efni. Sá fulltrúi, sem hingað var sendur af Alþjóðabankanum til þess að athuga um bankamál Íslands, — ætli það hafi ekki verið á árunum 1949 eða 1950, — og skrifaði mjög ýtarlegt og greinilegt álit um þá hluti, sem ég fékk aðgang að þá sem nm., sem var að undirbúa þetta, — hann hét Murphy, — hann tók beinlínis fram, að seðlabankinn, — og hann lagði til, að seðlabanki yrði gerður sem sjálfstæður banki algerlega, — ætti að vera, eins og hann orðaði það þá á enskunni: „an arm of the government“, að hann ætti að vera eins konar, — ég vil nú ekki segja annar handleggur ríkisstjórnarinnar, en tæki hennar, þannig að það væri á öllum tíma augljóst, að stjórn á seðlabanka væri í samræmi við vilja ríkisstj., einmitt stjórn á seðlabanka. Það er allt annað með stjórnir á viðskiptabönkum, það lýtur öðrum lögmálum. En stjórn seðlabanka, sem á að hafa heildarstjórn á fjármálalífi, á peningalífi og þar með atvinnulífi eins lands, verður að vera í samræmi við ríkisstj., sem er komin í þá aðstöðu, eins og ríkisstj. er hér á Íslandi og búin að vera um alllangt skeið, að vera stjórn á þjóðarbúskapnum, því að annars verður þjóðarbúskapurinn sjálfur með tveim stjórnum, sem toga sitt í hvora áttina. (Gripið fram í: Hún er þá bara eins og ríkisstj. núna er.) Slæmt væri nú, ef það væri þannig innan einnar ríkisstj., en enn þá verra verður það, ef ríkisstj. sem heild togaði í eina áttina og önnur eins stofnun og hennar seðlabanki togar í hina.

Ég vil segja minn ugg um það, að ég varð var við mjög sterka tilhneigingu m.a. hjá einmitt aðalbankastjóranum að reyna að draga saman. Hann hafði beinlínis þau orð, að það væri hætta af því, hve mikið hefði verið lánað út síðustu 12 mánuðina, það væri beinlínis hætta af því. — Það var ekki hætta af, hve mikið hafði verið lánað út, en það hefur getað verið vitlaust lánað og einbeitt á vitlaust svið.

Ég er hræddur um, að ef sú pólitík fengi að ráða í seðlabankanum, að það yrði almennt farið að draga úr lánum, þá gæti af því hlotizt kreppa hér á Íslandi, heimatilbúin kreppa. Mér er kunnugt um, að bankastjórar, sem reka vitlausa bankapólitík í nágrannalöndum okkar, í jafnvel öðru eins landi, eins stóru og miklu og Bandaríkin, hafa ýmist flýtt fyrir kreppu eða jafnvel hjálpað til að skapa kreppu með vitlausri bankapólitík, og mér er það í mun, að það sé ekki farið að apa eftir slíkum mönnum hér heima. Það er kreppa að ryðja sér til rúms í þessum löndum hér í kring, kreppa, þar sem skökk bankapólitík m.a. hjálpar til.

Við stöndum í þeirri aðstöðu hér á Íslandi, að við þurfum hvað sjávarútveginn snertir ekki að óttast neina kreppu. Við höfum komið svo okkar aðstöðu fyrir, að samtímis því sem við af miklum dugnaði vinnum að því að afla markaða í öllum hinum kapítalistísku löndum heims, þá hefur okkur líka tekizt að afla mikilla markaða í þeim löndum, þar sem engin kreppa er vegna þess sósíalistíska skipulags, sem þar er, þannig að við getum fyllilega hagnýtt okkur báða þessa heimsmarkaði, sem nú eru, þann kapítalistíska og sósíalistíska, og við getum með þessum viðskiptasamböndum okkar séð til þess, að engin kreppa þurfi að vera á Íslandi, jafnvel þótt frændur okkar Norðmenn eða aðrar nágrannaþjóðir okkar búi við kreppu. Þess vegna þætti mér það hart, þegar okkar aðstaða er slík í viðskiptamálunum, að við færum að búa til kreppu hér heima með skakkri bankapólitík, með einblíningu þeirra embættismanna, sem með þetta hefðu að gera, á það, að þeir héldu, að það væru peningar, sem við borguðum hlutina með, þegar það er fiskur, sem við borgum hlutina með.

Mér hefur oft dottið það í hug, að mikið hefði verið gott, ef gamlir verðmælar okkar forfeðra hefðu jafnvel átt sér stað enn þá hér á Íslandi nú og ekki allt reiknað bara í krónum og aurum, til þess að menn vissu, hvert hið raunverulega verðmæti væri.

Ég sagði þess vegna á fundinum í fjhn., að ég mundi athuga það, ef svo færi t.d., að mín dagskrártill. yrði felld, hvort ekki bæri að bera fram brtt. við þetta frv., ef útlit yrði fyrir, að það yrði samþykkt, brtt. þess efnis að skylda seðlabankann til útlána a.m.k. til sjávarútvegsins, að auka útlánin til sjávarútvegsins í réttu hlutfalli við það, hvernig rekstrarkostnaður sjávarútvegsins mundi vaxa við það, að þetta frv. yrði samþ., og þær afleiðingar, sem af því yrðu.

Meiri hl. stjórnar seðlabankans baðst undan slíku. Þeir voru því andvígir, að löggjafarvaldið færi að skipa þeim fyrir um slíkar ráðstafanir, og töldu, að það mundi þykja leitt fordæmi líka gagnvart öðrum þjóðum, ef löggjafarvaldið færi að skipta sér þannig af útlánum seðlabankans.

Ég sagði þeim, og ég vil segja það hér líka, að Alþingi hefur áður séð ástæðu til þess að gera slíkt. Alþingi og ríkisstj. hafa einu sinni áður mætt slíku skilningsleysi í sambandi við nauðsynina á eflingu sjávarútvegsins og að tryggja gang hans, að það hefur orðið að gripa til þess að fyrirskipa seðlabankanum að veita lán. Það var í sambandi við kaupin á nýsköpunartogurunum 1945. Við þurftum til allrar hamingju ekki að sækja undir seðlabankann, seðladeild Landsbankans, um að borga þá togara í útlendum gjaldeyri. Nýbyggingarráð hafði sjálft vald yfir þeim útlenda gjaldeyri og borgaði þá togara, borgaði 100 millj., sem voru þá miklir peningar, fyrir þá togara.

En erfiðleikarnir voru á því að fá að færa togara, sem búið var að borga í erlendum gjaldeyri og ríkið átti, yfir í eign einstakra manna og bæjarfélaga á Íslandi. Við hefðum að vísu ekki þurft að spyrja bankann neitt, ef ríkið sem slíkt hefði rekið þessa 30 togara, sem við keyptum. Ríkið átti þá og var búið að borga þá, og ef við hefðum ríkisrekið þá alla, þá þurfti aldrei að spyrja bankann neitt. En ef við ætluðum að láta einstök bæjarfélög í landinu eða einstaklinga fá að kaupa þessa togara af ríkinu, þá þurfti bankinn að veita þeim lánin, og það vildi seðlabankinn ekki. Þetta var skilningurinn á því að sjá um, að þessir togarar væru reknir. Og þá var einmitt útbúið frv. til að skylda seðlabankann til þess, og það stóð meira en hálft ár, baráttan við seðlabankann eða Landsbankann, eins og hann þá hét, þangað til þetta frv. var lagt inn í þingið og fékkst ekki einu sinni þá inn sem stjórnarfrv., og það stóð hálft ár næstum því í viðbót baráttan hér í þinginu, af því að bankinn beitti sér svo hatrammlega einmitt gagnvart fjhn. þeirrar hv. d. þá til þess að reyna að hindra framgang þess.

Ég nefni þetta vegna þess, að þess eru sem sé dæmi, að til þess að tryggja undirstöðuna í þjóðarbúskapnum og til þess að tryggja rekstur sjávarútvegsins hefur Alþingi orðið að setja lög, sem skylda seðlabankann til þess að lána til sjávarútvegsins. Og ég verð að segja það, að komi ekki alveg ótvíræðar yfirlýsingar, — ekki bara viljayfirlýsingar frá hæstv. ríkisstj., eins og þegar liggja fyrir, það liggja fyrir yfirlýsingar frá hæstv. ríkisstj., að hún vilji beita sér fyrir því, að seðlabankinn geri þetta, — en yfirlýsingar um það, að seðlabankinn sé búinn að fallast á að gera þennan hlut, þá mun ég flytja brtt., ef þetta frv. heldur áfram, um slíka skyldu á seðlabankann. Ég álít, að þjóðin geti ekki átt neitt á hættu, að einhverjir embættismenn í sinni þröngsýni dragi úr eða stöðvi gjaldeyrisframleiðslu þjóðarinnar, á sama tíma sem þeir eru að kvarta eins og þeir gerðu við okkur yfir gjaldeyrisvandræðum þjóðarinnar.

Hitt skulum við svo aftur athuga, að þó að ég tali svona mikið um sjávarútveginn, þá eru það ekki einu áhugamálin, sem erfiðleikar verða um í sambandi við framkvæmd þessa frv., ef að lögum verður. Ég skal aðeins taka eitt dæmi, en það eru húsbyggingamálin. Byggingar verða dýrari fyrir þetta. Lán til húsbygginga þyrftu að aukast fyrir þetta, og við höfum þrátt fyrir mikla baráttu í þessum efnum ekki getað fengið neina tryggingu fyrir því frá bankastofnununum, að svo verði gert. Þarna er sem sé líka á þessu sviði, svo að ég komi nú einhvern tíma inn á eitthvað, sem neyzluna snertir, og haldi mér ekki bara við undirstöðurnar, — þarna er allt í tvísýnu. Ég veit, að það er sagt af ýmsum: Ja, það er allt of mikið; sem við festum í húsum. — Vissulega er það mikið. Við förum líka ópraktískt að því að mörgu leyti, að við skipuleggjum ekki byggingamátann miklu betur. En það er eitt, sem við verðum að athuga í því sambandi. Okkar þjóðfélag í þeirri mynd, sem það nú er að taka á sig, er mjög ungt þjóðfélag, okkar þjóðfélag er í mjög örum vexti, okkar þjóð er ákaflega stórhuga í þessum efnum, en hún er ekki bara stórhuga, hún er líka ákaflega vinnusöm þjóð. Ég vil vekja athygli á því, að raunverulega er svo komið með mikinn hluta af verkamönnum, að þeir eru farnir að vinna, ekki aðeins á þeim frídögum, sem kristindómurinn útvegaði þeim hér fyrr á öldum, helgidögunum, ekki aðeins í eftirvinnunni og eru þannig að gera sitt baráttumál um átta tíma vinnudaginn raunverulega bara að kjaramáli, en ekki því fría- og hvíldarmáli, sem það á að vera, þeir eru líka farnir að vinna jafnvel í orlofunum sínum. Og hvað eru þeir farnir að gera í öllum þessum frítímum, sem þeir eiga að eyða til þess að njóta lífsins? Þeir eru farnir að byggja hús. Það er verið að húsa þetta land að nokkru leyti í aukavinnu, helgidagavinnu, frídagavinnu, orlofsvinnu mannanna í landinu. Þjóðin er að vinna stórafrek á þessu sviði. Þegar þjóðin er að vinna slíkt afrek og leggur svona að sér, sem fáar þjóðir hér í kring gera, þá ætti ekki að standa upp á fjármálavaldið í landinu, bankavaldið í landinu að aðstoða menn í slíku, þá ætti sannarlega að vera hægt að knýja það fram, að tekið væri af meiri skilningi á þeim málum, en fengizt hefur þrátt fyrir ýtarlega og mikla baráttu innan ríkisstj. enn sem komið er.

Ég veit, að þeim, sem prédika gamaldags hagfræði í þessum efnum og tala um, að fjárfestingin á Íslandi í heild sé allt of mikil, og vitna í okkar stóru nágrannaþjóðir eins og Bretana eða jafnvel Bandaríkin, þeim finnst þetta ákaflega ópraktískt, óeðlilegt, og hugsa alltaf, eins og sumum af okkar hagfræðingum hættir við, allar sínar till. út frá þjóðfélagsástandi þessara gömlu, grónu og ríku auðvaldsþjóðfélaga. En þær efnahagshugmyndir, sem þar eru uppi og jafnvel eiga vel við, þær eiga ekki við okkur, þær hæfa okkur jafnilla og t.d. gamall diplómatfrakki ungum strák, sem væri í örum vexti. Það, sem við þurfum t.d. í sambandi við fjármálahliðina í þessum efnum, er ódýrir peningar. Manni finnst það kannske skrýtið í landi með 7% og upp í 12% vexti, þar sem jafnvel seðlabankinn tekur 12% vexti af öðrum bönkum, að vera að tala um ódýra peninga. En hver er höfuðkrafan í þjóðfélögum, þegar þau eru í örum vexti? Hver er höfuðkrafa Bandaríkjanna allan seinni hluta 19. aldar, þegar menn eru að nema allt landið og byggja það upp? Ódýrir peningar, krafa bændanna, krafa fólksins í öllu landinu.

Það er alveg óhjákvæmilegur hlutur, ef svona frv. ætti ekki að verða til þess að stórspilla í þessum efnum, að því er varðar þennan eina hlut í því, að bankapólitík seðlabankans sé þarna alveg samrýmd og því skilningsleysi og þeim þrönga, óeðlilega hugsunarhætti, sem hefur allt of mikið ríkt hjá meiri hlutanum, verði breytt. Ég skal bara nefna sem dæmi, að nú er það ekki seðlabankinn beint, sem lánar sjávarútveginum, það eru viðskiptabankarnir, sem gera það, ríkisbankarnir eins og Útvegsbankinn og Landsbankinn. Hvernig standa þessir bankar núna að vígi, þegar þeir eiga að lána út til sinna viðskiptavina? Þegar þeir lána afurðavíxla, þá lána þeir út með 5% vöxtum. endurselja síðan seðlabankanum fyrir 4/2%. Það þýðir, að þeir fá 1/2% fyrir alla áhættuna og seðlabankinn tekur 41/2%, sem nær náttúrlega ekki neinni átt. Seðlabankinn hefur satt að segja ekkert að gera með að græða. Eða í öðru lagi, ef seðlabankinn er naumur í sínum skiptum við þessa banka og þeir neyðast til þess að fara inn á yfirdrátt, sem þeim er annars ekki heimill, þá verða þeir að borga 1% vexti á mánuði, vexti, sem raunverulega eru bannaðir með lögum, enda látnir heita þarna raunverulega einhvers konar refsing, en ekki vextir, m.ö.o. 12% vexti á ári. Það þýðir, að þá stendur viðskiptabankinn í þeirri aðstöðu að eiga að lána til sjávarútvegsins, svo að þjóðin og seðlabankinn fái einhvern gjaldeyri, og borga 12% vexti af því fé. Þetta eru hlutir, sem ekki ná nokkurri átt, og ég sé það alveg fyrir mér, að á deilunni milli banka um svona hluti getur jafnvel útvegurinn stöðvazt á vissum sviðum eða dregið úr honum.

Það þarf, — og þá eru nú kröfurnar ekki farnar að verða stórar hjá manni, — það þarf að tryggja þjóðnýta stjórn á sjálfum seðlabanka þjóðarinnar. Það virðist nú satt að segja vera lágmarkskrafa hjá þjóð, sem hefur eins mikinn ríkisrekstur og íslenzka þjóðin, að það sé þó a.m.k. samræmd stjórn á sjálfum ríkisbúskapnum. En meira að segja þar er það svoleiðis, að einn embættismaðurinn í einum bankanum eða einni stofnuninni rekur þessa pólitík og hinn embættismaðurinn í hinni stofnuninni rekur hina, og svo rekst allt á. Svona er ekki hægt að stjórna landi. Þetta skildi maður, svo framarlega sem það væri einn prívatmaður, sem ætti Útvegsbankann, annar prívatmaður, sem ætti Landsbankann, og seðlabankinn væri stórt hlutafélag. En þegar það er ríkið, sem á þetta allt saman, ríkið, sem tekur allan gjaldeyrinn af útveginum til þess að skipta honum upp hér innanlands, þá á þetta ríki að hugsa fyrir þessum hlutum, marka þessa stefnu og sjá um, að hún sé framkvæmd, sjá um, að hún sé samræmd a.m.k. í sjálfum þessum ríkisbúskap. Og eins og ég tók fram áðan, þetta er ekki einu sinni sósíalistísk krafa, þetta er bara lágmark þess, sem vit er í, ef maður ætlar að stjórna sínu eigin búi.

Ég ítreka það þess vegna, að það þarf að tryggja, áður en þetta mál fer úr þessari deild, hvað seðlabankinn ætlar að gera í þessum efnum. Og ég minni ekki hvað sízt hæstv. ráðh. Framsfl. á, að það er óhjákvæmilegt að sjá svo um, að stjórn seðlabankans verði í samræmi við þarfir þjóðfélagsins og þá fyrst og fremst þarfir sjávarútvegsins í þessum efnum, og ég minni á þetta m.a. með tilliti til þess, að ég gerði sjálfur mínar till. um þetta til ríkisstj., þegar seðlabankalögin voru í undirbúningi, að þarna væri tryggð samræmd stjórn, og þær voru allar hunzaðar. Ég vil vara við því, að afleiðingin af því skilningsleysi, sem þá kom fram, bitnar nú á því, að þegar ríkisstj. vildi eitt, þá vildi seðlabankastjórnin eða meiri hluti hennar annað og stefna þessara tveggja aðila í ríkisvaldinu væri ekki samrýmd, og af því að hún var ekki samrýmd, þá malaðist sjávarútvegurinn niður á milli þessara tveggja myllusteina, í staðinn fyrir að það yrði til þess að auka hann.

Ég læt svo útrætt um þann þátt, sem snýr að þjóðinni í þessu máli, viðvíkjandi bankapólitíkinni.

Ég kem inn á það í mínu nál., að ég álít, að þetta mál, eins og það nú liggur fyrir, eigi raunverulega ekkert skylt lengur við spurninguna um öflun tekna, sem lá fyrir í desember í vetur, þ.e. þær 65 millj. plús eitthvað í landbúnaði, sem vantaði þá upp á fjárlögin, þær 25–40 millj. kr., sem kann að hafa vantað í útflutningssjóð, að útvega þá hluti, það var leikur.

Þetta, sem hér er lagt fyrir, er allt annað. Það eru allt aðrar ráðstafanir. Þó að þessara tekna sé að nokkru leyti aflað í leiðinni, þá er sú tekjuöflun sem sé ekki lengur orðin aðalatriði. En það er hins vegar ekki óeðlilegt, að ég sé að því spurður, þegar ég deili á þessa hluti og segi, að ég lýsi mig andstæðan ýmsu í þessu, og í minni rökst. dagskrá kem fram með það, að ríkisstj. ætti að leggja fram tekjuöflunartill., sem geri ráð fyrir að halda verðstöðvunarstefnunni, eftir því sem unnt er, og valdi sem minnst almennri verðhækkun, að ég geri nokkra grein fyrir, hvernig ég álíti slíkt hægt.

Ég álít í fyrsta lagi, að það, sem beri að gera í íslenzku þjóðfélagi nú hvað tekjuöflun annars vegar og ráðstöfun á fjármagni snertir, fyrir utan allt það, sem ég hef talað um nú viðvíkjandi sjávarútvegi, landbúnaði og öðru slíku, það sé að þjóðnýta eða taka upp ríkisrekstur á allmiklum hluta af heildverzluninni, innflutningsverzluninni til landsins. Ég álít, að það eigi að taka hér ríkiseinkasölu á olíu, og hefði átt að vera búið að því. Ég álít, að það ætti að taka ríkiseinkasölu á bílum. Ég álít, að það mætti mjög vel athuga það líka að taka ríkiseinkasölu á vélum og jafnvel taka ríkiseinkasölu á raftækjum. Ég skal leiða rök að þessu, bæði almennt og sérstaklega. Ég hugsa mér þetta hvort tveggja í senn sem skipulagningaratriði í þjóðarbúskapnum og sem tekjuöflun fyrir ríkissjóð, — skipulagningaratriði í þjóðarbúskapnum hvað það snertir að knýja einkafjármagnið burt úr þessum sviðum þjóðfélagsins, þ.e. beinlínis, svo að ég orði það „drastískt“, reka einkafjármagnið — við skulum segja — út úr olíuverzluninni, út úr bílaverzluninni eða slíku og inn í sjávarútveginn, iðnaðinn og slíkt. Ég veit, að það hefur þótt lengst af það öruggasta, ef menn hafa átt fé á Íslandi og viljað leggja sitt fjármagn í eitthvað, að leggja í verzlun eða húsabrask, en menn hafa síður viljað leggja það í sjávarútveg eða iðnaðinn, af því að mönnum hefur þótt atvinnulífið, sem þó er undirstaðan fyrir þjóðfélagið, miklu ótryggara, en það að lifa á þjóðinni í gegnum verzlunina. Og við vitum ósköp vel, að t.d. olían hefur verið sérstaklega eftirsótt í þessum efnum og óskaplega mikið fjármagn í hana farið og ákaflega miklu af því fjármagni verið deilt út mjög óhagsýnt, eins og m.a. allir benzíntankarnir úti um allt landið eða benzínafgreiðslurnar bera bezt vott um. Ég held þess vegna, að fyrir þjóðfélagið sjálft væri það heilbrigð ráðstöfun í íslenzkum þjóðarbúskap að taka þannig ríkiseinkasölu á þessum greinum innflutningsverzlunarinnar. Jafnframt álít ég líka, að vissir þættir í þessu séu alveg sjálfsagðir til hagnýtingar fyrir ríkissjóð til tekna. Hvað olíuna snertir, þá liggur það fyrir, að bæði Alþfl. og Alþb, hafa hvað eftir annað flutt um þetta frv. og þáltill., og hér liggur ein fyrir nú, og í ríkisstj. hafa ráðh. Alþb. nú í meira en ár verið að reyna að vinna að því að fá frv., sem þeir hafa haft tilbúið allan þennan tíma, samþykkt, og ekki getað fengið það.

Olían er nú sjötti til fimmti hlutinn af öllum innflutningi landsins, og ríkið kaupir hana alla og semur um hana alla í einu lagi, og síðan er hafður þessi háttur á, að ríkið afhendir þetta aftur til einstakra manna. Nú sumir segja, að þeir tapi á því, og sumir segja, að þeir græði á því, og ég held, að þeir mundu vera hættir við það, ef þeir hefðu alltaf tapað á því, þannig að ég held, að með því að ríkið tæki þetta, þá mundi vera hægt fyrir ríkið í fyrsta lagi að taka nokkurn gróða á þessu og í öðru lagi að nota vissan hluta af því til álagningar fyrir ríkissjóð samkv. sérstökum lagaheimildum og í þriðja lagi að sjá til þess, að þjóðin hvað fjárfestingu í sölu og dreifingu á slíku snerti verði ekki eins miklu fé til þess og nú hefur verið gert.

Ég veit, þegar ég færi t.d. að tala um bílaeinkasölu, að ég verð spurður að því: Ja, hvernig í ósköpunum, var ekki einu sinni bílaeinkasala, og voruð þið ekki sjálfir með því að afnema hana? Vissulega, það er rétt. Bílaeinkasala var sett á stofn af stjórn Framsóknar og Alþfl. á árunum 1934–37, og það mistókst ýmislegt í því og fór illa. En þó að hún hafi einu sinni mistekizt, þá þýðir það ekki, að þar með skuli gefizt upp við slíkt fyrir alla eilífð. Það getur tekizt betur næst. Ég veit að vísu, að það verður sagt við mig, ef ég legg til með svona ríkiseinkasölur: Hvernig er með reksturinn á þeim, sem fyrir eru? Hvernig er stjórnin á ríkiseinkasölunum? Og ég skal ekkert draga úr þeirri eðlilegu gagnrýni, sem fram kemur á ríkisrekstrinum í slíku. En ég vil um leið lýsa því yfir, að þrátt fyrir slíkt hef ég trú á því, að það sé meira að segja líka í íslenzkri verzlunarstétt til nóg af mönnum, sem mundu stjórna ríkisreknum fyrirtækjum jafnvel og sínum eigin. — [Frh.].