12.12.1957
Neðri deild: 38. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í B-deild Alþingistíðinda. (98)

5. mál, tollskrá o. fl

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það er aðeins tvennt, sem ég vil taka fram út af því, sem síðasti ræðumaður kom inn á.

Ég vil upplýsa, að það hefur á undanförnum árum þráfaldlega komið fyrir, að fjmrn. hefur fallizt á að greiða fyrir fram nokkrar fjárhæðir út á væntanlegar fjárveitingar, og að slíkt hefur oft verið gert eftir sérstakri kröfu og ósk frá ráðherrum Sjálfstfl. Það er engin ný bóla. Það hefur verið reynt að gera eins lítið að þessu og unnt hefur verið, en það hefur þráfaldlega komið fyrir, að þetta hefur verið gert og þá oft eftir kröfu frá ráðherrum Sjálfstfl. Ég fullyrði, að slík fyrirframheit eða fyrirframgreiðslur eru nú með allra minnsta móti. En þetta hefur komið fyrir oft á undanförnum árum, þó að reynt hafi verið að gera eins lítið að því og unnt hefur verið. Það hefur þá staðið alveg sérstaklega illa á, og þá hefur verið gripið til þessa.

Hv. 1. þm. Rang. sagði hér áðan, að ég hefði farið með rangt mál í sambandi við það, sem ég upplýsti um úthlutun atvinnuaukningarfjárins. Ég kallaði fram í og sagði við hv. þm., að það mundi ekki borga sig fyrir hann að segja þetta. Hann er nokkuð hvatvís og fljótur að fullyrða, þessi hv. þm., eins og mönnum er kunnugt, og hefði stundum gott af því að hugsa sig betur um, en hann gerir, áður en hann talar. En ég sagði, að atvinnuaukningarfénu hefði verið úthlutað af ríkisstj. og væri úthlutað af ríkisstj., og þetta er rétt, en ekki rangt. Um úthlutunina fjalla að vísu nokkuð sérstaklega þrír ráðh., en úthlutunin er gerð af ríkisstj., eins og var hjá fyrrv. stjórn, en þá fjölluðu þó raunar tveir ráðh. mest um úthlutunina. Þá voru það nokkrir embættismenn, sem undirbjuggu úthlutunina, og það er enn þá þannig, að það eru embættismenn, sem fjalla um málin fyrst og undirbúa þau í hendur ráðh. Allt það, sem hv. þm. sagði um þetta, er því á misskilningi byggt.