27.05.1958
Neðri deild: 106. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1227 í B-deild Alþingistíðinda. (984)

186. mál, útflutningssjóður o. fl.

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á einu ákvæði þessa frv., því, sem felst í 32. gr. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Vinnulaun erlendra ríkisborgara hér á landi til 1. júní 1958 skulu vera undanþegin yfirfærslugjaldi samkvæmt 21. gr. Umsóknir um yfirfærslu vinnulauna án yfirfærslugjalds skulu hafa borizt innflutningsskrifstofunni fyrir lok júnímánaðar 1958. Eftir þann tíma skal ekki veita nein gjaldeyrisleyfi fyrir vinulaunum án yfirfærslugjalds.“

Nú er það svo, að við landbúnaðinn hér starfa, að ég ætla, nokkuð á annað hundrað erlendir ríkisborgarar, sem Búnaðarfélag Íslands hefur beitt sér fyrir að hjálpa bændum til að ráða hingað til landbúnaðarstarfa. Þessir menn munu flestir vera ráðnir til 6 mánaða. Það kann að vera, að ráðningarnar séu eitthvað til mismunandi langs tíma, en langsamlega flestar þeirra munu taka yfir þetta tímabil. Ráðningartími þessara manna eða flestra þeirra mun því verða útrunninn við mánaðamótin okt. og nóv. Það hefur verið svo um mörg ár, að hingað hafa verið ráðnir erlendir starfsmenn, langsamlega flestir frá Danmörku, til þess að vinna hér að landbúnaði bæði sumar og vetur. Þau kjör hafa þessir menn fengið, að þeir hafa fengið að yfirfæra tæpan helming launa sinna eða um 1.000 kr. á mánuði. Venjulegt mánaðarkaup hefur verið 2.200–2.500 kr. Þessa yfirfærslu hafa þeir fengið án þess, að yfirfærslugjald hafi verið af henni reiknað. Þegar þessir menn, nokkuð á annað hundrað erlendir ríkisborgarar, sem hér starfa nú, voru ráðnir hingað, vissu þeir ekki annað, en þessi ráðningarkjör mundu halda áfram. Ég vil þess vegna vekja athygli á því, að ákvæði þau, sem eru í 32. gr. þessa frv. um, að nú skuli lagt 55% yfirfærslugjald á þann hluta launa þessara manna, sem þeir fá yfirfærðan, gera gríðarlega mikinn mun á launakjörum þeirra. Og mér skilst, að afleiðingin af þessu í mörgum tilfellum mundi verða sú annaðhvort, að mennirnir legðu hér niður störf, ef ætti að skerða laun þeirra svo sem hlyti að verða samkvæmt ákvæðum þessa frv., eða þá hitt, að bóndinn, sem þeir starfa hjá, yrði að hækka laun þeirra sem yfirfærslugjaldinu nemur. Þetta er atriði, sem þess vegna er mjög þess vert, að það sé athugað, áður en gengið er frá þessari löggjöf eða endanleg samþykkt er gerð hér á Alþ. á þessu frv.

Ég hefði þess vegna talið, að rétt væri og sanngjarnt og eðlilegt, þar sem svo stendur á, að þessir menn vissu ekki annað, þegar þeir voru ráðnir hingað, en þeir ættu að þessu leyti að sæta sömu kjörum og verið hefur, að þá yrði svo ákveðið í þessu frv., að þetta yfirfærslugjald tæki ekki til þessara manna, sem vinna hjá landbúnaðinum, til 1. nóv. n.k., en þá mun, eins og ég sagði áður, vera útrunninn samningstími flestra þessara manna.

Ég hef þess vegna samið hér Brtt. við þessa gr., sem inniheldur það, sem ég nú hef lýst, og er hún við 32. gr., að á eftir 1. málslið bætist nýr málsliður, sem hljóðar svo: „Sama gildir til 1. nóv. 1958 um vinnulaun erlendra ríkisborgara, sem fyrir gildistöku laga þessara hafa verið ráðnir til landbúnaðarstarfa.“ — Og aftan við síðasta málslið, þar sem sagt er, að eftir þann tíma skuli ekki veita nein gjaldeyrisleyfi fyrir vinnulaunum án yfirfærslugjalds, aftan við hann bætist: „sbr. þó 2. málsl. þessarar gr.,“ þ.e. þau ákvæði, sem ég nú var að lýsa.

Ég vil þá leyfa mér að afhenda hæstv. forseta þessa mína skriflegu brtt. um þetta efni, og af því að ég hygg, að þetta ákvæði frv. hafi ekki verið skoðað svo niður í kjölinn sem vera skyldi, þá mætti máske vænta þess, að hv. fjhn., sem hefur haft þetta frv. til meðferðar hér, vildi athuga þessa brtt., áður en gengið verður endanlega til atkv, um þetta frv. nú við 3. og síðustu umr. þess hér.

Það hafa verið ráðnir hingað til lands erlendir ríkisborgarar til ýmissa annarra starfa og þ. á m. til sjómennsku hér á skipum, en það mun nú standa svo á, að allur meginþorri þessara manna er nú farinn af landi burt, því að ráðningartími þeirra langsamlega flestra var til síðasta lokadags eða til miðs þessa mánaðar, svo að það munu vera tiltölulega fáir erlendir ríkisborgarar, sem nú eru ráðnir til sjómannsstarfa hér. Flestir þeirra munu vera horfnir heim eftir vertíðardvölina á skipum hér og hafa sloppið við yfirfærslugjald. Það er því alveg augljóst mál, að langstærsti hópurinn af erlendum ríkisborgurum, sem starfa hér á landi nú og ráðnir eru hingað um stundarsakir, vinnur einmitt við landbúnaðinn. Þess vegna hefði ég talið, að það væri fullkomlega réttmætt og í samræmi við það, hvernig búið var að hinum erlendu sjómönnum, að fara fram á þá undanþágu landbúnaðarins vegna, sem lagt er til í þessari minni brtt.