28.05.1958
Efri deild: 110. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1232 í B-deild Alþingistíðinda. (998)

186. mál, útflutningssjóður o. fl.

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Ég mun reyna að gera grein fyrir þessu máli í eins stuttri ræðu og ég get komizt af með, enda hefur málið nú verið mikið rætt og fylgir því ýtarleg grg.

Það er raunverulega tvennt, sem er hættulegast í íslenzku efnahagslífi. Það er sá ríkisrekstur á töpum útflutningsframleiðslunnar, sem hafinn var 1946, þegar útflutningsframleiðslan var í raun og veru öll gjaldþrota, og annað atriði, að við höfum það, sem ég veit ekki til að nein önnur þjóð hafi í því formi, sem það er hjá okkur Íslendingum, sjálfvirka vísitölu.

Samkvæmt lögmáli þessarar sjálfvirku vísitölu hefur stöðugt hallað á ógæfuhlið, vegna þess að samkvæmt reglum hennar, sem ég þarf ekki að lýsa fyrir þessari hv. d., orkar hún þannig á fjármálalífið, að kaupgjald, vöruverð og framleiðslukostnaður fer stöðugt hækkandi, og þar af leiðir, að ekki verður hjá því komizt að greiða hærri og hærri uppbætur, eins og gert hefur verið undanfarin ár, á útflutningsframleiðsluna, því að hún ber sig alltaf verr og verr.

Ég ætla ekki að ræða hér um þessa sjálfhreyfivél, sem vísitalan hefur verið og er í íslenzku fjármálakerfi, en það er bersýnilegt, að áhrif vísitölunnar eru fleiri, þó að þau séu í sömu átt, heldur en þau, sem koma fram í þessu atriði, sem ég nú nefndi. Það eru margir af launamönnum, láglaunamönnum, farnir að gera sér grein fyrir því, að vísitalan, sem var sett fyrir láglaunafólk og komið á því til varnar, hefur nú þá verkun, eftir að hún er orðin almenn, að hún dreifir þjóðartekjunum yfir allt þjóðfélagið og þannig, eins og við vitum, skv. reglum hennar, að sá, sem hefur hæst laun, fær tvöfaldar uppbætur við hækkun vísitölunnar, tvöfaldar eða þrefaldar samanborið við láglaunamenn. Þess vegna álíta sumir innan verkalýðssamtakanna, að þetta sé mjög vafasöm aðferð, svo að ekki sé meira sagt, til þess að ná rétti sínum og ná stærri hlut af þjóðartekjunum, en þeir hafa núna vegna þessarar almennu dreifingar.

Hækkun sú, sem hefur orðið samkv. þessu lögmáli á öllu í þessu landi, hefur haft það í för með sér, að fjárfestingin hefur verið um of og það m.a. af þeirri einföldu ástæðu, að þeir, sem fyrir henni hafa staðið, hafa eðlilega verið í stöðugu kapphlaupi við vísitöluna. Enn fremur hefur það haft þau áhrif, sem eru skiljanleg, að ásókn eftir útlánum hefur stöðugt farið vaxandi, og þarf ekki að skýra það, að það er auðsætt mál, að oft og einatt bezti atvinnuvegurinn í þessu landi hefur verið að ná sem mestum lánum, vegna þess að það hefur verið nokkurn veginn víst, að það væri hægt að greiða þau með verðminni krónum innan stutts tímabils. Samkvæmt sama lögmáli hafa útgjöld ríkissjóðs stöðugt farið vaxandi.

Ég hef í örfáum dráttum dregið hér upp mynd af þeirri þróun, sem allar stjórnir hafa verið að fást við síðan 1946 með misjöfnum árangri, sem ég ætla ekki að ræða hér að þessu sinni. Af þessum ástæðum m.a. og þeim, sem ég síðar greini, kom það í ljós, að áætlun útflutningssjóðs, tekjur útflutningssjóðs og tekjur ríkissjóðs stóðust ekki fyrir árið 1957.

Ástæðurnar til þess, að svo fór, voru þær fyrst og fremst, að það var talsverður aflabrestur, enn fremur að það var mikil fjárfesting í landinu, mjög mikil fjárfesting, og innflutningur á ýmsum fjárfestingarvörum var meiri, en hann var á árinu áður og hefur verið ýmis ár þar á undan. Í þetta eyddist að sjálfsögðu gjaldeyrir, en tekjurnar af þessum innflutningi, vegna þess að mjög lág innflutningsgjöld eru af fjárfestingarvörum, urðu litlar. Afleiðingin varð sú, að það kom fram samdráttur í innflutningi á þeim vörum, sem hæstu innflutningsgjöldin eru lögð á, og þar af leiðandi urðu tekjur ríkissjóðs og tekjur útflutningssjóðs minni, en áætlað hafði verið, og bersýnilegt, að svo mundi verða árið 1958. Á árinu 1958 var ekki hægt að gera ráð fyrir meiri innflutningi, en á árinu 1957. Lögboðin gjöld ríkissjóðs hafa hækkað vegna hækkandi vísitölu og vegna aukinnar niðurgreiðslu, sem hefur að vísu komið í veg fyrir það í bráð, að vísitalan hækkaði, eins og ella mundi, og hækkun útflutningsuppbóta var nokkur um áramótin, m.a. vegna aflabrests og vegna þess, að kaup sjómanna var hækkað.

Það, sem kemur í ljós við athugun á þessu ástandi, er það, að uppbótakerfið er komið á það stig, að það verður erfiðara með hverju ári og óhætt að segja með hverjum mánuði að halda uppbótakerfinu áfram og stöðvunarstefnu jafnhliða.

Þetta er af þeirri einföldu ástæðu, sem sérhverjum, sem um hugsar, er skiljanleg, að þegar uppbótakerfið vex, þegar fjármunirnir, sem taka þarf til þess að greiða útflutningsuppbæturnar, hækka ár frá ári, þá er ekki hægt eins og á fyrsta stigi þess að taka nokkra togara, flytja þá inn, leggja á þá há innflutningsgjöld og greiða útflutningsuppbætur með þeirri upphæð einni. Það er auðvitað lögmál þessarar uppbótastefnu, sem fylgt hefur verið undanfarin ár, eins og ég gerði grein fyrir áðan, að fjárhæðin, sem þarf til þess að greiða útflutningsuppbætur, fer stöðugt vaxandi, og það er ekki hægt að taka þessa fjármuni með innflutningsgjöldum á þær vörur, sem eru taldar minna nauðsynlegar og hafa löngum verið hátollaðar eða með háum innflutningsgjöldum. Afleiðingin verður því sú, að til þess að ná þessum tekjum verður að leggja útgjöldin á þær vörur, sem koma sumpart beint, sumpart óbeint inn í vísitöluna eða valda vísitöluhækkun.

Þegar ríkisstj. stóð frammi fyrir þessum staðreyndum, var spurningin um leiðir, og þær hafa verið athugaðar allgaumgæfilega, jafnframt því sem reynt hefur verið að semja við stéttirnar um þá leið, sem farin hefur verið.

Það kom vitanlega til greina að athuga það að fara svokallaða verðhjöðnunarleið. En ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að flestir hagfræðingar, ef ekki allir hagfræðingar, eru sammála um það, að við erum komnir svo langt á dýrtíðarbrautinni, að sú leið er raunverulega útilokuð nema með því móti að breyta hlutfalli milli verðgildis innlends og erlends gjaldeyris um leið og taka upp, eins og sumar þjóðir hafa gert, nýjan gjaldeyri eða nýja mynt. Þessi leið hefur því af þeim, sem hana hafa athugað, verið útilokuð af þessum ástæðum og af margháttuðum ástæðum öðrum, sem ég ræði ekki að þessu sinni.

Sú leið, sem mikið hefur verið talað um, er gengisbreyting, Það er auðsætt mál, að með því gengi, sem við nú höfum, fá framleiðendur útflutningsvöru miklu lægra verð, miklu færri íslenzkar krónur, þegar þeir selja erlenda gjaldeyrinn, fyrir hann, en svarar framleiðslukostnaðinum í landinu. Það er vitanlega reikningsdæmi, sem hefur verið reiknað, hvað mikið á skortir, og það, sem gerist og þarf raunar ekki að skýra hér fyrir þessari hv. þingdeild, er það, að erlendi gjaldeyririnn er hækkaður, þannig að útflytjandinn, framleiðandi útflutningsvörunnar, fái hæfilega margar íslenzkar krónur fyrir erlenda gjaldeyrinn til þess að geta greitt sinn framleiðslukostnað með sæmilegu móti. En sá er galli á þessari leið, að hún ein út af fyrir sig læknar ekki þetta böl og það af þeirri einföldu ástæðu, að um leið og erlendi gjaldeyririnn er hækkaður og um leið og það skeður, að framleiðandi útflutningsvara fær nægilega margar íslenzkar krónur, þá verður sá gjaldeyrir jafnframt dýrari á samsvarandi hátt, sem við þurfum til þess að kaupa erlendar vörur fyrir. Afleiðingin verður þess vegna sú, að útflutningsframleiðslan fær ekki nægilega margar krónur nema í svipinn, því að strax á eftir kemur sjálfvirka vísitalan og breytir kaupgjaldi og framleiðslukostnaði útflutningsframleiðslunnar þannig, að innan stundar fær útflutningsframleiðslan ekki nægilega margar íslenzkar krónur fyrir framleiðslu sína. Þetta skeður jafnt fyrir því, þó að allir séu sammála um að nota þær tekjur, sem hægt er að afla af hátollavörum, til þess að greiða niður lífsnauðsynjar, innlendar og erlendar, eða greiða niður næstum samsvarandi því, sem þessum erlendu vörum er núna hlíft við aðflutningsgjöldum. Ástæðan fyrir því, að þetta skeður, er auðvitað sú, að við höfum hina sjálfvirku framfærsluvísitölu, sem hlýtur að leiða það af sér, að meðan ekki er fallið frá vísitölunni, mundi verða gengisbreyting innan stundar aftur af þeim ástæðum, sem ég greindi áðan.

Stundum hefur sú leið verið nefnd að fara öðruvísi að, og hafa ýmsir erlendir sérfræðingar bent á þá leið sem eina hina einföldustu og skiljanlegustu fyrir allan almenning, sem vitanlega þarf að fylgjast með í þessum málum, til þess að skynsamlega sé á þeim tekið. Reiknað er út og hefur verið reiknað út, hvað miklu dýrari framleiðsla okkar er vegna dýrtíðarinnar í landinu, heldur en fæst fyrir hana á erlendum markaði. Ef reiknaður er út þessi mismunur, og ég nefni bara einhverjar tölur, og maður hugsar sér, að það kæmi í ljós við útreikninginn, að íslenzk framleiðsla sé 80% dýrari, en nokkur möguleiki er til þess að selja hana til útlanda, þá er ekki um nema tvennt að velja: að borga útflutningsframleiðslunni þessi 80% eða hún stöðvast. Þetta er ákaflega einfalt og skiljanlegt hverjum manni. En til þess að afla tekna til að greiða þessi 80% mundi þurfa að selja allan gjaldeyri með 80% álagi. Með þessu móti ganga þessar fjárhæðir út og inn um banka, jafna sig sjálfar, þetta jafnar sig sjálft, stendur undir sér sjálft, vigtar sig sjálft, og það er vitanlega stór kostur. Allar atvinnugreinar í landinu eru eins settar, allar framleiðslugreinar í landinu eru jafnt settar. Þeim er ekki mismunað á neinn hátt. Það heldur velli, sem borgar sig bezt o.s.frv.

Þó að farin væri sú leið að nota hátollavörur til þess að greiða niður lífsnauðsynjar, eins og gert er ráð fyrir í því frv., sem liggur fyrir, og allir gera ráð fyrir að mundi verða gert, ef gengisbreyting yrði gerð, þá hækkar vísitalan verulega við þessar ráðstafanir með nákvæmlega sömu afleiðingum og ef gengisbreyting væri gerð. En þá segja ýmsir sem svo, og með þeim árangri mun þessi leið hafa verið notuð annars staðar: Það er alveg skiljanlegur hlutur, að um leið og framleiðslukostnaðurinn hækkar vegna hækkandi kaupgjalds innanlands og hækkandi vöruverðs, þá hækkar prósentan af sjálfu sér, þ.e.a.s. það sé reiknað út venjulega fyrir fram, hún hækkar úr 80 upp í 85, og síðan stendur það nokkurn tíma. Síðan, ef vísitalan er látin verka að nýju, þá verður ný hækkun o.s.frv. Sérfræðingarnir benda á, að þetta sé e.t.v. eðlilegasta leiðin, sem unnt sé að fara til þess, að öllum verði það skiljanlegt, hvernig vísítöluáhrifin eru og hvernig þau verka, og þessi leikur mundi hætta innan stundar, ef það væri lagt fyrir á svo augljósan hátt. En því er ekki að leyna, að þessi aðferð verður okkur dýrari í byrjun a.m.k. fyrir allan almenning og það af þeirri einföldu ástæðu, að með þessu sitja allar útflutningsvörurnar við sama borð, þeim eru greiddar sömu uppbætur. En með þessu frv., sem hér liggur fyrir, er útflutningnum mismunað nokkuð, þó að tilhneiging sé til þess og verði meiri og meiri, að þessar útflutningsgreinar búi við sama borð. En með því að reikna út, hvað hver útflutningsgrein þarf, og borga minna á Norðurlandssíld, hval og Faxasíld, sparast nokkrir tugir milljóna, sem jafnframt kemur fram í því, að það þarf nokkru minni álögur, sem kallaðar eru, á almenning til þess að framkvæma þetta kerfi, sem hér liggur fyrir í frumvarpsformi, heldur en þessar tvær leiðir, gengisbreytingu og jöfnunarleið, sem ég hef nú nefnt. Hins vegar hefur jöfnunarleiðin marga þætti fram yfir þá leið, sem nú er farin.

Það, sem er tilgangur þessa frv., sem hér liggur fyrir, er því að sjá fyrir hallalausum rekstri ríkissjóðs og framleiðslusjóðs, jafna verðlag milli innlendrar og erlendrar vöru og jafna þann mismun, sem verið hefur á erlendu verði innbyrðis, — enn fremur að örva atvinnulífið, með því að nú getur hver ný atvinnugrein sem er fengið útflutningsuppbætur, svo sem ég kem nánar að. Það er gert ráð fyrir því í þessu frv., að allur atvinnurekstur, sem aflar gjaldeyris, fái útflutnings- og yfirfærslubætur, og eins og ég var að enda við að segja eru þannig opnaðar leiðir fyrir nýjum atvinnugreinum, sem voru algerlega lokaðar áður. Flokkar bóta á útflutningsvörur verða þrír skv. þeim breytingum, sem hafa orðið í hv. Nd., 55, 70 og 80. Þar er gerð sú breyting frá því, sem nú er, að sömu uppbætur eru fyrir togara og báta, og sýnir það, sem ég var að ljúka við að segja áðan, þá tilhneigingu, sem er til þess, að útflutningsframleiðslan sæki meira og meira í það að krefjast sömu uppbóta öll. Enn fremur er ákveðið, að greiddar verði 55% yfirfærslubætur á gjaldeyristekjur vegna annars en útflutnings, svo sem á tekjur af siglingum, flugsamgöngum, ferðaþjónustu o.fl., og léttir vitanlega stórkostlega undir með þessum atvinnugreinum. Þessir bótaflokkar fjórir koma í stað núverandi bótakerfis. Vinnsluuppbótum á smáfiski o.fl. er þó haldið áfram í frv. Greiddar verða nú útflutningsbætur á útfluttar afurðir, sem engar bætur hafa fengið til þessa, og — eins og ég sagði áðan — á gjaldeyristekjur af öðru en útflutningi. Þetta eru nýmæli.

Það er í samræmi við meginreglu frv., að greiddar skuli bætur á keyptan gjaldeyri, að frv. gerir ráð fyrir yfirfærslugjaldi á allan seldan gjaldeyri. Menn munu kalla þetta ýmsum nöfnum, þetta frv. og þ. á m. þetta atriði, álögur eða gengisfellingu, en um það hirði ég ekki að ræða.

Í stað þeirra yfirfærslugjalda, sem bankar og tollyfirvöld innheimta af mestum hluta innflutningsins og af duldum greiðslum, koma 30 eða 55% yfirfærslugjald í bönkum af öllum yfirfærslum og enn fremur innflutningsgjöld, sem tollyfirvöldin innheimta af nokkrum hluta innflutningsins, sem hafa verið greidd mjög há innflutningsgjöld af til þessa, en það er gert til þess, eins og augljóst er, að jafna metin.

Með þessu frv. er farin miðlunarleið milli þeirra leiða, sem ég nefndi áðan, og gamla uppbótakerfisins. Ég fullyrði, að það er stigið mjög stórt skref áleiðis að markinu, en hvort tekst að stíga það næsta, það ætla ég ekki að spá neinu um. Það eru að sjálfsögðu ýmsir gallar á þessari leið, sem valin hefur verið, m.a. sá, að það er alltaf hætt við því, að þegar notað er kerfi, sem ekki vegur sig sjálft, þá sé tilhneiging til þess, eftir að reiknaðar hafa verið út þær útflutningsuppbætur, sem þarf, að draga úr álögunum, sem á móti þurfa að koma, meira en varlega getur reiknazt. Og því er ekki að leyna, að þegar gengið var frá samningu þessa frv., þá var reynt til hins ýtrasta að hafa álögurnar sem minnstar, og getur það óneitanlega reynzt þessu kerfi nokkur hætta.

Þetta og fleira eru vitanlega ókostirnir. Það verður sennilega erfitt að finna leiðir, sem hafa einhverja kosti, út úr þeim ógöngum, sem við erum komin í, en kostirnir eru þeir, að það eykst ákaflega mikið samræmið milli innlends og erlends verðs. Það er margs konar iðnaður innlendur, sem hefur stórkostlegan ávinning af þessu frv., bátasmíðar, skipaviðgerðir og ýmislegt fleira.

Eins og ég nefndi áðan, þá er ýtt undir nýjan atvinnurekstur, sem ekki hafa verið neinir möguleikar til þess að stofna til, til þessa undir því gamla uppbótakerfi, sem — eins og við vitum — studdi eingöngu landbúnað og sjávarútveg. Það er enn fremur létt undir með utanlandssiglingum og flugsamgöngum.

Ég sagði áðan, að ég mundi engar getur að því leiða og engu um það spá, hvernig tekst með framhald þessara mála. En ég fullyrði, að það hefur verið með þessu máli, ef að lögum verður, farinn allstór og ég vil segja stór áfangi í rétta átt. En eins og ég minntist á í upphafi máls míns, þá er það orðið augljóst mál, að hvaða leið sem verður farin í efnahagsmálunum, þá er það augljóst, að sú leið verður ekki farin, svo langt sem dýrtíðin er komin á sinni braut, nema með því móti, að það hækki verulega framfærsluvísitöluna og setji dýrtíðarsjálfhreyfivélina í gang að nýju, nema sérstakar aðgerðir komi til. Þetta er vitanlega algerlega komið undir því, hvaða afstöðu stéttirnar, sem mestu ráða um þessi mál, taka til þessara mála.

Eins og kemur fram í frv. og ég því minntist sérstaklega á, þá er gert ráð fyrir 5% kauphækkun. Það samsvarar 9 vísitölustigum. Fyrir útflutningsframleiðsluna er gert ráð fyrir uppbótum, sem samsvara þessari kauphækkun. Þessi 9 vísitölustig, sem launþegarnir fá nú þegar í 5% kauphækkun, verða að sjálfsögðu ekki reiknuð með í vísitölunni. En svo reiknast til, að þegar liður að hausti, þá verði komið að þessum 9 vísitölustigum eða þar um bil. Þess vegna getur ekki hjá því farið, að eftir það komi fram nokkrar hækkanir, og þá er spurningin um það, hvort stéttirnar, sem mestu ráða um þessi mál, telja sér hagkvæmt að taka vísitöluspóluna — eins og hún hefur verið kölluð — taka hana úr sambandi og finna nýjar reglur eða setja hana í gang aftur með þeim afleiðingum, sem ég hef lýst og ekki verður komizt fram hjá. Það mál tilheyrir framtíðinni, og ég skal ekki ræða um það nánar.

En þó að þessi hv. þd. eigi að sjálfsögðu rétt á því að eyða sínum tíma til þess að afgreiða þetta mál, eftir því sem alþm. álíta nauðsynlegt, þá vil ég nú óska þess, biðja alþm. þess, að þeir reyni að flýta fyrir þessu máli, eftir því sem unnt er. Það er ákaflega bagaleg sú lokun fyrir tollafgreiðslur, sem verið hefur, meðan þetta frv. hefur verið hér alllengi á döfinni, án þess að ég sé nokkurn sérstaklega um það að saka. Ég vil þess vegna vona, að hv. alþm. verði við þeirri beiðni að afgreiða þetta mál eins fljótt og þeir sjá sér frekast fært.