02.12.1958
Neðri deild: 31. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í B-deild Alþingistíðinda. (100)

62. mál, almannatryggingar

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Á nýliðnu sumri urðu nokkrar breyt. til hækkunar á launum iðnaðarmanna, verkamanna, verkakvenna og ýmissa annarra umfram þá 5% launahækkun, sem ákveðin var í l. um útflutningssjóð á s.l. vori. Fyrir nokkru var enn fremur samþ. þál. í hæstv. sameinuðu Alþingi, sem færði opinberum starfsmönnum nokkra launahækkun til samræmingar við launahækkun daglaunamanna frá s.l. sumri. Þegar þál. var til meðferðar í Sþ., var frá því skýrt, að ríkisstj. mundi bera fram frv. til l. um breyt. á almannatryggingalögunum, sem færðu bótaþegum hliðstæðar uppbætur.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er borið fram til þess að fullnægja þessari yfirlýsingu. Frv. leggur til, að helztu bótagreinar almannatrygginganna verði frá 1. sept. 1958 hækkaðar um 9½%. Bótagreinar þær, sem hér er um að ræða, eru ellilífeyrir, örorkulífeyrir og barnalífeyrir svo og aðrar þær bætur, sem miðaðar eru við elli- og örorkulífeyri, en þær eru makabætur, mæðralaun, ekkjulífeyrir, uppbót á elli- og örorkulífeyri svo og slysabætur, þegar um er að ræða varanlega örorku eða dauða. Þessar bætur hafa venjulega verið látnar fylgja, þegar um almennar launahækkanir hefur verið að ræða og þá sérstaklega hjá opinberum starfsmönnum.

Útgjaldaaukning sú, sem frv. hefur í för með sér, verður frá tímabilinu 1. sept. til 31. des. þetta ár um 4 millj. kr., miðað við vísitölu 185 stig. En á næsta ári mundi þetta samtals nema um 11 millj. kr. fyrir allt árið. Af þessari upphæð kemur einn þriðji í hlut ríkissjóðs.

Ég vænti, að þetta frv. mæti góðum viðtökum hér í hv. deild, og legg til, að því verði vísað til félmn. og 2. umr.