06.02.1959
Efri deild: 65. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1177 í B-deild Alþingistíðinda. (1005)

75. mál, sameign fjölbýlishúsa

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég var að líta yfir þetta frv., og ég er ekki alls kostar ánægður með þær breytingar á því, sem n. leggur til að gerðar verði. Ég er heldur ekki viss um, að það, að enginn af þessum aðilum, sem frv. var sent til umsagnar, hafi svarað, sé merki þess, að þeir séu ánægðir með það. Það getur verið merki þess, að þeir hafi ekki nennt að lesa það, ekki náð saman fundum til að ræða það í þeim félagssamtökum, sem það hefur verið sent til, eða stafað af venjulegri íslenzkri deyfð og drunga að koma frá sér svörum, þegar spurt er. En ég ætla ekki að koma með neina brtt. við frv. Ég ætla að benda á nokkur atriði, sem ég vildi mjög gjarnan að n. athugaði fyrir 3. umr.

Ég vil fyrst benda á það, að þar sem sameign er á lóð og sums staðar allstórri lóð, sem fylgir þessum húsum, þá getur verið nauðsynlegt að hafa heimild til a.m.k., að henni sé skipt, þannig lagað, að menn geti komið þar upp blómagörðum, sem það vilja. Það er ákaflega algengt, bæði hér í Rvík og annars staðar, að íbúarnir vilja gjarnan koma sér upp blómagarði, og þar sem fylgir stór lóð, eins og er um margt af þessum blokkum, þá sé ég ekkert athugavert við það, þó að henni væri einhvern veginn skipt, svo að skapaðir væru möguleikar fyrir, að íbúarnir gætu komið sér upp blómagörðum. Ég held þess vegna, að það eigi að vera einhver heimild í 5. gr., sem ákveður, að lóðin skiptist sem sameign í sama hlutfalli og menn eiga í húsunum. Ég held, að eigi að vera einhver heimild þar, sem skapi möguleika fyrir því, að það sé hægt að skipta lóðinni, til þess að menn geti komið sér upp garðlöndum þar, ef menn vilji.

Þetta er það fyrsta, sem ég vil benda á og biðja n. að athuga, hvort hún ekki gæti fallizt á það. Það þarf kannske ekki að skipta allri lóðinni, það getur hagað svo til, að þurfi að vera inngangur að húsunum, t.d. meðfram húsinu að endilöngu, sem væri algerlega sameign, þó að skipt væri parti af henni, svo að ekki væri útilokaður þessi möguleiki.

Þá hef ég tekið eftir því í framtölum manna, sem eiga svona hús, að það er ekki nærri alltaf, sem þeir, sem telja sig eiga vissan hluta af húsinu, t.d. 3/5 af húsinu, telji sig líka eiga 3/5 af rúmmáli hússins. Það kemur greinilega fram í framtölum manna, að verðmætinu í húsinu er ekki eingöngu skipt eftir rúmmáli, heldur hvar það er í húsinu. Það er sýnilega oft virtur lægra rúmmetrinn bæði niðri í kjallara og eins uppi á hæsta lofti, heldur en í íbúðunum á hæðunum. Þess vegna held ég, að það sé varhugavert mjög að ákveða, að eignarhlutirnir skuli skiptast eftir rúmmáli, eins og gert er í 6. gr. Ég er ekki svo fróður í byggingarfræði, að ég þori að segja, hvernig þessi skipting á að fara fram. Líklega væri eðlilegast að skapa með frv. skyldu á húseigendur almennt, sem eiga saman hús, til þess að mynda húsfélag og skipa því ákveðna stjórn, og það komi sér saman um eignarhlutina í húsinu, hvort það eigi að vera sama eign í einum rúmmetra í kjallara eða einum rúmmetra uppí í kvisti og á hæðunum. Líklega væri það skást. En að leggja rúmmetratöluna eina til grundvallar fyrir skiptingunni á verðmætinu, sem hver á, það held ég áreiðanlega að sé rangt. Ég er búinn að sjá svo marga eign í svo mörgum húshlutum, sem menn telja sig eiga í sameignarhúsi, og sé, að það er tiltölulega sjaldan, sem því er fylgt.

Enn fremur held ég, að það sé nauðsynlegt að setja inn í frv. ákvæði um það, að ef búið sé að koma sér saman um svona skiptingu á eignunum í húsunum, þá eigi að þinglýsa því. Það hefur komið fyrir oftar en einu sinni, að eigendum að húshlutum ber ekki saman um, hver húshlutinn er. Og þegar ekki liggur fyrir þinglesið, hver hann er, þá er oft erfitt að vita, hverjum á að fylgja. Það er tiltölulega stutt síðan ég var með skattaframtal, þar sem vantaði eftir framtölum mannanna, sem í húsinu bjuggu, annars vegar tíu þúsund af heildarmatinu og í hitt skiptið var 10 þúsundum meira en heildarmatið, og það var af því, að mönnunum bar ekki saman um, hvað þeir ættu í húsinu hver einstakur. Þess vegna held ég, að það sé nauðsynlegt að láta þinglesa eignarhluta hvers einstaks í húsunum, þegar búið er að koma sér saman um hann. Og ég held, að það eigi að koma sér saman um hann á þann hátt að lögþvinga alla eigendur hússins til að mynda eitt félag, kjósa því löglega stjórn og hún komi sér saman um eignarhlutann í húsinu, kannske með hliðsjón af rúmmáli hverrar íbúðar, ég skal ekki segja, hvernig það á að vera, ég þori ekki að segja, hvernig það á að vera. En ég er viss um, að það er ekki rétt að skipta alveg eftir rúmmetrastærð hverrar íbúðar, heldur eftir því, hvar það er í húsinu. Ég er viss um það. Og ég get líka búizt við því, að þó að sé þarna í einhverri gr. ákvæði, að það sé innan árs frá því að húsið var byggt, — er það ekki? — já, og skal þinglýsa því eigi síðar en ári eftir, að húsið varð fokhelt, — það er í 3. gr., — það er spurning, hvort það nær til húsa, sem búið er að byggja fyrir fimm árum, sex árum, sjö árum, — og aldrei hefur verið gerður neinn samningur um, — hvort það verður að orða það öðruvísi. Þetta er fullnægjandi fyrir ný hús, sem margir eiga, en fyrir gömlu húsin, sem aldrei hefur verið gert neitt um og sífellt er rifizt um, hvernig sé, þá er það mikil spurning, hvort það er fullnægjandi fyrir þau, eins og greinin er orðuð núna. Þess vegna held ég, að það þurfi að kveða frekar á um það.

Þetta var nú sérstaklega það, sem ég vildi benda á. — Og ég skil nú ekki, hvers vegna n. leggur til að fella aftan af 17. gr., hvernig eigi að nota sameiginlegar þvottavélar í þvottahúsi o.s.frv. Ég skil það ekki. En ef það væri sett sú skylda, að félag eigendanna myndaðist og því skipuð lögleg stjórn, þá náttúrlega kæmi það af sjálfu sér, hvort sem væri í greininni eða ekki þetta, sem sleppt er, ef þeir kæmu sér saman um að kaupa sameiginlega þvottavélar t.d. eða sameiginlega vélar, sem allir hefðu aðgang að, eins og er í nokkuð mörgum þeirra.

Ég vil því óska eftir því, að n. athugi þetta nánar, athugi, hvort á ekki beinlínis að lögskipa, að í hverju húsl, sem er í sameign margra manna, skuli vera félagsskapur húseigenda, sem sé löglega stofnaður. Það er nú t.d. á einum stað talað um, að meiri hl. skuli ráða, svo að það er ætlazt til a.m.k., að það séu haldnir fundir um málin. Einnig sé gert mögulegt, skapaður möguleiki, — ég segi ekki, að það þurfi að vera, — til þess að skipta lóðinni, hafa hana ekki sameiginlega, heldur megi skipta henni, — ef einhver þeirra óskar eftir því til að koma þar upp garði, þá megi þeir skipta henni, kannske bara til að rækta í henni kartöflur. Það eru til garðar hér við hús, sem þær eru ræktaðar í. En ef lóð er óskiptileg, þá hefur enginn leyfi til þess, þótt stór lóð sé. Og eins er viðvíkjandi þinglestri á þessu, svo að það fari ekki á milli mála, hvað hver sameigandinn á. — Þetta var sérstaklega það, sem ég vildi benda á, og ég vona, að nefndin athugi þetta til 3. umr. Ef ég veit, að hún gerir það, þá skipti ég mér ekkert af því, en ef nefndin gerir það ekki, þá getur verið, að ég sjóði saman tillögu og reyni að koma með hana við 3. umr. Þá vona ég, að ég geti haft samband við n. til að heyra, hvort hún vill þá taka tillit til till. minnar eða ekki.