10.02.1959
Efri deild: 67. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1181 í B-deild Alþingistíðinda. (1008)

75. mál, sameign fjölbýlishúsa

Frsm. (Eggert Þorsteinsson):

Herra forseti. Við 2. umr. málsins gerði hv. 1. þm. N-M. nokkrar aths. við frv. og óskaði eftir því, að n. tæki til athugunar þar ákveðna hluti og þá sér í lagi einkum tvennt, sem okkur í nefndinni þótti rétt að sérstakrar athugunar þyrfti við. Var það í sambandi við 3. gr., þar sem svo er ákveðið, að þinglýst skuli skiptasamningi eigi síðar en einu ári eftir að lög þessi öðlast gildi. Þetta þótti þm. geta orkað tvímælis og taldi, að nauðsynlegt væri, að eldri húsin kæmu undir þetta fljótar, en þar er ákveðið.

Í stuttu máli er það að segja, að eftir að n. hafði rætt við annan af tveim semjendum frv., var talið, að það þyrfti a.m.k. eitt ár, svo sem ákveðið er í 3. gr., til þess að koma undir lögin þeim fjölbýlishúsum, sem þegar höfðu verið tekin í notkun, og ekki fært að hafa þann frest styttri, en þar frá greinir. Þess vegna hefur n. talið rétt, að 3. gr. yrði óbreytt hvað þessu viðvíkur.

Í öðru lagi ræddi hv. 1. þm. N-M. um möguleika á því, að það yrði lagt á vald félaga, sambýlisfélaga í viðkomandi húsi, hvert verðgildi hinna einstöku hluta hússins skyldi vera, og hann færði því máli sínu það til stuðnings, að það væri vitað, að í söluverði húsa væri gerður nokkur greinarmunur á verði rúmmetra, t.d. í kjallara og risum húsa, miðað við hinar almennu íbúðahæðir í húsum.

Það hefur komið í ljós við athugun hjá n., að það, sem frumvarpssemjendurnir þarna töldu rétt, að það yrði miðað við rúmmetrann almennt í húsinu, var fyrst og fremst af þeim ástæðum, að fasteignamatið mun hafa þessar reglur og hefur aðeins eina undantekningu frá því, að svo sé. En það er ekki á þeim forsendum, sem þm. benti á, hvar þessi rúmmetraeign er í húsinu, heldur með tilliti til íburðar í viðkomandi íbúð, og kemur það þá ekki heim við þær röksemdir, sem þm. flutti máli sínu til stuðnings. Að sjálfsögðu má bera svo og svo mikið í íbúð hússins í kjallara, þó að allir viti, að þær séu lægstar á söluverði, þegar húsið er upphaflega selt. Þess vegna telur n. einnig rétt að halda sig við þetta rúmmetramark, sem í frv. er ákveðið, og telur, að þær röksemdir, sem til þess liggja, séu svo veigamiklar, að það sé ekki ástæða til á þessu stigi málsins að breyta þar um, og leggur til, að um það gildi þau ákvæði, sem þegar eru í frv.

Þá minntist hv. þm. einnig á, sem ég vék lítillega að í svarræðu minni við ræðu hans við 2. umr. málsins, að það þyrfti að gefa frekari heimild, en honum virtist vera í frv., til þess, að íbúðareigendum eða sameigendum viðkomandi húss væri gert mögulegt að skipta lóðum eftir eignarhluta sínum í húsinu. Ég tók það fram þá þegar við 2. umr. málsins, að ég teldi þá heimild vera þegar í frv. Ef samkomulag er í viðkomandi fjölbýlishúsi um, að sá háttur skuli á hafður að skipta lóðum upp í reiti eftir eignarhluta í íbúðarhúsinu, þá er það mögulegt samkv. ákvæðum 2. gr. frv., þar sem gefinn er möguleiki á því að semja sig frá 3. kafla þessa frv., ef samkomulag er um annað, en þar er m.a. ákveðið um skipulag lóða og annað, sem í 11. gr. frv. er upp talið.

Í fáum orðum sagt: n. þótti ekki ástæða til eftir þessa athugun að gera till. um breyt. á frv. frá því, sem það var afgr. við 2. umr. málsins.

Nefndin leggur einróma til, að frv. verði samþ. eins og það er og hefur verið útbýtt nú eftir 2. umr. hér í hv. deild.