13.04.1959
Efri deild: 100. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1190 í B-deild Alþingistíðinda. (1045)

117. mál, firmu og prókúruumboð

Fram. (Eggert Þorsteinsson):

Herra forseti. Eins og frá greinir í nál. allshn. á þskj. 363, hefur n. yfirfarið frv. þetta, sem að vísu er ekki veigamikið að sniðum, en upphaflega frv., sem flutt var í Nd., gerði ráð fyrir þeirri breytingu einni, að við 8. gr. gildandi laga um verzlunarskrár, firmu og prókúruumboð bættust orðin: „enda beri fyrirtækið íslenzkt nafn“. Hv. Nd. gerði á þessu þá breytingu, að til viðbótar því, er flm. lagði til, komi svo hljóðandi ákvæði: „sem samrýmist íslenzku málkerfi að dómi skrásetjara. Ágreiningi, sem rísa kann út af nafni, má skjóta til nefndar þeirrar, sem starfar samkv. lögum nr. 33 1953“.

N. hefur, eins og ég sagði og frá greinir á fyrrnefndu þskj., yfirfarið þetta frv., haft samband við skrifstofu borgarfógeta um þetta efni og mælir að lokinni þessari athugun með samþykkt frv., eins og það kom frá hv. Nd. Hv. 1. þm. N-M. taldi, að þetta væri ekki fullnægjandi rannsókn á málinu og breytingar á lögum þessum þyrftu e.t.v. að vera fleiri, en meiri hl. n. taldi ekki þörf á því á þessu stigi. En að öðru leyti mun 1. þm. N-M. gera grein fyrir þessum fyrirvara sínum. N. mælir sem sagt með samþykkt frv., eins og það kom frá hv. Nd.