13.04.1959
Efri deild: 100. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1191 í B-deild Alþingistíðinda. (1046)

117. mál, firmu og prókúruumboð

Páll Zóphóníasson:

Ég eins og hinir nm. mæli með því, að frv. verði samþykkt óbreytt. Hins vegar vil ég nota þetta tækifæri til að benda á það, að mér líka ekki þessi vinnubrögð. Mér líkar það ekki um 56 ára gömul lög, sem flestir, sem hafa eitthvað haft með að gera, viðurkenna að þurfi að breyta, að það skuli vera tekin upp breyting á þeim á Alþingi, og ekki breytt nema einu einasta atriði af öllu því, sem breyta þarf. Þetta eru engin vinnubrögð. Það á ekki að vera að leika sér að því að breyta lögum að óþörfu. Það má segja, að þessi breyt. sé þörf að því leyti, að þau nöfn, sem á eftir eru gefin, verka sjálfsagt ekki málskemmandi á íslenzka tungu. Að því leyti er hún nauðsynleg, og að því leyti er ég með henni. En þá á vitanlega að leggja vinnu í það alveg í gegn: Hvað er það fleira í lögunum, sem þarf að breyta? Þarf einhver þm. á næsta ári að taka upp eina aðra grein og breyta henni og svo grein af grein og kannske aðra hverja grein, sem í lögunum er? Þess vegna hefði ég út af fyrir sig kunnað betur við það og hreyfði því í n., að það hefði bara verið skorað á ríkisstj. að láta endurskoða lögin öll og þetta koma þar inn í. En ég vildi ekki tefja málið með því, því að það gat dregizt, að það yrði gert, og þess vegna er ég með því að samþykkja þetta. En mér þykja óviðeigandi vinnubrögð að afgreiða málið svona og varla sæmandi Alþingi.