13.02.1959
Efri deild: 69. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1203 í B-deild Alþingistíðinda. (1056)

89. mál, sauðfjárbaðanir

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Ég styð brtt. hv. 11. landsk. Ég tel það óráð að fækka þrifaböðunum sauðfjár í annað hvert ár. Ég tel það óráð, og mig satt að segja furðar rökin, sem hv. frsm. færði hér fram. Hann taldi, að ástæðan væri sú fyrst og fremst, að baðanir hafi verið svo mikið vanræktar og því verði að láta undan og sleppa böðun annað hvert ár.

Ég spyr nú: En verður betri útkoman, ef baðanir verða vanræktar eftir sem áður? Ég held, að það sé svo komið, að sauðalúsin sé talsvert mikið farin að gera vart við sig aftur sums staðar, og að það sé stórhættulegt að vanrækja þrifabaðanir.

Hv. frsm. sagðist hafa fengið bréf frá bónda á Austurlandi, sem taldi fráleitt að hafa nokkrar þrifabaðanir yfir höfuð. Hví ekki að hlýða þessu og afnema þær gersamlega? Það eru nákvæmlega sömu rök og hin, að af því að það hefur verið vanrækt að baða, þá skuli fella það niður annað árið.

Við skulum gera okkur ljóst, hvers vegna er verið að fyrirskipa þessar þrifabaðanir. Það er til að verja sauðkindina óþrifum, og ég tel allt, sem gert er til þess að lina þá vörn eða draga úr henni, vera til tjóns, ekki aðeins fyrir bændur sjálfa, heldur líka fyrir heildina. Ég fyrir mitt leyti er eindregið því fylgjandi að hafa baðanir árlega, eins og verið hefur.

Í sambandi við sektarákvæðin finnst mér það nokkuð mikið stökk að hækka lágmarkssektina upp í 1.000 kr. og svo upp í 10 þús. kr. Það getur verið það lítils háttar brot, að það sé ósanngjarnt, að það varði 1.000 kr. sekt. Mér fyndist sanngjarnara að hafa lágmarkssektina 500 kr. eða eitthvað þar um. Það þarf ekki að vera bein vanræksla, það geta verið einhverjar ástæður fyrir því, að maður hefur ekki séð sér fært að baða. Og að setja alveg skilmálalaust 1.000 kr. sekt, ef ekki er baðað, hverjar sem ástæður eru, það tel ég ekki rétt. Það er réttara að hafa dálítið meira svigrúm niður á við, en lagt er til í þessu frv.