13.02.1959
Efri deild: 69. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1204 í B-deild Alþingistíðinda. (1057)

89. mál, sauðfjárbaðanir

Frsm. ( Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Ég skil hv. tvo síðustu ræðumenn báða vel. Annar þeirra lifir aftur í fortíðinni, meðan færilýs skriðu á manni, ef maður rúði kind, og maðurinn var klökkur sjálfur og hefur sjálfsagt ekki nærri kind komið til að rýja hana núna lengi og veit ekki, að færilús hefur ekki sézt í mörgum sýslum landsins, síðan farið var að baða úr Gamatox, en sést þar, sem er enn baðað úr öðru baðlyfi við hliðina af sumum fjáreigendum. Og það voru til í Mýrdal miklar birgðir af baðlyfi, þegar Gamatox byrjaði að flytjast til landsins. Ég skil þetta. Ég skil líka hræðsluna við kláðann, og hún er ekki ástæðulaus.

Það er alveg rétt, að það var tekin upp sú stefna að reyna að fyrirbyggja, að kláðinn kæmi upp í fénu, sem flutt var til í fjárskiptunum frá Vestfjörðum í önnur héruð. Hún var nú ekki tekin upp strax, því miður, en fljótlega var hún tekin upp, og þá var byrjað á því að reyna að útrýma kláðanum á Vestfjörðum með kláðaböðun. Þá voru teknir baðstjórar í öllum hreppum og eftirlitsmenn í hverri sýslu, sem áttu að hafa yfirumsjón með böðuninni í sýslunni með böðunarstjórana í hreppunum sér til aðstoðar.

Það er enginn vafi á því, að á þessu urðu mistök og að kláði kom upp aftur á einstaka stöðum. Þeir staðir voru teknir í gegn og reynt að útrýma kláðanum þar, og það mun hafa tekizt að verulegu leyti. En þó veit maður einmitt af tilfellinu, sem 11. landsk. nefndi, að það muni enn vera einhvers staðar á Vestfjörðum kláði, sem maður þó ekki veit hvar er. Við vitum um, að kláði kom frá Vestfjörðum með síðustu lömbunum, sem voru tekin þaðan í Bæjarhreppinn í Strandasýslu og part af Dalasýslunni, og við vitum líka, að kláðinn kom frá Vestfjörðum með lömbunum, sem flutt voru í Austur-Húnavatnssýsluna á sínum tíma. Þessi tvö tilfelli vitum við um. Og við vitum, að í Húnavatnssýslunni er ekki enn búið að uppræta hann. Síðast í vetur komu fyrir tilfelli á þremur bæjum, allt út frá einum ákveðnum hrút, sem menn voru að leika sér að flytja á milli bæjanna, en annars staðar veit maður ekki núna til að kláða hafi orðið vart. Það hefur verið reynt í ár að sjá um, að það yrði baðað um allt landið, og hefur ekki gengið, menn hafa óhlýðnazt því, og núna er enn verið að reyna að sjá um, að það sé framkvæmt. Hvernig það endar, veit ég ekki, það hefur ekki tekizt enn að fá alla inn á að gera það, þó að það sé lagaskylda að gera það og nú ríkt gengið eftir, að hlýtt sé, og þess vegna er það, að kláðaskoðun, sem átti að fara fram jafnframt þessu í vetur, er ekki alls staðar lokið. En það hefur hvergi orðið vart við hann nema þarna í Austur-Húnavatnssýslunni út frá einum hrút á Orrastöðum.

Nú er ekki um það að tala, að þótt við teljum okkur vita margt og vera búna að rannsaka margt, þá vitum við enn þá tiltölulega lítið um kláðamaurinn. Við vitum, að það er vitleysa, sem bóndi sagði heima hjá mér í fyrradag, sem var á ferð, og er oddviti meira að segja. Hann vill baða á hverju ári. Hann sagði, að hann bara kviknaði af sjálfu sér, kláðinn. Við vitum, að það er vitleysa, einber vitleysa. Hins vegar hafa íslenzkir bændur haldið því fram alla tíð, að hann lifi í húsunum þann tíma, sem þau séu sauðlaus, en það er lengri tími, en talið er í öllum fræðibókum að kláðamaur geti lifað utan kindarinnar. Hins vegar er mér sagt það af tveimur mönnum, sem voru á fyrsta eftirlitsnámskeiðinu, sem haldið var hér á landi, ég ætla 1906 eða 1907, að Magnús Einarsson hafi þá haft kláðamaur, sem hann hafi getað haldið lifandi í fimm mánuði utan kindarinnar. Mér er sagt það, og annar þeirra var Dalamaður, sem sagði mér það, og ég veit ekki annað, en hann sé trúverðugur maður. Og hann taldi sig hafa séð þennan maur hjá Magnúsi.

Á allra síðustu árum hefur það sannazt, að kláðamaur getur lifað á nautgripum og ekki gert þeim neinn skaða árum saman, en ef hann er tekinn af kúnni og færður yfir á kind, útsteypist kindin.

Og enn var það, að Gísli sálugi Guðmundsson gerlafræðingur, sem var hér þekktur og duglegur og mikilsvirtur maður á sínum tíma, fékk lambhrút frá Eyrarbakka, Mundakoti, og hafði hann hjá sér í tvö ár, hann var útsteyptur í kláða, þegar hann fékk hann, og hann ýmist gaf honum, svo að hann komst í nokkurt eldi, og þá sást enginn kláði á honum, en maður gat fundið maurinn, ef maður leitaði, eða hann fóðraði hann verr, svo að hann fór aftur í afleggingu, og þá úthverfðist hann, — og þetta gerði hann sitt á hvað ein tvö ár með þennan hrút. Þess vegna vildi hann segja á sínum tíma, að kláðinn væri í og með nokkurs konar fóðursjúkdómur og kæmi fram við illa fóðrun. Það er að nokkru leyti rétt og að nokkru leyti ekki.

Þetta allt saman gerir það að verkum, að við vitum ekki enn, hvernig þetta er með kláðann. Hins vegar vitum við, að kláða hefur ekki orðið vart frá Skagafjarðarsýslu, að henni meðtalinni, og austur um land, alla leið hér að Hellisheiði, núna í mörg, mörg ár. Aftur hefur hann verið eða var viðloða alltaf annað slagið í Dalasýslunni og Húnavatnssýslunum, og það eru líka þær þrjár sýslur, sem vilja láta baða á hverju ári, og svo Gullbringu- og Kjósarsýsla, — þær eru fimm, og það stendur í sambandi við kláðahættuna.

Nú er bezt að segja ykkur það, að t.d. í Englandi er engin skylduþrifaböðun á sauðfé. En það er skylda að baða fé úr Gamatox núna einu sinni, ef kláði finnst, og talið er, að þar með sé hann búinn. Þess vegna verður að ætla, að kláðinn, sem kemur upp aftur og aftur, eftir að á að vera búið að útrýma honum, stafi að einhverju leyti af miður vandaðri böðun. Ég man það, að hann kom upp t.d., þegar baðað var í Strandasýslu, þá kom hann upp á vissum bæ norðan við Steingrímsfjörð, eftir að var búið að baða þar, og hann hvarf ekki frá þeim bæ, fyrr en yfirdýralæknirinn fór sjálfur vestur til að gá að, hvernig á þessu stæði, og stóð yfir, meðan baðað var. Síðan hefur hans ekki orðið vart þar.

Nú er það von þeirra, sem standa að þessu frv., og þ. á m. mín, að það líði ekki mörg ár, þangað til við getum sleppt alveg allri böðun. En ég vil til að byrja með fara inn á þessa braut, lögskipa böðunina annað hvert ár og um leið skoðun og leit að kláða, og ef kláða verður einhvers staðar vart, þá að taka það svæði, sem þar er um að ræða, og tvíbaða á því og þá undir strangara eftirliti, svo að öruggt sé, að baðað sé eftir settum reglum. Ég er alveg viss um, að ef þetta væri hægt að gera alls staðar á landinu, þá væri kláðinn horfinn eftir svona fimm, sex eða sjö ár. Ég er alveg viss um það, og þá kemur að því, að það verður ekki þörf á skyldu að baða féð, heldur mega menn ráða því sjálfir. Og við þá, sem endilega vilja láta baða á hverju ári, eins og sýslumann Skaftfellinga og þm. V-Sk., sem ekki vill heyra nefnt annað, en að baða á hverju ári, vil ég segja það, að allar hreppsnefndirnar í Skaftafellssýslum og sýslunefndirnar báðar vilja láta baða annað hvert ár, nema ein hreppsnefnd og einn sýslunefndarmaður, svo að hann er ekki í samræmi við sína kjósendur þar. Það er aftur 11. landsk., því að sýslunefndin þar vill láta baða á hverju ári, og gott ef það er ekki líka meiri hluti hreppanna, — ja, þeir svara ekki allir, svo að það er ekki svo gott að segja, hvernig það er.

Ég held þess vegna, að sé farin þessi leið, sem mörkuð er með frv., að hafa skylduböðun annað hvert ár, láta þá fara fram rækilega kláðaskoðun, útrýmingarböðun, ef þá einhvers staðar finnst vottur af kláða, eða þar á milli, þá munum við komast alveg til lífs á kláðanum á a.m.k. næsta áratugnum og spara þó stórfé. Það á ekki að baða um allt landið af ótta við kláða og leggja í það fyrst og fremst yfir milljón krónur í gjaldeyri fyrir baðlyf, beint útlagða peninga, og svo alla vinnuna, sem því er samfara, gera það af ótta við kláðann, í staðinn fyrir að láta skoða rækilega og reyna að koma inn hjá mönnum fullum skilningi á því, að þeir eigi ekki að leyna kláða, — það er því miður það, sem stundum hefur verið gert áður, — þá mundi það aldrei kosta nema sáralítið á hverju ári, kannske 10–20 þús., baðlyfið fyrir svæðið, sem þá þyrfti að baða á, og oftast ekkert. Það er þess vegna heildinni alla vega miklu ódýrara og miklu hagfelldara að baða bara annað hvert ár og svo kláðaböðun, þar sem kynni að þurfa, sem ég held að verði ekki víða, það kann að vera þarna í Húnavatnssýslunni, það er ekki svo gott að segja, hvernig þetta liggur þar, og svo er það einhvers staðar á Vestfjörðunum. Dalasýslan er orðin hrein aftur og eins Strandasýslan af kláðanum, sem kom með lömbunum seinustu. Það finnst ekkert núna neins staðar þar.