11.04.1959
Neðri deild: 105. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1208 í B-deild Alþingistíðinda. (1067)

89. mál, sauðfjárbaðanir

Fram. ( Jón Pálmason):

Herra forseti. Þetta frv. um sauðfjárbaðanir hefur verið til meðferðar hér á Alþingi á síðasta þingi og er svo aftur nú, og orsökin til þess, að hér er farið fram á breytingar á gildandi lögum í þessu efni, er sú, að það hefur komið fram krafa eða tillögur um það að breyta til frá gildandi lögum um þrifabaðanir á þá leið, að ekki sé lögskipað að baða nema annað hvert ár. Landbn. þessarar hv. d. hefur verið andvíg þessari skipan, og afgreiddi þessi hv. d. málið á síðasta þingi á þá leið að halda þessu ákvæði í sama horfi og verið hefur að undanförnu.

Nú hefur eftir till. frá hv. landbn. í Ed. verið leitað eftir áliti sýslunefnda og hreppsnefnda úti um allt land varðandi þetta atriði, og hefur þar komið í ljós, eins og við mátti búast, að um það er mjög mikill ágreiningur, en þó orðið á þá leið, að meiri hl. þeirrar n. hefur mælt með því að fara inn á þá leið að lögskipa böðun aðeins annað hvert ár. Og þannig hefur frv. verið afgreitt frá hv. Ed., og var þó ekki nema meiri hluti hv. landbn. í þeirri d. með þeirri skipan.

Nú vil ég taka það fram, eins og fram kemur í nál. landbn. á þskj. 349, að skoðun n. er óbreytt að þessu leyti frá því, sem verið hefur, en við í n. höfum orðið þess varir, að þessi ágreiningur hefur valdið því, að það er orðin nokkur vanræksla á því að framkvæma lögin eins og til er ætlazt, og þess vegna er mjög áríðandi, að þetta frv. sé afgreitt, svo að hér sé ekki um neitt vafamál að gera. Það hefur því orðið að samkomulagi í landbn. að slá undan í þessu efni, ef verða mætti til samkomulags við hv. Ed., og auðvitað byggjum við það á þeirri alkunnu setningu, sem hljóðar á þá leið, að sá verði að vægja, sem vitið hefur meira. En við gerum þá kröfu, að þó verði lögskipuð böðun tvo næstu vetur, þrifaböðun, vegna þeirrar óreglu, sem á þetta hefur komizt, og að þeim tíma liðnum verði ákveðið eða leyft að baða aðeins annað hvert ár.

Ég vænti þess, að með þessari till. geti orðið samkomulag um þetta mál, sem náttúrlega er engan veginn stórt, en nauðsynlegt þó að afgreiða, og væntum þess, að hv. þdm. geti fallizt á okkar sjónarmið í þessu efni.