14.04.1959
Efri deild: 101. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1212 í B-deild Alþingistíðinda. (1085)

126. mál, veiting ríkisborgararéttar

Frsm. ( Páll Zóphóníasson ):

Herra forseti. Þegar þetta frv. kom til n., lágu ekki fyrir neinar nýjar umsóknir um veitingu ríkisborgararéttar, og þegar n. tók það fyrir á fundi sínum, var það ekki heldur. Þetta var dálítið óvenjulegt, því að venjulega er það svo, að umsóknir um veitingu ríkisborgararéttar eru að berast alltaf, ekki kannske daglega, en alltaf annað slagið, meðan málin eru til meðferðar í þinginu, og eiginlega tefur það alla afgreiðslu málsins og ætti, eins og oft hefur verið tekið fram hér á Alþingi undir meðferð á frv. um ríkisborgararétt, að vera þannig, að allar umsóknir kæmu til stjórnarráðsins og að stjórnarráðið færi í gegnum umsóknirnar og sendi þær í einu lagi til Alþingis, eftir að það er búið að rannsaka réttmæti þeirra, en ekki vera að smápeðra þessu frá sér á löngum tíma, eins og venjan hefur verið. Og það er eiginlega merkilegt, að menn, sem síðar hafa orðið ráðherrar og hafa að þessu fundið með miklu sterkari orðum, en ég geri, á meðan þeir voru þingmenn, þá hafa þeir þó vanrækt að gera það eða að sjá um, að þetta væri framkvæmt, þegar þeir urðu ráðherrar.

En síðan nefndin hafði málið til meðferðar og lagði til, að það yrði samþykkt óbreytt, hafa sem sagt borizt þrjár umsóknir um veitingu ríkisborgararéttar til n., sem ekkert er við að athuga, samanborið við aðra, sem inn í frv. eru komnir. Þess vegna hefur n. tekið þá upp og flytur brtt. á þskj. 374 um það, að þeir bætist inn í frv. í réttri stafrófsröð.

Líklega hefðum við ekki tekið þetta inn í frv. samt, ef ekki stæði svo sérstaklega á með þriðja manninn á brtt., sem er Þjóðverji, að hann þarf að fara til Þýzkalands í sumar, að hann sjálfur heldur fram, — hvort það er alveg nauðsynlegt, skal ég láta ósagt. Hann á að fá ríkisborgararéttinn eftir þeim reglum, sem nefndin hefur fylgt, 8. júlí í sumar og er hræddur við það, að ef hann fari til Þýzkalands án þess að hafa íslenzkan ríkisborgararétt, þá muni hann verða tekinn þar í herþjónustu. Sækir hann þess vegna nokkuð fast að fá réttinn núna, þó að hann sé seint á ferðinni með það.

Það hefur ekki verið haldinn formlegur fundur um þetta í n., en ég hef talað við nm., — líklega þó ekki einn, — um þetta, og þeir eru sammála mér um að taka þessa menn inn. Ég hef líka talað við bæði formann og þann, sem hefur haft aðallega með málið að gera í neðrideildarnefndinni, farið yfir umsóknirnar og aðgætt, hvort þeir, sem sæktu, uppfylltu þau skilyrði, sem Alþingi hefur komið sér saman um og eru í samræmi við þar til gildandi lög, og þeir telja, að þeir fyrir sitt leyti hafi ekkert á móti því, að mennirnir komi inn, og það mundi ekki verða neinn hörgull á, að frv. verði afgr. í Nd. fyrir því.

Ég mæli þess vegna fyrir hönd n. með því, að þessir menn verði teknir inn.