06.03.1959
Efri deild: 80. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1214 í B-deild Alþingistíðinda. (1094)

124. mál, almannatryggingar

Frsm. (Alfreð Gíslason):

Herra forseti. Árið 1956 voru gerðar ýmsar verulegar breytingar á lögum um almannatryggingar. Meðal þeirra var sú, að sjúkrasamlög skyldu ekki greiða að fullu læknishjálp utan sjúkrahúsa, eins og verið hafði, heldur skyldu samlagsmenn greiða ákveðið lágt gjald fyrir hvert viðtal og hverja vitjun. Áður var þessi læknishjálp sem önnur samlagsmönnum alveg að kostnaðarlausu. Ákvæði um þetta gjald er að finna í 52. gr. l. og gildir aðeins um samlagsmenn á fyrsta verðlagssvæði. Skulu þeir greiða 5 kr. fyrir hvert viðtal á lækningastofu og 10 kr. fyrir hverja vitjun. Hugmyndin með þessu ákvæði var sú, að ég hygg, að koma í veg fyrir eða draga úr, að fólk misnotaði aðstöðuna til að leita læknis í þéttbýlinu, og jafnframt að lækka lítils háttar tilkostnað sjúkrasamlaganna. Um leið og þessi breyt. komst á í ársbyrjun 1957, lækkuðu greiðslur samlaganna til lækna um 14%. Auk þess mun talið, að þessi breyt. hafi haft í för með sér einhverja lækkun á lyfjakostnaði sjúkrasamlaganna. Hvað læknana snertir, mun ekki vera um fjárhagslegan hagnað að ræða, enda var breyt. ekki til þess gerð. Og sé hún vinsæl hjá læknum, mun það vera af því, að þeir telja hana draga úr hreinni misnotkun réttinda.

Frv. það, sem nú er til umr., felur í sér víkkun þessa ákvæðis um gjaldskyldu sjúkrasamlagsfólks, þannig að ákvæðið nái einnig til kaupstaða og kauptúna á öðru verðlagssvæði, ef þar starfa fleiri læknar, en héraðslæknir einn. Þó skal þetta háð ákvörðun sjúkrasamlagsstjórnar á hverjum stað og samþykki tryggingaráðs hverju sinni.

Hv. heilbr.- og félmn. flytur þetta frv. fyrir tilmæli Læknafélags Íslands. Ástæðan fyrir þeim tilmælum er sú, að sums staðar á landinu gætir óeðlilegs misræmis vegna þessa munar á greiðslum eftir verðlagssvæðum. Á nokkrum stöðum gegna sömu læknarnir störfum á báðum verðlagssvæðum, sem þá liggja hlið við hlið. Á öðru svæðinu er fólki gert að greiða aukagjald, en á hinu svæðinu ekki. Þetta er óeðlilegt. Þá er það kannske ekki alveg réttlátt, að ekki skuli gilda sama regla í þessu efni í öllum þéttbýlum læknishéruðum, og eru dæmi til, að risið hafi óánægja út af því.

Læknafélagið hafði borið þetta mál undir forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins og heilsugæzlustjóra, og voru báðir meðmæltir þeirri breyt., sem í frv. felst. Hv. heilbr.- og félmn. leitaði umsagnar tryggingaráðs um frv., og mælir það einnig með samþykkt þess, og sjálf leggur n. einróma til, að frv. verði samþ.

Ég endurtek að lokum, að breyt., sem um er að ræða, verður hvergi framkvæmd nema þar, sem viðkomandi samlagsstjórn ákveður, og að samþykki tryggingaráðs er áskilið hverju sinni.