09.12.1958
Efri deild: 33. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í B-deild Alþingistíðinda. (110)

62. mál, almannatryggingar

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér aðeins hljóðs til þess að undirstrika það, sem hæstv. ráðh. sagði í lok ræðu sinnar. Ég leyfi mér að bera fram þá ósk við hæstv. forseta, að þessu máli verði mjög hraðað og helzt þannig, að því geti orðið lokið nú í dag. Þetta er einfalt mál og það var samþykkt athugasemdalaust í Nd. og einróma. Það er mjög bagalegt, að það dragist að afgreiða málið, því að allar greiðslur trygginganna hafa frestazt, og þær frestast á meðan frv. liggur hér. Það er hver síðastur að geta greitt bótagreiðslur fyrir jólin, en það tel ég illa farið, ef ekki er hægt að gera það. Ég vildi mjög eindregið mælast til þess við hæstv. forseta, að við getum afgreitt málið nú þegar í dag á þrem fundum. Ég sé enga ástæðu til þess, að frv. fari til nefndar, — það er svo einfalt og augljóst. Ég ber fram þessa einlægu ósk til hæstv. forseta.