16.01.1959
Neðri deild: 57. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1216 í B-deild Alþingistíðinda. (1112)

81. mál, bæjarstjórn í Hafnarfirði

Forsrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þegar Hafnarfjarðarkaupstaður fékk kaupstaðarréttindi fyrir 50 árum rúmum, 1908, voru mörk lögsagnarumdæmis hans ákveðin. Síðan hefur þessum mörkum ekki verið breytt, nema hvað lög nr. 11 1936 ákváðu, að nokkur landsvæði utan hins eiginlega kaupstaðar skyldu einnig lögð undir lögsagnarumdæmið vegna þeirra afnota, sem Hafnfirðingar höfðu af þessum löndum.

Þegar lögin um kaupstaðarréttindi fyrir Hafnarfjörð voru samþ. 1908, átti kaupstaðurinn vitanlega ekkert af því landi, sem hann var byggður á, og mörk lögsagnarumdæmisins voru að segja má mjög þröngt ákveðin. Nú hefur málum skipazt þannig á þeim 50 árum, sem síðan eru liðin, að kaupstaðurinn hefur eignazt nálega allt landið, sem hann er byggður á, og mikið land þar fyrir utan. Vöxtur bæjarins undanfarin ár hefur verið allör, og það er nú komið svo í dag, að byggðin er að komast út fyrir þessi gömlu kaupstaðarmörk. Það eru heil byggðarhverfi, sem eru þar í byggingu, og verður að leggja um þau vegi, vatnslagnir, holræsalagnir, rafmagn o.fl., og það verður náttúrlega kaupstaðurinn að gera, að svo miklu leyti sem það er innan hans takmarka. En fólk, sem er rétt utan við þessi takmörk eða er að byggja utan við þessi takmörk, þarf vitaskuld einnig að fá þessa fyrirgreiðslu, og þess vegna er þetta mál flutt nú.

Þessum nýju mörkum, sem hér er stungið upp á, er hagað þannig, að það eru ekki nema þrír bæir úr öðrum hreppi, sem á þennan hátt koma undir hið nýja lögsagnarumdæmi, en að öðru leyti er þetta alveg óhagnýtt land, sem er eign kaupstaðarins. Og þeirri meginreglu er fylgt við setningu hinna nýju marka yfirleitt, að fylgt er mörkum eignarlandsins nánast alveg víðast, en annars staðar mjög nærri því.

Við þessa breytingu lenda, eins og ég sagði, þrír litlir bæir úr Garðahreppi innan lögsagnarumdæmisins nýja, eins og það verður, það eru jarðirnar Ás, Stekkur og Þorlákstún, en að öðru leyti er hér um óbyggt land að ræða.

Ég vil vænta þess, að þar sem hér liggur talsvert á að greiða úr þessu vegna hinnar öru byggingarstarfsemi á mörkum lögsagnarumdæmisins nú, þá verði þessu máli hraðað og það fái fljótlega sína afgreiðslu í þessari hv. d. og á Alþ., enda sé ég ekki, að það ætti að þurfa að valda neinum ágreiningi.

Ég leyfi mér svo að leggja til, að þessu máli verði að lokinni umr. vísað til hv. allshn.