15.12.1958
Efri deild: 38. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1227 í B-deild Alþingistíðinda. (1139)

65. mál, virkjun Sogsins

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Mér finnst mjög eðlilegt, að stjórn Sogsvirkjunar óski eftir að verðtryggja skuldabréf sín í þeim tilgangi að greiða fyrir sölu þeirra. En ég verð að játa, að heimildarákvæðið í 2. mgr. 1. gr. þessa frv. kemur mér mjög undarlega fyrir sjónir, en það kann að vera af því, að ég skilji ekki út í æsar, hvert verið er að fara. Það á að miða upphæð endurgreiðslu og vaxta skuldabréfanna við rafmagnsverð í Reykjavík. Hvers vegna Reykjavík, en ekki t.d. Hveragerði eða Selfossi? Það veit ég ekki. Þetta á að vera verðtrygging og til þess gerð að greiða fyrir sölu bréfanna. Nú eru fordæmi fyrir því, að verðbréf séu tryggð og þá þannig, að greiðslur breytist með vísitölu framfærslukostnaðar. En hvers vegna er ekki sú leið farin hér, sem hefði þó verið eðlilegust og legið beinast við? Þykir hin leiðin, sú að miða við rafmagnsverð í Reykjavík, eitthvað líklegri til að greiða enn betur fyrir sölu bréfanna, — og þá hvers vegna?

Ég held, að svarið hljóti að liggja í því, að þetta rafmagnsverð muni að öllum líkindum hækka meira, en sem svarar hækkun á vísitölu framfærslukostnaðar og þess vegna verði mönnum meiri hagur í að kaupa þessi bréf, en önnur verðtryggð bréf.

Ef þessi heimild verður að lögum, þá verður það á valdi bæjarstjórnarmeirihlutans í Reykjavík, hve verðmæt skuldabréfin verða. Þessi meiri hluti, sem er skipaður mönnum úr einum stjórnmálaflokki, hefur það á valdi sínu að hækka eða lækka rafmagnsverð, eftir því sem við á, og gera þessi bréf eftir atvikum arðmikil eða arðlítil. En er nokkur ástæða til að leggja slíkt vald í hendur bæjarstjórnarmeirihlutans í Reykjavík? Ég sé það ekki, svo mikið er víst. Mér finnst þetta heimildarákvæði sem sagt mjög undarlegur hlutur og varhugaverður og til þess fallinn að skapa óheppilegt fordæmi. Í mínum augum ber það keim af spákaupmennsku og gróðabralli, sem er langt fyrir neðan virðingu hins opinbera að leggja út í. Þótt verðgildi peninga sé nú valt um þessar mundir og virðingin fyrir þeim harla lítil, þá mega opinberir aðilar ekki láta teymast út í ævintýramennsku af þeim sökum. Stæði þeim nær að stöðva hrun hins íslenzka gjaldeyris og verða þannig til að endurvekja traustið á honum.

En eins og ég tók fram í upphafi máls míns, finnst mér ekki óeðlilegt, að þessi væntanlegu skuldabréf verði verðtryggð. En mér fyndist þá eðlilegt, að það yrði á sama hátt og önnur verðtryggð bréf, að miðað yrði við vísitölu framfærslukostnaðar. Ég ætla að geyma mér rétt til þess að bera fram till. um það við 3. umr., ef ég sé ástæðu til þess þá.