16.12.1958
Efri deild: 39. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1228 í B-deild Alþingistíðinda. (1142)

65. mál, virkjun Sogsins

Björn Jónsson:

Herra forseti. Ég get ekki látið með öllu ósvarað ræðu hv. 1. þm. Eyf. (BSt), sem hann hélt hér í gær til andmæla rökstuðningi mínum fyrir brtt. þeirri, sem ég hef flutt ásamt hv. 1. þm. N-M. Og hef ég þó raunar ekki ýkja miklu að svara, þar sem ræða hv. þm. snerti lítið kjarna þessa máls, heldur miklu fremur aukaatriði, eins og það t.d., hvaða skoðanir aðalbankastjóri seðlabankans hefði á þessu máli. Tel ég skoðanir þess manns ekki vera neinn óvefengjanlegan dómsúrskurð, eins og maður hefði getað freistazt til að álíta að hv. 1. þm. Eyf. teldi. (Forseti: Samþykkti ekki þingmaðurinn að fela form. fjhn. að tala við hann?) Ég held, að þessari hv. deild beri að taka afstöðu til bæði þessa máls og annarra alveg án tillits til einkaskoðana þessa ágæta manns, þó að ekkert sé á móti því að hafa, að hans álits sé leitað, fremur en annarra, sem málsmetandi eru og eru kunnugir þeim málum, sem um er að ræða.

Hv. 1. þm. Eyf. kvað það alrangt hjá mér, að seðlabankinn hefði sett Alþ. og ríkisstj. nokkur skilyrði varðandi það, sem nefnt er aðstoð við sölu þeirra skuldabréfa, sem hér ræðir um. Ég held fast við ummæli mín varðandi þetta, enda sannar síðasta málsgr. grg. þeirrar, sem frv. fylgir, þau svo, að ekki er um að villast. Þar segir: „Mál þetta hefur verið undirbúið í samvinnu við seðlabankann, og hefur hann fallizt á að aðstoða við sölu bréfanna, ef þau verða gefin út með þeim skilmálum, sem um getur í frv. þessu“. Sem sagt, Seðlabankinn er að setja skilyrði og reyna að þvinga fram ákveðna lagasetningu hér á hæstv. Alþ. Um það er engum blöðum að fletta.

Hitt er svo sjálfsagt að upplýsa, að það er aðalbankastjóri seðlabankans einn, sem hefur tekið sér vald til þess að móta þessa afstöðu bankans. Stjórn seðlabankans eða bankaráð á þar ekki neinn hlut að. Aðalbankastjóranum hefur ekki þótt taka því að bera skilyrði sín undir stjórn bankans.

Stjórn Sogsvirkjunarinnar mun hafa leitað með bréflegu erindi til seðlabankans um lán, sem svarar þeirri upphæð, 30 millj., sem hér er rætt um. Erindi þetta var tekið fyrir í stjórn seðlabankans, en hefur ekki verið afgreitt þar, hvorki með játun né synjun. Á sama hátt hefur hæstv, fjmrh. láðst að bera frv. þetta undir samráðherra sína, a.m.k. suma þeirra. Þannig er undirbúningur málsins og er því naumast undrunarefni, þótt árangurinn sé ekki með neinum ágætum.

Þegar ég sagði hér í gær, að ekki hefði verið óeðlilegt, að lausn á þeim vanda Sogsvirkjunarinnar að greiða tolla í ríkissjóð hefði beðið úrræða ábyrgrar ríkisstj., þá átti ég m.a. við það, að ég teldi með ólíkindum, að nokkrir sex ráðh. gætu orðið sammála um það að sýna Alþ. slíkan vanskapnað sem þetta frv. er í sinni núverandi mynd.

Hv. 1. þm. Eyf. sagði, að hér væri ekki um að ræða lán af hálfu seðlabankans, ætlunin væri að selja almenningi bréfin. Ef svo er og sú er hugmyndin og sala tekst, mundi það óhjákvæmilega draga úr sölu hinna vísitölutryggðu skuldabréfa Landsbankans vegna húsnæðismálastofnunarinnar, eins og ég benti á í gær.

Ef reyndin yrði á hinn bóginn sú, að seðlabankinn keypti sjálfur verulegan eða mestan hluta bréfanna, tel ég að um sé að ræða algerlega óhæft brask, sem engin skynsamleg ástæða sé til að styðja. Geti seðlabankinn lagt peninga í slíkt og geti hann lánað fé, sem verði tryggt með þessum frumlega hætti, hinni svokölluðu rafmagnsvísitölu, getur hann líka jafnauðveldlega keypt skuldabréf Sogsvirkjunarinnar eða lánað henni með eðlilegum kjörum, rétt eins og viðskiptabankarnir lána til margs konar rekstrar og framkvæmda hundruð millj. á hverju ári.

Hv. 1. landsk. þm. hefur til viðbótar því, sem ég sagði hér í gær, bent rækilega á nauðsyn þess, að frv. verði breytt á þann veg, sem við hv. 1. þm. N-M. leggjum til, svo að ég hef engu þar við að bæta umfram það, sem ég hef áður sagt um málið.

Ég vil aðeins að lokum leiðrétta þann misskilning, sem kom fram í ræðu hv. 1. þm. Eyf., að ég hefði talað hér sérstaklega fyrir almennri verðtryggingu á sparifé. Svo var ekki. Ég sagði aðeins, að almenn verðtrygging á innstæðufé væri mál út af fyrir sig, stórmál, sem ýmsir hefðu tæpt á sem nauðsynlegri gagnráðstöfun vegna verðbólgunnar. Og ég sagði líka, að verðtrygging á almennu sparifé væri nær lagi, en verðtrygging á lánsfé seðlabankans. Þetta var allt, sem ég sagði um það, en ekkert þar fram yfir um það, að ég teldi slíka tryggingu nokkra sérstaka meinabót. Ég held þvert á móti, að fremur beri að ráðast á orsökina, en afleiðinguna, það eigi að skapa sparifjáreigendum og félagslegum stofnunum, sem byggja á söfnunarfé, eins og t.d. lífeyrissjóðum og tryggingastofnunum, öryggi með því að ráðast gegn verðbólgunni og stöðva hana. Ef það yrði gert, mundi enginn láta sér til hugar koma nauðsyn á sérstökum verðtryggingum á geymslufé. Haldi verðbólgan hins vegar áfram, hygg ég, að lítið hald mundi reynast, þegar til lengdar léti, í öllum verðtryggingarhugmyndum, sem skotið hafa upp kollinum, enda sjálfsagt fullkominn vafi á, hver alvara er þar að baki.