16.12.1958
Efri deild: 39. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1230 í B-deild Alþingistíðinda. (1143)

65. mál, virkjun Sogsins

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég gat þess í gær, þegar ég tók til máls, að ég gerði það eingöngu vegna þess, að frsm. n. var þá ekki enn mættur á fundinum.

Út af því, sem hv. 8. landsk. þm. var nú að tala um, að ég hefði verið að segja frá skoðunum aðalbankastjóra seðlabankans á þessu máli , vil ég minna hann á, sem hann sjálfsagt man þó, að á fundi fjhn. 12. des., — það er nú fyrir örstuttu, — var gerð svo hljóðandi samþykkt með öllum atkv. út af þessu máli: „Samþykkt að fela formanni að ræða við bankastjóra seðlabankans og fjmrh. um frumvarpið.“ Undir þetta skrifa ég sem formaður n. og hv. 8. landsk. þm. sem ritari hennar (BjörnJ: Ég hef ekki rengt þetta.) Það, sem ég gerði, var aðeins að gera skyldu mína sem formaður fjhn., þegar ég skýrði frá skoðunum bankastjóra seðlabankans. Það er hv. þm. sjálfur og aðrir nm. í fjhn., sem kallað hafa á þessar skoðanir, beðið um þær, og ég flutti þær fyrst í n., og þar sem frsm. n. var ekki við, fannst mér það skylda mín að flytja þær einnig hér í d. og tel mig hafa farið rétt með og sé ekki, að ég eigi neinar ávítur skilið fyrir það, þó að ég framkvæmdi vilja n. í þessu efni.