18.12.1958
Efri deild: 40. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1234 í B-deild Alþingistíðinda. (1148)

65. mál, virkjun Sogsins

Frsm. ( Gunnar Thoroddsen):

Það er óþarfi að svara hv. 1. þm. N-M. með mörgum orðum, sérstaklega þar sem hann leggur til, að till. sú, sem hann flytur og hv. 8. landsk., verði tekin aftur til 3. umr. Þó eru aðeins örfá atriði, sem ég vildi benda á.

Hann gagnrýnir það mjög, að í frv. sé ekki ákveðið um vaxtahæð og lánstíma. Ég hef bent honum á það utan funda, að slíkt sé ekki venja, og ég skal m.a. minnast á þá tegund skuldabréfa, sem hann hefur nefnt hér, skuldabréf húsnæðismálastjórnar, en hún hefur heimild til að gefa út vísitölutryggð bréf. Í l. þar um er hvorki minnzt á vaxtahæð né lánstíma, og þetta frv., sem hér liggur fyrir, er í samræmi við þau lög og mörg önnur varðandi lánsheimildir eða ábyrgðarheimildir, enda þykir eðlilegast, að sú bankastofnun, seðlabankinn í þessu tilfelli, sem ætlar að hafa milligöngu og fyrirgreiðslu um lánsútvegunina, geri fyrst og fremst till. um það og meti það eftir lánsmarkaðinum á hverjum tíma, hvaða lánstími og vaxtakjör eru hentust.

Í öðru lagi vil ég taka það fram, eins og raunar hefur verið tekið fram áður, að ummæli hv. þm. um, að þetta mál sé hrátt og óhugsað, eru svo fjarri lagi sem frekast getur verið.

Þetta mál er þannig til komið, að bæði Sogsvirkjunarstjórnin, sem skipuð er fulltrúum bæði ríkis og Reykjavíkurbæjar, að seðlabankinn, að fjmrn., allir þessir aðilar hafa rætt þetta mál rækilega og komizt að þeirri niðurstöðu, að þessi leið, sem hér er á bent að uppástungu seðlabankans, sé hentugust, til þess að einhver von sé um, að skuldabréfin seljist. Og ég verð að segja það með allri virðingu fyrir hv. 1. þm. N-M., að ég trúi miklu betur t.d. seðlabankanum til að meta það, hvers konar bréf séu seljanleg nú, heldur en honum.

Það eru held ég ekki fleiri atriði í hans ræðu, sem ég tel þörf á að svara, öðru en því, að hann talar hér alltaf eins og rafmagnsverðið, sem endurgreiðsla skuldabréfanna á að miðast við, sé eingöngu eftir duttlungum og geðþótta bæjarstjórnarmeirihl. í Reykjavík, sem hann virðist ekki hafa ýkja mikið traust á. En ég vil endurtaka það, sem áður hefur verið bent á, að það eru tveir aðilar, sem ákveða rafmagnsverð í Reykjavík á hverjum tíma. Annar er bæjarstjórn Reykjavíkur og hinn er ríkisstjórn Íslands, sem þarf að staðfesta allar breyt. á rafmagnsverðinu.