06.05.1959
Neðri deild: 122. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1249 í B-deild Alþingistíðinda. (1161)

65. mál, virkjun Sogsins

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls ræddi ég nokkuð um afstöðu mína til þessara skuldabréfalána, og nú sé ég, að við 2. umr., eins og ég raunar bjóst við, af því að fjhn. hafði klofnað um málið, hefur nú verið gerð aftur sú breyting á þessu frv. að setja inn í 2. mgr. ákvæði, sem tryggja það, að þau bréf, sem stjórn Sogsvirkjunarinnar er heimilað að gefa út, skuli vera með verðtryggingu, sem megi miða við hvort heldur einstaka rafmagnstaxta í Reykjavík eða vísitölu nokkurra rafmagnstaxta.

Þetta er til komið þannig, að á fundi í fjhn. þessarar hv. deildar mætti aðalbankastjóri seðlabankans og tilkynnti þar, eins og líka er staðfest í bréfi framkvæmdastjórnar seðlabankans, sem birt er sem fylgiskjal með nál. meiri hl. fjhn., að seðlabankinn mundi ekki sjálfur ábyrgjast sölu á þessum bréfum, nema því aðeins að gengið væri að þeim kostum að setja þessa rafmagnsvísitölu á bréfin.

Ég hef áður rætt um það, að mér finnist það ekki rétt, að Sogsvirkjunin sé látin sitja við annað borð, en aðrar rafmagnsframkvæmdir á landinu. Þegar um aðrar rafmagnsframkvæmdir er að ræða, leggur ýmist ríkið fram sjálft nokkurn styrk eða lán til þess eða skipuleggur það, að bankar landsins veita lán til alllangs tíma og með sæmilegum vaxtakjörum til þess að gera mögulegt að koma þessum raforkuverum upp.

Sogsvirkjunin er ef til vill það raforkuver, sem þjóðfélagið á einna mest undir að starfi af fullum krafti og sé ekki látið dragast allt of lengi að koma því upp, og það eina, sem staðið hefur á viðvíkjandi lánum til Sogsvirkjunarinnar, er fyrir þeim 30 millj. kr., sem á að greiða til ríkisins sjálfs af þessari virkjun í tolla; þannig að það er þarna eingöngu um að ræða, að opinbert fyrirtæki þarf fé til þess að greiða tolla til ríkisins.

Eins og ég skýrði frá við 1. umr. málsins, var hægt að fá lán með betri kjörum, en það lán, sem tekið var til Sogsvirkjunarinnar, líka til þess að greiða þessa tolla. Aðalbankastjóri seðlabankans og fleiri honum nákomnir komu í veg fyrir, að það var gert. Hann var sjálfur sendur út til að taka það lán, sem nú hefur verið tekið, og tókst ekki betur en svo, að þessar 30 millj, kr. vantaði upp á. Nú neitar svo seðlabankinn, eða réttara sagt framkvæmdastjórn hans, að lána þessa peninga, sem eiga að fara beint til ríkisins, — og ég býst við, að ríkið skuldi jafnvel seðlabankanum nokkuð, svo að það eru hæg viðskiptin þar á milli, — nú neitar seðlabankinn að lána þetta fé til Sogsvirkjunarstjórnarinnar, til þess að hún geti borgað þetta til ríkisins.

Fyrsta spurning, sem kemur upp hjá mér í sambandi við þetta, er: Er þetta vegna þess, að seðlabankinn geti þetta ekki? Ef menn lesa með athygli bréf seðlabankastjórnarinnar, sem birt er á þskj. 437, sjá menn, að það er ekki þess vegna. Seðlabankastjórnin segir þar, með leyfi hæstv. forseta: „Framkvæmdastjórn seðlabankans mundi hins vegar enn leggja því lið, að bankinn tæki á sig ábyrgð á sölu nokkurs hluta Sogsvirkjunarbréfa, væru þau með endurgreiðsluskuldbindingu í hlutfalli við hækkað rafmagnsverð.“ M.ö.o.: seðlabankinn er reiðubúinn til þess að leggja fram fé til þess að kaupa þessi bréf og taka ábyrgð á því, að þau seljist, og kaupa sjálfur, svo framarlega sem hann getur tryggt sér að græða svo og svo mikið á þessum bréfum. Það er vitanlegt, að um leið og nýja Sogsvirkjunin tekur til starfa, hækkar rafmagnsverð. Bréf, sem verða seld núna á næstu mánuðum, á að borga aftur eftir 1–4 ár eða lengri tíma, þá koma þau til með að hafa gefið nokkurn gróða af sér, og það, sem seðlabankinn er að heimta í þessu, eða réttara sagt framkvæmdastjórn hans er að heimta, það er, að þessi gróði sé látinn koma í hlut þeirra, sem kaupa þessi bréf, hvort heldur það eru einstaklingar eða seðlabankinn sjálfur, það, sem ekki megi gerast, sé, að það verði enginn aðili, sem græði á því að kaupa þessi bréf, heldur fái menn bara af því venjulega vexti.

Ég get ekki fellt mig við þetta. Ég get ekki fellt mig við það, að einn embættismaður ríkisins komi hér til okkar á Alþingi og segi við okkur: Ja, ég skal láta banka ríkisins kaupa bréf af ríkisstofnun til þess að borga ríkinu tolla, til þess að koma af stað fyrirtæki, sem er lífsnauðsyn fyrir ríkið að koma af stað undireins, — ég skal gera það upp á þessa og þessa skilmála um, að svona og svona mikill gróði sé gefinn ýmist þeim, sem ég sel þessi bréf, eða seðlabankanum sjálfum.

Ég kann ekki við að láta segja Alþingi fyrir á þennan hátt og vil ekki taka þátt í því. Það var hægt að fá þessi lán með góðum kjörum og líka fyrir þetta. Seðlabankinn kom í veg fyrir það. Það er eins gott, að seðlabankinn fái sjálfur að kaupa þessi bréf. Hann hefur auðsjáanlega peninga til þess. Það upplýsir hann hér. Spurningin er bara um, hvort hann eða þeir, sem kynnu að kaupa bréfin, eigi að græða svo og svo mikið á þeim.

Þess vegna legg ég til, að 2. mgr. verði breytt á þessa leið, að 2. mgr. orðist svo: „Seðlabanka Íslands skal falið að annast sölu bréfanna. Skal bankinn sjálfur kaupa það af skuldabréfunum, sem ekki selst til almennings innan missiris frá útgáfudegi.“

Ég veit, að mönnum finnst það dálitið „drastískt“ að segja seðlabankanum fyrir verkum. Við höfum orðið að gera það áður hér á Alþingi, þegar um mikilvæg mál hefur verið að ræða. Við urðum að gera það, — og það var sami bankastjóri þá í Landsbankanum og nú er í seðlabankanum, — þegar um það var að ræða, að við vorum búnir að kaupa fyrir útlenda peninga alla nýsköpunartogarana 30, en það vantaði íslenzka peninga til þess að koma þeim út til bæjarfélaganna og einstaklinga á Íslandi, og við urðum að grípa til þess ráðs hér á Alþingi að skylda seðlabankann til að leggja þá peninga fram. Það tók hálft ár, mikla baráttu, en hafðist í gegn.

Ég held, að það verði að beita sömu aðferð nú. Ég held, að það sé rétt, að Alþingi sýni, hver sé húsbóndi í þessu þjóðfélagi, að það séu ekki einstakir embættismenn, heldur Alþingi sjálft. Ég vil þess vegna vonast til þess, að hv. deild geti fallizt á þessa brtt. mína.

Ég ræddi það ýtarlega um þetta mál við 1. umr. málsins, að ég ætla ekki að hafa það lengra nú, en vildi biðja hæstv. forseta annaðhvort að leita afbrigða fyrir þessari till. nú, af því að hún er skrifleg og of seint fram komin, eða þá, sem máske mætti nú eins verða, að málinu yrði frestað, ef erfiðlega gengur að ná afbrigðum í deildinni, þannig að hún gæti þá legið fyrir prentuð til atkvgr. á næsta fundi.