09.05.1959
Efri deild: 115. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1252 í B-deild Alþingistíðinda. (1164)

65. mál, virkjun Sogsins

Frsm. ( Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Sogsvirkjunin, sem er sameignarfyrirtæki ríkissjóðs og Reykjavíkurbæjar, hefur nú með höndum þriðju stórvirkjunina í Sogi, virkjun Efra-Sogs. Fjár hefur verið aflað að láni til virkjunarframkvæmda að öðru leyti en því, að enn vantar um 30 millj. fyrir innlendum kostnaði, þ.e.a.s. aðallega tollagreiðslum og söluskatti til ríkissjóðs.

Stjórn Sogsvirkjunarinnar hafði á s.l. ári samráð um þetta við hæstv. fjmrh. þáverandi og seðlabankann um leiðir til að afla þessa fjár. Varð niðurstaðan að gera tilraun um lánsútboð eða skuldabréfaútboð, og að ráði seðlabankans var ákveðið að leita eftir heimild Alþingis til þess, að slíkt lánsútboð mætti fara fram með þeim hætti, að endurgreiðsla og vaxtagreiðsla skuldabréfanna mætti breytast í hlutfalli við breytingu rafmagnsverðs til neytenda í Reykjavík frá útgáfudegi bréfanna til gjalddaga.

Frv. á þessa lund á þskj. 121 var síðan flutt af fjhn. þessarar hv. d. að beiðni hæstv. fyrrv. fjmrh.

Í meðförum Ed. kom fram nokkur gagnrýni á þessari leið, og var því ákveðið að breyta frv. á þá lund, að í stað þess að miða við vísitölu rafmagnsverðs skyldi miða við almenna vísitölu, þ.e.a.s. vísitölu framfærslukostnaðar.

Þegar málið kom til hv. Nd., var haldinn sameiginlegur fundur með fjhn. beggja d. um málið og fenginn þangað aðalbankastjóri seðlabankans til viðræðna um það og síðan óskað eftir skriflegri grg. bankans um málið. Sú grg. er birt á þskj. 437 með nál. fjhn. Nd. Framkvæmdastjórnin segir þar, með leyfi hæstv. forseta:

„Framkvæmdastjórn seðlabankans mundi hins vegar enn leggja því lið, að bankinn tæki á sig ábyrgð á sölu nokkurs hluta Sogsvirkjunarbréfa, væru þau með endurgreiðsluskuldbindingu í hlutfalli við hækkað rafmagnsverð.“

Bankinn telur því miklu meiri líkur fyrir því, að slík bréf seljist, ef þau eru miðuð við vísitölu rafmagnsverðs, heldur en hina almennu framfærsluvísitölu. Af þessum ástæðum var frv. breytt aftur í hið upphaflega horf í Nd. og liggur því fyrir hér nú til einnar umr. nákvæmlega í því formi, sem það var, þegar málið var upphaflega lagt fyrir þessa hv. d. — Fjórir nm. í fjhn., þ.e.a.s. hv. 1. þm. Eyf. (BSt), hv. þm. Vestm. (JJós), hv. 4. þm. Reykv. (EggÞ) og ég, við mælum með því, að frv. verði samþ. óbreytt eins og það nú liggur fyrir.