24.04.1959
Neðri deild: 115. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1307 í B-deild Alþingistíðinda. (1181)

144. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. meiri hl. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Frv. til stjórnskipunarlaga um breyt. á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands 17. júní 1944 var vísað til sérstakrar stjórnarskrárnefndar, sem kosin var í því skyni að fjalla um málið. Nefndin hélt tvo fundi, og kom þá fram, að hún gat ekki orðið sammála um afstöðuna til frv. Meiri hl., fulltrúar Sjálfstfl., Alþfl. og Alþb., mælti með frv., en fulltrúar Framsfl. leggja til, eins og fram kemur í þeirra nál., að málinu sé vísað frá með rökstuddri dagskrá, en bera auk þess fram brtt. við sjálft frv., þar sem glögglega kemur fram sá munur, sem er á skoðunum manna í þessu mikla máli.

Fá eða engin þjóðmál hafa lengur verið til athugunar né ýtarlegar rædd frá öllum hliðum heldur en kjördæmaskipunin. Segja má, að hún hafi verið eitt helzta viðfangsefni íslenzkra stjórnmála nú í nær heilan mannsaldur og staðfastlega hafi verið reynt að leita lausnar á þessum vanda, allt frá því að lýðveldisstjórnarskráin var sett 1944 og raunar áður, fyrst með breyt., sem gerðar voru 1933, og síðan aftur með breyt. 1942. Eftir 1944 störfuðu stjórnarskrárnefndir, sem settar höfðu verið til þess að gera breyt. á lýðveldisstjskr. og koma henni í það horf, sem betur þætti hæfa, eins og nú háttar til hér.

En þrátt fyrir það, þó að mikið væri að þessu unnið og margir menn fengjust við það, þá náðist ekki samkomulag í þessum n., og má segja, að síðasta tilraunin, sem gerð hafi verið til þess að ná allsherjarsamkomulagi, hafi verið gerð um áramótin 1952 og 1953. Í stjskrn., sem þá starfaði, lögðu fulltrúar sjálfstæðismanna fram í nóv. 1952 ýtarlegar till. um breyt. á stjórnarskránni, till., sem fjölluðu ekki eingöngu um kjördæmamálið, heldur voru um breytingar á fjölmörgum öðrum greinum stjórnarskrárinnar. Varðandi kjördæmamálið lögðu þessir fulltrúar fram tvenns konar tillögur. Önnur þeirra var um að skipta landinu öllu, þar með Reykjavík, í einmenningskjördæmi, og voru tveir fulltrúanna, Jóhann Hafstein og ég, sem lýstum okkur sammála þessu. Gunnar Thoroddsen taldi sig hins vegar ekki geta fallizt á einmenningskjördæmi. En allir vorum við sammála um, að ef ekki næðist samkomulag við aðra flokka um skiptingu landsins í einmenningskjördæmi, þá værum við því samþykkir, að landinu yrði skipt í nokkur stór kjördæmi, þar sem kosið væri með hlutfallskosningum. Af okkar hálfu komu því þarna fram tvenns konar tilboð til annarra um að reyna að leita samninga um lausn málsins. En þessi tilboð fengu þá ekki undirtektir, og varð niðurstaðan sú, að nefndin hætti störfum snemma á árinu 1953, eins og nánar er rakið í nál.

Það fór ekki á milli mála, að höfuðástæðan til þess, að n. gat ekki leyst það verkefni, sem henni hafði verið ætlað, var ágreiningur um kjördæmamálið. Og allir nm. voru sammála um, að þangað til á kæmist víðtækt samkomulag um það vandamál, væri þýðingarlaust fyrir n. að halda áfram störfum.

Það varð hins vegar að ráði, að ef einhver einn nm. óskaði þess, að n. yrði kölluð saman til fundar, þá skyldi fundur tafarlaust haldinn. Síðan eru liðin rúmlega 6 ár, og enginn hefur nokkru sinni óskað þess, að n. kæmi saman á ný, hvorki neinn nm. né þær ríkisstj., sem síðan hafa verið við völd. Þvert á móti er það kunnugt, að þegar sú ríkisstj. tók við völdum, sem sagði af sér á s.l. vetri, var það eitt af samningsatriðum hennar, að þeir flokkar, sem að henni stóðu, skyldu á stjórnartímabilinu reyna að koma sér saman um afgreiðslu stjórnarskrármálsins og þá alveg sérstaklega nýrra kosningalaga, þ.e.a.s. kjördæmamálsins. Með þessu var staðfest, að tilraunir innan gömlu stjskrn. hefðu enga þýðingu, heldur var tilætlunin, að þessir þrír stjórnarfl. reyndu með samningum sín á milli að komast að þeirri lausn, sem öðrum hafði ekki tekizt að ná samkomulagi um. Þessi tilraun fór einnig út um þúfur. Svo sem kunnugt er, slitnaði stjórnarsamstarfið í vetur, án þess að flokkarnir hefðu getað náð því samkomulagi, sem þeir vafalaust höfðu á sínum tíma haft vonir um að þeir gætu náð.

Hitt er vitað, að kjördæmamálið hefur alveg sérstaklega á þessu þingi verið eitt aðalviðfangsefni manna, að vísu ekki á opnum fundum fyrr en nú, eftir að þetta frv. kom fram, en allir stjórnmálaflokkarnir hafa varið verulegum tíma til íhugunar málsins innbyrðis og síðan og jafnframt til samninga sín á milli um það. Viðræður hófust um það, eins og ég gat um, milli fyrrv. stjórnarflokka, um það bil sem stjórnin sagði af sér. Síðan voru teknar upp viðræður fyrir frumkvæði Sjálfstfl. milli þeirra flokka, sem nú hafa flutt málið, og stóðu þær af og til allt frá því í des. fram í aprílbyrjun. Jafnframt var svo talað um málið milli Sjálfstfl. og Framsfl. í des. Þegar leitað var eftir því, hvort samkomulag gæti orðið um stjórnarmyndun undir forustu sjálfstæðismanna, þá var þar í eitt meginatriðið, að kjördæmamálið yrði leyst, og við settum fram okkar hugmyndir og framsóknarmenn sínar, svo að einnig viðræður milli þessara flokka hafa farið fram um þetta mikla mál.

Í blöðum í vetur hefur fátt verið meira rætt, en kjördæmamálið, óteljandi greinar um það skrifaðar, fundarsamþykktir gerðar, eins og öllum er kunnugt.

Af þessu yfirliti er ljóst það, sem ég sagði í upphafi máls míns, að fá eða engin mál hafa rækilegar verið rædd heldur en kjördæmamálið, og er þess ekki að vænta, að verulegar nýjungar komi fram í frekari umr. Það er búið að þaulræða það svo, að vart er miklu við aukandi. En af því sést einnig, að því fer fjarri, að nú eigi að flasa að afgreiðslu málsins. Það er síður en svo, að slíkt standi til, því að það er einmitt eftir mjög vandaðan undirbúning, margháttaða samninga og nána íhugun, sem málið nú er flutt.

Það er einnig svo, að þó að enn sé um töluvert deilt í sambandi við þetta mál, þá hafa umr. orðið til þess að eyða ýmsum ágreiningsatriðum, sem áður voru uppi. Menn greindi á um, hversu margir þm. ættu að vera, menn greindi á um, hvort átti að hafa uppbótarsæti, og menn greindi á um, ekki einungis hversu þingmannafjöldinn í heild skyldi vera mikill, heldur og hvernig þm. skyldi skipt á milli landshluta eða fjórðunga. Nú eru öll þessi ágreiningsatriði úr sögunni. Eftir þeim till., sem framsóknarmenn nú hafa lagt fram, gera þeir ráð fyrir jafnmörgum þm. í heild og er í sjálfu frv., þeir halda uppbótarmönnunum, eins og er í frv., og þingmannatalan úr hinum ýmsu landshlutum er nánast sú sama. Eini skilsmunurinn þar á er sá, að þeir leggja til, að á Austfjörðum sé einum þm. fleira og þá einum uppbótarþingmanni færra. Að þessu smáatriði fráteknu, eru flokkar þingsins nú orðnir sammála um öll þessi höfuðatriði, sem til skamms tíma, jafnvel þegar Framsfl. hélt sitt flokksþing í marz, virtist enn vera mjög verulegur ágreiningur um. Nú eru till., eins og ég segi, samhljóða að efni um þessi höfuðatriði.

Það er ekki lengur eftir ágreiningsatriði í þessu nema eitt, og það er um, hvernig þm. skuli kosnir, aðrir en uppbótarmenn. Og er þó ágreiningurinn þar ekki eins mikill og í fljótu bragði kynni að virðast, vegna þess að í till. allra er nú orðið samkomulag um, að Reykjavíkurþm., og þeir eiga að vera jafnmargir eftir öllum till., 12, skuli kosnir með hlutfallskosningu. En þá er ágreiningurinn um, hvernig kjósa skuli aðra þm.

Frá mínu sjónarmiði hefur það ætíð verið höfuðatriði í þessu máli, að sams konar reglur um kosningu þm. giltu um allt land. Ég veit, að það er mjög deilt um og það verður endalaust deilt um, hvort sé hagkvæmara að hafa hlutfallskosningar eða kosningar í einmenningskjördæmum. Um þetta má deila og færa fræðileg rök með og móti. Þetta hefur hvort tveggja verið reynt í mörgum ágætum lýðræðislöndum, sem allir viðurkenna að eru jafngóð og trygg lýðræðislönd, hvorn háttinn sem þeir hafa. Við þekkjum einnig þennan kosningamáta héðan úr landinu, hann er meira að segja tíðkaður nú hvor tveggja til Alþ., bæði hlutfallskosningar og einmenningskosningar. Meir og meir er farið að tíðka hlutfallskosningar í öllum sveitarstjórnarkosningum, og í fjöldamörgum félagssamtökum einstaklinga, eins og t.d. Búnaðarfélagi Íslands, má segja, að hlutfallskosningar séu meginreglan.

Hvort tveggja er því þekkt og reynt, og má deila um, hvor kosturinn sé betri. Hvorugt er gallalaust, en hvort tveggja hefur til síns ágætis nokkuð. En um hitt ætti ekki að þurfa að deila, að það er með öllu órökrétt og líklegt til að leiða til rangrar niðurstöðu að hafa tvenns konar aðferð — ég tala nú ekki um þrenns konar aðferð — við kosningar til Alþingis. Það fær eitt staðizt, að kosningahátturinn sé hvarvetna á landinu hinn sami. Ef menn vilja hafa einmenningskjördæmi og telja, að þau séu líklegri til góðs árangurs, þá fylgir því, að einmenningskjördæmi eiga vitanlega að vera hvarvetna. Það eru engin rök gegn því, að ekki sé hægt að skipta stað eins og Reykjavík niður í mörg kjördæmi. Slík skipting er gerð alls staðar þar, sem einmenningskjördæmi eru. Í stórborgum, sem hafa mörg bæjarhverfi, er einn maður kosinn úr hverju hverfi um sig, og hefur aldrei þótt leiða til neinna vandræða. Og sú skipting Reykjavíkur þyrfti ekki að vera í sjálfu sér frekar af handahófi heldur en skipting einmenningskjördæmanna úti um land er nú, sem sannast sagt er af fullkomnu handahófi og á ekki stoð í núverandi þjóðfélagsástandi á Íslandi.

En það verður að segja hverja sögu eins og hún gengur, og hugmyndin um að skipta Reykjavík niður í mörg einmenningskjördæmi hefur aldrei fengið neinn hljómgrunn, hvorki hjá Reykvíkingum sjálfum né þeim, sem eru talsmenn einmenningskjördæma úti á landi og mega ekki annað heyra þar, — þeir vilja alls ekki láta skipta Reykjavík. Með þessu dauðadæma þeir sjálfir sínar tillögur um einmenningskjördæmi. Með þessu sýna þeir, að þeir vilja hafa sér hagkvæmari aðferð, þar sem þeirra fylgi á landinu er mest, en andstæðingunum óhagkvæmari aðferð, þar sem þeirra fylgi er mest. Hreint út sagt er það þannig, að eftir þeim till., sem nú liggja fyrir, vill Framsfl. láta meirihlutakosningar í einmenningskjördæmum haldast í þeim landshlutum, þar sem hann telur sig hafa verulegar líkur til þess að geta fengið meiri hluta. En hann vill alls ekki taka upp einmenningskjördæmi í þeim landshlutum, þar sem víst er, eftir því sem séð verður í dag, að hann mundi engan fá kosinn, ef þessa aðferð ætti að hafa. Þvert á móti er nú lagt til, að þm. í Reykjavík verði svo margir og kosnir hlutfallskosningu, að allar líkur séu til, að Framsfl. fái einn þm. kosinn hér, og lagt er til, að Akureyri verði tvímenningskjördæmi með hlutfallskosningu, með þeim árangri, að eftir fyrri reynslu væru allar líkur til þess, að Framsfl. fengi þar þm. Það er alveg ljóst, að þær till., sem bornar eru fram til lausnar á þessu mikla vandamáli og svo augljóslega miðast við flokkslega hagsmuni — og flokkslega hagsmuni eina og ekkert annað, þær eru ekki líklegar til þess að verða þjóðinni til heilla eða vinna fylgi almennings.

Í Reykjavík eru nú þegar saman komnir kringum 2/5 hlutar allra landsmanna. Reykvíkingar vilja una því og sætta sig við það, að þingmannafjöldi héðan verði mun minni en tölurnar ættu að segja til um. Eftir þessu frv. munu þm. kosnir í Reykjavík beint verða 1/5 hluti þm., en ættu eftir tölunum að verða 2/5. Það má segja, að með þessu er fallizt á það, að staðarlegt réttlæti eða jafnræði skuli ekki gilda. Það er sök sér að viðurkenna það, að vegna annarrar og ólíkrar afstöðu í landinu og þess mikla þéttbýlis, sem hér er, þá sé hægt að komast af með færri þm., sem þessu nemur. En þá verður hitt að fást, að þm. Reykjavíkur séu kosnir með sama hætti, sömu aðferð og þm. annarra landsmanna. Ef það er ekki gert, er augljóslega hallað á hvern Reykvíking út af fyrir sig, það er hallað á meiri hlutann hér, það er skapað allt annað réttarástand í Reykjavík, varðandi þetta höfuðatriði, heldur en látið er gilda annars staðar.

Það er því, eins og ég segi, höfuðatriði þessa máls, og lausn þess veltur í mínum huga á því, að sams konar skipun, sams konar aðferð við kosningarnar sé látin gilda hvarvetna á landinu, í Reykjavík jafnt sem annars staðar.

Ég hef aldrei farið dult með það, að sjálfur hefði ég haft mikla löngun til þess að leysa þetta mál með einmenningskjördæmum. Ég verð hins vegar að viðurkenna, að það hefur ekki verið hægt að fá samkomulag um það, vegna þess að fylgjendur einmenningskjördæma í Framsfl, hafa alltaf verið óviðmælandi um það að láta Reykjavík að þessu leyti njóta sama réttar og við er hafður annars staðar á landinu. Úr því að það fæst ekki, þá er þar með úr sögunni möguleikinn til þess að hægt sé að leysa málið með einmenningskjördæmum. Þá er ekki annar vegur eftir heldur en að taka það upp, sem við sjálfstæðismenn í stjskrn. strax 1952 buðum fram af okkar hálfu, ef ekki næðist samkomulag um einmenningskjördæmi, þá vildum við semja um að skipta landinu í nokkur stór kjördæmi með hlutfallskosningum. Sú lausn hefur ætíð haft mikið fylgi innan Sjálfstfl., og vitað er, að bæði Alþfl. og Alþb. kjósa hana miklu frekar, en einmenningskjördæmin, sem ég hygg að í þeim flokkum hafi ekkert fylgi.

En á bak við þessa lausn, sem er margrædd og hefur fyrir löngu verið sett fram, má segja að yfirgnæfandi meiri hl. landsfólksins standi. Og það er að mjög rækilega athuguðu máli, að frv. þetta byggir á þessari lausn, og án hennar hefði nú ekki verið hægt að tryggja þessu máli framgang. Því fer og fjarri, að hér sé um nokkra neyðarlausn að ræða. Eins og ég segi, þó að ég hefði persónulega allt eins viljað einmenningskjördæmi, þá hef ég ætíð talið, að þessi lausn væri mjög vel við unandi. Og úr því að hún er í samræmi við óskir yfirgnæfandi meiri hluta þjóðarinnar, þá er enginn vafi á því, að þetta muni verða sú aðferð, sem beztur friður skapist um, þegar til lengdar lætur, og þess vegna líklegust að koma að því gagni, sem menn stefna að.

Ég gat þess og áðan, að fólkið sjálft hefur í margs konar samtökum, eins og t.d. búnaðarsamtökum, tekið upp þessa kosningaaðferð. Hún hefur reynzt þar vel, og einmitt hafa þar verið tekin upp ekki ósvipuð kjördæmi því, sem nú er lagt til að höfð séu. Segja má, að kjörreglurnar til búnaðarþings séu að ýmsu leyti sá grundvöllur, sem hér er á byggt, og mundi vitanlega engum koma til hugar, að bændur sjálfir, sem þessum reglum ráða, hafi verið að svipta sig rétti eða gera sjálfum sér óleik með því að setja þær reglur.

Það er og alveg ljóst, að eyðing fjarlægða og gersamlega breyttir þjóðfélagshættir gera litlu kjördæmin að ýmsu leyti alveg úrelt. Mannfæðin þar er svo mikil, að það er mjög mikil hætta á því, að hægt sé að beita aðferðum, sem andstæðar eru lýðræði, að auðsafn og atvinnuyfirráð hafi meiri áhrif, en góðu hófi gegnir á kosningar í svo litlum kjördæmum, enda er á það að líta, að þegar við tölum um einmenningskjördæmi, þá er það auðvitað allt annað, en einmenningskjördæmi í hinum stóru löndum eins og Bretlandi og Bandaríkjunum. Þar eru kjördæmin svo stór, að allir Íslendingar mundu þar verða hafðir í einu eða í mesta lagi tveimur einmenningskjördæmum. Hér vitum við, að einmenningskjördæmin eru nokkur með innan við 1.000 kjósendur, sum jafnvel innan við 500 kjósendur. Slíkri skipan er að sjálfsögðu ekki lengur hægt að halda, enda er það mjög athyglisvert, að Framsfl., sem þó hafði gert samþykkt um það, að einmenningskjördæmi skyldu höfð, leggur nú ekki til að afnema hlutfallskosningar í tvímenningskjördæmum, sem hann hafði þó áður fyrr fordæmt mjög, heldur ætlast til, að þær verði áfram. Sú afstaða kemur af tvennu: Annars vegar því, að þó að játað sé, að hlutfallskosningar í tvímenningskjördæmum séu um sumt ekki eins heppilegar og væri, ef kjördæmin væru stærri, þá eru kjósendur í tvímenningskjördæmum yfirleitt mjög ánægðir með þessa skipan og vilja heldur hafa hana en það, sem áður var, að meiri hlutinn réði báðum fulltrúunum. Þetta er önnur ástæðan til þess, að Framsfl. nú leggur ekki til að afnema tvímenningskjördæmin með hlutfallskosningum, sem hann hafði barizt á móti áður. Hin er væntanlega sú, að þegar til á að taka, reynist nálega ómögulegt að skipta þessum tvímenningskjördæmum í einmenningskjördæmi, a.m.k. er ekki hægt að gera það, nema brotið sé á móti hinni fornhelgu sýsluskipan, sem mjög er vitnað í og er þó sú helgi ekki meiri en slík, að til hennar var efnt af erlendu konungsvaldi til þess að auðvelda skattheimtu og sektagreiðslu hjá landsmönnum. Það er skipting, sem á ekki rætur sínar í frumkvæði landsmanna sjálfra, heldur er erlent fyrirkomulag, sem okkur var á sínum tíma til lítillar blessunar.

till., sem við styðjum, á aftur á móti miklu frekar rætur sínar að rekja til íslenzkrar sögu. Skiptingin skv. frv. minnir að verulegu leyti á fjórðungana fornu og þingaskiptingu þá, og það er einmitt svipað og gilti um goða í gamla daga, að þá var bóndi ekki bundinn við að velja sér þann goða, sem var í sömu sveit, heldur gat valið sér fyrir goða hvern sem var innan sama fjórðungs. Þar var víðtækt valfrelsi á ferðum, mjög svipað því, sem nú er varðandi kosningar, þegar kjósa á fimm eða sex menn í hverju kjördæmi og úr mörgum að velja.

Því er haldið fram, að þessi háttur verði til þess að auka vald flokksstjórna yfir vali frambjóðenda. Nú er það að sjálfsögðu í valdi hvers einstaks flokks, hvernig hann hagar vali síns frambjóðanda, og ég játa það, að ég er ekki nógu kunnugur því, hvernig það er í öllum flokkum. En ég hygg, að a.m.k. í þeim flokkum, sem standa að þessu frv., þá sé það svo, að það eru samtökin í hverju héraði um sig, sem vali frambjóðanda ráða, en fólkið er á engan veg skyldugt til þess að taka frambjóðanda, sem því er sendur að, þannig að tal um, að menn verði að una skipunum utan og ofan frá í þessu sambandi, á ekki við neinn raunveruleik að styðjast. En þó er ljóst, að vald almennings í hinum einstöku héruðum verður að þessu leyti mun meira eftir þessu frv. heldur en áður var. Þar sem meirihlutakosning er, einn maður valinn, verður kjósandi að sætta sig við þann, sem flokkurinn setur fram, því að ef sprengiframboð svo kallað er sett, fylgir því sú hætta, að sætið tapist flokknum alveg. Ef margir eru í kjöri, fimm eða sex, og kosið hlutfallskosningu, þá er ljóst í fyrsta lagi, að kjósandi getur valið um fleiri menn á hverjum lista og er ekki bundinn við þá röðun, sem er á listanum, þegar hann er lagður fram af flokkssamtökunum. En eins verður það mun minni áhætta fyrir óánægða flokksmenn að bera fram sérstakan lista, ef hlutfallskosningar eru, vegna þess að þá er líklegt eða meiri líkur til þess, að minni hluti geti komið að sínum manni og þó að klofningur verði í flokki, þurfi það ekki að leiða til þess, að sæti glatist alveg, heldur geti af tveimur mismunandi flokkslistum jafnvel tveir mismunandi menn verið valdir.

Þetta aukna frjálsræði kjósenda sést berlega af tali manna um það, að þessari skipan sé sérstaklega fylgjandi hætta á smáflokkum. Sú hætta er í raun og veru ekkert annað en það, að kjósendur megi sjálfir velja þann, sem þeim líkar. Sumir kalla það hættu. Aðrir kalla það aukið frjálsræði. En öruggt er, að bezta ráðið til þess að vinna á mótí þessari hættu er það að hafa á listunum sem allra vinsælasta menn, þá sem líklegir séu til að afla flokknum sem mests fylgis.

Það er því svo gersamlega öfugt, að verið sé að svipta kjósendur frelsi, að það er verið að veita þeim mikinn aukinn rétt frá því, sem verið hefur, og gera líklegra, að eftir óskum sem allra flestra sé farið.

Tal um það, að leggja eigi niður kjördæmi, afnema sjálfstæði héraða og annað slíkt, hefur enga raunhæfa stoð, og þarf þess vegna ekki að eyða orðum að því. Við vitum það öll, að sameinaðir stöndum við, sundraðir föllum, og kjördæmin verða einmitt styrkari, við það að verða mannfleiri, ná yfir meira svæði. Það eru meiri líkur til þess, að mál gangi fram, ef þau hafa marga formælendur heldur en fáa. Það eru þess vegna allar horfur á því, að málefnum héraðanna verði betur sinnt eftir þessari skipan, en hingað til hefur verið. Héruðin velja auðvitað þá menn, sem þar njóta trausts. Ef menn gefast illa, verður skipt um, eins og verið hefur og liggur í hlutarins eðli. Eftir sem áður halda sveitarstjórnir, hreppar og sýslur öllu sínu gamla valdi. Það er ekki á nokkurn veg verið að draga úr því eða hagga þeirri skipan, sem verið hefur. Hitt er allt annað mál, að það má vel vera, að sú skipan sé um sumt orðin úrelt, ég skal ekkert um það segja, það kemur þessu máli ekkert við, og um það hefur hver sína skoðun. Þessi efni sem önnur verður að endurskoða, eftir því sem tímar breytast. Enn hafa engar till. komið fram um að breyta þessu, og í þessu frv. er ekki gerð nein slík tillaga. Eftir þessu frv. eru þvert á móti skapaðir möguleikar til nánara og víðtækara samstarfs milli mikils fjölda landsmanna, heldur en verið hefur, samstarfs, sem er mjög eðlilegt hjá okkar fámennu, en nokkuð dreifðu þjóð. Okkar vandamál verða ekki leyst, nema við leggjumst mörg eða helzt sem flest á eina sveif um að ráða við þann vanda, sem hverju sinni kemur upp.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta mál. Það var rækilega rætt við 1. umr. Afstaða meiri hl. er ýtarlega skýrð í nál., og málið hefur verið, eins og ég segi, meira rætt, en flest eða öll önnur þjóðmál. Það er því tekið nú upp eftir vandlega íhugun, og vandinn nú er ekki annar en sá, hvort menn geti komið sér saman um að láta sömu skipan gilda á öllu landinu í þessum efnum.

Andmælendur málsins telja óboðlegt að hafa meirihlutakosningar úti um land, en þeir vilja þó af einhverjum ástæðum, sem þeir fást ekki til að skýra, halda þeirri aðferð hér í Reykjavík. Á þeim hvílir öll skylda um að sanna, hvernig á þessum óskiljanlega klofningi í meðferð málsins hjá þeim stendur, af hverju allir Íslendingar eigi ekki um þetta atriði að njóta jafnréttis.