24.04.1959
Neðri deild: 115. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1330 í B-deild Alþingistíðinda. (1183)

144. mál, stjórnarskipunarlög

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Það bar stundum við, þegar fyrrv. ríkisstj. sat að völdum, að það var spurt um það hér í hv. d., hvar ráðh. væru að störfum, ef þeir voru ekki hér viðstaddir. Það hefur vakið nokkra athygli í dag, að þegar stærsta mál, sem fyrir Alþingi hefur komið frá upphafi vega, er til umr., þá er ekki neinn ráðh. viðstaddur, og aðeins einn af flokksmönnum hæstv. ríkisstj. hefur komið hér við og við. Hv. 1. flm. frv. hefur ekki heldur mátt vera að sitja þingfund, þegar frv. er til 2. umr., sem verður að þessu sinni aðalumræðan, þar sem 1. umr. málsins var útvarpsumræða. Þetta gegnir nokkuð mikilli furðu, þegar um slíkt mál er að ræða og þetta, og þetta er mál, sem flm. þess hafa talið vera sérstakt réttlætismál, sem þeir þyrftu að koma fram þjóðarinnar vegna. En það virðist eins og hv. flutningsmenn þessa máls hér á hv. Alþingi hafi af einhverjum ástæðum ekki áhuga á því, að mikið sé um málið rætt eða sérstök athygli á því vakin hér á hv. Alþingi. Það er að vísu ekki undarlegt, þó að svo sé. Enda þótt að þeirra dómi sé málið leyst, þá á það mikið eftir, að svo sé.

Þegar Alþingi var endurreist og konungstilskipun var út gefin um, hvernig til þess skyldi kosið, voru tvö meginatriði í þeirri tilskipan. Í fyrsta lagi var það, að réttur héraðanna til þess að eiga sérstakan fulltrúa á Alþingi var þar virtur, og hann var undirstaðan undir þessari skipan, Í öðru lagi áskildi konungsvaldið sér sjálft rétt til þess að eiga þar nokkra fulltrúa. Í meginatriðum hefur þessi skipan haldizt síðan. Þó að breytt hafi verið til, hefur þessari meginstefnu verið fylgt, aðeins hefur verið fjölgað kjördæmum, en ekkert kjördæmi hefur verið niður lagt.

Og hvernig hefur svo þessi skipan gefizt þjóðinni? Allt frá því að Alþingi var endurreist sem ráðgefandi þing, hefur íslenzka þjóðin sótt fram til sjálfstæðis, athafna og þroska. Undir þessu kerfi hefur okkur tekizt að endurheimta sjálfstæði okkar. Og sterkustu rökin, sem við beittum í sjálfstæðisbaráttunni, voru rökin fyrir sögulegum rétti þessarar þjóðar, það voru rökin fyrir því, að þeir, sem litlir væru, ættu líka að eiga sinn rétt og að það ætti að virða hann. Það voru rökin fyrir því, að landfræðileg sérstaða okkar og fjárhagslegt sjálfstæði, sem við mundum geta skapað okkur, ætti að vera grundvöllur fyrir því, að þjóðin ætti að vera sjálfstæð í þessu landi. Og allt frá því að við höfum endurheimt sjálfstæðið, höfum við sótt fram, Íslendingar. Við höfum sótt fram til velmegunar og meiri mennta og þroska. Saga Íslenzku þjóðarinnar, frá því að hún fékk málin í sínar hendur, er sönn sigurganga allt frá þeim degi til þessa dags. Nú er svo komið, að við búum við betri lífskjör, en flestar aðrar þjóðir í heiminum og við stöndum framarlega á sviði menningar og félagsmála. Þetta höfum við framkvæmt við þá kjördæmaskipun, við þá skipun Alþingis, sem grundvöllur var lagður að einmitt með því, að héruðin hefðu sjálfstæða fulltrúa.

Það hafa komið fram hugmyndir um það að breyta þessu skipulagi, eins og hér hefur verið rætt. En fæstar hafa þær hugmyndir verið byltingarkenndar eins og sú, sem hér er á ferðinni. Þó hefur verið til þess vitnað, að 1905–07 beitti Hannes Hafstein sér fyrir því, að kjördæmaskipun yrði komið á með nokkuð svipuðum hætti og hér er nú boðuð. Sú varð þó raunin, að þessari kjördæmabreytingu var ekki komið á, vegna þess að héruðin úti um landið mótmæltu þessu kröftuglega og þm. sáu að sér, áður, en það var um seinan. Þetta frv. var fellt hér í hv. Nd. með þriggja atkv. mun.

En hver er svo ástæðan til þess, að það eru liðin meira en 50 ár, þegar þetta mál kemur hér fram aftur? Ef þetta mál hefði verið sérstakt áhugamál íslenzku þjóðarinnar, þurfa menn ekki að halda, að það hefði verið látið liggja í þagnargildi í hálfa öld. Ef þetta hefði verið það réttlætismál, sem það á að vera nú, hefði það ekki heldur verið látið liggja í þagnargildi í hálfa öld. En sannleikurinn er sá, að íslenzka þjóðin hefur ekki haft áhuga á þeirri kjördæmabreytingu, sem hér á að fara að gera nú, og hún hefur hann ekki í dag, jafnvel þótt henni verði komið á.

Hv. 1. þm. Reykv. sagði hér áðan, að Reykvíkingar hefðu ekki óskað eftir því, að tekin yrðu upp einmenningskjördæmi í Reykjavík. Ég veit ekki heldur til, að það hafi verið óskað eftir því utan af landsbyggðinni, að kjördæmin yrðu lögð niður þar. Mér er ókunnugt um, að það kjördæmi, sem ég er hér fulltrúi fyrir, hafi beðið um, að það yrði lagt niður sem sérstakt kjördæmi, og ég hygg, að svo sé með öll önnur kjördæmi landsins. En gaman væri að fá það upplýst hér í umr., ef svo er ekki.

Sjálfstfl. og Alþfl. hafa verið að fitla við kjördæmabreytingar, bæði 1931 og 1942. En það, sem Sjálfstfl. hefur sérstaklega svarið fyrir, þegar hann hefur verið að vinna að þessum kjördæmabreytingum, er það, að hann mundi ekki vilja leggja niður hin gömlu kjördæmi. Hv. frsm. minni hl. rakti þetta svo rækilega áðan, að ég ætla ekki að fara að endurtaka ummæli þeirra um það. En af hverju voru þeir að sverja fyrir þetta, sjálfstæðismenn, þá, ef þetta var mál, sem þjóðin óskaði eftir, og ef þetta var svo mikið réttlætismál eins og það á að vera í dag?

Nei, þeir vissu það ósköp vel, að þjóðin óskaði ekki eftir þessu. Hún vildi fá að halda sjálfstæði héraðanna, eins og hún vill það í dag, þó að þeir freisti þess núna, þegar þeir eru orðnir vonlausir um sín áhrif við núverandi kjördæmaskipun.

Og hverju á svo að fara að breyta? Það, sem á að gera með þessari breytingu, er að leggja niður áhrifavald héraðanna frá því, sem áður var, og gefa pólitíska valdinu, sem konungurinn áskildi sér 1843, nú fullkominn rétt. Í staðinn fyrir það, að héraðavaldið og pólitíska valdið hafa farið saman hér á Alþingi, á nú aðeins að taka tillit til hins pólitíska valds.

En af hverju er svo verið að þessu? Af því að þetta er réttlætismál, segja flm. þess. Handa hverjum er þetta réttlæti, sem á að fara að skapa? Það á að vera handa pólitísku flokkunum í landinu, það er þeirra réttlæti, sem unnið er nú að því að skapa.

Hvernig var þetta með Sjálfstfl. 1953? Hafði hann þá ekki sérstakan áhuga á því að skapa pólitískt réttlæti í landinu, skapa réttlæti handa þjóðinni, eins og nú á að fara að gera? Nei, þá var Sjálfstfl. að tala um það, hvað hann þyrfti að fá mörg atkvæði í þessu og hinu kjördæminu til þess að geta haft meiri hl. á Alþingi. Þá skipti ekki máli, hvort það var meiri hl. þjóðarinnar, sem stæði á bak við Sjálfstfl., aðeins að Sjálfstfl. fengi þessi fáu atkvæði, sem hann vantaði til þess að ná meiri hl. á Alþingi.

Þá var það ekki óréttlæti að stjórna landinu með minni hl. kjósenda á bak við sig.

Og hvað er að segja um hina flokkana? Mér finnst nú, að fornir vinir vorir, Alþýðuflokksmenn, hefðu gjarnan mátt muna þetta fyrr, að réttlætið er eins nauðsynlegt og þeir álíta nú. Og hvernig hafa þessir flokkar hagað sér í þeim félagssamtökum, sem þeir hafa ráðið? Frsm. minni hl. gat þess hér áðan, að það þykir ekki ástæða til að vera að koma réttlætinu inn í verkalýðsfélögin. Það þykir ekki ástæða til að koma réttlætinu við, þegar kosið er til Alþýðusambandsþings. Þau samtök hafa þó sitt að segja í okkar íslenzka þjóðfélagi, og þau samtök vilja, að þau séu virt, sem á líka að gera. — En þar þarf ekki að beita réttlætinu. Nei, réttlætið, sem er verið að tala um, og framsóknarmenn eiga að vera þeir einu, sem vilja ekki virða réttlætið, — nei, réttlætið ykkar, góðu herrar, það er ekki þess vert að virða það. Það er aðeins hugsað út frá þeim flokkshagsmunum, sem ykkur henta, og annað ekki. Það er ekki gert fyrir þjóðina, heldur fyrir flokkana ykkar, enda eru öll rökin, ef rök skyldi kalla, sem færð eru fram hér þessu máli til stuðnings, við það eitt miðuð að sýna, hvað flokkarnir geta haft upp úr þessu.

Og hvernig er svo það réttlæti, sem hlutfallskosningarnar skapa? Situr ekki bæjarstjórnarmeirihlutinn á Sauðárkróki með minni hluta kjósenda á bak við sig? Er ekki sama að segja í Keflavík? Og hefur ekki bæjarstjórn Reykjavíkur oftar haft minni hluta kjósenda á bak við sig, þó að hún hafi haft meirihlutavald í bæjarstjórn? Þetta réttlæti hafið þið samt getað unað við.

Og svo er annað atriði í sambandi við hlutfallskosningarnar, sem hv. frsm. meiri hl. kom hér að áðan. Hann sagði: Kjósendurnir geta fært til á listanum og ráðið þess vegna meiru um. — Ég skal segja ykkur eitt lítið dæmi af því, sem ég veit í sambandi við hreppsnefndarkosningar. Það var á lista, sem fékk um 190 atkv., en það voru 16 eða 17 menn, sem tóku sig til og strikuðu einn mann út af listanum, og hann féll. Það voru 170 manns, sem vildu fá þennan mann inn í hreppsnefnd, og listinn átti að hafa hann, en réttlætið var nú svona, að 17 menn réðu fyrir þessum 170. Þetta er nú réttlæti hlutfallskosninganna, ef út í það er farið. — Og mikið held ég að það hafi verið mikils virði fyrir minni hl., sem hefur setið í bæjarstjórninni hér í Reykjavík, sá réttur, sem þeir hafa haft. Stundum hef ég heyrt talað um það, að sjálfstæðismennirnir hér í Reykjavík hafi ekki gert mikið með andstæðinga sína í bæjarstjórninni. Og ég man, að þegar hæstv. forsrh. mátti sín mikils í Hafnarfirði, þótti íhaldinu í Hafnarfirði ekki mikill rétturinn, sem hann skapaði þeim, þótt þeir ættu setu í bæjarstjórninni.

Svo er það jöfnuðurinn: það þarf að jafna, dreifbýlisfólkið ræður of miklu á landi hér. Það þarf nú að koma í veg fyrir, að þetta fólk hafi þau völd, sem það hefur, og við þurfum að jafna það.

Ekki sé ég, að þessi völd dreifbýlisfólksins hafi nú staðið þéttbýlinu fyrir þrifum, og ég verð að segja það sem mína skoðun, að mér finnst, að fólksflutningar hér á landi hafi verið nógu örir, þó að fólkið úti í dreifbýlinu hafi haft þann rétt, sem það hefur haft til þessa, að kjósa sér sérstakan þingmann. Og það hefur heldur aldrei látið sér detta annað í hug, en að fólkið í þéttbýlinu ætti líka að eiga sína sérstöku fulltrúa. En ef við förum að jafna rétt, þá verðum við að jafna hann á fleiri sviðum en einu. Það er ekki nóg fyrir okkur að tala um, að það þurfi að jafna kosningarréttinn, það er fleira, sem þarf að jafna, heldur en kosningarrétturinn einn. Ég minnist þess, að 1957, í sambandi við afgreiðslu efnahagsmála, ákvað þáverandi þingmeirihluti að leggja á stóreignaskatt, til þess að þeir menn, sem höfðu hagnazt mest á verðbólgunni, legðu meira af mörkum en aðrir. Það þótti nú ekki sérstaklega vel að farið að fara að jafna réttinn þá. Nei, það voru nefnilega vondir menn, sem voru þá að reyna að jafna réttinn, og það var réttur, sem áttí ekki að jafna.

Það þarf að jafna fleira en það, sem felur í sér að minnka rétt fólksins, sem úti í dreifbýlinu býr. Hvað er að segja um ýmis lífsþægindi? Hefur fólkið útí í dreifbýlinu rafmagn á borð við hina sem í þéttbýlinu búa? Nei, það hefur það ekki. En stjórnarliðið taldi samt rétt núna í sambandi við afgreiðslu réttlætismálsins að rétta því annað, aðra sneið, og það var að minnka fjárframlög á fjárlögum til þess að framkvæma rafdreifingu út um landið. Það var vafalaust gert til þess að jafna um réttinn á milli þessa fólks, sem við órétt eða misrétti býr að þessu leyti. Og höfum við, sem úti á landinu búum, svipaða aðstöðu í atvinnulífi gagnvart bönkum, innflutningsstofnun og öðru slíku? Nei, við höfum það ekki. Og ef þið ætlið að fara að jafna réttinn, þá verðið þið að gera það á fleiri sviðum, og það er skrýtinn jöfnuður að taka réttinn af þeim, sem verr eru settir í þjóðfélaginu, og flytja hann til hinna.

Eins og ég drap á áðan, hafa fólksflutningar í þessu landi verið nógu örir, þó að ekki sé að því stefnt að auka þá. Mér finnst, að dreifbýlið hafi lagt þéttbýlinu nógu mikið til með því að ala upp það mannvænlega fólk, sem það hefur sent hingað í þéttbýlið með því fjármagni, sem úr dreifbýlinu hefur farið, þó að ekki sé bætt við. Og ef menn ætla að fara að draga úr aðstoð við dreifbýlið, þá gerist annað og meira, og það er það, að landshlutar leggjast í auðn. Kannske finnst mönnum ástæða til þess, að svo eigi að fara. Það var einhvern tíma orðað, þegar um þessi mál var rætt hér í sambandi við kjördæmabreytingu, — það mun hafa verið 1931, — þá var sagt: Er ekki nóg, að við berum á túnið, þurfum við að bera á úthagann líka? — En ég segi ykkur það satt, að það eru sannanir fyrir því, að fólkið úti um hinar dreifðu byggðir landsins leggur íslenzku þjóðinni það mikið í framleiðslu, að það er ekki ástæða til að vanmeta það. Í mörgum smákauptúnum og sjávarþorpum er framleiðsla sjávarafurða miklu meiri en hún er hér, og í sveitum landsins er framleiðsla á hvern einstakling svo mikil, sem kunnugt er, að hún hefur aukizt þrátt fyrir það, að fólkinu hefur fækkað. Og við höfum ekki efni á því að draga úr þessari framleiðslu. Við þurfum að auka útflutningsframleiðsluna, bæði það, sem tekið er af sjávarafurðum og landafurðum. Og það eru sannanir fyrir því, að á s.l. ári seldum við upp alla okkar mjólkurframleiðslu og meira en það. Það er þess vegna ekki ástæða til þess að draga úr aðstoð við kjördæmin úti á landinu, það er ekki ástæða til að draga byggðina saman, heldur hitt.

Þá hefur því verið haldið fram í þessum umræðum, að harkan í kosningabaráttunni í einmenningskjördæmunum sé svo mikil, að það þurfi að koma í veg fyrir hana, og það muni breytast með stóru kjördæmunum. Það var bent á það hér áðan, hvernig það væri í Reykjavík. Haldið þið, að það sé minni harka í kosningabaráttunni í Reykjavík, en úti um landið? Ég veit það vel, að harka í kosningabaráttu er mikil, og þekki til kjördæma, þar sem mismunur er lítill og hart hefur verið barizt. En ég veit, að hún er ekki meiri, en hún hefur verið hér. Og ég veit það líka, að áhrif fjármagns og atvinnufyrirtækja eru helzt hér í Reykjavík. Það er ekki vegna þess, að draga þurfi úr hörku í stjórnmálabaráttunni, að þessi breyting er gerð.

Þá er rætt um það, að sá hluti kjósenda í kjördæmi, sem ekki fær kosinn þingmann, eigi ekki fulltrúa hér á hv. Alþingi, því að þingmaðurinn sé bara fyrir þá, sem kjósa hann. Skömmu eftir að ég hafði verið kosinn þingmaður, kom til mín myndarleg kona, búsett í mínu héraði. Hún sagði við mig: Meðan þú varst frambjóðandi, varstu andstæðingur minn, en eftir að þú ert orðinn þingmaður, þá ert þú fulltrúi fyrir mig sem aðra. — Þetta er skoðun fólksins almennt, og ég er sannfærður um það, að þeir menn, sem vilja halda því fram núna, að andstæðingar okkar í kjördæmunum, sem kjósa okkur ekki, eigi ekki fulltrúa á Alþingi, þar sem einmenningskjördæmi eru, þeir hafa ekki hagað sér sjálfir þannig í sinni þingmennsku. Þeir vita það, að þeir eru kjörnir þingmenn kjördæmisins, og haga sér eftir því.

Aðalþáttur þingmannsins er að sjá fyrir hagsmunum kjördæmisins í heild, og það hafa þingmenn reynt að rækja. Því hefur líka verið haldið fram í sambandi við þetta mál, að þingmenn ræktu þann þátt of vel, þeir hefðu of mikið kjördæmasjónarmið og þess vegna þyrfti að fjarlægja þá úr þeim tengslum. Það hefur verið fært fram sem rök með kjördæmum. Þar var það sagt og vitnað í franskan málshátt, að litlu kjördæmin sköpuðu litla þingmenn. Þá skapa nú litlar þjóðir litla menn, og verðum við að sætta okkur við það. En er nú reynsla okkar hér á landi sú, að frá litlu kjördæmunum hafi litlu þingmennirnir komið? Má ekki minna á Jón Sigurðsson í því sambandi, sem var ekki þingmaður fyrir stærra kjördæmi, en Vestur-Ísafjarðarsýslu? Og má ekki minna á Tryggva Þórhallsson, sem var þingmaður fyrir Strandasýslu og þykir ekki stórt kjördæmi? Ég held, að þeir, sem úr stærri kjördæmum hafi komizt eða með þann titil að heita landskjörnir, mættu vel við una, þó að þeir hefðu bara þá stærð, sem þessir menn höfðu. En ef þetta er nú svo, sem hér hefur verið drepið á, að það væri styrkur fyrir litlu kjördæmin að fá að sameinast hinum stærri og koma þannig saman sem heild, eins og það er orðað hér á Alþingi, mundum við þá ekki segja, að það væri styrkur fyrir okkur að fá að taka þátt í kosningum t.d. á þing Sameinuðu þjóðanna með öðrum Norðurlöndum? Við gætum vel hugsað okkur þann hátt á því, að þar væri einn listi og það ættu að vera jafnmargir fulltrúar fyrir þessar þjóðir og er nú. En haldið þið, góðir hálsar, hv. þm. hér og aðrir, að við teldum, að þetta væri hagur fyrir okkur? Nei, við mundum telja þetta móðgun og að litla þjóðin mundi týnast með þessum hætti, eins og litlu kjördæmin týnast, ef hér verður að farið sem að er stefnt. Og ég held, að það væri alveg sama, í hvaða samtökum það væri, sem okkur væri boðið upp á þetta kosningafyrirkomulag. Við mundum vilja eiga okkar sérstaka fulltrúa, þó að hann væri fulltrúi frá lítilli þjóð.

Þá hefur á það verið bent, að flokksvaldið mundi minnka. Haldið þið, segja flutningsmenn og fylgjendur þessa máls, að það væri ekki munur fyrir Skagfirðinga, Húnvetninga og Siglfirðinga að standa saman gegn Reykjavíkurvaldinu? En gæti það nú ekki skeð, að Skagfirðingar, Siglfirðingar og Húnvetningar kæmu sér ekki saman innbyrðis, og haldið þið, að það væri þá styrkur? Hver færi þá með þeirra mál? Það væru flokksstjórnirnar og engir nema flokksstjórnirnar. Og þannig verður það, það er verið að auka vald flokksstjórnanna með þessu frv., enda er það miðað við það, sem kallað er að jafna á milli flokka.

Ég man eftir því í sambandi við 1. umr. þessa máls, að hv. þm. A-Húnv. (JPálm) talaði um það, að hann ætti greinda og góða kjósendur, en sinn styrkur hefði verið meiri, ef á bak við hann hefðu verið fleiri kjósendur og hann væri kominn í nýja kjördæmið. Mín skoðun er önnur. Ég veit það af kunnugleik, að hv. þm. A-Húnv. er vel séður heima í sínu héraði. Hann nýtur þar trausts, og það mundi engri flokksstjórn hafa verið fært að ýta honum frá framboði, þó að hún hefði ætlað sér. En það er ekki þar með sagt, að Skagfirðingar eða Siglfirðingar, svo að dæmi séu nefnd, meti Húnvetninginn, hv. þm., Jón Pálmason. Nei, það fer ekki saman, að maðurinn, sem er vel kynntur í því héraði, þar sem hann er búsettur og fólk þekkir hann, njóti trausts hjá hinum.

Þá er því haldið fram, að það mundi vera auðveldara að fá bændur til þingsetu, en verið hefur, ef þetta mál nær fram að ganga. Rökin fyrir því var harkan, sem átti að vera í kosningabaráttunni. En á það má benda, að þessir menn margir eru hlédrægir menn, góðir og gegnir og vel kynntir helma fyrir. En það nægir ekki að vera vel kynntur heima fyrir, þegar komið er út í stóru kjördæmin. Slíkur maður þekkist ekki um nýja kjördæmið allt. Þess vegna er verra fyrir hann að sækja fram í kosningabaráttu en ella. Þá hefur reynslan verið sú, að það hefur yfirleitt ekki verið algild regla að færa upp á listunum, eins og talað var um hér um daginn. Þess vegna munu þessi rök ekki reynast haldgóð, enda vita allir, að það verður erfitt fyrir bændur að sitja á þingi, ef á að rækja þingmennskuna eitthvað í líkingu við það, sem nú er gert, ef þeir eiga að sinna svo stóru kjördæmi eins og nú eiga að verða. Það hefur verið talað um, að þeir hefðu ekki tíma til þingmennskunnar, elns og nú háttar, þegar þeir geta þó setið heima í sínum héruðum og eiga tiltölulega auðvelt með að hafa samband við kjósendur sína. En hvað þá, ef þeir þurfa að ferðast um svona stóran landshluta? Ég veit líka dæmi þess um einn af þingbændum nú, að hann mundi ekki sitja hér á hv. Alþingi, ef þessi skipan hefði verið komin á.

Þá hafa kosningar til búnaðarþings verið nefndar í þessu sambandi, og þær hafa verið teknar sem dæmi um það, að hér væri svipað að farið og í sambandi við búnaðarþingskosningar. En hér er nefnilega mjög málum blandað. Hvað eru búnaðarsamböndin? Búnaðarsamböndin eru ekkert annað, en sjálfstæðar heildir, sem eru myndaðar eins og sýslufélögin. Þau eru mynduð af hreppabúnaðarfélögunum, sem bak við þau standa. Búnaðarsamböndin fara með öll mál þessara sérstöku heilda. Þau fara með öll sameiginleg mál hreppabúnaðarfélaga. Svæði þeirra eru mismunandi stór, t.d. nær Búnaðarsamband Borgarfjarðar yfir Mýra- og Borgarfjarðarsýslur, Búnaðarsamband Suðurlands nær yfir Suðurlandsundirlendið, Búnaðarsamband Dala og Snæfellsness náði yfir Dali og Snæfellsnes áður fyrr, en þar eru samböndin nú orðin tvö. En þetta eru allt sjálfstæðar heildir, félagslega og fjárhagslega. Þess vegna geta ekki nema þessar heildir kosið sína fulltrúa til búnaðarþings, alveg eins og sýslurnar. Og þróunin hefur svo orðið sú á síðari árum, að yfirleitt hafa kjördæmin til búnaðarþings verið minnkuð og meira stefnt inn á beinar kosningar. Og þannig mun það nú vera t.d. í Búnaðarsambandi Borgarfjarðar, að þar hefur yfirleitt verið kosinn með samkomulagi sinn maður úr hvorri sýslu. Hér er hins vegar ekki verið að skapa neinar sjálfstæðar heildir.

Hv. 1. þm. Reykv., frsm. meiri hl., sagði: Sýslurnar eiga að halda sér. Hrepparnir eiga að halda sér. — Það er ekki verið að skapa neina heild, hér er aðeins verið að þvinga fólkið til að kjósa þingmenn hvort með öðru, hvort sem því líkar það betur eða verr. Það er ekkert á bak við þessa þingmenn, og ég fullyrði, að ekki er hægt að halda þessari skipan, það er ekki hægt að láta þingmennina frekar en aðra dansa í lausu lofti, því að hér er ekki byggt á jörð. Og það, sem gerist, er, að annað tveggja verður að breyta fornri sýsluskipan eða gera landið allt að einu kjördæmi, og að því er stefnt.

Og svo tala menn um, að þessi tilhögun eigi að vera styrkur fyrir landsbyggðina, það eigi að vera styrkur fyrir sveitirnar að fá fulltrúa kosna eftir þessari leið, þær hafi aðgang að mörgum og allir flokkar eigi þá fulltrúa í kjördæminu, — að það sé ekki hætta á, að ríkisstj. beiti héruðin neinum fantatökum, eins og nú er, ef hún er andstæð þingmanni. En gæti nú ekki skeð, ef við hugsuðum okkur, að þeir þingmenn, sem nú eru fyrir í héraðinu, héldu áfram þingsetu, og þeir mundu fyrst um sinn líta á sig í tengslum við sin kjördæmi, — gæti nú ekki skeð, að ríkisstj., sem hefði tilhneigingu til þess að beita slíkum tökum, að líta á andstæðing sinn sem andstæðing í sambandi við fjárveitingar og annað til héraðanna, hún beitti því einnig við þau héruð innan þessa svæðis, sem ættu þingmenn úr andstæðingahópi? Ég held, að ef út í það væri farið, þá gæti þetta skeð. En ef það er styrkur fyrir héruðin að sameinast, af hverju er þá verið að segja við bændur landsins um leið: Gætið ykkar, þið eruð ekki nema 20 þús. móti 150 þús. Ef þið ekki takið það, sem að ykkur er rétt í þessu, þá getur verið, að ykkur verði mælt eins og þið mælið öðrum? — Mundi nú vera verið að segja þeim þetta samtímis því, sem verið væri að auka vald í höndum þeirra? Ef á að auka valdið hjá þessum 20 þús. gegn þessum 150, mundi þá þessi sneið vera látin fara með? Nei, flm. þessa frv. gera sér alveg grein fyrir því, að þeir eru að draga valdið úr höndum héraðanna, en ekki auka það, þó að það sé stundum reynt að punta upp á það með þessum og álíka fullyrðingum. En það gagnar lítið, því að hitt kemur með.

Þá er talað um, að það þurfi að gera þetta, því að forréttindi Framsfl. séu svo mikil, það sé alveg ómögulegt að láta Framsfl. hafa þessi forréttindi. Hvaða forréttindi hefur frambjóðandi Framsfl. í Mýrasýslu fram yfir frambjóðanda Sjálfstfl.? Mér er ekki kunnugt um þau forréttindi. Ég veit ekki annað en þessir menn verði báðir að berjast fyrir sinni pólitísku tilveru án þess að hafa nokkur forréttindi. Og ég vil spyrja: Hvaða forréttindi hefur frambjóðandi Sjálfstfl. fram yfir frambjóðanda Framsfl. á Snæfellsnesi? Ég veit ekki til þess, að þar sé heldur um nein forréttindi að ræða. Þeir verða að berjast fyrir sínum málstað, og fólkið metur málstaðinn eftir sínum geðþótta. Hér er því ekki um nein forréttindi að ræða. Þessi forréttindi, sem þið eruð að tala um, hv. þm., til handa Framsfl., það eru héruðin, sem þið eigið við, en það er bara betra orðalag fyrir ykkur að kenna þetta við Framsfl.

En það hefur verið gerð tilraun til þess áður að hnekkja valdi Framsfl. með kjördæmabreytingu. Það átti að gera 1931, og það átti að gera 1942. Og þið verðið að halda út í þriðju baráttuna nú til þess að reyna að hnekkja valdi flokksins. Og þið skuluð sanna það, að þó að ykkur takist þetta, þá verður Framsfl. ekki eytt eða hann verður ekki minnkaður með löggjöf, Nei, það verður ekki langur tími, þangað til þið, hv. þm., andstæðingar Framsfl., eða eftirmenn ykkar verða að reyna við þennan flokk enn þá, og þá verður það auðvitað gert með því að gera landið allt að einu kjördæmi, og þá verður það réttlætismál, af því að Framsfl. hefur forréttindi.

Það, sem að er stefnt með þeirri breyt., sem hér er boðuð, er að gera pólitíska valdið í landinu sterkt og eyða valdi héraðanna. Þetta er meginmálið í þessu öllu saman. Og af hverju er verið að þessu? Þegar nýsköpunarstjórnin sat hér að völdum 1944–46, mátti heyra sitt af hverju til landsbyggðarinnar. Ef við förum um landið, finnum við ekki margar framkvæmdir úti um landsbyggðina frá þeim tíma, kannske 3 eða 4 hús í sveitum og álíka margar hlöður. Nei, þá var ekki verið að auka vald landsbyggðarinnar, þá var verið að rýra það eins og hægt var. Þá var bændum skipað sérstakt ráð, búnaðarráð, til þess að fara með þeirra verðlagsmál, og annað var eftir því.

En þessi stefna, þetta vald, sem þessir flokkar höfðu náð, stóð skammt. Og það tókst að hefja aftur markvissa baráttu fyrir framförum úti um landsbyggðina. Þessi stefna hefur unnið á, og henni hefur verið haldið fram sleitulaust síðan, enda hefur Framsfl. verið í ríkisstj., síðan nýsköpunarstjórnin fór. En nú er bara komið að því aftur, að það þarf að fara að reyna að hnekkja þessu byggðavaldi, og nú á að reyna að gera það svo, að um muni. Nú á að fara að framkvæma stefnuna; sem hv. 3. þm. Reykv. (EOl) orðaði hér í vetur í sambandi við umr. um niðurfærslu verðlags og launa, að það þyrfti að draga úr landbúnaðarframleiðslunni, og annað eftir því, breyta fjárfestingarpólitíkinni, — og þetta yrði kannske hægt að gera, þegar búið væri að breyta kjördæmunum. Og nú á að fara að framkvæma stefnuna, sem hv. 1. þm. Reykv. (BBen) orðaði á þá leið, að þegar hann færi út um landsbyggðina, þá væru sérstaklega tvær byggingar, sem færu í taugarnar á þessum ágæta þm. Það var íbúð kaupfélagsstjórans, og það var verzlunarhús kaupfélagsins. Þar voru fjárfestingarliðir, sem mátti draga úr. Það á að neita 500–600 manns í Kaupfélagi Borgfirðinga um að byggja yfir sína verzlunarstarfsemi, af því að húsið getur farið í taugarnar á hv. 1. þm. Reykv. Það er að þessu, sem er stefnt með þeirri breyt. á stjórnarskránni, sem hér er boðuð. Og það þarf að byrja á því að eyða valdi héraðanna, til þess að það sé hægt að koma fram þessari stefnu. Þetta vita þessir hv. þm., og þess vegna er nú byrjað á byrjuninni. Og það á að halda áfram á þeirri braut, sem nú er mörkuð, að reyna að fleyta efnahagsmálunum, eins og gert er með fjárlagaafgreiðslunni, með niðurgreiðslum, þar sem framkvæmdaféð er tekið til niðurgreiðslnanna, þangað til þetta er komið í kring. Þetta er mergur málsins, og að þessu er stefnt með þeirri breytingu á stjórnarskránni, sem hér er verið að vinna að. Það á að hætta uppbyggingunni úti um landsbyggðina. En til þess að það sé mögulegt, þarf að taka valdið af héruðunum.

Ég leyfi mér hér með að spyrja, áður en ég lýk máli mínu: Er það hyggilegt fyrir okkur Íslendinga að leggja mest upp úr höfðatölureglunni, eins og hér er gert? Við, sem erum minnstir af þeim minnstu og viljum þó vera sjálfstæðir og fara með okkar sérstöku mál sjálfir, er það skynsamlegt af okkur, að við skulum nú í samskiptum borgaranna innbyrðis leggja höfðatöluregluna sem þungamiðju í stjórnskipunarlögum okkar? Þó að það sé sagt hér, að héruðin úti um landsbyggðina hafi meiri rétt en þéttbýlið, þá er því við að bæta, að ofan á kjörna þm. eru settir 11 uppbótarþingmenn til að þynna þetta sem mest út, enda er það yfirlýst stefna sumra af flm. þessa frv., þeirra sem vilja segja það, að það sé stefnt að því að gera landið allt að einu kjördæmi, enda vitum við það, því að fullyrðingar þeirra sjálfstæðismanna um þetta mál nú, eru ekki meira virði en þær, sem þeir hafa gefið áður og ganga í gagnstæða átt við það, sem nú er verið að gera.

Það var sagt frá því í aðalstjórnarblaðinu, þegar frá þessu máli var sagt og því samkomulagi, sem um það var orðið, að það væri búið að tryggja framgang kjördæmamálsins. Þegar flm. höfðu komið sér saman um að flytja það, þá var þar með búið að segja: Það er búið að tryggja framgang sjálfs kjördæmamálsins. Það þurfti ekki að vera að spyrja íslenzku þjóðina um það, hvort þetta mál ætti að ná fram að ganga eða ekki. Nei, hv. þm. G-K. (ÓTh), hv. 3. þm. Reykv. (EOl) og hæstv. forsrh. (EmJ), þeir höfðu ákveðið, að málið skyldi ná fram að ganga, og þar með var framgangur málsins ákveðinn. E.t.v. lætur þjóðin þessa menn ráða um afstöðu sína gagnvart þessu máli, en þá eru flokksböndin orðin sterk. En það eiga eftir að verða kosningar um þetta mál, þar sem þjóðin á eftir að segja sitt. Og ég verð að segja það, að ég öfunda ekki þá menn, sem fara út um landsbyggðina í vor og segja við fólkið: Viljið þið gera svo vel að láta mig fá atkvæðin ykkar, svo að ég geti lagt kjördæmin ykkar niður? Það verður auðvitað fleira haft með í pokahorninu, en mergur málsins er þessi. Og íslenzka þjóðin þarf að gæta þess að afhenda ekki pólitíska valdinu í landinu rétt héraðanna á þann hátt eins og hér er ætlazt til.