24.04.1959
Neðri deild: 115. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1340 í B-deild Alþingistíðinda. (1184)

144. mál, stjórnarskipunarlög

Eiríkur Þorsteinsson:

Herra forseti. Þegar samstarf tókst fyrir síðustu kosningar milli Framsfl. og Alþfl., var það mikið áfall fyrir Sjálfstfl., en til þess að reyna að gera sig gildandi gegn slíku bandalagi, uppnefndi Sjálfstfl. bandalagið og nefndi það „Hræðslubandalag“. Átti hinn almenni kjósandi að líta svo á, að þetta bandalag vinstri flokkanna í landinu væri myndað í tilefni af hræðslu við sjálfan Sjálfstæðisflokkinn.

Ég fyrir mitt leyti tel það ekki og taldi ekki þá neitt óeðlilegt, þótt verið væri á verði af öllu hugsandi fólki landsins gegn því, að Sjálfstfl. fengi meirihlutavald á Alþingi Íslendinga.

Sjálfstfl. gegndi síðan forustuhlutverki í því að skipuleggja kauphækkanir hinna ýmsu stétta þjóðfélagsins í tíð vinstri stjórnarinnar og auka þar með dýrtíð og að sama skapi útgjöld ríkissjóðs. Urðu þau öfl, er þessu hlutverki gegndu, ofan á, á Alþýðusambandsþingi í lok nóvember s.l. Var þar með fyrir borð borinn sá grundvöllur, sem stjórnarsamstarf Framsfl. og verkalýðsflokkanna var reist á, enda ollu þessi viðbrigði verkalýðsflokkanna algerum friðslitum innan ríkisstj., svo sem nú er öllum landslýð kunnugt, og urðu endalokin þau, að Hermann Jónasson baðst lausnar fyrir ráðuneyti sitt í byrjun desembermánaðar.

Forustulið Sjálfstfl, lagði hart að sér og flokki sínum til þess að rjúfa vinstri stjórnina, til þess að mynda stjórn að nýju, en enda þótt fyrra atriðið tækist, misheppnaðist hið síðara. Olli þessi misheppnaða tilraun forustuliði Sjálfstfl. allmiklum áhyggjum, svo að ekki sé sterkar að orði kveðið, og voru nú feldir breiddir yfir höfuð og mikil plön lögð.

Ekki mátti Framsókn gamla sleppa svo frá þessu, að henni yrði ekki að nokkru klórað, enda greip mikill ótti ýmsa í forustuliðinu um, að Framsfl. fengi nú bætta aðstöðu eftir þetta getuleysi Sjálfstfl.

Ótti þessi gróf um sig dag frá degi og endaði með því, að nú var í fyrsta sinn myndað hræðslubandalag stjórnmálaflokka á Íslandi, og nú var hræðslan af ýmsum toga spunnin. Eins og alþjóð veit, var vinstri stjórnin athafnasamasta ríkisstj., sem nokkru sinni hefur farið með völd í landinu. Starf hennar gekk allmjög út á það að efla alhliða atvinnuvegi þjóðarinnar til lands og sjávar, skapa nýjan og bættan verðlagsgrundvöll fyrir allar útflutningsvörur og gera mögulegan útflutning á afurðum, sem áður fékkst ekki fyrir nægilega hátt verð. Þetta tókst með lögunum, sem sett voru um útflutningssjóð árið 1958. Vinsældir vinstri stjórnarinnar í sambandi við þetta óttuðust sjálfstæðismenn mjög. Með þessu ávannst það, að áhugi manna óx fyrir landbúnaði og sjávarútvegi og flótti fólksins stöðvaðist frá arðbærum störfum til örari göngu í gæfuleit á steyptum borgargötum. Þessi straumhvörf og önnur, er siglt hefðu í stórum stíl í kjölfarið, ef með festu og öryggi hefði auðnazt að gera þessa og framhaldandi aðgerðir þings og stjórnar að uppistöðu í gróandi þjóðlífi, voru ekki í anda þess glundroða og stefnuleysis, sem nú auðkennir, hvar sem litið er á, aðgerðir hæstv. núv. ríkisstj., sem er leppstjórn Sjálfstfl. og ber helzt á sér blæ hins framliðna, sem tekizt hefur að vekja upp að nýju, og eru nú allar aðgerðir uppvakningsins óþekkjanlegar frá fyrra lífi, enda fljótt auðséð, að hvorki hugur né hönd stjórnast eftir eigin tauga- né æðakerfi. E.t.v. er hér aðeins um dáleiðslu að ræða. Er þá vonandi, að hinir villuráfandi losni sem fyrst undan áhrifavaldi dávaldsins, áður en þjóðin liggur öll óbætt hjá garði fyrir þeirra aðgerðir.

Því er nú verr, að allt er þetta með ráði gert. Sjálfstfl. var svo hræddur um vinsældir vinstri stjórnarinnar, að hann var tilbúinn í allt, sem stuðlað gat að falli hennar. En kálfar launa sjaldan ofeldi, og það sannaðist á kratabroddunum. Flokkur þeirra var andstæður þeirri stefnuskrá, sem hans menn í ríkisstj. samþykktu, sem var að halda niðri kaupgjaldi og verðlagi. Í þess stað samfylkti Alþýðuflokksliðið í öllum stéttarfélögum Reykjavíkur með Sjálfstfl. og efndu til kauphækkana með uppsögn samninga, hvar sem þeir gátu, til þess eins að gera þeirri ríkisstj., sem þeirra flokksmenn voru aðilar að og þátttakendur í, sem allra erfiðast fyrir, enda leiddi það til síaukinna útgjalda á fjárlögum ríkisins, með þeim afleiðingum, sem ég áður tók fram, að stjórnin sagði af sér.

Af þessu leiddi, að Alþfl. og ekki sízt foringjar flokksins voru orðnir ofur lítið órólegir. Fólkið, kjósendur þeirra, hlýddi hvorki á boð þeirra né bönn. Nú vilja sem sagt verkalýðsforingjar Alþfl. semja við Sjálfstfl. um hlutdeild í peningum og auðæfum sjálfs auðvaldsins. Nú hafa embættissinnaðir foringjar þessa flokks slegið svo á sjálfstraust og baráttuvilja flokksins, að hann kærir sig ekki lengur um að heimta rétt sinn með samheldni gegnum áhrifavald máttugra flokkssamtaka, heldur skal ganga auðvaldinu á hönd og fá því valdið í hendur, sem almúginn á í sjálfum sér og getur tekið, aðeins með því að dýrka hvorki foringja né molana, sem detta af borðum húsbændanna. Hvað um það, Alþfl.-foringjaliðið var orðið hrætt á báða bóga. Þeir gengu á fund foringja Sjálfstfl. og báðu þá auðmjúklega fyrirgefningar á þessu útundanhlaupi með Framsókn, nú væru þeir komnir og iðruðust synda sinna, en þeir væru hræddir við þær. Og sjálfstæðisforingjarnir þökkuðu þeim heimkomuna og tóku á móti týnda syninum með lotningarfullri gleði, og nú hefur týndi sonurinn gengið erinda síns sáluhjálpara og sótt fjöreggið týnda, sem aðeins tilheyrir hinum hræddu bæjarmönnum í baráttu við heilagan rétt vors forna og nýja lýðveldis á Íslandi. Það er réttur þess hluta þjóðarinnar, sem haldið hefur í heiðri frá upphafi Íslandsbyggðar þjóðerni og íslenzkri tungu. Nú á að ganga á rétt þess hluta lands og þjóðar, sem háði baráttu við elds og ísa raun, drepsóttir og alls konar hallæri og með þrautseigju hélt við byggð og menningu þjóðarinnar við frumstæð skilyrði.

Þeir hv. alþm., sem standa að samningu þessa frv. til stjórnskipunarlaga, sem hér liggur fyrir á þskj. 368, um breyt. á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, eru ekki arftakar feðranna sem forustuleiðtogar í því að byggja og treysta á landið. Þetta kjördæmamál ætti fremur að heita frumvarp til laga um, að Íslendingar hafi allir búsetu í Reykjavík; en frumvarp til stjórnarskipunarlaga o.s.frv. Þetta frv. boðar algera byltingu á Íslandi, enda væri ekki unnt að koma því áfram hér á Alþingi nema fá í liðið uppreisnarforingjann, hv. 3. þm. Reykv., Einar Olgeirsson. Það er hann og gamall sálufélagi hans, hv. þm. Siglf., Áki Jakobsson, ásamt hv. þm. G-K., hálf-Dananum Ólafi Thors, sem ráða ferðinni í þessu „réttlætismáli íslenzku þjóðarinnar“ til sjávar og sveita, eins og þeir kalla það.

Með kjördæmamáli því, sem hér liggur fyrir, er farin kollsteypa, sem Sjálfstfl, á Íslandi notar til þess að blekkja þjóðina með, og nú er Alþfl. notaður sem hvert annað áhald, sem liggur á borði húsbændanna, til að gera verstu verkin. Sjálfstfl. flaggar því mjög mikið, að vinstri stjórnin hafi skilið eftir þrotabú, þrátt fyrir allmikinn tekjuafgang, sem varð við uppgjör ríkisreikningsins um áramót, og ófengnar tekjur af óseldum gjaldeyri o.fl. Nú á hið göfuga markmið með kjördæmamálinu að helga meðalið, og stefna skal öllum fjármálum þjóðarbúskaparins í heild í fullkomið strand, svo að ekki verður annað séð, en niðurgreiðslur og niðurfærslur dýrtíðarinnar verði komnar í fullkomið strand á miðju sumri, nema eitthvað óvænt reki á fjörur hinnar vonglöðu hæstv. ríkisstj. Svo er og eftir að taka með, að Alþýðubandalagsmenn fengu ekki skækil á húðfeldi hæstv. ríkisstj., svo að þýtt getur það um 200 –300 millj. kr. hækkanir á rekstrarútgjöldum ríkissjóðs af völdum kauphækkana á tímabili tveggja fyrirhugaðra kosninga. Það skyldi þó ekki geta skeð, að stóru kjördæmaríkisstj. yrði ráðþrota og óskaði eftir þjóðstjórn að loknu þriggja til fjögurra mánaða valdatímabili eða þá að íslenzka lýðræðið riðaði að falli? Ættu þá verkalýðsleiðtogar reykvískrar alþýðu að hjálpa íhaldinu til varanlegra valda í landinu, á sama hátt og verkalýðshreyfingin þýzka kom Hitler sáluga til æðstu metorða í Þýzkalandi?

Sjálfstfl. kveðst vilja láta kaupa togara til landsins. En hann vill engin lán láta taka hjá erlendum þjóðum, en gjaldeyri vantar fyrir nauðþurftum landsmanna. Sá flokkur var á móti öllum erlendum lántökum vinstri stjórnarinnar, sbr. þegar lokið sprakk af einni málpípu flokksins, þá var sá flokkur á móti virkjun Sogsins og öllum framkvæmdum í dreifbýli og þéttbýli, sem erlend lán þurfti til, þegar hann fór ekki með völd landsins, en aðrlr flokkar gerðu það, en Sjálfstfl. Sjálfstfl. er því í raun og veru hvorki dreifbýlis- né bæjarflokkur, hann er aðeins sérhagsmuna- og valdastreituflokkur. Án þessa flokks getur þjóðin því vel lifað og að mínu áliti miklum mun betur án hans, en með tilstyrk hans. Það er því augljóslega sú þjóðarógæfa, sem komið hefur af stað því kjördæmamáli, sem hér liggur fyrir til umræðu, að allt of margir kjósendur hafa glæpzt á að kjósa þennan flokk, og ágirnd og ofstopi hans hefur sennilega vaxið með atkvæði hverju. Það er því mál til komið að hætta að kjósa hann og kjósa Framsfl., meir en nokkru sinni áður. Þá jafnar fólkið sjálft, kjósendurnir sjálfir, metin milli flokkanna, og þá er allur grundvöllur fyrir þessu lélega máli úr sögunni.

Íslenzka þjóðin er nú algerlega eins á vegi stödd og daginn fyrir Örlygsstaðabardaga fyrir 720 árum. Þá átti hún um frelsi sitt að berjast og tapaði frelsinu og varð undirokuð af innlendu valdi, sem svo framseldi það til erlends þjóðhöfðingja. Orrustan Örlygsstöðum gat vel unnizt af betri öflum þjóðarinnar, ef skipulagning herja Sturlunga hefði verið betri, en raun bar vitni. Andstæðingar þeirra óþurftarafla Alþingis, sem nú ætla að brjóta niður hin fornhelgu vé þjóðarinnar, hin dreifðu kjördæmi landsins, eiga nú að sameinast í eina órjúfanlega fylkingu, hvar í flokki sem þeir annars hafa kosið áður, og kjósa nú í þessum kosningum framsóknarmenn á þing, svo að þeir megi vernda fornan og friðhelgan rétt og stolt hins íslenzka þjóðarsóma, sem eru hin margviðurkenndu kjördæmi landsins. Við þau eru tengd héraðaást, uppeldi einstaklinga og áhugi þeirra til að starfa að uppbyggingu og menningarlegum verðmætum sýslu sinnar. Staðhættir og lega héraða hafa mótað meðal annars þess, sem ég hér hef upp talið, takmörk kjördæma í dreifbýli landsins. — Til þess að fullkomið lýðræði sé í strjálbýlu landi, þarf dreifbýlið að njóta fullkomins skilnings, en ekki lítilsvirðingar valdhafa þjóðarinnar á hverjum tíma.

Ísland verður ekki blómlegt land menningar og framfara eða hlýtur til langframa viðurkenningu erlendra gesta og stórbrotinna heimsborgara, ef þurrabúðarmennirnir á Reykjanesskaga, sem bezt hafa þar hreiðrað um sig á kostnað þjóðarinnar allrar, eiga að ráða fyrir þjóðarsálinni á þá eina lund að bæta eingöngu skilyrðin í þéttbýlinu þar, en rýra afkomumöguleika fólksins í dreifbýli landsins, þar sem styrkur fólksfjöldans í stórum bæjarfélögum nær ekki til að gera nauðsynlegar umbætur, enda er landsins gæfa eigi öll úti á flæðiskeri, elns og skáldið Guðmundur Friðjónsson sagði eitt sinn.

Um þetta makalausa kjördæmamál er mikið búið að tala og skrifa. Þeir flokkar, sem að því standa, bera á sér fullkominn blæ ævintýramennskunnar í sambandi við framkvæmd þess. Atvinnuvegir og framleiðsluskilyrði þjóðarinnar skulu lögð á hilluna, meðan hinir valdagírugu flokksforingjar reyna að bæta aðstöðu flokka sinna, aðeins til þess að rýra styrk Framsfl. á Alþingi, þess eina flokks, sem hefur orðið að sækja allt fjármagn fyrir dreifbýli landsins undir högg, hjá þessum einangruðu flokkshyggjumönnum, sem draga fána sinn að hún og ætla nú að ganga kröfugöngu með hann út um dreifbýlið á Íslandi og segja við hv. kjósendur: Elsku vinir! Kjósið mig á þing núna, svo að ég geti lagt niður þetta kjördæmi ykkar. Það er til bölvunar fyrir flokkinn minn að vera að dreifa þessum Framsóknarkjördæmum víðs vegar út um land. Það er bezt fyrir þig að gera þetta strax, því að henni Framsókn gömlu er ekki ætlað að ráða ríkjum lengur á Íslandi. — Og með þessum söng hefur Sjálfstfl. tekizt að hræða fólkið til fylgis við sig í stórum stíl og hvað mest í stærsta kjördæmi landsins, Reykjavík.

Hvað sem þessu öllu líður, verður það ekki Framsfl., sem skarðastan hlut ber frá borði út úr kjördæmamálinu. Sá er eldurinn heitastur, sem á sjálfum brennur, segir íslenzkur málsháttur. Alþfl. hefur í undangengnum kjördæmamálum talið sig boðbera réttlætisins og jafnan verið að rétta hlut sinn. Í átökum þessum hefur flokkurinn sífellt gengið til þurrðar. Spursmálið er nú, hvort þessi riddaralegi flokkur þolir einar, hvað þá tvennar kosningar. En sjálfsagt lifir minningin. Vera má, að í hug einhverra mætra manna verði hún ljúf.

Gegn frv. um hin stóru kjördæmi treysti ég þjóðinni vel til að standa, svo að það verði ekki að lögum. Annars afneitar hún frelsi sínu og áhrifamætti sínum á stjórnarfar og fullkomið lýðræði með tilliti til staðhátta í landinu. Ég veit, að íslenzk þjóð er reiðubúin að tileinka sér í næstu kosningum um kjördæmamálið hið enska orðtak: „Þegar býður þjóðarsómi, þá á Bretland eina sál.“ Íslendingar úti um dreifðar byggðir landsins, sem kosningarrétt hafa, munu sameinast gegn þessu gerræði og eiga eina sál, þegar þjóðarsómi ættjarðarinnar og héraðanna krefur syni og dætur til að fylkja sér undir merki þess heilaga réttar, sem þeim er fenginn með atkvæðisréttinum við kjörborðið. Fólkið á ekki að þjóna flokkum á Alþingi, flokkar Alþingis eiga að þjóna fólkinu um land allt, sem elskar, byggir og treystir á landið.

Alþýðuflokksbroddunum fór líkt í viðskilnaðinum við Framsfl. í des, eins og Hrafni við Gunnlaug ormstungu forðum, þá er Gunnlaugur lét það eftir beiðni Hrafns að færa honum særðum drykkjarvatn í hjálmi sínum til að svala þorsta hans. Í stað þess að neyta þorstadrykkjarins hjó Hrafn með sverði í höfuð Gunnlaugi. Í stað þess að sýna Framsfl. velvild og fulla einlægni í skiptum fyrir þá hjálp, sem Framsfl. veitti Alþfl. í síðustu kosningum, ræðst þessi þingflokkur á höfuðvígi okkar, til þess eins, að því er virðist, að rýra gildi alls þess, sem flokkur okkar hefur bezt gert íslenzku þjóðfélagi til gagns og uppbyggingar. Ekki eru svona aðfarir giftusamlegar, og lítilla heilla má af þeim vænta til frambúðar.

Stjórnmálaflokkur, sem miðar lífsskilyrði sín aðeins við lítinn hluta Reykjanesskagans, af því að foringjar flokksins eru þar embættismenn í góðu yfirlæti, getur átt eftir að komast að raun um það, að ættjörðin frelsast ekki við svo þröng sjónarmið ráðandi manna þjóðfélagsins. Þó að höfundar kjördæmamálsins ætli nú að flytja allt vald landsins til fjölmennisbæjanna á Suðurnesjum, getur svo farið, að þjóðin verði að nota allt sitt land og eigi þó fullerfitt með að finna lífsskilyrði fyrir alla.

Með stóru kjördæmunum er aukið vald flokksstjórna um val frambjóðenda, og kjósandinn á um ekkert að velja nema flokka. Valdið dregst þannig frá landsbyggðinni á margan hátt til höfuðstaðarins.

Það er eftirtektarvert, að í nál. meiri hluta stjskrn., eftir miklar bollaleggingar um ágæti frv. og eftir tilvitnanir í einvaldskonunga, sem valdir eiga að vera að kjördæmaskipuninni, sem nú er í gildi á Íslandi, segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Ekki þarf að eyða orðum að þeirri fjarstæðu, að kjördæmi séu lögð niður með því að sameina þau og gera þau þannig sterkari.“ Síðan kemur: „Sameinaðir stöndum við, sundraðir föllum við.“ Þarna er notuð tvítala, en ekki fleirtala. Það er auðséð, að þessir „við“ eru Sjálfstfl. og Alþfl., sem búast við að falla sundraðir. Ætli þetta þýði ekki það, að þeir ætli að ganga sameinaðir til kosninga í sumar í algeru hræðslubandalagi?

Höfuðástæða fyrir sameiningu Alþfl. og Sjálfstfl. hér í Reykjavík er nú orðin auðskilið mál. Nái þeir að breyta kjördæmum landsins samkv. frv., sem fyrir liggur, er aðeins eftir síðasti áfanginn, og hann er ekki svo erfiður. Þessir tveir flokkar hafa saman meiri hluta á Alþingi. Ráðherraflokkurinn getur a.m.k. fengið að hafa 3 ráðherra áfram, og einum má hagræða. Þá er óvandur eftirleikurinn við Framsókn og kommúnista. Þjóðinni verður tjáð, að öll óhöpp þjóðfélagsins séu þeim að kenna. Málflutningur þeirra verður nefndur nöldur og þvættingur, sem sé utan við raunveruleikann.

Þegar einn af höfundum hræðslubandalags Sjálfstfl. og Alþfl. er búinn að prédika, að óþarfi sé að vera að ausa vegafé og fleiru út um sveitir landsins, þá gerist hann 1. flm. frv., sem heimilar ríkinu að taka lán til eins vegar, sem hann hefur áhuga fyrir, að upphæð um 3/4 af öllu nýbyggingarfé á fjárlögum til allra vega í landinu. Þetta er réttlætið, sem koma skal.

Ég get ekki almennilega komið auga á það, að verkalýður landsins fái bættan rétt á Alþingi, þó að Sjálfstfl. ráði allri stefnu þjóðmála í landinu, en Alþfl.-broddunum sé fengin lykilaðstaða með þeim, á meðan þeir eru að venjast því að heita sjálfstæðismenn. Hvað er nú orðið af glæsilega hugsjónamanninum, sem einu sinni var, sem ég nefndi uppreisnarforingja áðan, ef hann ætlar að hjálpa til við þetta ódæði?

Þeir aðilar, sem flytja þetta mál nú, hljóta að gera sér það ljóst, að verði kjördæmum landsins breytt eins og frv. gerir ráð fyrir, þá er hættan á einræðisvaldi Sjálfstfl. á næsta leiti. Það getur því komið fyrir, að þjóðin fái nóg af slíkri yfirstjórn mála sinna, um það er lýkur, og ekki er annað sjáanlegt, en að það valdi því, að land og þjóð glati fyrir fullt og allt sjálfstæði sínu og frelsi, ef sá flokkur fær einn völd á Íslandi.

Enn er hægt að leysa kjördæmamálið á allt annan veg, en hér er áformað. Ástæða er til að fresta málinu enn um nokkur ár og kosta kapps um að leiða það til lykta á þá lund, að meiri þjóðareining grundvallist við lausn málsins og deilur um þjóðfélagsrétt einstaklinga, hvar sem þeir búa á landinu, hverfi með öllu. Ég er þess fullviss, að þjóðin sjálf bjargar þessu máli með afstöðu sinni í næstu kosningum á komandi sumri, þannig að sóma lands og þjóðar verði borgið og hollvættir lands og þjóðar megi enn sem fyrr vernda rétt allra Íslendinga, hvort sem er til sjávar eða sveita.