24.04.1959
Neðri deild: 115. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1353 í B-deild Alþingistíðinda. (1186)

144. mál, stjórnarskipunarlög

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. Enn er kjördæmamálið komið hér á dagskrá á hv. Alþingi. Enn er hafið heróp til aukinnar sundrungar og innbyrðis átaka innan þjóðfélagsins, og enn er hér á hinu háa Alþingi hafið starf eftir hinni frægu forskrift: Fyrst ég, þá flokkurinn og síðast þjóðin.

Engum blandast hugur um, af hvaða rótum og í hvaða tilgangi frv. þetta er flutt fyrst og fremst og aðallega. Það eru eigin hagsmunir og valdadraumar vissra manna og flokka, sem þar eru undirrótin, en engin réttlætiskennd eða umbótaþrá, eins og látið er í veðri vaka aðra stundina a.m.k. Og þetta kemur berlegar í ljós, þegar við athugum þá aðalflokka, sem að þessu frv. standa og komið hafa því af stað að þessu sinni.

Annar þessara aðalflokka er lítill flokkur, sem að mestu er kominn hér með þingfylgi sitt á lánuðum fjöðrum úr síðustu kosningum, en var annars að því kominn að veslast upp og deyja og sér nú einu björgunar- og lífsvon sína í því að breyta kjördæmaskipun landsins. Allir vita, hvað honum gengur til um flutning þessa máls. Hitt er stór flokkur, sem um nokkurt skeið hefur dreymt um að ná algeru meirihlutavaldi yfir þjóðinni og gert svipaðar tilraunir með kjördæmaskipunina áður í þessum tilgangi, og glöggt er það enn, hvað þeir vilja. Með öðrum orðum: Annar ætlar sér að bjarga lífinu um nokkurt skeið a.m.k. með þessum hætti. Hinn ætlar að gerast alráður í landinu með því að draga þetta pennastrik í stjórnskipunarlög landsins. Allir, sem til íslenzkra stjórnmála þekkja, vita, að þetta er undirrótin fyrst og fremst, þótt fjálglega sé talað og fullyrt fast um réttlæti og jafnvel bræðralag. Já, það er sannarlega ekki ófélegt, bræðralagið, sem að þessu brölti stendur, og þá eru bræðraböndin víst af óeigingjörnum og hreinum hvötum fundin. Hver skyldi vera sú barnslega sál á Íslandi, sem slíku trúir eða jafnvel lætur sér það til hugar koma? Ætli þetta bræðralagstal sé ekki eitthvað svipað og nú, þegar Kinverjar ráðast inn í Tíbet og segjast vera komnir til að frelsa íbúana? Frá hverju? Frá sjálfum sér, að manni skilst. Ætli það sé ekki svipað og þegar Hitler var að frelsa ýmis hinna minni landa og vildi innlima þau í stórt efnahagsbandalag í Evrópu eða þegar Rússaveldi hefur innlimað Eystrasaltslöndin og annað slíkt? Allt á það að vera til að frelsa þessa vesalinga, sem geta ekki bjargað sér sjálfir, — og frelsa þá frá hverju? Frelsa þá frá sjálfum sér, m.ö.o.: svipta þá frelsinu.

Þetta er nú í þriðja sinn, sem þessir flokkar grípa til þessa leiks á örfáum árum, og alltaf er ranglætið orðið því meira eftir örfá ár og þörfin brýnni til breytinga, eftir því sem þeir segja, sem fyrir þessum breytingum hafa staðið. Halda mætti því, að hér væru ekki sérlega forvitrir og framsýnir menn að verki, þegar þessi verður raunin á æ ofan í æ. Ætli það verði ekki eins nú? Svo halda a.m.k. tveir þessara flokka, sem að þessu standa nú, að þetta sé aðeins áfangi og enn þurfi að breyta eftir litla stund, ný bylting að koma, enda mun það sannast mála, að jafnan er hugsað um flokkslegan stundarhag fyrst og fremst, þegar til slíkra breytinga er stofnað, en ekki hvað þjóð og framtíð muni hollast og happasælast vera, og mun svo enn að þessu sinni, eins og líka berlega hefur komið í ljós í blöðum og málgögnum þessara flokka undanfarið. Þar er allt við það miðað, hversu flokkarnir, eins og þeir eru í dag, muni uppskera af þessum breytingum og þessu byltingarbrölti, sem hér er á ferðinni, og menn gæta þess lítt, að flokkarnir breytast og fólkið mun skipa sér þar eftir breyttum aðstæðum og málefnum, en þjóðfélagið þarf sitt fasta skipulag, sem ekki er eitt í dag og annað á morgun, eftir því sem einstakir menn eða flokkar telja sér bezt henta hverja stundina og sínum hagsmunum. Slíkt er að níðast á stjórnskipunarlögum landsins.

Byltingar t.d. í Suður-Ameríku eru álíka tíðar og kjördæmabyltingar hér hjá okkur. Þær hafa ekki, þessar byltingar hjá Suður-Ameríkuþjóðum, orðið þessum þjóðum til mikils frama eða þroska. Þvert á móti hefur slíkt staðið mjög í vegi fyrir félagsmála- og menningarstarfsemi þeirra.

Það er annars nógu merkilegt að gefa því gaum, að ávallt er stofnað til þessara kjördæma- og stjórnlagabyltinga hér hjá okkur, þegar þjóðin er veikust fyrir og stendur höllustum fæti í baráttu sinni með allan hag sinn og öll efni sín, þegar henni ríður mest á að einbeita vilja sínum og kröftum til lausnar mikilla og erfiðra vandamála, sem steðja að henni. Það er uppgjöfin við lausn þessara mála, það er þreytan við að einbeita kröftunum til lengdar, til að sigrast á erfiðleikunum, sem hér er að verki og lýsir sér. Þá er hlaupið til þessara byltinga á stjórnskipunarlögum landsins og hitt látið eiga sig. Breytingin 1933 var gerð á mesta kreppu- og atvinnuleysistíma, sem yfir þjóðina hefur gengið, frá því að hún fékk sjálfsforræði. Breytingin 1942 var gerð mitt í róti síðustu heimsstyrjaldar, þegar hér voru slíkir óvissu- og upplausnartímar, að rétt áður hafði verið talið nauðsynlegt að fresta lögákveðnum kosningum og þingmennirnir höfðu framlengt umboð sín til að forðast innri átök meðal þjóðarinnar, meðan svo stóð um hagi hennar, enda má segja, að upp af þeim átökum 1942 spretta erfiðleikar fjárhagsmálanna fyrst og fremst fyrir alvöru og fara verulega að hvíla þungt á þjóðinni, þeir erfiðleikar, sem við hefur verið að stríða æ síðan og nú er gefizt upp við og enn farið með byltingu á stjórnarskránni að bylta henni og breyta.

Þetta er alltaf sama sagan, og nú eru þeir erfiðleikar orðnir slíkir, að öllu efnahags- og atvinnulífi þjóðarinnar stafar voði af, og allir eru farnir að sjá og skilja, að þeir verða ekki yfirunnir nema með samstilltu átaki þjóðarinnar, skilningi hennar og fórnarlund. Þá er gefizt upp hreinlega og stofnað til nýrrar byltingar á kjördæmaskipuninni og stjórnlögum landsins, en vandi efnahagsmálanna látinn eiga sig. Hann er vafinn í reyk og blekkingar um stund, eins og afgreiðsla fjárlaganna fyrir nokkrum dögum er ljósast vitni um, þótt öllum sé ljóst, að vandinn og erfiðleikarnir fara hraðvaxandi, meðan þjóðinni er sigað í þessa stjórnarfarsbyltingu, sem hér er til stofnað með þessu frv. Þetta eru vinnubrögðin. Þetta er víst þjóðhollusta. Ég skil ekki, hvernig hv. flm. ætla að verja þetta fyrir þjóðinni, eins og högum hennar er nú komið. Það er alveg víst, að hér er ekki verið að hugsa um þjóðarhag fyrst og fremst. Ég held, að hann komi meira að segja síðastur, eins og ég gat um í upphafi, og ég held meira að segja, að réttlætið og jafnaðarhugsjónin sé þar mjög aftarlega líka, eins og ég skal nú lítillega víkja að.

Afnema á öll hin gömlu kjördæmi nema höfuðstaðinn einan, hræra síðan saman öllu í fáum, stórum kjördæmum án nokkurs tillits til atvinnuhátta og aðstöðu fólksins, sem innan þeirra býr, fara síðan að smala hverri sál í flokksdilkana, svo að ekkert tapist frá þeim, sem eru að berjast fyrir lífi sinu, eða þeim, sem eru að sækja til óskoraðs valds, og sést þá bezt, að umhyggjan er mest fyrir flokkunum, sem bera þetta fram, en ekki fyrir fólkinu, sem á að njóta þess. Það á að fórna forsvarsmönnum sínum inn í þennan allsherjarhrærigraut, sem til er stofnað, því að svo hlýtur óumflýjanlega að fara, a.m.k. þar sem fólkið hefur þeirra jafnvel mesta þörf, eins og í hinum fámennari og afskekktari byggðarlögum og þar sem erfiðleikarnir eru mestir í lífsbaráttunni hér á landi.

Við skulum taka t.d. hið fyrirhugaða Suðurlandskjördæmi eftir frv., eins og það liggur fyrir, þar sem ég þekki bezt til staðhátta. Þar á að hræra saman eða gifta, eins og sumir vitringar vilja kalla það, sem að þessu frv. hafa staðið, — þar á að hræra saman eða gifta Vestur-Skaftafellssýslu, Rangárvallasýslu, Árnessýslu og Vestmannaeyjar. Þessari samsteypu eru ætlaðir 6 þingmenn, sem kosnir eru sameiginlega með hlutfallskosningu. Nú hafa þessi kjördæmi að vísu hins vegar 7 þingmenn, þ.e.a.s. einn þeirra er uppbótarmaður, og er því í raun og veru fækkað um einn, og hlýtur sú fækkun vitanlega að lenda fyrst og fremst á fámennasta kjördæminu, sem er Vestur-Skaftafellssýsla. Hún mun algerlega missa þingmann sinn í þessum graut, um það er ekki nokkur vafi, svo réttlátt sem það er. Ég hef sjálfur verið fulltrúi á þingi fyrir þetta hérað eitt kjörtímabil, er þar uppalinn, og ég þekki því vel aðstöðu þess til afkomu og framleiðslu og til lífsbjargar yfirleitt. Ég þori að fullyrða, að enginn hluti þessa fyrirhugaða Suðurlandskjördæmis á við neitt svipaða erfiðleika og erfiða aðstöðu að etja eins og þar. Og það er enginn jöfnuður og það er ekkert réttlæti í því að leggja atkvæði kjósenda í Vestur-Skaftafellssýslu til jafns við atkvæði kjósenda þéttbýlustu staða Suðurlandsundirlendisins og Vestmannaeyja. Svipað er í raun og veru að segja um Rangárvallasýslu. Hún missir að mestu möguleikann til annars þingmanns síns, þegar stundir líða. Hún hefur einfaldlega ekki meira atkvæðamagn í þessum graut, þessum allsherjar hrærigraut, sem hér er á borð borinn, heldur en fyrir rúmlega einum manni, og sér því hver maður, að það hlýtur svo að fara. Og hver getur svo jafnað saman aðstöðu til lífsbjargar þar, í Rangárhéraði, og í þéttbýlinu vestar, þar sem er hafnlaust hérað með miklar vegalengdir til allra aðdrátta og nálega eingöngu strjálbýli og býr því við meiri félagslega örðugleika, en héruð þau og staðir, sem styttra eiga til hafnar að sækja og þar sem þéttbýlið er mest. Yfirleitt má um fyrirhugað Suðurlandskjördæmi segja, að vart sé hægt að hugsa sér meiri andstæður í atvinnuháttum og aðstöðu allri, heldur en innan þess verða: Vestmannaeyjar, sem eingöngu lifa af sjónum, og svo sveitirnar, sem hvergi komast á sjóinn og eingöngu stunda landbúnað, að undanskildum sjávarþorpum Árnessýslu, sem segja má að stundi hvort tveggja. Annars vegar eru Vestmannaeyjar, þar sem fólkið er allt saman á örlitlum bletti og hefur því hina beztu aðstöðu til allra félags- og menningarmála, sem hugsazt getur. Með stundarfyrirvara er þar hægt að kveðja alla kjósendur saman og þeir að ná saman til að ráðgast um hagi sína. Þeir þurfa aðeins einn skóla, eitt eða tvö samkomuhús, litla sem enga vegi, engar brýr, og svo má lengi telja. Og svo eru hins vegar sveitirnar, þar sem hver einstakur hreppur og sveit verður að sjá sér fyrir þessu öllu, margfaldir erfiðleikar til allrar félagslegrar starfsemi og menningar, til aðdrátta og til samskipta allra innbyrðis, margbrotið og fjölbreytt vegakerfi, mörg vatnsföll og mikil brúaþörf, og svo má lengi rekja um þann óhemju aðstöðumun, sem er hjá kjósendum í þeim héruðum, sem hér er um að ræða. Hver getur litið fram hjá þeim aðstöðumun, sem felst í þessu, og talið sig, um leið og hann gerir það, vera að fremja réttlæti? Þó mun þessa munar gæta jafnvel enn meira í sumum hinna samsteypukjördæmanna, sem fyrirhuguð eru.

Tökum til dæmis aðstöðu kjósenda í Norður-Þingeyjarsýslu og á Akureyri, á Siglufirði og afskekktustu og fámennustu sveitum í Skagafirði og Húnavatnssýslu, á Ísafirði og á Ströndum eða afskekktustu sveitum Barðastrandarsýslu. Er hér um jafnrétti að ræða og jafna aðstöðu? Hvaða heilvita maður getur haldið því fram, og hvaða heilvita maður trúir því ? Nei, ef þetta á að leggja að jöfnu og telja réttlæti og jafnrétti, þá held ég, að dómgreindin sé eitthvað orðin úr lagi færð og ekki vanþörf á að hressa þar eitthvað lítils háttar upp á, svo að ekki sé fastar að orði kveðið.

Vitanlega er hér um eitt herfilegasta misrétti að ræða og valdarán frá þeim, sem miður mega sín í þjóðfélaginu og við mesta erfiðleika eiga þar jafnan að etja. Að leggja að jöfnu aðstöðu þéttbýlis og hinna dreifðu byggða til áhrifa og aðstöðu um málefni sin geta þeir einir gert, sem svo eru einsýnir, að þeir þyrftu víssulega einhverra lækninga við. Þeir virðast hafa sett sjónaukann fyrir blinda augað, þegar þeir litu yfir kjördæmaskipun landsins, eins og sagt var um Nelson, hinn fræga flotaforingja Breta, þegar hann vildi ekkert sjá annað en að vinna sigur, hvernig sem horfði í svip. Svo virðist þessum einsýnu flokksstreitumönnum fara, sem þetta frv. flytja og ætla þjóðinni að samþykkja. Þar er bara að vinna sigur fyrir flokka sína í bili og skeyta engu, hvað eru staðreyndir, hvað er rétt og hvað er rangt. En ég held, að það verði þjóðinni dýrkeyptur sigur, líka þessum einsýnu forustumönnum. Og ég get þá ekki heldur varizt því að varpa þeirri spurningu fram: Yfir hverju hafa þeir verið að kvarta, sem í þéttbýlinu búa? Hefur verið troðið á rétti þeirra hingað til? Hvernig stendur á, að fólkið sækir til þessara réttlausu og réttlitlu staða, og hvernig stendur á, að lífskjörin og þægindin eru þar mest og bezt? Hvaða ranglæti hefur byggt þar upp? Hallar þar ekki orðið nógu mikið á í þjóðfélagi okkar, þótt ekki sé svo losað á öllum gjörðum, að alveg snarist yfir um? Ég held það, og ég held, að allur fjöldi þjóðarinnar sé mér samþykkur í því. Ég held, að hér sé um eitt herfilegasta frumhlaup að ræða, sem haft getur hinar alvarlegustu afleiðingar fyrir þjóðfélagið allt, fyrir þéttbýlið engu síður en dreifbýlið. Ef á að fara að sverfa mjög að kjörum þess fólks, sem í dreifbýlinu býr, þá mun uppgjöfin þar koma innan stundar, meira en verið hefur.

Það er enginn sérstakur flokkur, sem á kjördæmin, það er hreinn misskilningur, allir hafa jafna aðstöðu til að vinna þau. Og þó að þau treysti þeim bezt, sem bezt vinna fyrir þau hverju sinni, þá á ekki að setja á þau neinar hefndarráðstafanir fyrir það, heldur á hver og einn að reyna að vinna þeim svo, að traust og fylgi fáist. Svo starfar rétt lýðræði, en ekki með byltingum á stjórnarskrá og árásum á grundvallarhagsmuni þeirra, sem höllustum fæti standa í þjóðfélagi okkar.

Hvaða heilvita maður getur neitað því, að þjóðin hefur veitt Reykjavík t.d., tökum einn hluta af þéttbýlinu, veitt henni langsamlega mestan rétt og bezta aðstöðu allra staða á landinu með því að gera hana að höfuðstað sínum? Þetta er líka viðurkennt hjá öllum öðrum þjóðum, að sú aðstaða er ekki neitt lítils virði að vera höfuðstaður landsins. Hún er þannig aðsetur ríkisstjórnarinnar og Alþingis. Hér eru allar helztu menntastofnanir þjóðarinnar, bankar og hvers konar stofnanir, sem veita bæði fjárhagslegan og félagslegan styrk á fjölmörgum sviðum. Hingað verða allir að leita með flest málefni sín, sem úrlausnar þurfa, og ætti hv. þm. utan af landsbyggðinni a.m.k. að vera nokkuð um það kunnugt, þar sem starf þeirra er að mjög miklum hluta í því falið að annast slíka fyrirgreiðslu fyrir kjósendur sína, sem heima eru. Þess þurfa ekki þeir, sem eru búsettir hér í Reykjavík og hafa þetta allt hjá sér. Hingað hafa menn flutzt hópum saman til að veita börnum sínum aðstöðu til menntunar og frama, sem hvergi var annars staðar aðstaða til á landinu, og þannig má lengi telja. Það eru fjöldamargir af jafnvel duglegustu og sterkustu mönnum sveitanna, sem til Reykjavíkur hafa flutzt eingöngu vegna þessa, og þekki ég marga jafnvel úr minni sveit, enda sýnir aðsóknin, að menn telja sig ekki vera að flytja til einhvers réttlætis- og mannréttindaskerðingarstaðar, er þeir axla pjönkur sínar og halda hingað til höfuðborgarinnar. Það er nú eitthvað annað. Hér er aðstaða umfram öll önnur héruð á landinu. Og þó hafa fulltrúar hinna dreifðu byggða enn einu sinni borið það fram að auka hér nokkuð á, ef þær aðeins fá að vera í friði með sína fulltrúa, sem þær geta sannarlega ekki án verið, ef þær eiga að hafa nokkur áhrif um lausn sinna eigin málefna hér í höfuðstaðnum og á hv. Alþingi.

Einn athugull sjálfstæðismaður heima í mínu héraði lét svo um mælt nýlega: Ég vil heldur hreinlega láta af hendi annan þm. þessa kjördæmis til þéttbýlisins, ef við fáum svo að halda hinum, heldur en leggja héraðið niður sem sjálfstætt kjördæmi. — Og sjálfur er ég á þeirri skoðun, að mikið sé til í þessu. Annar tapast hvort sem er í þessum alþjóðarblöndunarpotti, einfaldlega vegna atkvæðamagns, sem verður allsráðandi í framtíðinni, ef blöndunin kemst í framkvæmd, og hinn þm., sem eftir yrði, verður að taka einnig þátt í kapphlaupinu um þéttbýlisatkvæðin, því að þar verður líklegast til fanga og auðveldast að ná til sem flestra kjósenda, eins og allir skilja. Þetta er bróðurhöndin, sem að okkur Rangæingum er rétt, og sízt er hún hollari eða hlýrri hvað fjölmörg eða flest dreifbýliskjördæmi landsins snertir. Það mun réttara að mínum dómi að nefna hana hönd undirferla, fláræðis og svika, ef af gerhygli er á málin og málsmeðferðina alla litið.

Ég hygg, að ekkert hérað hafi kosið við síðustu kosningar fulltrúa fyrir sig á þing til að leggja kjördæmin niður og þó allra sízt þá, sem skriðu þar á lánuðum fjöðrum frá öðrum flokksmönnum en sínum eigin. Ef framferði þeirra er ekki svik á trúnaði við kjósendur sína og fullkomin misnotkun þess valds, sem þeir hafa fengið þm. sínum í hendur, þá veit ég ekki, hvað á að kalla það. Ég þekki ekki annað orð í íslenzku máli, því að þá er heiðarleikahugmyndin og drengskapar farin að verða einhver önnur en hingað til hefur verið í þessu landi. Ekki er ólíklegt, að þeir verði þess að einhverju varir, er enn og aftur er leitað á náðir kjósenda í landinu. Svo vona ég líka að fari.

Nei, mál þetta allt er ofur einfalt að átta sig á, þegar umbúðum fláræðis og fagurra orða er af því flett, og íslenzkir kjósendur munu áreiðanlega vera um það færir að gera það.

Dreifbýlið, sem lítt hefur treyst á forsjá þessara flokka, sem að þessu þokkamáli standa, einfaldlega af því að þeir hafa slælega hugsað um hagsmuni þess, það á að lama og svipta áhrifamætti sínum með því að sameina það þéttbýlinu, þar sem kjósendur hafa verið flokkum þessum þægari í taumi fram til þessa. Þetta er einfaldlega málið, eins og hver einasti maður hlýtur að sjá það. Og þetta á að framkvæma einum flokki til lífs, öðrum til aukinna valda og áhrifa í svip, og jafnhliða er svo ekki hægt að fela þá illgirnislegu tilhugsun og tilhlökkun, að nú skuli náð sér niðri á víssum flokki, sem alla tíð hefur verið óþægur ljár í þúfu, þegar um ábyrgðarleysi þessara flokka hefur verið að ræða, og þeim helzt til kröfuharður um hagsmuni þeirra, sem erfiðasta eiga aðstöðuna í þjóðfélaginu. Það hefur svo sem ekkert verið farið leynt með það, að það eigi að hnekkja þessu valdi. Hugsa þeir með þessu sjálfsagt eitthvað á þá leið, eins og hinn danski embættismaður, sem sagði: Nú skal Gutti setja ofan — í viðskiptum sínum við hérlendan embættismann. Þannig hugsa þeir til Framsfl. í þessu sambandi og hyggjast þannig einnig hvetja sína liðsmenn í dreifbýlinu til að vinna þetta skemmdarverk á sínum eigin hagsmunum og sinni eigin aðstöðu.

Það heppnast stundum vel að skírskota til hinna lægri hvata, þegar verið er að villa mönnum sýn og fá þá til óþurftarverka. Svo vona ég og veit ég að verður ekki þessu sinni. Og ekki hef ég trú á því, að margir láti blekkjast hér. Sannleikurinn er sá, að Framsfl. þarf engu að kvíða í þessu efni. Hann mun áfram eins og hingað til vinna sér kjósendafylgi á málefnum og verkum sínum, en ekki með byltingum og breytingum á kjördæmaskipuninni, eftir því sem hentast er hverju sinni. Á slíkri vinnuaðferð hefur hann enga trú, og hann veit, að hún mun fljótlega koma þeim flokkum í koll, sem beita henni. Hann hefur trú á dómgreind íslenzkra kjósenda, og hann veit, að einnig hér muni viðnám veitt af þeim, sem að er vegið þessu sinni, og það svo, að eitthvert hik muni a.m.k. geta komið á, í liði skemmdarverkamannanna, áður en þessum áformum er fram komið. Þeir ættu að minnast málsháttarins, sem segir: Ekki er sopið kálið, þótt í ausuna sé komið. Og þótt foringjum flokka þeirra, sem mest eiga fylgi í þéttbýli landsins, hafi tekizt að koma sér saman um samsæri við helztu lífshagsmuni dreifbýlisins, þá er málið ekki þar með til lykta leitt. Það er alveg misskilningur, eins og þeir hafa verið að gefa yfirlýsingar um í oflæti sínu og valdsmannslátum undanfarandi í blöðum sínum og ræðum, að það sé þegar leyst, að það væri í raun og veru alveg óþarfi að spyrja kjósendurna að þeirra dómi. Það er oft, að þeir verða fyrir vonbrigðum, sem mikið láta og halda sig mikla menn og meiri en þeir eru.

Dreifbýlið á enn þau áhrif að réttum lögum í þessu landi, að einhverju getur skeikað í útreikningum, áður en yfir lýkur um afgreiðslu þessa óþurftarmáls. Enn er einræðishneigðin ekki orðin svo sterk í þessu landi, að það sé alveg óskeikult, að vissum mönnum, þótt mikla telji sig, nægi það eitt að segja: Svo skal verða — og það verði svo, eins og orð ritningarinnar greina frá um sköpun heims í árdaga. Og vonandi fá einstakir menn eða flokkar aldrei slíkt vald yfir þjóðinni. Ef svo færi, þá er frelsi hennar og framtíð í voða. Hún mun því byrja á að vísa þessu valdboði einsýnna manna, einsýnna flokksstreitumanna, heim til föðurhúsanna.