24.04.1959
Neðri deild: 115. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1367 í B-deild Alþingistíðinda. (1188)

144. mál, stjórnarskipunarlög

Benedikt Gröndal:

Herra forsetl. Ég hef við 1. umr. þessa máls hér í deildinni gert grein fyrir höfuðsjónarmiðum mínum til þeirra stóru drátta í þessu máli og mun því við þessa umr. aðeins gera að umræðuefni nokkur einstök atriði af því, sem andstæðingar frv. hafa hér fært fram og ég tel fyrir minn hlut sérstaka ástæðu vera til að nefna.

Hv. síðasti ræðumaður talaði mikið um helgislepju hér áðan. Það kann að vera, að hún sé nokkur á okkur, sem flytjum þetta mál. En ég held, að hlutlaus áhorfandi mundi komast að þeirri niðurstöðu, að hún væri þá ekki síður á þeim, sem á móti því berjast.

Hann talaði mjög á móti hlutfallskosningum og leitaðist við að færa ýmis rök fyrir því, að við, sem viljum taka upp hlutfallskosningakerfið um allt landið og hafa eitt og hið sama kerfi fyrir alla landsmenn, afneitum kenningum okkar í ýmsum atriðum í reynd. En ég vil benda á það, að hv. framsóknarmenn, sem allir, hver einasti, draga fram það, sem þeir telja vera rök gegn hlutfallskosningum, leggja í till. sínum nú hvorki meira né minna en til, að meiri hl. þjóðarinnar eigi að búa við þetta kerfi, sem þeir eru sí og æ að svívirða og rægja og telja óalandi og óferjandi. Það er einkennilegt hjá svo stórum stjórnmálaflokki, sem er að tala um það, að aðrir séu ekki sjálfum sér samkvæmir, að tala hér í þinginu, í blöðum sínum, við hvert tækifæri á móti hlutfallskosningum, en gera í samþykktum síns eigin flokksþings og í sínum eigin till., sem hér liggja fyrir, þá till. þrátt fyrir það, að þetta vonda kerfi skuli vera nógu gott, fyrir meira en helming þjóðarinnar.

Þetta finnst mér ekki vera sterkur málstaður. Og ef menn vilja taka afdráttarlausa afstöðu með eða á móti hlutfallskosningum annars vegar eða svokölluðum meirihlutakosningum í einmenningskjördæmum hins vegar, þá ættu menn, ef þeir vilja velja algerlega á milli, velja annað, en hafna hinu með öllum rökum, sem þeir finna, þá ættu þeir a.m.k. að reyna að haga till. sínum svo, að þær væru í samræmi við það, en ekki að ætla meiri hluta þjóðarinnar það kerfi, sem þeir álíta vera gersamlega ónothæft.

Annars ætlaði ég aðallega að fara nokkrum orðum um örfá atriði úr þeirri löngu og að mörgu leyti skilmerkilegu og góðu ræðu, sem hv. þm. A-Sk. (PÞ) flutti hér fyrr í dag.

Ég hafði við 1. umr. gert nokkuð að umtalsefni þau samtök, sem áttu rætur sínar á Austur- og Norðurlandi um það bil sem lýðveldið var stofnað og kalla mætti fjórðungahreyfingu eða fylkishreyfingu. Hv. þm. reyndi að hrekja það, sem ég hafði um þetta sagt, og draga fram rök fyrir því, að kjarni þessarar hreyfingar hafi verið algerlega gagnstæður því, sem ég benti á.

Við skulum athuga nokkur atriði í sambandi við þetta örlítið nánar. Ég lagði á það höfuðáherzlu, að það, sem þeir menn, sem stóðu að þessari hreyfingu, hafi viljað, hafi verið að fá stærri og sterkari félagslegar heildir í landinu. Við skulum því byrja á því að athuga, hvað það var, sem þeir vildu, ekki nákvæmlega bókstaf tillagna þeirra, við getum athugað það á eftir, heldur hvaða takmarki þeir ætluðu að ná með þeim till., sem þeir lögðu fram. Og ég get byrjað á því að lesa örfáar línur — með leyfi hæstv. forseta — úr höfuðmálgagni þessarar hreyfingar, sem var tímaritið Gerpir. Þar segir m. a. í sept. 1947:

„Það er einkum tvennt, sem fólkið í dreifbýlinu vonar að vinna við setningu nýrra stjórnlaga:

1. Að komið verði á fót úti á landsbyggðinni nýjum félagslegum heildum, nægilega máttugum til þess, að þær geti veitt öflugt viðnám hinni taumlausu útþenslu höfuðborgarinnar.“

Þetta er nú skilgreining þessa ágæta blaðs á fyrsta liðnum í því, sem Austfirðingar ætluðu sér að fá fram með þessari hreyfingu sinni. Það er hægt að finna í skjölum þeirra og skrifum fjöldamargt fleira, sem styður þetta sama. Einn af forustumönnum þessarar hreyfingar flutti mikið erindi á fundi Sambands íslenzkra sveitarfélaga á Akureyri 1948, og þar talar hann um, að hið danskættaða stjórnarform hér á landi hafi drepið niður alla sjálfstæða byggðastjórn í landinu. Og höfuðtakmarkið, sem hann vill fá fram með breytingum, er að stofnsetja úti á landsbyggðinni stærri, sterkari og sjálfstæðari félagsheildir. Þessi orð, sem hv. framsóknarmenn hafa eftir mér haft hér, eru ekki mín orð, heldur, eins og fram kom í samhengi minnar ræðu, beint tekin úr munni forustumanna þessarar hreyfingar fyrir austan.

Ég gat þess beinlínis í minni ræðu og dró það ekki undan, að í till. sínum hafi Austfirðingar lagt til, að önnur deild Alþingis væri kosin í einmenningskjördæmum. Það dró ég alls ekki undan, enda er það staðreynd. En hitt þótti mér athyglisvert, að strax á eftir segja þeir það, og ég get fært því stað víða úr þeirra till., að ef það fæst ekki, ef ekki fást einmenningskjördæmin, þá vilja þeir fá stór kjördæmi, jafnvel að fimmtungarnir verði hver sitt kjördæmi.

Þetta finnst mér sanna, að þessum mönnum þótti tilhugsunin um fá kjördæmi, en stór, alls engin goðgá. Þetta voru menn, sem börðust fyrir þessum málum í mörg ár, skrifuðu mikið um þau og sýndu það með skrifum sínum og ræðum, að þeir voru þrautkunnugir því, sem þeir voru að tala um. En þeir komu ekki auga á þær miklu röksemdir um þau landeyðingaráhrif, sem andstæðingar frv. nú telja að slík skipan mundi hafa. Fyrir þeim vakti það öfuga, að skapa heildir, sem gætu stöðvað sókn þéttbýlisins hér á suðvesturhorninu, og þeim fannst, að þetta væri leið, sem til greina gæti komið til þess að ná því takmarki.

Ég leyfði mér að segja það í ummælum um þessa hreyfingu, að þessir menn hafi viljað afnema sýslurnar, en hv. þm. A-Sk. véfengdi þetta og sagði, að þeir hafi hvergi ætlazt til, að sýslurnar yrðu lagðar niður.

Í þessu sama blaði, að ég hygg, sem ég hef áður vitnað í, eru birtar 1947 ýtarlegar till., sem samþykktar voru á fjórðungsþingi Austfirðinga, sem að því sinni var haldið á Norðfirði, — það voru ekki aðeins birtar till., heldur ýtarleg grg. frá n., sem hafði undirbúið þær og undirbúið þær mjög vandlega, og með leyfi hæstv. forseta, þá ætla ég að lesa örfáar setningar úr þessu nál., sem fylgdi till. Þar segir svo:

„Ekki er ólíklegt, að þegar fimmtungaskiptin eru á komin, muni sýslunefndir verða lagðar niður og mál þau, er þær fara nú með, hverfi undir fimmtungsþing.“

Og hverjir haldið þið að hafi skrifað undir þetta álit? Hverjir voru í n., sem undirbjó þetta mál fyrir fjórðungsþing Austfjarða, undirbjó till., sem voru samþ., ef ekki óbreyttar, þá nær óbreyttar? Það voru hvorki meira né minna en þrír sýslumenn og bæjarfógetar þar eystra: Hjálmar Vilhjálmsson, Erlendur Björnsson og Lúðvík Ingvarsson. Ekki fannst þessum mönnum tilhugsunin um það að taka upp einhverja aðra skipan á okkar málefnum í landinu, en þær gömlu sýslur vera nein goðgá. Það stendur á prenti í áliti þeirra með till., sem fjórðungsþing Austfjarða samþykkti, hirt í höfuðmálgagni þessarar hreyfingar, svo að það gat ekki leynzt neinum manni, neinum fulltrúa á þessu þingi, að þessar till. miðuðu að því, að þegar hin nýja skipan, fimmtungarnir eða fimmtungaskiptin, kæmist á, þá mundu sýslunefndir lagðar niður.

Ég get nefnt annað atriði þessu sama til stuðnings. Þegar þessari hreyfingu óx ásmegin og farið var að gera samþykktir í svipuðum dúr á Norðurlandi og farið að tala um samtök á Vestfjörðum og hér syðra, þá var að hætti okkar forfeðra fyrir hálfri annarri öld eða fyrir rúmlega öld haldinn Þingvallafundur, á árinu 1949, og í till. þessa fundar er nákvæmlega skilgreint, hver sérmál fylkjanna eigi að vera samkvæmt tillögunum, og það er byrjað á því í upptalningunni að tala um sveitarstjórnarmál og framfærslumál, og síðan koma fræðslumál, samgöngumál, heilbrigðismál, hafnarmál, skipulags- og byggingarmál. Fylkið á að fá fasteignaskatt. Af þessu er augljóst, að það er ekki aðeins rétt, sem hv. þm. A-Sk. sagði hér í dag, fylkin áttu samkvæmt þessum hugmyndum að fá nokkurn hluta af ríkisvaldinu, en þau áttu líka að fá vald frá sýslunum, frá þeim einingum, sem áttu að renna undir fylkin, vegna þess að fyrstu sérmál fylkjanna, sem þeir telja upp, eru sveitarstjórnarmál og framfærslumál, og höfuðtekjur þeirra eiga að vera fasteignaskattur, sem er fyrst og fremst tekjustofn sveitarstjórnanna. Á þessum Þingvallafundi voru ýmsir merkir menn, sem hv. framsóknarmenn meta mikils og eru í þeirra röðum, en ég skal ekki hirða um að nafngreina hér, og er ekki getið um það, að þeir hafi á neinum stað mælt gegn þessum rökum.

Þessi hreyfing var orðin svo sterk og jafnvel í röðum framsóknarmanna sjálfra, að sambandsþing ungra framsóknarmanna, — ég hygg, að það hafi verið þingið, sem þeir héldu á Akureyri 1948, — gerði að sínu kjarnann úr þessari hreyfingu, úr samþykktunum, og samþykkti sem ályktanir ungra framsóknarmanna mörg eða flest höfuðatriðin, sem t.d. Austfirðingar og Norðlendingar höfðu verið með. Þeir vildu að vísu eins og Austfirðingar einmenningskjördæmi helzt, ef það fengist, en einhvern veginn hafa þeir haft á tilfinningunni, að það mundi verða erfitt, eins og hafði verið þá um mörg ár, að fá því framgengt, svo að þeir taka fram, að skipting landsins í fá kjördæmi, en stór, mundi vera bót frá þeirri kjördæmaskipun, sem við búum nú við.

Ég hygg, að það, sem ég hef hér tilfært í sambandi við þessa hreyfingu, sé nægilegt til þess að sýna fram á, að þau orð, sem ég hafði við 1. umr. um þessa hreyfingu, fá staðizt og eru fullkomlega réttlætanleg í sambandi við það, sem þarna gerðist.

Ég vildi gjarnan nefna örfá atriði, sem hv. þm. í sinni ágætu ræðu dró fram úr reynslu annarra þjóða. En ég vil fyrst og fremst benda á það, að hann talaði um land eftir land, og alltaf var niðurstaðan sú, að ekki væri þarna hliðstæða við þær till., sem nú hafa verið lagðar fram hér á Alþingi. Helzt var örlítið hægt að sjá ættarmót á kjördæmaskipun Norðmanna og okkar. Þetta finnst mér vera staðfesting á því, sem ég tel nokkurs virði, að hér er um að ræða lausn, sem hefur verið mótuð algerlega eftir íslenzkum aðstæðum, og það er einmitt þess vegna, sem varla er hægt að finna nokkra beina hliðstæðu nema dálitið svipmót hjá Norðmönnum, og er það ekki óeðlilegt, því að þeir eru okkur allra þjóða skyldastir.

Hv. þm. benti á, að kosningafyrirkomulag hefði átt ríkan þátt í því, að stjórnskipan og stjórnarfar er fastara í Bretlandi, en í Frakklandi. Þessu hafa ýmsir haldið fram. En það hafa líka margir sérfróðir menn haldið hinu gagnstæða fram, að það sé blekking að kenna eingöngu kosningafyrirkomulaginu um þetta, því að þessi vandamál eigi sér miklu dýpri rætur. Og við skulum rétt sem dæmi athuga, hvernig var kosningafyrirkomulagið í Frakklandi, — ja, við skulum taka tímabilið á milli styrjalda, frá fyrri heimsstyrjöldinni til þeirrar síðari. Í fyrstu fjögur eða fimm árin, — ég held, að það hafi verið tvennar fyrstu þingkosningar eftir fyrra stríð, — þá höfðu Frakkar það, sem mætti kalla framsóknarkerfi, kerfl, sem er mjög líkt þeim till., sem Framsfl. flytur nú. Þeir höfðu hlutfallskosningar í stærstu borgunum, einmenningskosningu í kjördæmum þar fyrir utan. Fyrir rúmlega 35 árum hurfu þeir frá þessu, og þeir tóku þá upp, — ég hygg fyrst í kosningunum 1927 — algert einmenningskjördæmafyrirkomulag, og það kerfi höfðu þeir allt fram í byrjun seinni heimsstyrjaldarinnar, og er þó talið, að varla sé hægt að finna dæmi sambærilegt, við hið gífurlega hrun franska ríkisins fyrir Þjóðverjum innan og utan, í byrjun stríðsins. En aðdragandinn að þessu hruni um þetta 25–30 ára tímabil hafði þó verið kosningaskipulag, sem var fyrstu árin hlutfallskosningar í bæjunum, einmenningskjördæmi þar fyrir utan og frá 1927 og fram að 1940 einmenningskjördæmi. Þetta eina litla dæmi gæti orðið til þess, að menn kenndu ekki kosningafyrirkomulaginu að öllu um þetta.

Ég leyfði mér í ræðu minni við 1. umr. að fara með það, sem ég hef lesið einhvers staðar að sé máltæki í frönskum stjórnmálum, að lítil kjördæmi skapi litla þingmenn. Þetta er að vísu betrumbætt í áliti minni hl., því að þeir bæta við: „og að stór kjördæmi skapi stóra þingmenn“, en það sagði ég ekki, svo að það er rangt með farið. Ég vissi alveg fyrir, hvaða mótbárur mundu koma gegn þessu, og það er enginn vandi að finna fjöldann allan af dæmum, sem bæði sanna þetta og afsanna það, ef menn vilja fara að nefna nöfn, því mótmæli ég ekki. En hugsunin á bak við þetta er sú, að í minni kjördæmum sé miklu meiri hætta á því, að sjónarmið einstakra landshluta eða takmarkaðra hópa séu of sterk, þegar sjónarmið þjóðarheildarinnar ættu að vera sterkari, og ég get flutt hér aðra tilvitnun úr stóru amerísku riti um stjórnmál Evrópu, þar sem talað er um orsakir þess, að Frakkland hrundi, að frönsku lýðveldin tvö síðustu hafa hrunið, og þeir telja, að fyrsta ástæðan sé „of náin tengsl milli þingmannanna og kjördæmanna“. M.ö.o.: þm. fengust ekki til að taka á þeim stóru landsvandamálum. Ég geri þessi orð ekki að mínum, en þessar skoðanir eru til.

Hv. þm. A-Sk. nefndi annað erlent dæmi, þar sem er kosningaskipun Vestur-Þýzkalands nú eftir stríðið, og hann benti á, að hún er með tvennu móti. Þar er rúmur helmingur þm. kjörinn í einmenningskjördæmum, en hinn helmingurinn á landslistum, og þá er rétt að hafa í huga, að það er ekki eins og landslistar hér, einn listi fyrir allt Vestur-Þýzkaland, heldur fyrir hvert af fylkjunum eða „Liinder“, eins og þeir kalla þau, þannig að landslistarnir munu vera nokkuð margir í þessu sambandsríki. Þingmaðurinn benti á, að þarna væri blandað saman tveimur kerfum, en þar held ég að honum hafi skjátlazt, vegna þess að í raun og veru eru þessi kerfi hlið við hlið, en þeim er ekki blandað saman. Hver kjósandi hefur tvö atkvæði, hann kýs, að því er ég bezt veit, einn mann í einmenningskjördæmi því, þar sem hann býr, svo á hann líka atkvæði á landslista, og svo reikna þeir þetta allt út. En hér gildir ekki það, að það séu tvö kerfi, þannig að eitt kerfi gildi í vissum landshlutum og annað í öðrum, heldur er sama kerfið yfir allt landið, og hver einasti Vestur-Þjóðverji, hvar sem hann er, býr við þennan sama kost hvað kjördæmaskipun snertir. Það er því ekki eins og er hjá okkur með gamla kerfinu, eins og Framsfl. vill hafa það áfram og eins og það var í Frakklandi á sínum tíma, að sumir landshlutar hafi hlutfallskosningar og aðrir ekki.

Þá benti hv. þm. á, að Þjóðverjar hefðu valið einmenningskjördæmin aftur til þess að gera samband þingmanna og kjósenda sem traustast. Það má vel vera, að þetta sé rétt. En ég hygg, að einmenningskjördæmin í Vestur-Þýzkalandi séu um 250, og ég hygg, að kjósendur í Vestur-Þýzkalandi séu eitthvað nálægt 30 millj., þannig að það kemur í hlut hvers kjördæmis um 120 þús. manns, og ef þeir telja, að þeir fái út úr þessu náið samband þingmanns og kjördæmis, þá ættum við að geta vel við unað samband þingmanns og kjósenda í okkar svokölluðu stóru kjördæmum, sem þó munu ekki hafa nema frá 5 og upp í 42 þús. kjósendur hvert.

Hv. þm. nefndi efri deildina í Svíþjóð. Það var hárrétt sem hann sagði, hvert orð, en það mætti bæta því við, að Svíar hafa komizt að þeirri niðurstöðu fyrir alllöngu, að þetta kerfi sé úrelt, þeir eru búnir að hafa nefndir starfandi að því núna um nokkurra ára skeið að gerbreyta því, og það líður óðum að því, að þessar nefndir birti sínar tillögur um það, hvernig þeir geti skipað sínum málum öðruvísi, en með þessari efri deild, sem hann benti á sem fyrirmynd.

Að lokum nefndi hv. þm. Noreg og dró það fram með ýtarlegum og fróðlegum upplýsingum, að í Noregi væru í sumum kjördæmum 10 þús. kjósendur á bak við hvern þingmann, í öðrum 26 þús. Hlutfallið á milli þess hæsta og lægsta er því einn á móti 2.6. En hv. þm. nefndi ekki, hvert hlutfallið verður hér á Íslandi samkvæmt því frv., sem hér liggur fyrir, en þar hygg ég, samkvæmt nýútkomnum tölum um kjósendafjölda á þeim kjörskrám, sem yrði kosið eftir á þessu ári, að það séu fæstir um 1.182 kjósendur á bak við hvern þingmann í Vestfjarðakjördæmi og flestir í Reykjavík, 3.506. Og ef við þar að auki ætlum Reykvíkingum 3 uppbótarmenn, sem flestir telja nú að þeir séu öruggir með að fá, þá er Reykjavík með 2.805, og ef við reiknum ekki með uppbótarmönnunum í hinum kjördæmunum, þá fáum við út einn á móti 2.8 eða nokkurn veginn það sama, einn á móti 2.6 í Noregi, einn á móti 2.8 hér á Íslandi, svo að með því að bera lof á viturleik Norðmanna fyrir að hafa þetta kerfi, þá held ég, að þm. hafi ósjálfrátt borið fram rök fyrir því, að sú skipan, sem hér er lögð til, sé ekki svo fráleit að þessu leyti að minnsta kosti, hvað fjöldanum á bak við hvern þingmann viðkemur.

Ég ætla svo að lokum að benda á örfá atriði í sambandi við þær till., sem hv. framsóknarmenn bera fram í sambandi við kjördæmaskipunina og sumir af ræðumönnum þeirra hafa sagt um, að þeir skildu ekki, hvers vegna menn vilja ekki fallast á þær.

Hv. framsóknarmenn segja í minnihlutaáliti sínu, að það sé hægt að fjölga fulltrúum þéttbýlisins án þess að leggja niður núverandi kjördæmi, og þetta er að sjálfsögðu rétt. Það er hægt að jafna metin á milli kjördæma, að svo miklu leyti sem menn vilja jafna þau, hvort sem menn vilja fara algerlega eftir höfðatölu, sem ég hygg að enginn hafi lagt til enn, eða hafa eitthvert hlutfall, eins og frv. gerir ráð fyrir, 1:2.8, eða 1:3 eða eins og Norðmennirnir hafa það, 1:2.6, í gildi atkvæðanna. En í þessu felst sú hætta, að í þjóðfélagi, þar sem íbúum fjölgar stöðugt, hlýtur þingmönnum að fjölga stöðugt líka, ef á að fylgja þessari reglu: að leggja aldrei niður kjördæmi eða sameina þau aldrei, láta þau öll halda sér, en bæta bara fleirum við. Það er til nokkur reynsla í öðrum löndum á nákvæmlega þessu atriði. Það eru til 2 eða 3 ríki eða fylki í Bandaríkjunum, þau sem eru elzt og þar sem tilfinning fyrir sögu fólksins er ríkjandi, og þetta eru lítil ríki með frá 1 millj. og upp í 2 millj. íbúa. Þessi ríki hafa farið nákvæmlega þessa leið. Þau hafa neitað að leggja niður lítil og gömul kjördæmi, sem eru þarna býsna mörg og hjá þeim byggist á einstökum þorpum og hreppnum umhverfis. Árangurinn af þessu er sá, að þessi litlu dvergríki þarna, dvergríki á erlendan mælikvarða, hafa einhver stærstu þing, sem til eru á vesturhveli jarðar. Þar er t.d, smáríki upp á 11/2 millj. íbúa, sem hefur 450 manna þing. Og meðal þeirra, sem íhuga kosningaskipan og stjórnskipan, hafa þessi ríki bókstaflega orðið að athlægi, vegna þess að niðurstaðan er auðvitað sú, að miðað við verkefnin í litlu ríki eins og þarna er, þá er ekkert við svona fjölmennt þing að gera, og þingin hefur sett niður, eftir því sem þau hafa stækkað, á allan hátt.

Hér hjá okkur ætlum við nú samkvæmt öllum till., sem fyrir liggja, að hafa 60 þingmenn, en kjósendur á kjörskrá munu vera tæplega 98 þús. Þannig eru liðlega 1.600 að meðaltali á hvern þingmann. Nú hefur undanfarið fjölgun kjósenda verið yfir 15 þús. á áratug, svo að það er mjög nærri því, ef ætti að fylgja þessari reglu, að þá yrði að meðaltali að fjölga um 1 þingmann á ári, miðað við núverandi fjölgun. Og nú vitum við það, að hjá heilbrigðri, hraustri og velmegandi þjóð eins og Íslendingum, þar sem fjölgunin er mjög ör, þar er fjölgunin ekki að tölu til jöfn, heldur eins og snjóbolti, sem rennur niður hlíð. En bara miðað við fjölgun undanfarinna ára þyrftum við að fjölga um rúmlega 10 þingmenn á áratug eða rúmlega einn á ári. Ég er ekki viss um, að menn, sem vilja alvarlega hugsa þessa leið til enda, mundu telja, að hún væri farsæl. Það getur verið, að það sé hægt að gera þetta einu sinni eða tvisvar, en það er ekki hægt að halda þessari stefnu lengi áfram, og bæði þeir, sem leggja til, að þingmenn verði 60, og aðrir, sem ekki eiga hlut að máli, hafa yfirleitt látið í ljós tregðu í sambandi við fjölgunina frekar en hitt, að menn teldu æskilegt að taka upp kerfi, sem þýddi stöðuga og áframhaldandi fjölgun þingmanna. Þótt ekki væri af annarri ástæðu en þessari, finnst mér, að það sé full ástæða til þess að hafna nú þegar höfuðhugmyndinni í þessum brtt. Ég skal ekki ræða flokkslegar hliðar í sambandi við þær, en ég vil þó aðeins benda á það, að með þessarl nýju skiptingu, sem við eigum nú að gera, mundu koma til sögunnar 2 ný kjördæmi, sem hefðu innan við þúsund íbúa hvort. M.ö.o.: hér rétt við bæjardyr Reykjavíkur ættu að vera kjördæmi með þingmann með innan við þús. íbúa, en hér inni í bænum er aðstöðumunurinn orðinn svo gífurlegur, það eru röksemdirnar, að það á að þurfa um eða yfir 3 þús. á bak við hvern, eftir því sem nú er eða yrði samkvæmt þessu breytta kerfi. Ég tel því, að höfuðhugsunin í þessum brtt. sé þannig, að það sé mjög óviturlegt að fallast á hana, þetta gæti í mesta lagi orðið ein eða tvær bætur á gamalt fat, þetta kerfi mundi bresta mjög fljótlega og hafa þegar í stað augljósa galla, og þótt ekki væri af öðru, en af þeim ástæðum, finnst mér ómögulegt annað, en að hafna þessari lausn.

Ég ætla svo ekki að ræða fleiri atriði í sambandi við þetta mál á þessu stigi og læt þessu lokið.