24.04.1959
Neðri deild: 115. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1386 í B-deild Alþingistíðinda. (1191)

144. mál, stjórnarskipunarlög

Eysteinn Jónsson:

Herra forsetl. Ég tók nokkurn þátt í 1. umr. þessa máls og ætla mér að ræða málið ofur lítið almennt við 3. umr. þess, eins og þingsköp gera ráð fyrir. Ég hafði ekki gert ráð fyrir því að taka neinn verulegan þátt í 2. umr. þess, sem nú stendur yfir, vegna þess, hve margir af mínum flokksbræðrum hafa talað við þessa umr. og flutt ýtarlega það sjónarmið, sem við viljum koma á framfæri einmitt við 2. umr. En vegna þess m.a., að hv. síðasti ræðumaður helgaði mér nokkra þætti í ræðu sinni hér áðan, finnst mér viðeigandi að leggja nokkur orð í belg núna við þessa 2. umr. líka.

Það er mjög áberandi við þá umr., sem hér fer fram, það virðingarleysi, sem forstöðumenn þessa máls sýna þinginu, en það kalla ég virðingarleysi við þingið sem stofnun, að þeir, sem standa að slíku stórmáli eins og hér er á ferð, skuli ekki einu sinni hafa smekk eða manndóm til þess að vera viðstaddir á Alþingi, þegar það er rætt. Hygg ég satt að segja það nær einsdæmi, ef ekki algert einsdæmi í sögu þingsins.

Hv. 1. flm. þessa máls, sem að vísu sést nú sjaldan á Alþingi, hv. þm. G-K., en hann er þó 1. flm. þessa máls og formaður stærsta stjórnmálaflokksins í landinu, rak hér inn nefið í dag aðeins í örfá skipti, en var óðara horfinn, og nú í lotu þeirri, sem verið hefur eftir kvöldmatinn, hefur hann alls ekki sézt.

Hæstv. forsrh., sem stendur fyrir ríkisstj., sem er eftir yfirlýsingum beinlínis mynduð til þess að koma þessu máli fram, hefur tæplega sézt hér við þessa 2. umr. og alls ekki tekið til máls, var hér einhverja stund í dag aðallega í hliðarherbergjunum, en tæpast að hann kæmi í sæti sitt. Og hv. frsm. þessa máls, nefndarmeirihl., sem að því stendur, sem var hér að ljúka máli sínu, hefur að vísu verið hér í húsinu, en lengst af utan þingsalarins allan þann tíma, sem þessi umr. hefur staðið.

Ég hef séð sums staðar á heimilum klukkur, sem eru þannig, að þær eru um leið loftvog, og í klukkunum er karl og kerling. Og það er þannig til hagað, að þegar gott veður er, þá kemur kerlingin út, en þegar vont veður er, þá kemur karlinn út. Framkoma hv. 1. þm. Reykv., frsm. þessa máls, við þessa umr. hefur minnt mig á kerlinguna í klukkunni, því að þannig hefur þetta verið, að þegar andstæðingar hans hafa talað, þá hefur hann horfið, en áðan í það eina skipti, sem þm. tók til máls, sem var honum sammála, hv. þm. Benedikt Gröndal, þá birtist framsögumaðurinn í deildinni og var hér inni nákvæmlega á meðan vel viðraði. En þegar aftur versnaði veðrið að hans dómi, þá var hann horfinn, og það má mikið vera, ef hann er inni núna. Ég sé það að vísu ekki, vegna þess að hann á sæti bak við mig, en það má mikið vera, ef hann er inni núna. Það er eins og það sé einhver alvarlegur beygur í forustumönnum þessa máls. Það er eins og þeir treysti sér ekki til þess að standa frammi fyrir rökum andstæðinganna í málinu og kinoki sér sem allra mest við því að standa við það, sem þeir eru að gera. Þetta kemur svona fram. Þeir herða sig svo upp annað slagið svolitla stund eins og maður, sem kastar sér í kalt vatn, en gera sem minnst að slíku. En þeir munu náttúrlega alls ekki komast hjá því að standa fyrir sínu máli, um það er lýkur, við þær kosningar, sem fram eiga að fara.

Ég vil í þessu sambandi nota tækifærið núna við 2. umr. og benda á eitt atriði, sem raunar var minnzt á í dag, og það er hvernig búið er að Austurlandi í þessu frv. Stjórnarliðið hælir sér af því, að þó að nú eigi að leggja niður kjördæmin, þá eigi að vera sami þingmannafjöldi samanlagt í hverjum landshluta eins og verið hefur nema á Austurlandi. Þar á að fækka. Þó er það þannig, að Austfirðingar eru lengst frá höfuðborginni allra landsmanna og lengst frá hv. Alþingi og eiga erfiðast með allra landsmanna að beita áhrifum sínum í þeim miklu ríkisstofnunum, sem hér eru, og eiga erfiðast með að hafa beint samband við hv. Alþingi sjálft. Það hefði ekki verið mikið, eins og hér var tekið fram af hálfu hv. frsm. minni hl., þó að þessi sérstaða hefði verið virt þannig, að þeir hefðu haldið sama þingmannafjölda og áður, og ekki sízt hefði mátt gera ráð fyrir þessu, þar sem vitað er, að einn af þm. af Austurlandi hefur einmitt átt mjög mikinn þátt í því að móta þetta mál og er einn af forustumönnum eins þeirra flokka, sem að þessu standa. En þetta þótti ofrausn og það á hinn bóginn í betra samræmi við það, hvernig búið er yfirleitt að byggðunum í þessu máli, að taka af Austfirðingum þm. í leiðinni, um leið og öll kjördæmin þar verða lögð niður eins og annars staðar.

Ég vil þá minna á aðaltill. Framsfl. í þessu máli, og það er dagskrártill., sem hv. frsm. minni hl. mælti mjög skörulega fyrir. Við leggjum til, að þessu máli sé frestað um eitt ár, og í okkar till. er gert ráð fyrir, að stjórnarskrárnefndin taki þetta mál fyrir þann tíma og reyni að finna lausn, sem flestir geti sætt sig við. En jafnframt er sú stefna mótuð í dagskrártill. eða bent á það úrræði, að sérstakt stjórnlagaþing afgr. þetta mál. Það teljum við eðlilegt, og ég vil setja strik einmitt undir það atriði. Okkur er alveg ljóst, að fjöldinn allur af því fólki, sem kosið hefur þríflokkana undanfarið, er alveg ósammála þessum flokkum í kjördæma málinu. Þetta vitum við vel, það fer ekkert dult. Og það er einmitt gott dæmi um, hversu hyggilegt og nauðsynlegt það er að leysa þetta mál úr öðrum málum með því að ætla stjórnlagaþingi að ráða fram úr stjórnarskrármálinu einu, það er einmitt gott dæmi um, hvað þetta er hyggilegt, að nú er það áætlun þríflokkanna að notfæra sér flokkshollustu síns fólks til þess að fá það til að fallast á stjórnskipun, sem það er í raun og veru á móti. Það er ætlun þessara þriggja flokka í trausti flokksbandanna að reyna að koma þessu máli fram, reyna að fá flokksfólk sitt og fylgismenn úti í byggðarlögunum til þess að gera það fyrir flokkana að kjósa með þeim, þó að þeir ætli að beita sér fyrir því að leggja kjördæmin niður, — ekki vegna þess að þeir ætli að beita sér fyrir því að leggja kjördæmin niður og koma þessari nýju skipun á, því að það vill raunverulega enginn í þessum byggðarlögum, heldur þrátt fyrir þá fyrirætlun. Þeir vitnisburðir, sem koma utan af landi í gagnstæða átt, eru hreinlega pantaðir vitnisburðir og gerðir af flokksþægð, og það er ætlun þessara þriggja flokka að reyna að fá fólk til þess að gera það fyrir flokkinn sinn að leggja kjördæmin niður.

Það er þessi herfilega misnotkun á stjórnskipan okkar, sem gerir það höfuðnauðsyn að fallast einmitt á þá tilhögun að leysa þetta mál út úr öðrum málum og kjósa sérstaklega til stjórnlagaþings, því að þá gæti fólk kosið eftir skoðun sinni á kjördæmamálinu og stjórnskipunarmálinu, án þess að það væri með nokkru móti hægt að segja, að það veikti sinn flokk með því.

En nú verður flokkssjónarmiðið aftur á móti látið dynja á fólkinu. Það verður reynt að sjá svo um, að kosningarnar snúist ekki um stjórnarskrármálið, og við sjáum svo sem, hvernig tilraunirnar eru strax einmitt í þá átt. Þó að sumir hv. þm. tali digurbarkalega hér um það, hvað þessi lausn sé góð, þá er þeim vel ljóst, að hún hefur ekki hylli fólks yfir höfuð úti um landið, og þess vegna fylla þeir blöð sín af áróðri um, að það eigi ekki aðeins að kjósa um stjórnarskrármálið, það sé mesti misskilningur, það sé bara flærð Framsóknar, að því sé haldið fram, — það eigi að kjósa um allt mögulegt annað á milli himins og jarðar, flokkastefnurnar, hvernig flokkarnir hafa staðið sig í þessum málaflokki eða hinum o.s.frv.

En svo koma þessir menn, sem þessu halda fram, og belgja sig út og segja: Það á ekkert að gera, nema þjóðin samþykki það. — Meira að segja frsm. meiri hl. var að segja það hér áðan, að þó að menn hefðu ekki í síðustu kosningum lagt það fyrir fólk, að þeir ætluðu að leggja kjördæmin niður, þá ætti að kjósa um stjórnarskrármálið í vor, það færu fram kosningar í vor, og þá kæmi þjóðarviljinn fram.

Það er ágætt að fleygja þessu framan í menn, þegar verið er að tala um, að það sé ekki stjórnskipulega eða lýðræðislega að þessu farið, að það eigi að kjósa í vor og bera málið undir kjósendur. En jafnskjótt og þessir hv. þm. eru búnir að sleppa orðinu, þá fara þeir og nota allan sinn blaðakost og alla sína orku og alla sína útsendara til þess að segja fólki, að það megi einmitt ekki kjósa um stjórnskipunarmálið eða till. þessara þríflokka í kjördæmamálinu, það eigi að kjósa venjulegri flokkakosningu um önnur mál. Og svo eru þessir menn að tala um hræsni. Þessir hv. þm. eru að tala um hræsni. Er hægt að hugsa sér ömurlegri hræsni, en alla þessa framkomu og allan þennan málflutning? Ég held tæplega. Ég held, að það sé tæplega hægt að hugsa sér ömurlegri hræsni. Og það eru einmitt þessi vinnubrögð og ég vil segja þessi viðbjóður allur saman, sem gerir það að verkum, að Framsfl. hefur ævinlega verið með því, talað fyrir því og flutt það, að stjórnarskrármálið væri leyst út úr öðrum málum og sett inn á sérstakt stjórnlagaþing. En ástæðan til þess, að hinir flokkarnir hafa einmitt aldrei getað fallizt á þessa till. Framsfl., hver er hún? Það er ósköp einfalt að sjá hana. Það er vegna þess, að þá búast þeir við því, að þeir geti alls ekki komið fram neinni stjórnskipan, sem forustumönnum þessa máls er að skapi, því að þeir vita, að þeirra till. hafa alls ekki almannahylli. Þeirra eina von er að kúga þær fram, knýja þær fram í viðjum flokksbandanna. Það er þeirra eina von að fara út um allt og biðja menn um að kjósa flokkana, eins og þeir hafi gert, þrátt fyrir það að þeir ætli að leggja niður kjördæmin og gera aðrar þær breytingar, sem til standa. Þannig eru þessar áætlanir. Svona þokkalegar eru þær. Það er af þessum ástæðum, sem við höfum lagt verulega áherzlu á það, að hægt væri að fá fram hugmyndina um stjórnlagaþing.

Ég vildi einmitt núna við 2. umr. vekja sérstaklega athygli á þessum þætti í dagskrártill. Þá vil ég fara örfáum orðum um fáein atriði af því, sem fram kom núna síðast hjá frsm. meiri hlutans og gaf mér tilefni til þess að tala dálítið nú við 2. umr., sem ég annars hafði ekki ætlað mér. Og fléttast þar þá inn í þau atriði, þar sem hann vék nokkuð sérstaklega að mér. En áður en ég kem beinlínis að því, vil ég minnast hér á eitt, sem dálitið hefur bólað á hjá hv. talsmönnum þessa máls og þeir hafa flutt fram til stuðnings því, að það mundi vera hyggilegt að leggja niður það, sem þeir kalla litlu einmenningskjördæmin, og hverfa að stórum hlutfallskjördæmum. Ég man, að þetta kom fram hjá hv. 5. landsk, þm., Benedikt Gröndal, einhvern tíma í þessum umræðum, — ég hygg, að það hafi verið við 1. umr., — og var ég raunar dálitið hissa á því, að það skyldi koma frá honum eða úr Alþfl. Þetta kom svo fram í kvöld talsvert hjá 1. þm. Reykv., Bjarna Benediktssyni, frsm. meiri hl., og eitthvað hefur þetta gægzt fram hjá öðrum raunar, dálítið víst hjá hv. 2. þm. Skagf. við 1. umr. En þetta atriði er, að áhrif fjármagns og fyrirtækja og áróðurs mundu sennilega vera meiri í kjördæmunum, eins og þau hafa verið fram að þessu, en gera mætti ráð fyrir að þau yrðu í stórum kjördæmum: Ég segi bara við þessu: Vilja menn ekki rifja upp fyrir sér, hvernig þessu er háttað í stærsta kjördæmi landsins, Reykjavík, áður en svona rök eru tekin góð og gild? Ég fullyrði alveg og tel mig hafa talsvert góða að stöðu til þess að segja nokkuð um það eftir áratuga reynslu af stjórnmálastarfi og kosningabaráttu, — ég fullyrði það alveg hiklaust, að kosningabaráttan hér í Rvík er rekin a.m.k. með jafnmiklu kappi og í nokkru öðru kjördæmi landsins, ef við tökum það atriði. Það mun ekki vera fjarri lagi, að stærsti flokkurinn hér í Rvík, Sjálfstfl., t.d. hafi, þótt það sé kannske ekki bókstaflega þannig, að þá mun það láta nærri, að hann hafi pólitískan gæzlumann fyrir hvert einasta hús í bænum. Það er kannske ekki pólitískur gæzlumaður frá flokknum vakandi yfir mínu heimili og örfárra annarra manna, sem sumpart búa í einbýlishúsum eða eru þannig settir, að það þykir kannske ekki þess vert að eyða slíku verki á heimili þeirra. Það er heill her, sem starfar að þessari pólitísku gæzlu á vegum þessa stóra flokks, og þetta starf er rekið með meiri nákvæmni, en hægt er að hugsa sér að eigi sér stað í nokkru öðru héraði landsins. Og þetta er í stóra hlutfallskjördæminu Reykjavík.

Þá hygg ég, að allir viti og þurfi ekkert um það að deila, að hið mikla fylgi Sjálfstfl. í Reykjavík byggist fyrst og fremst á hinum gífurlegu áhrifum, sem nokkur hundruð fyrirtæki í bænum hafa. Það er undirrótin undir hinu pólitíska fylgi og valdi Sjálfstfl. í Rvík, það er fyrirtækjavaldið og starf fyrirtækjanna í þessum efnum. Þetta veit hvert einasta mannsbarn á Íslandi, að svona er þetta, og það er hvergi á landinu til neitt, sem kemst í hálfkvisti við þetta fyrirtækjavald Sjálfstfl. í Rvík og vald fjármagns og atvinnuveitinga út frá þessum fyrirtækjum. Það vald, sem þessi fyrirtæki hafa, er meginþátturinn í starfsemi Sjálfstfl. í Rvík. Og það er ekki í litlu einmenningskjördæmi, það er í stóra hlutfallskjördæminu Reykjavík. Svo eru þessir menn, sem fyrir þessu standa, og menn, sem þekkja þetta ákaflega vel, þó að þeir séu í hinum flokkunum, og standa fyrir þessu máli, að bera það fram sem rök í kjördæmamálinu, að reynslan muni sýna eða það muni ekki ólíklegt, að vald fyrirtækja og fjármagns sé minna í stórum hlutfallskjördæmum en í þeim kjördæmum, sem verið hafa í landinu fram að þessu.

Ég hef þó nokkuð fylgzt með kosningabaráttu hér í Rvík. og mér er kunnugt um ýmis dæmi, sem sýna, hvernig unnið er í stóra hlutfallskjördæminu Reykjavík. Ég veit t.d. um konu, sem við síðustu bæjarstjórnarkosningar vann hjá einu fyrirtæki í Rvík, sem af vissum ástæðum var ekki talin trygg pólitískt, og ég veit, að það voru ekki minna en fjögur til fimm dagsverk, sem voru lögð fram af hendi eins flokks hér í Rvík til þess að reyna að fá þessa konu til þess að kjósa „rétt“. Og þetta var ekki í litlu kjördæmi úti á landi, þetta var í stóra hlutfallskjördæminu Reykjavík.

Svo koma menn og segja, að hin pólitíska barátta sé svo hörð í þessum smáu héruðum. Til þess að mýkja hana og milda og til þess að aðferðirnar verði viðkunnanlegar og að öllu leyti ánægjulegar, þá muni þurfa að leggja þau kjördæmi niður og setja allt í stór hlutfallskjördæmi og þá þurfi menn engu að kvíða um þetta. Og þeir, sem standa fyrir þessum málflutningi, eru mennirnir, sem standa fyrir þeim vinnubrögðum, sem ég hef verið að lýsa. Og svo eru þessir sömu menn að tala um hræsni.

Það er alveg furðulegt, hvaða tyllirök og hálmstrá hv. formælendur málsins eru að tína til handa mönnum sínum til þess að halda sér i. En það dugir náttúrlega ekki, nema þá kannske fyrir einn og einn af þeim, sem þá hafa löngun af flokksþægð til þess að fylgja þeim í þessu máli, því að ekki er það annað, sem er tilgangurinn með þessum hálmstráum, sem verið er að útdeila í þessum málflutningi. Það er ekki hægt að líkja röksemdafærslunni við annað, en útbýtingu hálmstráa handa mönnum til þess að reyna að fleyta sér á, sem kynnu að hafa sterkan vilja til þess að fá sig til að gera það fyrir flokkinn sinn að fylgja þessari tilhögun.

Það er nú uppáhaldsröksemd — (Forseti: Á hv. þm. eftir langt mál? Vill hann ljúka ræðu sinni kannske núna?) Ég á ekki eftir nema svona 10-15 mínútur væntanlega. Ég hafði ekki gert ráð fyrir að tala lengur, því að eins og ég tók fram, þá hafði ég ekki gert ráð fyrir því fremur, en verkast vildi, að tala við þessa 2. umr. En ég ætlaði að gera hér að umtalsefni tvö eða þrjú atriði til viðbótar.

Ein af uppáhaldsröksemdum hv. 1. þm. Reykv. (BBen) í þessu máli er þessi kenning um sameiningu kjördæmanna og allt það, sem í kringum það er. Síðan er sagt: Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér o.s.frv., o.s.frv. Þetta á að vera ein höfuðröksemdin. Og svo sagði hv. þm., að það væri hægt að færa margar ástæður fyrir því, að nú yrði að steypa þessu saman, það væru þessi sameiginlegu verkefni, sem eiginlega krefðust þess, að þessu væri steypt saman. Í því sambandi nefndi hann m.a. raforkumál Austurlands og sagði, að það hefði verið eins konar hreppasjónarmið úr Suður-Múlasýslu, sem hefði ráðið því, að Grímsárvirkjun varð fyrir valinu, en ekki einhver önnur leið, það væri alveg valið dæmi um það, hve núverandi kjördæmaskipun væri óheppileg. Nú veit þessi hv. þm. ákaflega vel, að allir þm. af Austurlandi, — hann veit það vegna þess, að hann var það lengi ráðh. og var kunnugur því í gegnum það, — að allir þm. af Austurlandi unnu saman að raforkumálum Austurlands ár eftir ár, úr hvaða flokki sem þeir voru, og sú samvinna var einmitt gott dæmi um það, hvernig þm. úr einstökum héruðum vinna nú saman um málefni, sem snerta mörg héruð sameiginlega, svo að það þarf ekkert á hv. þm. að halda með kenningu sína um það, að menn verði að leggja héraðaþingmennina niður til þess að geta talað saman eða unnið sameiginlega að hagsmunamálum, sem ná yfir nokkur héruð. Og það er alger skáldskapur hv. þm., að nokkur hreppasjónarmið eða sýslusjónarmið hafi komið til greina við val á virkjunaraðferðinni fyrir austan. Að lokum var aðeins um tvennt að ræða að dómi sérfræðinganna um þetta mál: annað var að virkja Grímsá, en hitt var að taka rafmagn til Austurlands gegnum sérstaka leiðslu yfir fjöllin norðan frá Laxá við Mývatn. Hitt, sem menn höfðu látið sig dreyma um, að virkja Lagarfljót, kom ekki til greina að dómi sérfræðinganna, vegna þess að sú virkjun, sem til mála gat komið, gaf litlu meira rafmagn, en Grímsárvirkjunin gat gefið, kostaði mörgum milljónatugum meira og eyðilagði þar að auki möguleikana fyrir því, að Lagarfljót yrði virkjað síðar á hagkvæmasta máta. En sú virkjun var aftur á móti svo geysilega dýr og stór, að hún gat ekki komið til greina til þess að leysa raforkuþörf fjórðungsins í náinni framtíð. Það var því aðeins um tvennt að velja: að virkja Grímsá eða láta sér nægja línuspottann norðan frá Laxá. Og þá var það, sem sú ákvörðun var tekin af raforkumálaráðherra, eftir að hann hafði ráðgazt við alla hlutaðeigendur, að virkja Grímsá fremur, en að treysta á línuspottann að norðan, og býst ég ekki við, að nokkur maður sjái eftir því, að sú aðferð var viðhöfð. Og þeir, sem stóðu að virkjun Grímsár, sérfræðingarnir, þeir segja, að þar hafi allt orðið í reyndinni eins og þeir gerðu ráð fyrir. Þetta er því algerlega gripið úr lausu lofti hjá hv. þm.

Samstarf þingmanna að raforkumálum Austurlands og fjöldamörgum öðrum hliðstæðum málum, sem snerta mörg héruð, eins og t.d. raforkumál Vesturlands, og þannig mætti lengi telja, er einmitt sönnunin fyrir því, að þetta, sem hv. þm. ber fram til rökstuðnings því, að menn eigi að leggja héraðakjördæmin niður, er algerlega úr lausu lofti gripið, eru hrein tyllirök.

Þá sagði hv. þm., — ég vil koma að því í leiðinni, af því að ég er að tala hér um rafmagn, — þá sagði hann, hélt því hér fram með miklum krafti, að það yrði unnið alveg eins mikið að raforkumálum dreifbýlisins fyrir því, þó að framlag til þeirra væri nú lækkað um nær 11 millj. á fjárl. Hann klígjar ekki við smámunum, hv. þm. Hann veit það þó áreiðanlega, að ef ætti að halda 10 ára áætluninni fyrir árið 1959, eins og búið var að setja hana upp, þá þyrfti að útvega marga milljónatugi, sjálfsagt upp undir sex milljónatugi að láni, þó að allri fjárveitingunni yrði haldið á fjárl. Hv. þm. ætlar kannske að fara að halda því hér fram, að þeir ætli að útvega 70 millj. að láni á þessu ári eða vel það til þess að leggja í raforkuáætlunina. Engum dettur í hug, að þeir útvegi einum eyri meira af lánsfé, en til stóð að útvega, þótt þeir strikuðu út þetta framlag á fjárl. Eða kannske hv. þm. ætli að fara að halda því fram, að það sé bara af einskærum áhuga fyrir því, að raforkuáætlun dreifbýlisins geti komið nógu fljótt í framkvæmd, að það er búið að fara þannig með framlag ríkisins, að það er í raun og veru ekkert orðið til þessara mála? Það var 25 millj., það er komið niður í 15, og rekstrarhallinn á rafmagnsveitum ríkisins er áætlaður upp undir 15 millj., þannig að það lítur út fyrir, að þeir séu búnir að koma þessum málum þannig fyrir, að ríkissjóður leggi ekki einn einasta grænan eyri til raforkuáætlunar dreifbýlisins. Og það næsta, sem þessi hv. 1. þm. Reykv. heldur fram, — ég býst við, að honum fari fram í þessu tilliti, — það verður auðvitað, að þetta sé gert af einskærum áhuga fyrir því, að raforkuáætlun dreifbýlisins geti gengið nógu hratt í framkvæmd, og fyrr megi nú vera, að nokkrum manni skuli detta í hug annað eins og það að deila á þetta eða halda því fram, að með þessu sé verið að minnka möguleikana á því, að raforkuframkvæmdir eigi sér stað. Svoleiðis fjarstæðu mundi náttúrlega engum detta í hug að bera fram nema þá helzt framsóknarmönnum! — Þetta segir sennilega hv. 1. þm. Reykv. næst, þegar hann talar. Það væri alveg nákvæmlega í samræmi við það, sem hann var að segja hér áðan um þetta mál. Hann átti ekki nógu sterk orð til þess að lýsa því, hvað hv. þm. V-Húnv. (SkG) væri ósvífinn að láta sér detta það í hug, að þessi niðurskurður gæti haft áhrif á framkvæmdir í raforkumálum eða væri gerður til þess að draga úr þeim. Nei, annað eins væri ekki hægt að bjóða mönnum.

Að lokum vil ég svo aðeins í sambandi við tal hv. þm. um, að það sé alls ekki verið að leggja niður kjördæmin, segja þetta: Nei, auðvitað ekki. Honum mundi ekki blöskra að halda því fram, að kjördæmin ættu að standa eftir sem áður, þessi gömlu, þótt þau séu lögð niður og önnur innleidd í staðinn. Það er algerlega eftir annarri röksemdafærslu þessa hv. þm. að halda því fram, að þótt kjördæmin séu lögð niður, þá standi þau samt. Já, „Vakri-Skjóni hann skal heita“, eins og þar stendur, og svo áfram.

Það er bara þessi sameining, sem verið er að tala um, og svo þetta: Sameinaðir stöndum vér o.s.frv. En hafa ekki þau rök, sem hv. þm. notar í þessu sambandi, hafa það ekki verið rök innlimunarmanna alls staðar fyrir öllum yfirgangi, sem framinn hefur verið, hvar sem er í heiminum, eins og hv. þm. V-Húnv. (SkG) sagði og færði snjöll rök að? Þegar ætlunin er að svipta þjóðir eða landshluta sjálfstæði sínu, þá er alltaf sagt, eins og hv. þm. V-Húnv. tók hér fram í kvöld: Þetta er bara til að gera ykkur sterkari. Það er bara verið að sameina. Það er ekki verið, að leggja neitt niður. Þið eruð til áfram. Það er ekki verið að leggja neitt niður o.s.frv., o.s.frv. — Þetta eru innlimunarrökin, sem ævinlega eru notuð. Þetta eru rök innlimunarmanna í öllum greinum, og ekkert sýnir kannske greinilegar, hvað hér er að ske, en einmitt það, hvernig talsmenn þessa máls og sérstaklega hv. 1. þm. Reykv. notar einmitt þessi rök, ef rök skyldi kalla

Ég skal svo láta máli mínu lokið með sérstöku tilliti til þess, að ég mun ræða þetta mál nokkuð almennt við 3. umr.