25.04.1959
Neðri deild: 116. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1417 í B-deild Alþingistíðinda. (1196)

144. mál, stjórnarskipunarlög

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Mál þetta er nú orðið mjög mikið rætt, og að víssu leyti má segja, að það sé að verða útrætt á milli þm. Þó skal ég ekki gagnrýna það, að menn telji ástæðu til að ræða ýtarlega jafnveigamikið mál og það, sem hér um ræðir. En þó er það orðið nokkuð áberandi, að allverulegar endurtekningar eru í máli þm., og að sumu leyti bera síðari ræðurnar nokkurn keim af því, að þm. séu að beita gagnkvæmri rökfimi sinni í málflutningnum, og tekst þá að sjálfsögðu nokkuð misjafnlega, enda skiptir kannske minni hlutinn af því verulegu máli í sambandi við sjálft efni þess máls, sem um er að ræða.

Um þetta mál á þessu stigi vil ég leyfa mér að segja, að það hefur einkennt kjördæmamálið fyrr og síðar hið langvarandi þóf Framsfl. og tilraunir í tíma og ótíma til þess að standa gegn því, að hæfilegt réttlæti megi ríkja í þessu máli í landinu. Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að þeir hv. þm. Framsfl., sem nú ganga fram fyrir skjöldu hér í þingsölunum, sjá ekkert síður, en margir aðrir flokksmenn þeirra sjá nú og tala mjög um, þegar við þá er rætt um þessi mál, að það hafi verið til mikillar óþurftar fyrir Framsfl., hversu lengi hann hefur staðið eins og hundur á roði í þessu máli og verið á hverjum tíma tregur til þess að taka af sinni hálfu nokkurt tillit til frambærilegs réttlætis í málinu. Það er alveg rétt sjónarmið, sem margir hafa sett fram, að Framsóknarflokknum hefði verið það betra bæði sín vegna og einnig vegna þeirra, sem hann telur sig einna helzt umbjóðanda fyrir, þ.e.a.s. fólkið í dreifbýli landsins og sveitunum, að viðurkenna fyrr en orðið er nauðsynina á hæfilegu réttlæti í þessum málum. Saga málsins greinir örugglega frá því, að ýmsar mismunandi tillögur hafa komið fram á mismunandi tímum og þá einnig tillögur um einmenningskjördæmi, sem framsóknarmenn vilja nú helzt hneigjast að. En þegar þær voru fram settar af öðrum og með tilraunum til samkomulags, þá var ekki hægt að hneigja Framsfl. til samkomulags á þeim grundvelli. Allt hefur þetta orðið til þess, að flokkurinn hefur fyrr og síðar beðið mikinn hnekki af þessu máli. Það er rétt, að hann vann stóran sigur í kosningum 1931, en líka þann eina Pyrrusarsigur, sem þessi flokkur hefur unnið, vegna þess að tveimur árum seinna galt þessi flokkur aftur svo mikið afhroð, að hann tapaði fjórða parti af þingmannatölu sinni. Ég held þess vegna, að málið í heild hafi orðið honum til mikillar óþurftar, og nú er svo komið, að hann verður að horfast í augu við það að vera einangraður í þessu máli, þegar mikill meiri hluti bæði þingmanna og kjósenda í landinu mun vera á því, að það verði ekki lengur dregið að gera verulegar réttarbætur í þessu mikla máli.

Það segir í ál. minni hl. í málinu m. a. þetta, með leyfi hæstv. forseta: „Því hefur verið haldið fram, að einingur eða áhugaleysi á Alþ. um lausn kjördæmamálsins hafi tafið endurskoðunarstarfið. En snemma á þessum vetri var svo komi , að allir þingflokkar höfðu áhuga fyrir lausn kjördæmamálsins. Þá var sú stund upp runnin, að ekkert virtist lengur því til fyrirstöðu, að stjskrn, gæti tekið til óspilltra mála og bundið enda á starf sitt.“ Sem sagt, snemma á þessum vetri var sú stund upp runnin, segir í nál. þeirra framsóknarmanna, að allir höfðu áhuga á lausn málsins. En hafði ekki Framsfl. forustu um stjórnarmyndun 1956 eftir alþingiskosningarnar, þar sem m.a. var eitt af samningsatriðum þáv. stjórnarflokka að leiða kjördæmamálið eða misrétti í kosningalögum og kjördæmaskipun til einhverra lykta? En það var látið liggja milli hluta. Og það er nú sem endranær, að Framsfl. hefur aldrei áhuga fyrir réttarbótum í þessu máli, fyrr en hann er til þeirra knúður, fyrr en hann sér fram á, að hann kemst ekki undan því að veita einhverjar tilslakanir. Þá vill hann vera með. Og ef hann hefði fyrr og betur gert sér grein fyrir þessu, mundu kannske áhrif hans á úrslit mála hafa orðið meiri, en horfur eru á að þær muni nú verða.

Menn hafa talað hér ákaflega mikið um ýmsar hliðar þessa máls og að við náum ekki fullu réttlæti jafnvel með því frv., sem hér er fram borið. Það kann að vera, að enn megi þar betur skipast. En um hitt held ég að engan greini, hversu gífurlegt ranglæti við höfum þurft að búa við, bæði milli flokka og milli héraða, og svo mikið, að mönnum skilst, að það verði ekki lengur dregið að gera hér einhverjar bætur á. Augljósast er þetta varðandi flokkana, þegar framsóknarmenn hafa hér 17 þm. á móti 19 þm. sjálfstæðismanna, en miðað við úrslit síðustu kosninga ættu sjálfstæðismenn, ef hlutfallslegt réttlæti væri þarna á milli, að vera 46. Að vísu nær ekki Framsfl. í þessum kosningum fullri tölu sinni vegna Hræðslubandalagsins, eins og kunnugt er, en misréttið er þó geigvænlegt og er einnig sams konar misrétti miðað við hina flokkana, sem hér sitja á þingi. Það er þannig, að ef þingmannatala Framsfl. væri lögð til grundvallar og aðrir flokkar hér ættu að hafa hlutfallslegt jafnrétti á við þennan flokk, þá þyrfti 105 þm., þar sem þá Framsfl. hefði 17, Alþfl. 21, Alþb. 21 og Sjálfstfl. 46. Allt er þetta augljóst, og framsóknarmenn hafa að sjálfsögðu ekki gert neina tilraun til þess að verja þetta ranglæti.

En það er ekki aðeins þetta ranglæti í kjördæmaskipun okkar, sem nú þarf að laga, heldur er það líka misréttið, sem kemur fram í henni á milli hinna einstöku héraða, alveg burt séð frá þeirri flokkaskiptingu, sem kann að vera innan þessara héraða. Það er ekki von, að menn í hinum einstöku héruðum geti unað við það til lengdar, að atkvæðisrétturinn á einum stað verði margfaldur á við það, sem hann er annars staðar. Og menn verða að átta sig á því, að hér er ekki aðeins um það að ræða, að atkvæðisrétturinn í minni héruðunum sé margfaldur á við atkvæðisrétt kjósendanna í þéttbýlinu og kaupstöðunum eða höfuðborginni, heldur er atkvæðisrétturinn í einmenningskjördæmunum margfaldur á einum stað miðað við það, sem annars staðar er. Það er kannske einna mest áberandi, þegar við höfum það í huga, að kjósendur í níu kjördæmum landsins: Seyðisfirði, Dalasýslu, Austur-Skaftafellssýslu, Strandasýslu, Vestur-Húnavatnssýslu, Vestur-Ísafjarðarsýslu, Mýrasýslu, Norður-Þingeyjarsýslu og Norður-Múlasýslu eru 8.201 og þarna eru kosnir 10 þm., en á sama tíma er kosinn einn þm., eins og verið hefur, í Gullbringu- og Kjósarsýslu með nærri sömu kjósendatölu, 7.515. Eins er misræmið, ef borin er saman innbyrðis aðstaða kjósendanna í kjördæmum, þar sem hlutfallskosningar eru viðhafðar, borin saman aðstaða í Reykjavík annars vegar, hins vegar í tvímenningskjördæmum eins og Norður-Múlasýslu, þar sem hlutfallskosningar eru, eða þá Rangárvallasýslu og Árnessýslu, sem liggja hlið við hlið og er um helmingsmunur á atkvæðatölunni. Sumir þingmenn hafa hér talað um, að fólkið í héruðunum kvarti ekkert undan þessu. Ja, þeir þykjast vita viti sínu, þeir sem svo segja. En ég get vel ímyndað mér, að kjósendum í Gullbringu- og Kjósarsýslu finnist hart að hafa aðstöðu til þess að kjósa einn þm., þegar sama hópi manna um það bil er heimilað að kjósa 9 þm. Í öðrum tilteknum kjördæmum á landinu. Það þarf enginn að segja mér það, að mönnum finnist ekki, sem við þetta búa, sem hér sé um nokkuð annarlega hluti að ræða.

Þá hefur mikið verið talað um hin sögulegu rök í þessu máli, og má segja, að kannske sé nokkurs virði margt af því, sem þar hefur fram komið, og geymist mismunandi fróðleikur þm. í þingtíðindum. En ég held hins vegar, að það geti líka verið nokkur galli á gjöf Njarðar, ef bæði nál. og þskj. geyma mjög villandi ummæli og upplýsingar um þessi atriði, og bæði margendurtekin ummæli þm. um hin sögulegu rök í þessu máli, þ.e.a.s. að það megi ekki skerða rétt hinna fornu kjördæma, eins og það er kallað, bæði ummæli þeirra og ummælí í nál. minni hl. gefa mér tilefni til þess að fara um það nokkrum orðum.

Í nál. minni hl. segir m.a., að raddir hafi „heyrzt um það, þótt fáar séu, að kjördæmaskipunin hafi við endurreisn Alþ. verið ákveðin af danskri stjórn og því ekki mikið upp úr henni að leggja. Athugasemdir af þessu tagi eru á misskilningi byggðar,“ segir í nál. „Þessi kjördæmaskipun er svo sjálfsögð,“ heldur áfram, „að varla var um annað að ræða, enda engar líkur fyrir því, að Íslendingar hafi verið henni mótfallnir. Grundvöllur kjördæmaskipunarinnar hefur staðið óbreyttur, siðan Alþ. var endurreist.“ Það er rétt, eins og þarna stendur. En svo heldur áfram í nál.: Kjördæmaskipun þessi, sem var grundvölluð um miðja 19. öldina, er „byggð á hinni fornu þinga-og goðorðaskipun þjóðveldistímans og íslenzkum staðháttum.“ Og enn fremur segir um þetta: „Þetta fyrirkomulag hefur orðið til við sögulega þróun neðan frá.“ Það á nú að vera einn ávinningurinn í þessu máli, að það sé orðið til neðan frá, það sem bezt er í því, en ekki sniðið eftir forskrift með valdboði ofan frá, eins og nú stendur til. „Það er rótfast, hluti af hinum íslenzka þjóðlífsmeið, sem hefur staðið af sér eld og ísa og borið þau blöð, sem við köllum íslenzka menningu.“ Hér finnst mér skjóta nokkuð skökku við, þegar við höfum í huga, að það er danskur einvaldskonungur, sem leggur grundvöllinn að endurreisn Alþ. um miðja 19. öld og leggur grundvöllinn að þeirri kjördæmaskipun, sem þá var tekin upp. Um þetta á ekki að þurfa að deila, og um þetta eru engin tvímæli, það liggur svo greinilega og ljóst fyrir í sögunni. En ég vil leyfa mér að leiða nokkur vitni umfram þau, sem hér hafa verið nefnd í þessu sambandi, sem ég hygg að þyki nokkur fyrir sér, ekki síður, en ýmsir þeir þm., sem talað hafa.

Séra Tómas Sæmundsson, sem var uppi um það leyti, sem verið er að endurreisa Alþ., og einn gagnmerkari Íslendinga fyrr og síðar skrifar um þetta grein, sem gefin var út 1841 í Kaupmannahöfn, og þar kemur alveg greinilega fram, að hann er talsmaður þess, að nú þegar eigi að endurreisa Alþ., þá beri og eigi að gera það í hinum forna stíl og á grundvelli gömlu þinga- og goðorðaskipunarinnar, en ekki að till. embættismannanefndarinnar dönsku í líkingu við endurreisn dönsku ráðgjafarþinganna, eins og hann heldur fram að embættismannanefndin leggi til og rétt er að hún lagði til. Hann vill, að þingið, sem „oss er fyrirhugað, sé sem líkast hinu gamla Alþ. að orðið getur, sé haft á sama stað og þá, eins og sjálfsagt er, og hafi sama nafn, og að þessum atriðum skulu því lúta eftirfylgjandi hugleiðingar vorar,“ segir Tómas Sæmundsson og heldur áfram: „Oss er hér eingöngu vísað til fornaldar vorrar. Fyrsta og fremsta skylda þeirra, sem mál þetta er á hendur falið til rannsóknar, verður sú að taka alla hina fornu alþingisskipan vora til gaumgæfilegrar íhugunar, leggja hana til grundvallar og í stað þess, eins og mönnum er tíðast, að leita vandkvæða á að halda í og innleiða forna siði, á viðleitni þeirra einmitt að miða til að ryðja burtu öllum vandkvæðum, sem virðast rísa af breytingum og ásigkomulagi tímanna til hnekkis hinu gamla, og halda ekkert, sem að fornu hefur tíðkazt, að fyrra bragði ómögulegt af hugarburði einum.“ Og enn heldur Tómas áfram: „Réttarbæturnar um fulltrúaþingið í Danmörk koma því þessu máli ekkert við, og þá er réttast að farið, ef menn, meðan það er rannsakað, létu þær liggja milli hluta, eins og væru þær ekki til, því að þær eru, að svo vöxnu máli ekki til annars, en að leiða á eldri afveguna, sem Íslandi hefur orðið ollandi svo margra hörmunga, að löggjöf þess er sprottin af útlendri rót.“ Hér víkur hann að því, að Íslendingar eigi að vara sig á því að grundvalla eða endurreisa Alþ. af útlendri rót, eins og þeir á margan hátt hafa villzt til að gera margháttaða löggjöf áður fyrr eða á þessum tíma. Hann segir, að hér sé „einsætt að taka upp aftur skipan forfeðra vorra og lögleiða að nýju þingin þeirra, sem mest kvað að, en það voru þessi tvö, þ.e.a.s. héraðsþingin eður vorþingin og svo Alþingi.“ Og enn segir hann um vorþingin og hver verkefni þeirra sérstaklega væru, en það eru einmitt þau, sem svara til kjördæmis, sem nú á að kjósa í, — hann segir orðrétt: „En sér í lagi ætti þar (þ. e. á vorþingunum) að kjósa þjóðfulltrúana til lögréttusetu á Alþ. og skipa fyrir um alþingisreiðir.“

Í Réttarsögu Alþingis víkur Einar Arnórsson að þessu og segir einmitt um endurreisn Alþingis og afstöðuna til hinnar fornu skipunar eða þeirrar, sem embættismannanefndin lagði til, þetta, með leyfi hæstv. forseta: „Embættismannanefndin hafði lagað frv. sitt mjög eftir hinni dönsku tilskipan frá 15. maí 1834 um dönsku ráðgjafarþingin. Réttlætti nefndin það með því, að verkefni íslenzka þingsins ætti samkv. konungsúrskurðinum 20. maí 1840 að vera hið sama sem verkefni dönsku þinganna. Þessi skoðun og meðferð nefndarinnar sætti hörðum andmælum af einni hálfu. Tómas Sæmundsson skráði ritgerð um alþingismálið, sem prentuð er í „Þrjár ritgerðir“, Kaupmannahöfn 1841. Er skrif séra Tómasar önnur ritgerðin. Er hann mjög ósammála embættismannanefndinni. Hann vill láta laga Alþ. hið nýja sem allra mest eftir lögréttu á Alþ. hinu forna. Vill hann, að landinu verði skipt í vorþing. Hugsar hann sér 12 menn kjörna úr fjórðungi hverjum, eða 4 úr hverju vorþingi, til lögréttusetu, svo að lögrétta verði skipuð 48 mönnum, auk amtmanna, landsdómara og biskups.“ — Þetta segir Einar Arnórsson einmitt um afstöðu Tómasar Sæmundssonar í þessu máli, segir svo að vísu, og það er hans skoðun, Einars, en skýrir þó málið, þegar hann segir: „Ekki er vel skiljanlegt, hvað unnið hefði verið við þessa uppvakningu á gömlu skipulagi, sem byggðist á allt annarri þjóðfélagsskipun.“ M.ö.o.: að byggja þingið og þá kjördæmaskipun og hvernig það væri upp byggt á hinum fornu goðorðum og þingum okkar var allt annað, en gert var eftir tillögum embættismannanefndarinnar um miðja 19. öldina, þegar ráðgjafarþingið var endurreist, enda hefði þingið þá orðið skipað 48 þm., eins og þarna segir, auk amtmanna, landsdómara og biskups. En þegar þingið var endurreist, voru það ekki nema 20 þjóðkjörnir þm., sem þar voru, og 6 konungkjörnir, eins og kunnugt er.

Allt þetta sker úr um það, hversu rangt það er skoðað, ef menn halda, að byggt sé á fornum rétti eða fornri skipan Alþ., þegar það er endurreist og með þeirri kjördæmaskipun, sem þá var lögð til grundvallar og enn er í gildi. En til þess að taka af öll tvímæli um þetta þykir mér rétt að vitna til greinar, sem Jón Sigurðsson skrifaði einmitt um þessi mál í Nýjum félagsritum 1858, og hygg ég, að dómur hans mundi kannske allra manna sízt verða vefengdur. En það er mjög skýrt, þegar hann segir um alþingismálin eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar úrskurður konungs (þ.e. Kristjáns VIII) hinn 20. maí 1840 um Alþ. átti að koma til framkvæmdarinnar, komu fram þrjár aðalstefnur, sem voru byggðar á ólíkum skoðunum manna.

Ein stefnan var sú, sem gekk í nokkrum efnum næst úrskurðinum, að fá Alþ. í öllu hinu ytra sem líkast hinu forna og þó einkum að fá það haldið á Þingvöllum. Alþingisstaðurinn var hjá þessum flokki aðalatriðið, og þar með þótti þeim Alþ. standa og falla. Það má geta nærri, að í þessum flokki voru öll skáldin og flestir þeir, sem litu helzt á málið eftir tilfinningum sínum.

Önnur stefnan var sú, sem einnig byggist að nokkru leyti á úrskurði konungsins, að hafa þingið sem líkast hinum dönsku þingum, svo sem það ætti að hafa áþekk störf á hendi. Þessa stefnu höfðu reyndar fáir, því að hún var óíslenzk, en þessir hinir fáu stóðu næstir málinu og voru í embættismannanefndinni. Það urðu því málalok þeirra að búa til alþingislög beint eftir tilskipuninni um þingin í Danmörk. Þetta var bæði ábyrgðar minnst við stjórnina, og svo var það líka hægara, því að þá þurfti ekki annað, en að skrifa upp dönsku tilskipunina, að svo miklu leyti sem hún átti við, en gamla Alþ. var slegið úr leik, með því að menn þóttust ekki vita betur eða víssu ekki betur, en að það hefði verið einungis illa lagaður yfirdómur.

Hin þriðja stefnan var sú, að nokkrir vildu fara sem næst hinu forna Alþ. í öllu því, sem snerti vald þingsins og réttindi, að það hefði fullt úrskurðarvald í innlendum málum, að Íslendingar fengju frjálslegan kosningarrétt og kjörgengi frjálst, þing nokkuð fjölskipað og þinghald í heyranda hljóði, en halda ekki hinum forna alþingisstað.

Það fór að vonum, að annar flokkurinn sigraði í meðferð málsins, því að það féll stjórnarráðinu bezt, að allt væri sniðið eftir Danmörk. En við það datt allmörgum af fyrsta flokknum ketill í eld og þóttust nú sjá, að Alþ. mundi að engu verða. En hinir af þeim flokki, sem vægari voru, gengu í hóp með þeim, sem vildu enn knýja á og fá aukin smám saman réttindi Alþ. Þessi flokkur hefur ávallt síðan aukizt og eflzt á alþingum og haldið fram stöðugt hinum sömu atriðum um að auka og bæta rétt Alþ. og vald, svo að það geti öðlazt fullt löggjafarvald með konungi í öllum innlendum málum. Er það nú áunnið, að kosningarréttur er nú ekki lengur bundinn við fasteign og að kjörgengi er frjálst. Þinghald er í heyranda hljóði síðan 1849. En tölu þm. hefur ekki fjölgað nema um 1, með því að nú verður Skaftafellssýslu skipt í tvö kjördæmi og annar þm. getur bætzt við fyrir Vestmannaeyjar, því að nú verður kosið í því kjördæmi, sem ekki var áður. Þetta atriði hefur þó ekki farizt fyrir vegna mótstöðu stjórnarinnar, heldur vegna mótstöðu alþm. sjálfra, af því að svo lítur út, sem sumir þeirra meti meira kostnaðarauka þann, sem mundi leiða af, ef fjölgað væri þm., heldur en það afl og kraft, sem það mundi veita þinginu, ef þm. væru fleiri, svo að þar með mundi ávinnast miklu fljótar ýmislegt af því, sem oss ríður mjög á að fá sem fyrst, en ekki hefur fengizt hingað til.“

Hér lýkur ummælum Jóns Sigurðssonar forseta, og þarna gerir hann grein fyrir því í mjög stuttu máli, að það hafi í raun og veru verið uppi þrjár stefnur: Sú fyrsta að taka upp forna þingið og á Þingvöllum. Önnur að hafa þingið sem fornast í sniðum, en ekki á Þingvöllum, og er mönnum kunnugt um, að sjálfur fylgdi forsetinn þessum hópi manna og þessari stefnu. En sú þriðja var svo sú að sníða það sem mest eftir dönskum tillögum og dönskum fyrirmyndum, og það var sú till., sem varð ofan á. En síðan hefur verið unnið að af öðrum í anda Jóns Sigurðssonar og fleiri góðra manna að breyta því smám saman í bættara og betra form, og það er einmitt það, sem við erum að gera í dag með þeim till., sem fyrir liggja um að gerbreyta grundvellinum fyrir stjórnskipuninni, eins og hann var lagður um miðja 19. öldina og hefur því miður ekki breytzt nægjanlega síðan og ekki nema smám saman og þó ekki í neinum grundvallaratriðum.

Ég skal svo víkja í lok máls míns nokkuð að efni málsins, eins og það nú liggur fyrir, þó að segja megi, að þar sé flest orðið þaulrætt.

Ég hef heyrt það, að mörgum vex í augum aukning á tölu þm. Sjálfum hefur mér aldrei fundizt, að neinu máli skipti, hvort þm. væru ákveðnir 52 eða 60 eða 65 eða jafnvel fleiri. Það, sem úr sker um þingið sjálft, er starfshæfni þess og atorka til þess að vera hlutverki sínu vaxið. Og merkilegt má heita, að þegar Alþ. er endurreist 1843, eða lagður grundvöllurinn að endurreisn þess þá, þá koma strax fram bænarskrár á þingunum 1845 og 1847, nærri því úr öllum kjördæmum landsins, þar sem ég hygg, að í næstum því hverri einustu bænarskrá sé fram tekin óskin um það að fjölga þm. frá því, sem þá var. Þá var þessi hugsunarháttur hjá Íslendingum, þó að mönnum vaxi það í augum nú, þó að þingmönnum eigi að fjölga nokkuð, eftir að íbúatalan í landinu hefur jafnstórkostlega aukizt og raun ber vitni um á þessu tímabili. Og það er rauður þráður í baráttu Jóns Sigurðssonar fyrir endurreisn Alþ. fyrr og síðar, að það verði að vera víss lágmarkstala þm., svo að í raun og veru sé hægt um þing að tala. Ég get vitnað hér í ummæli Jóns Sigurðssonar frá þingi 1847 um tölu þm., þar sem hann segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Um tölu þm. hafa flestir óskað, að hún yrði aukin töluvert. Hafa sumir stungið upp á, að þm. yrðu 42 auk hinna konungkjörnu, sumir, að þeir yrðu 26 auk hinna síðarnefndu, og svo þar í milli. Því verður ekki neitað, að fulltrúatalan kemur mjög ójafnt niður, eftir því sem nú er skipt í sýslunum, þar eð sum kosningaumdæmi með 4–5 þúsund innbúa kjósa jafnt við þau, sem hafa 1.000 og þaðan af minna. Það er og víst, að kosningarnar verða fríari og meiri líkindi til, að þinginu ykist meira afl af menntuðum mönnum, ef hin stærri kjördæmi fengju að kjósa 2 alþm. Þingið yrði einnig því tignarlegra sem það væri fjölskipaðra, og öll ástæða er til að ætla, að það verði ekki fámennara, en þess konar þing annars staðar.“

Þetta voru viðhorf og viðbrögð Jóns Sigurðssonar í sambandi við þingmannatöluna fyrir svo mörgum árum. Þingmannatöluna tel ég þess vegna ekki neitt veigamikið atriði í þessu máli og alls ekki nema eðlilegt, að þeim sé nú fjölgað upp í það, sem gerð er till. um, eða upp í 60.

En það er annað, sem skiptir meira máli í þessu sambandi, og það er jöfnuðurinn á milli kjósendanna í landinu og milli héraðanna innbyrðis, sem lagður er grundvöllur að í þessum till., sem hér liggja fyrir, umfram það, sem áður hefur verið. Og þar komum við alveg nákvæmlega að sama deiluefninu og fyrir rúmum 100 árum, þegar Jón Sigurðsson forseti segir, og ég leyfi mér enn að vitna í hann, hann segir svo:

„Það er án efa víst, að þingmannatalan, sem nú er, er meiri að tiltölu, en annars staðar eftir fólksfjölda. En það er annað atriði, sem hér ríður meira á að hafa fyrir augum, og það er jöfnuðurinn í landinu sjálfu. Þessum jöfnuði eru menn einnig að leitast við að koma á annars staðar, þar sem annaðhvort stéttunum er gefinn misjafn réttur svo að aðallinn til að mynda hefur miklu fleiri fulltrúa að tiltölu, eða réttinum er skipt misjafnt milli héraða eða staða, svo að lítil þorp með fáum innbúum hafa eftir gömlum vana jafnan rétt til að kjósa fulltrúa eins og stórir staðir. Á líkan hátt þarf að komast jöfnuður á milli héraðanna hjá oss, því að það er undarlegt, að Vestmannaeyjar með 300 innbúa, Reykjavík með 800 eða 900, Strandasýsla með 1.000 og Norður-Þingeyjarsýsla með svipað og fleiri skuli kjósa jafnt einn fulltrúa eins og Árnessýsla með 5.000 og margar aðrar hinar fjölbyggðustu sýslur.“

Og um þetta segir Jón Sigurðsson forseti að lokum:

„Þingin eru byggð á því, að allsherjarviljinn geti komið fram fyrir munn fulltrúa þjóðarinnar, en þetta leiðir til þess, að fulltrúafjöldinn verður hvað helzt að byggjast á innbúafjöldanum og jafnast eftir honum.“

Menn hafa að vísu vitnað til þess hér, að það sé ekki tryggt fullt réttlæti með því hlutfallskosningakerfi, sem nú er verið að tala um hér. Og rétt er það, að á því eru gallar eins og mörgum öðrum mannanna verkum. En um hitt er ekki hægt að deila, að það er auðvitað stórum réttlátara, en það kerfi, sem við höfum búið við eða menn vilja taka að mestu leyti upp, hvort heldur eru einmenningskjördæmi eða kjördæmi með blönduðu fyrirkomulagi eða hlutfallskosningum sums staðar.

Ég hef tekið eftir því, að það hafa að undanförnu verið nokkrir útreikningar í blöðum og Tímanum þá náttúrlega fyrst og fremst, þar sem þeir hafa verið í þessu blaði að reyna að sýna fram á þann stærðfræðilega órétt, sem leitt gæti af hlutfallskosningafyrirkomulaginu vegna hinna dauðu atkvæða, sem þar koma fram, eins og þm. A-Sk. benti réttilega á hér áðan, og ég hef tekið eftir því, að blaðið hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að það geti jafnvel í versta tilfelli um þriðjungur kjósenda fengið 2/3 af þingmannatölunni. Þetta er stærðfræðilega hugsanlegur möguleiki og bendir á víssan veikleika einmitt í þessu kerfi.

En við skulum nú líka reikna út stærðfræðilegan möguleika fyrir skekkjunni á hinn bóginn í einmenningskosningafyrirkomulaginu og taka alveg nákvæmlega sama dæmi. Þarna var Tíminn með 10 þús. kjósenda kjördæmi, kjósa átti fimm þm. og sex flokkar voru í boði. Þá getum við skipt þessum 10 þús. í fimm kjördæmi með hvaða tölu sem menn vilja. Frambjóðendatalan er sex. Þá er hægt að komast að þeirri stærðfræðilegu niðurstöðu, að 16–17% af kjósendunum fái ekki 2/3 af þeim, heldur 100% af þm. eða þingmennina alla. Og þá sjáum við auðvitað, hversu gífurlegur munur er þó á þeim fræðilega hugsuðu niðurstöðum, sem geta komið, þegar menn annars vegar komast að þeirri niðurstöðu einni, að þeir geti fengið 2/3 af fulltrúunum, en hins vegar 16–17% af kjósendunum alla þm. með einmenningskosningafyrirkomulaginu. Þetta liggur suðvitað í augum uppi, og þess vegna er einmitt tekinn upp sá háttur nú eins og áður fyrr að hafa uppbótarsæti til þess að jafna þann halla, sem fram kann að geta komið í kosningunum, þó að hlutfallskosningar séu viðhafðar.

Menn hafa nú ýmislegt við uppbótarsætin að athuga, og Framsfl. samþykkti á sínu þingi ekki alls fyrir löngu, að hann vildi engin uppbótarsæti hafa. Þó eru uppbótarsætin, eins og bent hefur verið á, einmitt eitt af því, sem til var í okkar fornu goðorðaskipun, því að í Norðlendingafjórðungi voru fjögur þingin, en þrjú í hverjum hinna, og þess vegna voru teknir uppbótargoðar, þegar goðarnir gengu til lögréttu, þannig að jafnmargir eða 12 goðar væru úr hverjum fjórðungi, en ekki 12 úr Norðlendingafjórðungi og 9 úr hinum fjórðungunum hverjum um sig. Menn höfðu þá þessa tilfinningu, að þó að þingaskipunin væri þessi, að hún gæfi Norðlendingum fleiri goða, þá höfðu hinir fjórðungarnir rétt til þess að nefna menn til lögréttusetu til viðbótar, þannig að samtals væru jafnmargir á miðbekk í lögréttu eða 48, sem síðan kvöddu svo sér til ráðuneytis tvöfalda þessa tölu, svo að í lögréttu voru að fornu um 144, en nú þykir ofrausn, að á Alþingi sitji 60.

Varðandi svo niðurstöðurnar eða líkindin fyrir réttlæti í þessu máli, elns og uppástungur liggja fyrir, þá vil ég geta þess, að ef við tökum kosningaúrslit í fimm síðustu kosningum, eða frá kosningum 1942, síðari kosningum þess árs, alþingiskosningum 1946, 1949, 1953 og 1956, og leggjum til grundvallar þær till., sem hér er stungið upp á til skipunar þingsins, þá fæst í öllum þessum kosningum fullkomið jafnrétti á milli þingflokkanna, m.ö.o. það jafnrétti, sem að er stefnt, þrátt fyrir það að annmarkar séu á hlutfallskosningafyrirkomulaginu, sem vinnast upp með uppbótarkerfinu, eins og lagt er til að því sé beitt.

Í nál. minni hl. er svo eitt atriði, sem mig langar til að víkja að, áður en ég skilst við þetta mál. Þar segir:

„Eftir kosningu skoðar hann sig“ — þ.e. þm. í einmenningskjördæmi — „að jafnaði, a.m.k. að því er snertir staðbundin mál, fremur sem þm. kjördæmis en flokks, þótt hvort tveggja komi til greina. Í margmenniskjördæmi með hlutfallskosningu eru fyrst og fremst flokkar í framboði. Þar er í miklu ríkari mæli, en í einmenningskjördæminu kosið milli flokka, en ekki manna. Hin persónulega ábyrgð breytist í flokksábyrgð. Það þingræði og það ríkisvald, sem áður hvíldi á herðum persónulega ábyrgra manna, tekur að hvíla á herðum flokka. Í stað samvizku manns kemur ópersónulegt sjónarmið flokks, þegar dæma skal um rétt og rangt.“

Ég fyrir mitt leyti þakka hv. minni hl. fyrir þessa sendingu. En það vil ég segja honum, að hann má þykjast nokkuð mikill fyrir sér, ef hann getur sent svona sendingar til herbúða þeirra þm. hér, sem hafa verið umboðsmenn í stærri kjördæmum með hlutfallskosningu, og vill slá því föstu, að í stað persónulegrar ábyrgðar og samvizku manns í einmenningskjördæmi, sem báðir þessir þm. í minni hl. eru fyrir, þá muni þverra öll ábyrgð, og á það þá sennilega eins við um okkur, þá sem hingað til höfum verið kosnir í stærri kjördæmum, hvort heldur er í Reykjavík eða í tvímenningskjördæmunum, að fólkið verður að vara sig á því, að þarna eru ekki mennirnir með samvizkuna eða persónulegu ábyrgðina.

Það vill svo vel til, að við höfum hér dæmin fyrir okkur í þessu efni, og hef ég aldrei séð það fyrr, að við værum ásakaðir um það að vera samvizkulausari í okkar störfum hér á þingi, þessir umboðsmenn stærri kjördæmanna, heldur en þessir ágætu umboðsmenn minni kjördæmanna, og fer það að sjálfsögðu eftir atvikum og persónulegum verðleikum manna.

Í meginatriðum verður þess vegna að segja að lokum um þetta mál, sem hér liggur fyrir, að það er fyrst og fremst réttlætismál. Það miðar að því að leggja nýjan og réttlátan grundvöll að skipun Alþingis, að varðveita þingræði og lýðræði í landinu í ríkara mæli, en tekizt hefur fram til þessa, og það er mín einlæga skoðun, að það muni í framkvæmdinni verða til þess að lyfta stjórnmálabaráttunni á hærra stig, og allur almenningur, hvort heldur er í dreifbýli eða þéttbýli, mun finna, að það er honum og landslýðnum í heild til farsældar, að svo muni verða.