25.04.1959
Neðri deild: 116. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1427 í B-deild Alþingistíðinda. (1197)

144. mál, stjórnarskipunarlög

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Hv. 5. þm. Reykv. (JóhH), sem talaði hér áðan, gaf mér ástæðu til þess að bæta örfáum orðum við það, sem ég hef áður tekið fram.

Hv. 5. þm. Reykv. las hér upp ummæli úr ritgerðum Tómasar Sæmundssonar og Jóns Sigurðssonar um það, hvernig stofnað var til Alþingis, þegar það var endurreist, og hvaða skoðanir voru þá uppi. Það er mjög hressandi að rifja upp ritgerðir Tómasar Sæmundssonar og Jóns Sigurðssonar, en í sambandi við það mál, sem hér liggur fyrir, hefur það í sjálfu sér ekki mikið rakagildi.

Ritgerð Tómasar var skrifuð, þegar málið var á umræðustigi. Hann var einn af þeim áhugamönnum íslenzkum, sem hvatti til þess og beitti sér fyrir því, að Alþingi yrði endurreist. En hann var sjálfur fallinn frá, þegar það kom til framkvæmda, því að eins og kunnugt er, lézt Tómas 1841, en tilskipunin um endurreisn Alþingis var gefin út 8. marz 1843.

Jón Sigurðsson hafði jafnan þann hátt á að skrifa mjög víðtækt og fræðilega um þau málefni, sem hann tók sér fyrir hendur að rita um og skýra fyrir þjóðinni, og í ritgerð þeirri, sem hv. 5. þm. Reykv. las upp úr og vitnaði til, fylgdi Jón Sigurðsson sínum venjulega hætti, þannig að ræða málið á mjög breiðum grundvelli og taka það til athugunar frá mörgum hliðum og fræðilega. En eitt af því, sem Jón Sigurðsson dró fram og hv. 5. þm. Reykv. raunar benti á, voru m.a. þau ummæli, að þingin eru byggð á því, að allsherjarviljinn geti komið fram fyrir munn fulltrúa þjóðarinnar. Mér finnst liggja beint við að skilja þessi ummæli Jóns Sigurðssonar þannig, að það sé ekki fólksfjöldinn einn, sem eigi að ráða kjördæmaskipuninni og vali þingmanns, heldur þurfi jafnframt að gæta þess, að hinir fámennari landshlutar geti komið á framfæri á þinginu sínu sjónarmiði, að allsherjarviljinn geti komið fram fyrir munn fulltrúa þjóðarinnar, að sérhvert hérað þurfi að eiga sinn fulltrúa til að flytja sinn málstað.

Annars skal ég ekki fara lengra út í þetta. Það liggur í sjálfu sér utan við eðli þess máls, sem hér liggur fyrir, að ræða þetta fræðilega. En ég vil benda á það hv. þm. til athugunar, að ritgerð sú og ræða, sem hv. 5. þm. Reykv. vitnaði til eftir Jón Sigurðsson, er úr garði gerð, á meðan þingið hafði aðeins ráðgefandi vald. Nú er það kunnara, en frá þurfi að segja, að Jón Sigurðsson var slíkur áhrifamaður í íslenzkum stjórnmálum á sinni tíð, að enginn Íslendingur hafði jafnrík áhrif og hann á það að móta skipan þingsins og þ. á m. kjördæmaskipunina, eins og hún varð endanlega ákveðin, þegar Alþingi fékk löggjafarvald 1874. Og eins og ég hef bent á fyrr í þessum umr., voru kosningalögin 1877 sett á næstsíðasta þinginu, sem haldið var, áður en Jón Sigurðsson féll frá, og grundvölluð á stjórnarskránni 1874. Það eru því verk Jóns Sigurðssonar á langri og farsælli starfsævi, sem ber að meta hér, en ekki upplestur úr fræðilegum ritgerðum eingöngu.

Og hvernig var þá sú kjördæmaskipun, sem sett var á stofn eftir stjórnarskrárbreytinguna 1874, um það leyti eða skömmu áður en Jón Sigurðsson lauk sínu gagnmerka brautryðjandastarfi með þessari þjóð? Sú kjördæmaskipun var þannig, að það skyldi kjósa 30 þjóðkjörna þm. og 6 konungkjörnir þm. skyldu einnig eiga sæti á þinginu, þannig að grundvöllur þeirrar kjördæmaskipunar, sem við búum nú við, var a.m.k. endurskoðaður og styrktur, vil ég segja, í sambandi við setningu stjórnarskrárinnar 1874. Og þær breytingar, sem síðan hafa átt sér stað, eins og ég rakti í framsöguræðu minni, eru allar byggðar á þeim grundvelli.

Þá vildi hv. 5. þm. Reykv. vefengja það, sem segir í nál. minni hl. stjskrn., að sýsluskiptingin væri byggð á goðorðaskipuninni fornu. Ég hef rætt þetta í fyrri ræðum mínum og vísa til þess, sem ég hef tekið fram um það, sé ekki ástæðu til að fara að endurtaka það, en vil aðeins leggja áherzlu á, að sýslurnar voru ekki eingöngu eða fyrst og fremst innheimtuhéruð konungs, eins og lögð er áherzla á í nál. meiri hl., heldur lögsagnarumdæmi. Héraðsdómsstigið, sem áður fylgdi þinghánum, vorþingunum, færðist inn í sýslurnar, og sýslumennirnir urðu héraðsdómarar.

Þá vil ég loks víkja örfáum orðum að því, sem fram kom hjá hv. 5. þm. Reykv. út af þeim ummælum í nál. minni hl. stjskrn., að með því að taka upp þá skipan, sem ráðgert er í þessu frv., breytist persónuleg ábyrgð manns yfir í ópersónulega flokksábyrgð. Hv. 5. þm. Reykv. vildi benda á í þessu sambandi, að hér væri verið að kasta hnútum að einstökum mönnum, sem hefðu átt eða ættu sæti á þingi fyrir fjölmenn byggðarlög eins og t.d. Reykjavík. Þetta er alls ekki rétt, og þetta er útúrsnúningur, sem ég sé sérstaka ástæðu til þess að benda á og leiðrétta. Hér er ekki sveigt að neinum manni persónulega. Hér er eingöngu miðað við, að grundvöllurinn að þingræðinu breytist, það er nýtt kerfi, sem við erum að taka upp, og af því leiðir, að sambandið milli þingmanns og kjósenda verður ópersónulegra samkvæmt hinu nýja kerfl, sem við erum að taka upp, heldur en samkvæmt hinu eldra, sem við höfum fylgt. Það er þetta, sem í nál. okkar felst. Þegar um einmenningskjördæmi er að ræða, hefur þm. engan til þess að metast við um það, sem miður fer eða vel tekst. Reikningsskilin milli hans og kjósendanna hljóta að verða glögg, það er ekki um það að villast. Og mjög svipuð skoðun gagnvart framkvæmdavaldinu og sú, sem við bendum á gagnvart löggjafarvaldinu samkvæmt þessari nýju skipun, hefur oft gert vart við sig hjá sjálfstæðismönnum, þegar þeir benda á það í ályktunum og ræðum og blaðaskrifum, hve samstjórnir flokkanna séu varhugaverðar. Vegna þess, hve málefnabaráttan verði óskýr, sé farið að metast um það á milli manna og flokka, hver eigi hlutdeild að þessu verki og hver að hinu, þannig að reikningsskilin verði óglögg. Ég álít ekki, að þessi málflutningur sjálfstæðismanna beinist persónulega að neinum ákveðnum manni, ég held, að hann beinist að því kerfi, sem við höfum búið við og við höfum orðið að fylgja í framkvæmdavaldinu.

En til þess að færa þessum orðum stað, að Sjálfstfl. hafi oft bent á þetta og lagt á það mikla áherzlu, þá ætla ég þessum orðum til skýringar og fyllri sönnunar að rifja upp það, sem ég raunar hef áður tekið fram, að t.d. í Morgunblaðsgreininni, sem ég las upp úr í dag, er þetta sjónarmið Sjálfstfl. orðað þannig, að það eigi að vera sjálfstæðismönnum hvöt til að herða baráttuna og efla sóknina fyrir heilbrigðu, haftalausu stjórnarfari meiri hl. Sjálfstfl. Og beinlínis í landsfundarsamþykkt Sjálfstfl. segir svo 1953, að flokkurinn leggi áherzlu á, að stjórnarskráin verði þannig úr garði gerð, að hún stuðli að meiri hluta eins flokks, „þar sem samstjórnir eru varhugaverðar heilbrigðum stjórnarháttum“. Þetta skil ég ekki þannig, að með því sé verið að sveigja persónulega að nokkrum manni, heldur verið að benda á veilur í því kerfi, sem við höfum orðið að fylgja í framkvæmdavaldinu, og þann skilning ber að leggja í ummæli okkar í minni hl. stjskrn., en ekki hitt, að við séum með persónulegar hnútur til nokkurs manns.

Ég mun láta þessa aths. nægja út af ræðu hv. 5. þm. Reykv.