25.04.1959
Neðri deild: 116. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1431 í B-deild Alþingistíðinda. (1200)

144. mál, stjórnarskipunarlög

Skúli Guðmundsson:

Hv. 5. landsk. þm. (BG) var að lesa hér upp gömul ummæli eftir einum nafngreindum manni. Ég hlustaði. Ég bjóst við, að þarna kæmi fram eitthvað til stuðnings þeim málstað, sem hv. 5. landsk. er að beita sér hér fyrir, að leggja niður öll kjördæmin utan Reykjavíkur. En það er ekki með einu orði vikið að nauðsyn þess í þessu, sem hann las upp eftir hinn kunna mann, — ekki með einu orði.

Þessi hv. þm. endaði sitt spjall á því, að þjóðarviljinn, það væri hann, sem ætti að gilda. Fer hann eftir honum og þeir félagar hans, þegar þeir eru að krefjast þess, að kjördæmin úti um land verði lögð niður með lagafyrirmælum? Hvaðan hafa komið áskoranir úr þeim kjördæmum um að haga þessu þannig? Mér er ekki kunnugt um, að þær hafi neinar komið. En hitt er vitað, að almenningur þar er á móti þessu, og það hefur ekki verið bent á nein rök til stuðnings því, að það sé nauðsynlegt að hafa þennan hátt á.

Þeir, sem að þessu frv. standa, leggja ekki til, að það sé fækkað þingmönnum landsbyggðarinnar nema á einum stað. Þeir vilja svipta Austfirðinga einum þm. En hvernig stendur á því, að það má ekki kjósa þessa þm. úti á landi á sama hátt og verið hefur í þessum sérstöku kjördæmum, sem nú eru? Hvað er á móti því? Hvaða hætta stafar þjóðinni í heild af því, að þessu sé hagað þannig áfram? Þeir hafa ekki bent á það. Þeir hafa ekki bent á nein rök til stuðnings því, að það sé nauðsynlegt að gera þessa breytingu.