27.04.1959
Neðri deild: 117. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1474 í B-deild Alþingistíðinda. (1209)

144. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Pálmason:

Herra forseti. Hv. andstæðingar þess frv., sem hér liggur fyrir, hafa nú haldið margar ræður og langar, bæði við 2. umr. og þessa umr. Flestar eru þessar ræður líkari því, að þær væru fluttar á eldhúsdegi eða í kosningahríð, sem kosningaræður á framboðsfundum, heldur en þær væru ræður um ákveðið frv. eins og það, sem hér liggur fyrir, því að áreiðanlega minni hlutinn af því, sem þessir menn hafa sagt, er um frv. sjálft.

Við 1. umr. þessa máls flutti ég stutta ræðu og gerði nokkra grein fyrir því, af hverju ég væri fylgismaður þessa frv. Ég vil þó bæta við þetta nokkrum orðum, einkum vegna þeirrar breyttu afstöðu, sem nú er fram komin frá andstæðingum málsins. En ég ætla mér ekki þá dul að fara að svara öllu því, sem hér hefur heyrzt í þingsalnum, öllu því moldviðri, sem rokið hefur hér frá hálfu hv. framsóknarmanna, því að til þess þyrfti margra klukkutíma ræðu.

Við 1. umr. þessa máls var ekki komið neitt fram um það, að hve miklu leyti hv. andstæðingar málsins vildu breyta frá því, sem þeir höfðu samþykkt á sínu flokksþingi, sem nýlega var haldið. En það hafa komið hér fram allverulegar brtt. frá þessum mönnum á þskj. 430, og af því að þetta mál er eitthvert stærsta mál, sem fyrir þingi liggur og getur legið, þá verður maður að gera ráð fyrir því, að það, sem minni hl. n. flytur, sé flutt í umboði flokksins alls.

Ég verð nú að segja það, að ég er svo mildur í skapi, eins og eðlilegt má telja um svo aldraðan mann, að mér þykir alltaf vænt um það, þegar það kemur í ljós, að allir þm. eru á einu máli um veigamikil atriði, eins og hér hefur komið fram. Þannig er, að hv. framsóknarmenn leggja það til, að þm. séu 60, eins og frv. gerir ráð fyrir. Það hefur þess vegna komið í ljós, að allur þingheimur, allir þingflokkar, allir þingmenn, sem nú eru á þingi, eru sammála um þessa tölu, og talan 60, þetta er falleg tala og þýðir það, að eftir kosningarnar í haust má gera ráð fyrir því, að hér í aðaldeild þingsins verði 40 menn, en í hv. Ed. 20 menn. Mér þykir vænt um, að það er ekki nein deila lengur út af þessu.

Í öðru lagi flytja þeir hv. framsóknarmenn till. um það, að uppbótarsætin haldist og þau séu jafnmörg eða því sem næst eins og gert er ráð fyrir í frv., hvort þau eru 10 eða 11, skiptir ekki miklu máll. Aðalatriðið er það, að þessir andstæðingar málsins hafa gengið inn á það að halda öllum uppbótarþingsætunum, sem er í samræmi við þingmannatöluna. Þetta er mjög gott, að það er líka orðið samkomulag um þetta, sem lengi hefur verið töluvert deilumál á milli flokka, bæði úti á landsbyggðinni og hér á Alþingi.

Í þriðja lagi flytja þeir hv. framsóknarmenn till. um það, að þm. Reykv. skuli vera 12, alveg eins og er í frv., og kosnir í einu lagi hlutfallskosningu. Mér þykir það einnig gott, að þessi till. er þannig samþykkt af öllum þingheimi, svo að um þetta þarf ekki að vera nein deila.

Í fjórða lagi kemur svo fram í þessum till., að þessir menn leggja til, að tvímenningskjördæmin gömlu haldist eins og er og einu bætt við, sem er Akureyrarkaupstaður, og þarna gildi hlutfallskosning. Þetta þýðir, að það er augljóst, að þeir eru horfnir frá sinni skoðun, sem mikið var hamrað á árið 1942 og svo mikið, að þá var rofin stjórn út af því ákvæði, að það skyldi vera farið fram á að hafa hlutfallskosningu í tvímenningskjördæmum. Það er því alltaf gott til þess að vita, þegar þverúðarfullir menn fallast á það, að bezt sé að halda því, sem orðið er, og láta þetta vera þannig. Þeir hafa líka áreiðanlega orðið sannfærðir um, að það mundi ekki vera vel tekið á því í tvímenningskjördæmunum, ef þau ættu að haldast óbreytt, að það yrði horfið frá því skipulagi, að þar væri hlutfallskosning.

Í þessum brtt. er einnig töluvert breytt frá því, sem áður var, að þeir gera ráð fyrir því að skipta Gullbringu- og Kjósarsýslu í 4 kjördæmi og bæta þar við 3 einmenningskjördæmum. Nú er þetta kannske engin fjarstæða, en miklu hefði mér fundizt samt vera eðlilegra, úr því að þarna er gerð breyting á, að skipta þessu kjördæmi í 2 tvímenningskjördæmi og hafa þar hlutfallskosningu, eins og á sér stað í hinum.

Enn fremur gera þeir ráð fyrir að skipta Borgarfjarðarsýslu í 2 einmenningskjördæmi, og er það engan veginn nein fjarstæða, ef því skipulagi væri haldið áfram, því að Borgarfjarðarsýsla er, eins og nú er komið, töluvert kjósendafleiri, en 3 núverandi tvímenningskjördæmi. En með þessu eru þessir hv. andstæðingar málsins komnir inn á þá braut að viðurkenna og leggja til, að hlutfallskosning gildi hjá miklum meiri hluta þjóðarinnar. Ég hef reiknað þetta út eftir kjósendatölu á kjörskrá við síðustu kosningar, og kemur þá í ljós, að hv. framsóknarmenn leggja til að sé hlutfallskosning í byggðarlögum, sem þá höfðu kjósendur, sem nemur rúmlega 57 þús. En þar sem þeir ætla að halda einmenningskjördæmum, sem þeir leggja til að séu 24, voru kjósendur þá tæplega 33 þúsund.

Það er þess vegna augljóst, að hér er komið í ljós, að þessir andstæðingar málsins eru komnir inn á það, að það skuli gilda hlutfallskosning hjá miklum meiri hluta þjóðarinnar. En þessu fylgir það, að það mundu verða af 60 þm. 36 kosnir hlutfallskosningu, því að þar verður að telja uppbótarmennina með, en 24 kosnir meirihlutakosningu í einmenningskjördæmum.

Nú er það svo, að hér á þingi er 31 þm., sem hefur varamann og er kosinn hlutfallskosningu, en 21, sem hefur engan varamann, og þetta er það, sem hv. framsóknarmenn leggja til að halda og sýna þar eins og í fleiru mjög mikið ósamræmi varðandi sínar tillögur.

Eitt er það, sem dálítið stingur í augu varðandi þessar till. um t.d. Gullbringu- og Kjósarsýslu, að þessir menn ætla að bæta þm. við Akureyrarkaupstað og hafa þar hlutfallskosningu, en þeir ætlast ekki til að bæta neinum þm. við Hafnarfjarðarbæ, sem hefur tiltölulega lítið færri kjósendur, og mismunurinn er sá, að þeir vilja halda Seyðisfjarðarkaupstað sem sérstöku kjördæmi, þar sem voru síðast 426 menn á kjörskrá, en þeir vilja gera það jafnt Hafnarfjarðarbæ, sem hafði um 3.400 kjósendur. Með öðrum orðum, eftir þessum till. á einn maður á Seyðisfirði að hafa sama kosningarrétt og átta eða níu menn í Hafnarfirði. Maður freistast til að halda, að þetta stafi af því, að Framsfl. hefur aldrei átt miklu fylgi að fagna í Hafnarfirði, og ég býst við, að þó að þar væri gert 10 manna kjördæmi með hlutfallskosningu, þá fengi hann þar engan mann kosinn.

Svo er hér verið að hamra á því, að það sé verið að taka allan rétt af hinni strjálu byggð, — mennirnir, sem leggja sjálfir til alveg sömu tillögurnar um allt þéttbýlið eins og eru í frv. og vita, að það á ekki að taka einn einasta þm. af hinni strjálu byggð nema einn á Austurlandi, sem er fyrir Seyðisfjarðarbæ. Og svo eru þessir menn að hamra á því, að það eigi að fara allt saman eftir höfðatölu. Hv. 1. þm. S-M. (EystJ) sagði hér áðan, að það væri auðséð, að það væri ætlazt til þess, að það yrði allt að fara eftir höfðatölu og engu öðru, — ekkert að taka tillit til þess, hvernig aðstaðan væri á landinu. Það fer nú vel á því, að það er maður, sem segir þetta, sem er þm. á Austurlandi, því að samkvæmt frv. mundi það líta þannig út eftir kjósendatölunni 1956, að það kæmu 1.143 á hvern þm. í Austurlandskjördæmi, þó að þar séu ekki nema 5 þm., og er það langlægsta talan. En í Reykjavík kæmu á hvern þm. 3.133 menn og á Reykjanesi 2.180. Og svo leyfa greindir menn sér að segja annað eins og það, að ekki eigi að taka nokkurt tillit til þess, hvar menn eru staddir á landinu. Þessar og þvílíkar fjarstæður hafa dunið hér í eyrum manna nú í tvo eða þrjá daga.

Hv. þm. Dal. (ÁB), sem hér var að ljúka máli sínu, vildi hræða með því, að bændur yrðu alveg útilokaðir af þingi, ef þessi nýja skipun kemst á. Ég verð nú að segja það, að þetta er hreinasta vantraust og versta, sem hefur verið flutt á bændastéttina, því að auðvitað komast þeir menn helzt í framboð, sem hafa mesta hæfileika og traust, almennt traust á hverju svæði, alveg án tillits til þess, hvar þeir eru búsettir eða hvort þeir eiga heima í litlu kjördæmi eða fjölmennu innan hvers svæðis. Ef við horfum hér á Miðvesturland, sem á að hafa 5 þm. eftir breytinguna, þá vita allir, að Dalasýsla er þar langminnst að atkvæðatölu. En ég hef nú það mikið álit á báðum þeim þm., sem þaðan eru hér á Alþingi, að ég mundi treysta því, að þeir yrðu báðir settir svo ofarlega á lista, hvor hjá sínum flokki, að þeir væru líklegir til að eiga trygga kosningu, enda þótt þeir eigi heima í litlu sýslufélagi.

Þá er það eitt stórt atriði, sem gerði það að verkum, kannske meira en annað, að ég kvaddi mér hljóðs við þessa umr. Og það er þetta sífellda tal þeirra framsóknarmanna um það, að við, sem fylgjum þessu frv., séum að svíkjast aftan að kjósendunum. Þessu mótmæli ég harðlega, bæði fyrir mig persónulega og fyrir Sjálfstfl. 1953 skrifaði ég grein, sem birtist í Ísafold 3. marz það ár og ég hef hérna hjá mér. Í þeirri grein lagði ég til nákvæmlega sömu kjördæmaskiptingu utan Reykjavíkur og nú er í þessu frv., þar er enginn munur á. Ég lagði til að vísu einum manni færra hér í næstu kjördæmum höfuðstaðarins, en nú er áformað, en það er að aðgæta, að í þeim kjördæmum hefur fólki fjölgað geysimikið á þessum sex árum, sem síðan eru liðin. Ég lagði til í þessari grein að skipta Reykjavík í tvennt og hafa 5 þm. í hvoru kjördæmi og að uppbótarmenn væru engir. Það víssu því allir mínir kjósendur og fjöldi annarra landsmanna, bæði sjálfstæðismenn og aðrir, að þetta var stefna frá minni hálfu, og það ekki fyrir skemmri tíma en sex árum.

Varðandi Sjálfstfl., þá hefur hann birt fjölda greina um afgreiðslu þessa máls á undanförnum mánuðum. Og á nýafstöðnum landsfundi flokksins, þar sem voru mættir yfir 800 fulltrúar úr öllum kjördæmum landsins, var þetta kjördæmamál eitt aðalmál fundarins, og það kom þar ekki fram ein einasta rödd til andmæla því að fara þessa leið, — ekki ein einasta rödd. Það er þess vegna nokkurn veginn ljóst, að það er ekki verið að svíkjast aftan að þeim fulltrúum, sem þar voru mættir. Auk þess er þess að geta, að í síðustu kosningum, held ég, að það hafi verið í mörgum kjördæmum mjög mikið um það rætt, að Hræðslubandalagið og þau svik, sem það hafði í frammi og Framsfl. stóð fyrir, gætu ekki haft aðrar afleiðingar en þær, sem nú eru fram komnar, að kjördæmaskipuninni yrði algerlega breytt. Þetta var margsinnis tekið fram í minni sýslu, ég hygg, að það hafi verið í flestum kjördæmum landsins, a.m.k. þar, sem þessi félagsskapur var einna áhrifamestur.

Það er þess vegna síður en svo, að það hafi við nokkuð að styðjast, að það sé verið að svíkjast aftan að fólkinu. Fólkið hefur vitað það í fjöldamörg ár, að það hefur verið stefna ekki einasta Sjálfstfl., heldur líka bæði Alþfl. og Alþb., að það yrði að breyta kjördæmaskipuninni frá því, sem er og verið hefur, vegna þess að skipulagið væri orðið úrelt og óhafandi.

Nú er svo þess að geta, að það eru ekki einasta menn þessara flokka, sem hafa mælt með þessu skipulagi, heldur og fjöldamargir framsóknarmenn fyrr og síðar, bæði þeir, sem nú eru lifandi, og þeir, sem eru ekki lifandi. Er þar fyrst þess að geta, að aðalstofnandi Framsfl. og höfuðleiðtogi um 25 ára skeið, Jónas Jónsson frá Hriflu, skrifaði um það í einu sínu riti, að þetta væri sú leiðin, sem væri réttlátust einmitt í kjördæmaskipun. Auk þess hefur það verið sannað með tilvitnunum í greinar frá Hannesi Pálssyni frá Undirfelli og Ólafi Jóhannessyni prófessor, að þeir hafa mælt með þessari leið. Enn fremur er vitað um Gunnar Þórðarson frá Grænumýrartungu, sem hefur verið einn af forustumönnum Framsfl., að hann skrifaði um þetta grein 1954, vildi að vísu hafa kjördæmin heldur minni, en nú er ákveðið, en hlutfallskosningu yfir land allt, og hann er ekki meira hikandi í sinni skoðun en það, að hann gaf leyfi til þess, að þessi grein væri endurprentuð í Morgunblaðinu nú fyrir skömmu, þegar baráttan stóð sem mest um þetta mál. Auk þess skal ég geta þess, að rétt eftir að ég skrifaði mína grein 1953 fékk ég bréf frá mínum látna vini, Bjarna Ásgeirssyni, sem þá var sendiherra í Noregi, þar sem hann þakkaði mér fyrir þessar till. og taldi þær hinar beztu, sem komið hefðu, og sérstaklega tók hann fram, að þetta væri mjög líkt því, sem þá væri verið að afgreiða í Noregi. Og það var Verkamannaflokkurinn norski, sem stóð fyrir því að afgreiða þessa stjórnarskrárbreytingu, sem var samþykkt í Noregi og hv. frsm. minni hl., hv. þm. A-Sk. (PÞ), lýsti nokkuð og réttilega hér á dögunum. En það skal tekið fram, að í þeirri stjórnarskrárbreytingu Norðmanna er eins og var í minni grein, að það er ekki gert ráð fyrir neinum uppbótarþingsætum. Ég nefni þetta bara þeim mönnum til heiðurs, sem ég hef hér nefnt, vegna þess að það sýnir, að þeir eru víðsýnni menn en almennt kemur fram og hefur birzt í þeim umr., sem hér hafa farið fram nú af hálfu framsóknarmanna.

Þá er það eitt höfuðvopnið, sem nú á að beita og hefur verið mest hamrað á í þessum umr. af andstæðingum málsins, að þetta frv. sé bara byrjun á öðru stærra, það sé áfangi á þeirri leið að gera landið allt að einu kjördæmi, þetta eigi bara að gilda stutt o.s.frv. Þetta er frá mínu sjónarmiði hin mesta fjarstæða, því að hér er gert ráð fyrir, að það frv., sem hér er til meðferðar, sé skipulagsbreyting, sem endist til langrar framtíðar og væntanlega a.m.k. það lengi, að allir við, sem erum hér á Alþ. nú, verðum horfnir héðan, annaðhvort yfir í annan heim eða með öðrum hætti. En að gera landið að einu kjördæmi, það er held ég alveg úr sögunni sem stefna nokkurs manns. Alþfl. hafði þessa stefnu á tímabili, en hann hefur nú afneitað henni, og ég held, að það sé ekki nokkur Alþýðuflokksmaður, a.m.k. sem ég hef talað við, sem mundi vilja fara þá leið nú.

Sjálfstfl. hefur frá upphafi talið það eina hina allra mestu fjarstæðu að gera landið allt að einu kjördæmi, og það eru margar ástæður, sem til þess liggja, en fyrst og fremst sú, að mönnum er ljóst, að það er ekki að búast við meiri óhöppum af neinu, en því að gefa tækifæri fyrir klíkur og klofninga og smáflokka til þess að þjóta upp, eins og verða mundi, ef landið væri gert að einu kjördæmi. Og ég skal segja ykkur það, hv. alþm., afdráttarlaust, að ég tel það einn versta ókost á þessu frv., að okkar stóra Reykjavík er í einu kjördæmi, en ekki tveimur, því að það skapar misræmi frá því, sem annars staðar er. Það voru og eru margir sjálfstæðismenn, sem vildu gjarnan hafa Reykjavík skipta, til þess að það væri samræmi í öllu kerfinu. En ósamræmið er af því, að í fimm manna kjördæmi þarf yfir 20% kjósenda til þess að koma að þingmanni, í sex manna kjördæmi þarf 17% eða fyllilega það, en í tólf manna kjördæmi duga rúml. 8% til þess að koma að þm. Og að svo miklu leyti sem nokkur hætta er á myndun nýrra flokka, liggur hún fyrir hér í Reykjavík, en ekki annars staðar. En það skipulag hafa nú andstæðingar málsins, eins og ég tók fram áðan, líka samþykkt.

Annars er það ýmislegt í sambandi við þetta mál, sem kemur fram, þegar afgreidd verða kosningalög, því að þeim verður að breyta mjög mikið á því aukaþingi, sem væntanlega verður haldið í sumar.

Eitt atriði vil ég drepa hér á, sem ég taldi miklu varða og fleiri sjálfstæðismenn, en ekki var samkomulag um, og það var, að ég hef lengi álitið það og ekki síður eftir þessa breytingu, að allir frambjóðendur, sem koma til mála, væru því aðeins löglegir frambjóðendur, að þeir væru búsettir innan kjördæmis. Það varð ekki samkomulag um þetta, og ég veit, að það er þýðingarlaust að bera fram brtt. um það nú. En vissulega væri það betra, en að hafa það jafnóbundið og nú er.

Það er ætlazt til þess, eins og hv. alþm. geta séð, að landslistarnir hverfi úr sögunni algerlega, og ýmislegt fleira, sem getur komið fram í kosningalögum. Ég skal t.d. nefna það, að ég er sannfærður um, að það er nauðsynlegt, bæði í lögum um sveitarstjórnarkosningar og alþingiskosningar, að afnema með öllu hina illræmdu útstrikunaraðferð, því að hún á ekki rétt á sér og hefur sýnt það í sveitarstjórnarkosningum, að af henni stafar mjög mikil hætta. Hitt er ekki hægt að afnema og á að vera nægilegt svigrúm fyrir kjósendurna, að það sé alltaf frjálst að færa til með númerum á hverjum lista, og það ætti að duga. Hvort verður samkomulag um þetta og margt annað fleira, það kemur fram á aukaþinginu í sumar, en ekki hægt að taka það til afgreiðslu nú.

Það er gert ráð fyrir því, eins og menn sjá, að uppbótarsætunum verði úthlutað á svipaðan hátt og nú er í lögum, a.m.k. að það verði í aðalatriðum, og þá vitum við, að samkvæmt því og þeirri reglu, sem verið hefur, má gera ráð fyrir því, að fyrstu þrjú uppbótarsætin, sem úthlutað er, komi á Reykjavíkurkjördæmi. Þá eru eftir átta, og þau eiga að skiptast á milli sjö kjördæma. Hvernig þau skiptast, er náttúrlega nokkurt hendingarmál, vegna þess að það byggist á því, hvernig kosningahlutföllin verða. En það er a.m.k. hægt að gera sér grein fyrir því, að eitthvert af þessum sjö kjördæmum fær tvo uppbótarmenn, og það er ekki alveg hægt að reikna það út fyrir fram, hvernig uppbótarsætaskiptingin verður í hverjum kosningum, en það mundi fylgja svipaðri reglu og nú gerist.

Að öðru leyti skal ég ekki fjölyrða mikið um þetta mál eða andmæla öllum þeim öfgum, sem hér hafa komið fram um hitt og annað, fjármál og annað slíkt, — t.d. þessu, sem alls staðar er verið að hampa, að það eigi að leggja niður öll kjördæmin utan Reykjavíkur. Slíkt slúður er varla svaravert, eins og það sé sama og drepa kjördæmin að fyrirskipa, að þau verði að hafa samvinnu sín á milli eftir föstum reglum og á þeim svæðum, sem eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta. Slíkt rugl er heldur varla svaravert, að það sé líklegt, að alþm. hætti að hugsa um hagsmuni sinna kjósenda; ef þeir eru kosnir hlutfallskosningu. Við höfum í því efni reynslu frá tvímenningskjördæmunum, og við höfum reynslu frá Reykjavík, og hún bendir engan veginn í þá átt, að mennirnir hætti að hugsa um hagsmuni sinna kjósenda, þó að þeir séu kosnir með hlutfallskosningu. Þessi áróður dettur líka alveg dauður niður gersamlega, þegar framsóknarmenn, andstæðingar málsins, eru sjálfir búnir að leggja til, að það gildi hlutfallskosning hjá yfirgnæfandi meiri hluta þjóðarinnar. Hvort sem það verða nú meiri eða minni umræður um þetta hér á þessu þingi; er það tryggt í gegnum þingið, og það er öruggt, að það verður samþykkt, þó að það verði auðvitað baráttumál í kosningum. Það vita allir menn, að þegar þrír flokkar standa að svona máli, þrír stórir flokkar gegn einum, þá breyta kosningar í vafakjördæmunum engu um úrslit þessa máls.