27.04.1959
Neðri deild: 117. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1480 í B-deild Alþingistíðinda. (1210)

144. mál, stjórnarskipunarlög

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður, þm. A-Húnv., var að lýsa því yfir, að hann réðist ekki aftan að sínum kjósendum, þó að kjördæmi hans ætti að leggja niður með þessum till., sem hér liggja fyrir, því að hann hefði áður skrifað um það grein að haga þessu á eitthvað svipaðan hátt og hér er lagt til í þessu frv. Og hann segir, að það hafi ekki komið fram ein einasta rödd, sem hafi mótmælt þessu. Hann reiknar víst ekki með sinum eigin forustumönnum. Ég veit ekki betur, en þeir hafi sjálfir lýst því yfir, bæði hv. þm. G-K. og fleiri, sjálfur formaður flokksins, að það kæmi ekki til mála, að þeir mundu nokkurn tíma fallast á það, það væri aðeins einn maður í flokki þeirra, og þá hefur hann ekki talið hann sem mann eða þingmann, hv. þm. A-Húnv., alls ekki reiknað hann með í dæminu, ef hann hefur líka verið á þessari skoðun eins og Sigurður Kristjánsson, fyrrv. þm. hér í Reykjavík. Mér finnst ósköp eðlilegt, að kjósendur hans hafi trúað formanni flokksins betur, en honum. Ég verð að segja það, þó að ég beri mikla virðingu fyrir þessum manni, tel hann að mörgu leyti mætan mann, þá finnst mér ósköp eðlilegt, að kjósendur í landinu hafi frekar farið eftir því, hverju formaður flokksins lýsir yfir, heldur en því, sem einn þm. skrifar um í einhverju ómerkilegu blaði, sem hann gefur út. Þegar hann talar um, að það sé rugl og þvættingur, að það eigi að leggja kjördæmin niður, vill þá ekki hv. þm. segja mér, hvar er Austur-Húnavatnssýslukjördæmið í þessum kosningalögum, sem hér á að setja? Ég held, að það verði ekki til. Kannske hann vilji benda mér á það, hvar þessu er smeygt inn einhvers staðar, að Austur-Húnavatnssýsla haldi áfram að vera kjördæmi. Nei, svona málflutningur er slíkur, að það er ekki hægt fyrir fólk með fullu viti yfirleitt, að hlusta á þetta. Og annar málflutningur er yfirleitt eftir þessu, sem þessi hv. þingmenn koma fram með um, að það eigi ekki að ráðast á kjördæmin í dreifbýlinu. Hvað er verið að gera? Hvar eru þau á eftir? Við sjáum það líka í þessum umræðum, sem hér fara fram, að það má segja, að það eru sárafáir af flm. og stuðningsmönnum, sem treysta sér til að fara að mæla með þessu. Og mér datt í hug, satt að segja, þegar hv. þm. A-Húnv. gekk hér upp í stólinn, einn af þeim fáu, sem þora að verja þetta, þessi gömlu orð, sem sögð voru einhvern tíma: Kjarkmaður Kolbeinn, — enda má það um hann segja, að hann hefur verið það, jafnvel þótt um rangt mál og illt væri að ræða, eins og hér er.

Þá talaði hann um það líka, að það gleddi sig mjög, hversu mikið samkomulag væri um marga hluti, sem við framsóknarmenn byðum fram til samkomulags. En er þá ekki eftir þeirra hlutur að koma eitthvað til móts við okkur, til þess að fullt samkomulag náist um þetta? Það er ekki svo langt á milli, eftir því sem hann segir, að við föllumst á flesta hluti hjá þeim. Hví þá ekki að fallast á það, sem við viljum, að halda gömlu kjördæmunum? Þá mun gleði hæstv. forseta sameinaðs þings og þm. A-Húnv. verða mikil. Og hvers vegna berst hann ekki fyrir því, að þessi gleði geti komið til hans og annarra í landinu?

Ég nenni ekki að rekja einstök atriði úr ræðu þessa hv. þm. En eitt fannst mér mjög athyglisvert, þegar hann fer að bera saman aðstöðu Seyðisfjarðarkaupstaðar á Austurlandi, lengst í burtu hér frá Reykjavík, og svo Hafnarfjarðar hér alveg hjá — sama sem hluti af bænum í Reykjavík. Hvaða heilvita manni dettur í hug, að það sé sama aðstaða fyrir kjósendur austur á Seyðisfirði, sem eiga langa vegu hingað að sækja og geta helzt ekki hingað komizt nema endrum og eins, og þá, sem búa hér alveg í grennd við bæinn? En þetta er þeirra réttlæti, taka ekki tillit til nokkurra skapaðra hluta nema höfðatölunnar: hvað eru margir menn þarna? Það er ekkert um það að ræða, hvaða aðstöðu þessir menn hafa, nei, bara hvað þeir eru margir. Ég held, að það sé tæpast hægt að sýna öllu meiri einsýni, en þetta í lausn mála.

Ég skal þá víkja örfáum orðum að því, sem kom hér fram við 2. umr., og voru þó ekki margir af stuðningsmönnum og flm. þessa frv., sem létu til sín heyra. En nokkur atriði vildi ég þó minnast á, sem ég hirti ekki um að kæmu fram þá og lét bíða til þessarar umr.

Hv. 1. þm. Reykv. og frsm. meiri hl. lét þess getið í upphafi orða sinna, að það mundi aldrei hlustað á svo margar ræður um svo lítið efni. Átti hann þar sjálfsagt við það, að mál það, sem liggur fyrir, væri svo lítið að efni til, að varla væri þess vert, að um það væri rætt. Það er líka staðreynd, að hv. flutnings- og stuðningsmönnum er mjög óljúft um að tala, og mun engan á því furða, sem til mála þekkir og gerir sér fulla grein fyrir því, hvað hér er um að ræða: Aldrei hef ég fyrr heyrt í stórmáli eins og því, sem hér er á ferð, aldrei heyrt á hæstv. Alþ., að flutnings- og stuðningsmenn þess gerðu svo slælega grein fyrir máli sínu og væru svo tregir og meira að segja sárnauðugir að færa rök fyrir máli sínu og færðu jafnhæpin rök og þau, sem þeir hafa myndazt við, þessir fáu, að flytja. Heill stuðningsflokkur þessa flutnings af þríhöfðunum hefur ekki sagt eitt einasta orð, ekkert orð. (Gripið fram í: Ekki í útvarpsumræðum einu sinni?) Ja, útvarpsumræður eru dálítið annað, en að tala hér á Alþingi. Við erum vanir því að verja mál okkar og sækja hér á þessum vettvangi, okkur er markaður bás til þess að gera það hér á Alþingi, og það er venjulega gert með nokkuð öðrum hætti, en þegar útvarpsumræður eru. Máske þeir hafi ætlað að hafa útvarpsumræður aðeins eitt kvöld til þess að sleppa við að færa frekari rök. En þessu skal ekki vera hlýtt. Á réttum vettvangi skal þetta mál flutt, hvort sem þeir vilja tala eða tala ekki. Þeir um það. En það er vitað mál, að menn, sem eru tregir til að tala og færa rök fyrir sínu máli og verja það, hafa einhverja sektarkennd á samvizkunni. Og mig undrar það ekki. Mig undrar ekki, að sú sektarkennd sé ærið mikil hjá þessum einmitt. Heill flokkur af þremur, sem flytur þetta frv. og styður það, hefur ekki látið eitt orð til sín heyra við þessar umræður, tvennar umræður um þetta mál. Og það, sem flutt er, er ýmist fullkomin falsrök eða þá með öllu ósönn, og er reyndar ekki við öðru að búast, eins og hér er allt til mála búið.

Það munu vera fleiri en ég, sem gengur erfiðlega að skilja, að það muni verða hinum smærri, strjálbyggðari og fjarlægari héruðum styrkur ýmist að missa þingmenn sína með öllu eða eiga þá í félagi við aðila, sem eru sterkari, en þau og geta þannig alveg ráðið, hvernig ráðið verður fram úr máli. Hvernig á að skilja þetta? Er verið að bera á borð fyrir hv. alþingismenn svona málflutning?

Hingað til hefur það ekki verið talinn styrkur fyrir þá, sem veikari eru, að vera innlimaðir af þeim, sem eru sterkari og fá því flestu eða öllu ráðið um sameiginleg mál. Það hefur ekki verið talið hingað til. Íslendingar vildu aldrei á það fallast, að þeim væri það styrkur að vera innlimaðir af Dönum, stærri þjóð og voldugri, sem þá var. Meðan svo var, réðu Íslendingar engu um sín eigin málefni, enda stóð hagur þeirra eftir því. Máske verður þá einnig farið með sömu rökum að halda því fram af þessum hv. þríflokkum, að okkur verði að því mestur styrkur að gerast aðili að ríkjasamsteypu, t.d. Bandaríkjunum eða Sovétríkjunum, ja, hver veit, hvað upp kann að koma? Sumir flm. væru a.m.k. ekki með öllu ólíklegir til þess að halda slíku fram, — eða finnst ykkur það? Hitt er annað mál, að frekar er ólíklegt, að þeir fái þjóðina fljótlega til að fallast á slíkt. Þjóðin veit og skilur, og það skilur hver heilvita maður, sem vill skilja það og bregður þar ekki við blindu auga, að um leið og hinn veikari sameinar rétt sinn, rétti hins sterkara, þá er það hinn sterkari, sem ræður. Og mér er spurn: Um hvað fjallar þetta frv., ef ekki að auka rétt þeirra, sem flutningsmenn telja að nú séu afskiptir um réttlæti við kjördæmaskiptingu landsins? Og hvernig verður það gert, án þess að réttur einhverra sé þá um leið eitthvað svolítið skertur? Hvernig er hægt að jafna yfir það öðruvísi? Ég þekki til þess enga leið, og ég er alveg sannfærður um, að hana þekkja þessir hv. flutningsmenn ekki heldur. Ef á að jafna, þá verður vitanlega að taka rétt af einhverjum og fá hann öðrum. Þetta er svo auðskilið mál, að ég skil ekki, að nokkur barnakennari geti ekki komið öllum börnum sínum í skilning um það. Þeir væru þá a.m.k. heldur lélegir. Og að þurfa yfirleitt að vera að andmæla svona málflutningi hér á hæstv. Alþingi, það er hreint og beint til hneisu, og það er ekki furða, þó að það séu fáir, sem koma fram og koma upp í pontuna til þess að reyna að halda svona hlutum fram. Það er hv. þm. A-Húnv., sem síðast var hér að reyna það og tókst heldur óhöndulega að vonum.

Ef einhver jöfnuður á að fara fram, verður hann ekki framkvæmdur nema á kostnað einhvers. Flutningsmenn segja að vísu, að það eigi að vera á kostnað Framsfl. og afnema eigi sérréttindi hans. Setjum svo, að þetta væri rétt, sem það ekki er. En ef svo væri, þá hlýtur það þó að vera á kostnað þeirra héraða og þess fólks, sem framsóknarmenn eru fulltrúar fyrir, því að þetta fólk telur hagsmunum sínum bezt borgið með því að fela framsóknarmönnum umboð sitt. Hér vilja þá aðrir fyrir það ráða og taka af því rétt til að velja sér fulltrúa, eins og það kýst helzt, og vitanlega er réttur af fleirum tekinn í þessari allsherjarútjöfnun, þar sem ekkert tillit er tekið til mismunandi aðstöðu og atvinnuhátta, en allt er sett saman og lagt að jöfnu innan þessara stóru og víðlendu kjördæma, hvernig sem atvinnuhættir eru og hvernig sem aðstaða til lífsbjargar er á þessum svæðum.

Ég benti á það við 2. umr. þessa máls, að fámennustu og fjarlægustu héruðin hlytu að missa þm. sinn að öllu, þegar stundir líða, og benti þar á kjördæmi eins og Vestur-Skaftafellssýslu og Norður-Þingeyjarsýslu, sem lítt munu hafa af fulltrúa fyrir sig að segja, ef þessi áform komast í framkvæmd, og svo er um mörg fleiri kjördæmi, sem ég hirði ekki að telja upp. Þessu svaraði hv. frsm. meiri hl., Bjarni Benediktsson, á þá leið, að ólíklegt væri annað, en bæði ég og hv. þm. N-Þ., Gísli Guðmundsson, yrðum þingmenn áfram í þessum stóru kjördæmum, og mundum við áfram hugsa um hag þessara héraða. Ja, þarna má nú segja, að strákurinn Tumi hafi komið illa upp um sig. Hann viðurkennir hreinlega það, sem ég hélt fram um réttindi og aðstöðu þessara héraða og þá einnig ýmissa annarra, sem svipað er ástatt um, ef frv. þetta yrði að lögum. En þeirra von og styrkur á að vera í því falinn, að einhverjir núv. þm. muni máske verða þeim hliðhollir, ef þeir e.t.v. yrðu á þingi áfram. Augljóst er því, að frv. þetta er enn eins og fyrri breytingar miðað við núverandi þingmenn, en ekki sem framtíðarskipulag fyrir þjóðfélagið. Hentistefnan er opinberuð, svo sem frekast er hægt að gera, enda vita það allir. Og gálauslegar, held ég, að tæpast sé hægt að skipa svo alvarlegu og afdrifaríku máli fyrir svo stóran hluta þjóðarinnar eins og hér er gert. Hér á að miða við menn, að máske komist þeir áfram á þing, en ekki við héruðin sjálf og hver hlutur þeirra og aðstaða verður í framtíðinni. Þvílíkur málflutningur!

En tímarnir breytast og mennirnir með, eins og þar segir, og mennirnir breytast og skipta furðufljótt og máske í þessu efni fyrr, en fyrst yrði kosið eftir þessum réttlætiskosningum, sem um er talað, eða réttlætislögum. Og þessi fámennu og afskekktu héruð hafa enga tryggingu fyrir því, að þeim kunnugir og hliðhollir menn komi á eftir. Þvert á móti er mjög sennilegt, að þau fái aðeins að tilnefna mann neðarlega á lista flokkanna í sæti, þar sem lítil eða engin von er til að þeir verði kjörnir. Og þar með er draumurinn búinn. Svo mun fyrir mörgum fara, sem þessum ráðum vilja hlíta, sem hér eru á borð borin. Og vonandi sjá þeir það ekki um seinan.

Þá minntist hv. frsm. meiri hl., Bjarni Benediktsson, á það, að auðsafn og atvinnuáhrif hefðu mikil áhrif í sumum kjördæmum, aðallega smáum, skildist mér. Hann mun þar gerst um vita. Ég held, að þetta sé eitthvað í ætt við það að tala um snöru í hengds manns húsi. Hvaða flokkur ætli hafi yfir mestu fjármagni að ráða og noti mest fjármagn í kosningum, bæði í smærri og stærri kjördæmum? Er hann ekki byrjaður á hlutaveltu núna til þess að afla sér í kosningar? Ég hélt meira að segja, að hann hefði ekki þurft þess með. Það er vitað, að enginn flokkur í landinu hefur yfir eins miklu auðmagni að ráða og notar það eins miskunnarlaust í kosningum og hann gerir. Ég vona, að hv. þm. Snæf. hlusti, þannig að hann skilji, hvað flutt er. En hann vill óskhyggjuna þar líka í fyrirrúmi eins og við flutning þessa frv. Við höfum sannarlega orðið þess varir úti um byggðir landsins, hversu þessi flokkur hagar sér í þeim efnum. Og nokkur grunur leikur á því, að ekki sé þetta á annan veg í hinu stóra og fjölmenna kjördæmi, Reykjavík, ekki sé fjármagnið minna þar, sem notað er. Þetta er allt í raun og veru svo hræsnislegt um að tala, að ég ætla ekki fleiri orðum að því að eyða, og hygg ég, að það sé flutningsmönnum ekki sízt fyrir beztu.

Þá minntist hv. sami þm. á það, að merkilegt væri, að við bærum ekki fram brtt. um það að gera Reykjavík að einmenningskjördæmum og sömuleiðis tvímenningskjördæmin, sem nú eru. Hann taldi, að allir væru svo ánægðir með hlutfallskosningar í tvímenningskjördæmum, að enginn vildi þar aftur breyta um. Þetta er á fullkomnum misskilningi byggt. Hitt er svo annað mál, að okkur var og er fullkomlega ljóst, að þýðingarlaust er að bera fram breytingartillögur um þessi efni, þar sem þessi tilhögun um kosningu í tvímenningskjördæmunum var fram knúin með miklu brambolti og látum af þessum sömu flokkum, sem nú standa enn að þessari breytingu, og því engin von til, að þeir hafi vitkazt í þeim málum síðan þá eða að hugarfarsbreyting hafi nokkur þar orðið síðan. Og um Reykjavík er nokkuð hið sama að segja, auk þess sem segja má, að sé hlutfallskosning nokkurs staðar réttlætanleg, þá er það í Reykjavík, sem hefur marga þingmenn og er aðeins eitt lögsagnarumdæmi. Það erum ekki við, sem höfum knúið fram hlutfallskosningar í tvímenningskjördæmum. Það erum ekki við, sem höfum borið það fram. Við höfum bara gert eins og við höfum getað, en það hefur verið knúið fram af þessum sömu mönnum.

Þá talaði sami hv. þm. enn um framboðin og áhrif flokkanna á þau. Hann taldi, að samtök flokkanna heima í héruðunum mundu þar mestu um ráða eins og hingað til og þar yrði engin breyting á. Ég man nú ekki betur, en ég læsi það nýlega í Mbl., blaðinu, sem þessi hv. þm. er aðalritstjóri að og því sennilega hægt að trúa, a.m.k. fyrir hann, þó að margir aðrir séu vantrúaðir á fréttir, sem þar eru, — ég hef lesið þar, að flokksfélögin hér í Reykjavík hefðu útnefnt frambjóðanda flokksins á Siglufirði nú nýlega. Ég man ekki betur. Það stóð í blaðinu. Kannske hv. þingmenn vildu gæta að því, en ég er þá ekki læs, ef ég las þetta ekki nokkurn veginn rétt. Þeir höfðu komið sér saman um að skora á þennan mann. Mig undrar ekkert, þó að sumir fari að ókyrrast. Það er náttúrlega gott, ef hægt er eitthvað að koma þeim til rétts vegar, því að fyrst er að mynda ókyrrð og vekja samvizkuna hjá þessum þingmanni, sem fer nú að ókyrrast í sætinu og sýna það, að hún er þó eitthvað að byrja að vakna í þessum efnum. Og þegar þeir gera þetta nú, þegar þar er aðeins einn í kjöri, hvað mun þá, þegar um stóra lista verður að ræða? Ekki er ég að efa það, að höfuðstöðvarnar og flokksforustan muni láta sig það nokkru skipta, og það er í raun og veru ekki láandi, þegar um algera flokkakosningu er að ræða. Mér finnst það bara sjálfsagður hlutur. Og þar með eru líka tekin af þessum héruðum áhrifin um að ákveða, hverjir skuli vera fulltrúar þeirra.

Ég hirði svo ekki að minnast á fleiri atriði af því, sem frsm. og næstum eini forsvarsmaður frv. hér við þessar tvær umræður hafði fram að færa. Allt er það svo ómerkilegt og marklaust, að bezt er að hafa um það sem fæst orð.

Um það, sem hv. 5. landsk. (BG) hafði að segja um tillögur Austfirðinga og Norðlendinga um breytingar á stjórnarskrá landsins, væri einna helzt viðeigandi að segja, þótt það sé óvirðulegt, að öllu var snúið öfugt þó aftur og fram í hundamó. Mest voru það rangtúlkanir og rangfærslur, og það virðist eins og það sé áskapað, að þessir menn hafi ekki neitt annað fram að færa til að verja mál sitt. Sjálfur var ég á þessum umrædda Þingvallafundi, og mér er því nokkuð kunnugt um, hvað þar fór fram. Þar var megináherzlan á það lögð, að sett væri fullkomin lýðveldisstjórnarskrá hið fyrsta, einmitt það, sem þessir flokkar hafa svikizt og ætla áfram að svíkjast um að gera.

Engan heyrði ég á það minnast og því síður samþykktir um það gerðar að leggja niður flest núverandi kjördæmi. En hitt var hins vegar rætt og samþykktir gerðar um að dreifa meira ríkisvaldinu og færa það út að einhverju til fylkja eða stofnana innan landsfjórðunganna, og gætu þá sum héraðsmál einnig komið þar fyrir. (Forseti: Óskar hv. þm. eftir að ljúka ræðu sinni?) Ja, ég held, að það taki varla öðru, ég á ekki langt eftir. Úr því að ég er dæmdur til að tala, þegar sem fæstir hafa möguleika til að hlusta, þá held ég, að það skipti litlu máli.

Um söguleg rök þessa hv. þm., 5. landsk., er svipað að segja. Hvernig er hægt að sækja rök fyrir þessu frv. til þessara samtaka eða fundarhaldsins á Þingvöllum? Það er meira, en ég fæ skilið og það sýnir ljóslega hin algeru rökþrot, sem flutningsmenn og stuðningsmenn þessa frv. eru komnir í. En þetta var eina hálmstráið svo að segja, sem hv. 5. landsk. þm. hafði í fórum sínum: Öllu snúið öfugt, ekkert rétt túlkað frá fundum og samtökum, sem voru fyrir nokkrum árum.

Mig undrar það ekki, þótt frumvarpsliðinu, flm. og stuðningsmönnum, sé þungt tungu að hræra, ef ekki er meira fyrir í forðabúrinu til þess að bera fram til stuðnings þessu óbermi, sem hér er á ferðinni.

Þá hafa þeir mjög lagt sig fram um það að færa að því rök, að kjördæmaskipun sú, sem nú er og verið hefur alla tíð, síðan Alþingi var endurreist, sé dönsk, hún sé erlend, sett af erlendum einvaldskonungum, og að frv. það, sem nú liggur fyrir, sé miklu nær gömlu goðorðaskipuninni. Ef við lítum t.d. á það, sem mér er næst og ég þekki bezt í þessu, sem á nú að sameina, þá veit ég ekki betur til en það hafi verið til Skaftafellsþing, það hefur verið til Þingskálaþing, það hefur verið til Árnesþing, þarna eru þau þrjú. Kannske það sé nær að skella þessu öllu saman, en halda þessum kjördæmum áfram? Hvað eiga svona falsanir — sögufalsanir og rökfalsanir — að þýða? En ef þeim er svo ákaflega illa við allar erlendar fyrirmyndir, er þá ekki einmitt þetta frv. nú, sem þeir eru aðallega að taka rök sín fyrir, að þannig sé þetta í Danmörku t.d. núna, nú séu Danir búnir að koma á hlutfallskosningum, er þá endilega nauðsynlegt að elta Dani alveg út í rauðan dauðann, ef þeir breyta einhverju til, að breyta eins og þeir? Ja, ég sé ekki betur, en svo sé. Þeir eru að reyna að sækja rök fyrir þessu máli sínu til Norðurlandaþjóðanna, að þær skipi þannig málum sinum, þó að þeir viti, að það sé rangfært eins og annað, sem þeir flytja, að ýmsu leyti. En aðallega hefur það verið það, að þannig væri þessum málum skipað á Norðurlöndum, um að gera að elta Danina eins lengi og hægt er í þessum efnum. Ég skil ekki svona málflutning, ég verð að segja það alveg eins og er, alls ekki. Gömlu kjördæmin okkar og gamla kjördæmaskipunin á að vera alveg gersamlega ómöguleg, af því að eitthvað hafi verið svipað gert hjá Dönum á þeim tíma, og nú er þessi nýja kjördæmaskipun alveg sjálfsögð, vegna þess að Danir höfðu eitthvað svipað gert hjá sér um breytingar á undanförnum árum.

Þá talaði hv. 5. landsk. tvívegis um það, að þó að ætti að hafa þá tilhögun á, eins og við leggjum nú til, að fjölga þm. fyrir þéttbýlið, þá þyrfti áfram að fjölga um einn þm. á hverju ári. Það er svo sem auðheyrt, að honum er alveg ljóst, hvað muni leiða af þessu frv.: að fólksfjölgun sé óhugsandi nema í þéttbýlinu, alveg óhugsandi. Ef fólksfjölgunin heldur áfram jafnt og það verður hugsað jafnt um hagsmuni manna í landinu áfram, þá getur fólksfjölgunin vitanlega komið jafnt niður alls staðar og ekki þarf nokkra fjölgun. En hann gerir ráð fyrir því, að það sé alveg óhugsandi, að fólksfjölgunin verði nokkurs staðar annars staðar, og náttúrlega er það alveg rétt hjá honum, ef þessu heldur áfram og þessi breyt. verður gerð, sem nú er.

Ég skal svo ekki, því að menn langar sjálfsagt til að fara að komast í matinn, þreyta menn mjög um þetta lengur og fara að ljúka máli mínu. En ég vil benda hv. flm. á það, að þeir munu verða að gera reikningsskil fyrir þessu frumhlaupi og árásinni á vald og áhrif hinna dreifðu byggða í landinu, áður en yfir lýkur, með meiri rökum, en hér eru færð fram. Og satt að segja hefði ég unnað mörgum þessara manna betra hlutskiptis, en standa svo berir að óheilindum frammi fyrir kjósendum sínum, og ég vildi ráða þeim til þess að reyna að finna sér einhver haldbetri rök, en enn hafa komið fram í þessu máli frá þeirra hendi. [Fundarhlé].