27.04.1959
Neðri deild: 117. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1501 í B-deild Alþingistíðinda. (1212)

144. mál, stjórnarskipunarlög

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Það er tæpast viðeigandi, að við þm. metumst um það hér í ræðustólnum, hvor málsvarinn í þeirri deilu, sem hér er uppi, sé skeleggari í sínum málflutningi. En það hefur mjög verið áberandi hjá þeim þm. framsóknarmanna, að þeir hafa ekki aðeins látið í veðri vaka, að þeim fyndist, að við værum tæpast nógu öruggir í okkar baráttu eða skeleggir, heldur einnig, að við værum fáir, sem tækjum til máls, og töluðum ekki eins lengi og þeir. Það er, eins og ég segl, annarra að skera úr um það, hvernig okkar málflutningur er. Eins er það ekki einhlítt um málflutning að flytja margar ræður og langar, og sér í lagi er það ekki einhlítt, þegar svo geysilega mikið er um endurtekningar að ræða í ræðum eins og verið hefur nú í þessum umr. í ræðum þm. Framsfl. Þeir hafa komið hér hver á fætur öðrum, lesið hver upp eftir öðrum tilvitnanir í ummæli annarra manna, aldarfjórðungsgömul og þaðan af meira, þeir hafa vitnað í það, hve núv. ríkisstj. væru mislagðar hendur í efnahagsmálunum og hvað það hefði verið sjálfsagt að mynda þjóðstjórn fyrir áramótin til þess að reyna að ná sáttum og friði um kjördæmamálið, en ekki að vera að steypa þjóðinni út í þessa miklu baráttu, eins og nú stæðu sakir. Þessar röksemdir hafa hér komið fram æ ofan í æ, mann eftir mann, frá þeim þm. Framsfl., sem talað hafa, frá manni eftir mann.

Hv. 1. þm. S-M. (EystJ) reyndi að gera grein fyrir því í sinni löngu ræðu, sem hann flutti hér síðdegis í dag, hver stefna Framsfl. í kjördæmamálinu hefði verið og að stefna Framsfl. hefði verið mjög glögg. Nú ber því ekki að neita, að þessi þm. er áreiðanlega ekkert síður glöggur, en venjulega gengur og gerist, en það var ákaflega erfitt að átta sig eftir málflutningi hans á þessari glöggu stefnu Framsfl. í þessu máli. Hann reyndi að skýra hana með sínum orðum. Mér finnst vera hægt að skýra stefnu Framsfl. í kjördæmamálinu með töluvert öðrum hætti, en reynt var af þessum hv. þm., og það, sem mér finnst einkenna stefnu Framsfl. í kjördæmamálinu fyrr og síðar, er, að þessi flokkur hefur alltaf verið á móti leiðréttingum á ranglætinu. Það hefur verið kjörorð eða einkunnarorð eða einkenni Framsfl. í sambandi við kjördæmamálið fyrr og síðar, og skal ég koma að þessu nokkru nánar. En áður en ég vík að því, vil ég minna á það, að hv. 1. þm. S-M. sagði, að það hefði legið opin leið til lausnar á kjördæmamálinu fyrir Sjálfstfl. með framsóknarmönnum, — var að tala um það, að einhvern tíma hefði legið opin leið á þann hátt, að sjálfstæðismenn gætu staðið við fyrri yfirlýsingar, og á þessu og margendurteknum ummælum annarra þm. Framsfl. hefur átt að skilja það, að sú lausn, sem sjálfstæðismenn beíta sér nú fyrir og hafa reyndar haft forgöngu um í kjördæmamálinu, sé í ósamræmi við fyrri afstöðu þeirra og fyrri yfirlýsingar í þessu máli.

Að vísu erum við búnir að taka nokkuð fram um þetta, en þó er margt enn ósagt til glöggvunar á því, hvað hér er farið með mikla staðlausa stafi. Hverjar eru fyrri yfirlýsingar sjálfstæðismanna í kjördæmamálinu? Kjördæmamálið kemur á dagskrá árið 1931, má segja, svo að nokkru nemi a.m.k. í fyrsta skipti, eftir að Framsfl. hafði tekið við völdum 1927. Og hvernig var það nú, sem kjördæmamálið kom þá á dagskrá? Jú, það kom á dagskrá þannig, að Framsfl. ætlaði að afnema landskjörið, sem var þó eina hlutfallskosningin fyrir utan hlutfallskosninguna hér í Reykjavík, og gat leitt af nokkra leiðréttingu á misræmi milli flokka, að svo miklu leyti sem landskjörið náði til þess, þar sem ekki voru kosnir nema sex menn. Upp úr því byrjar svo hin harða barátta um kjördæmabreytinguna, sem leiðir til þingrofsins og kosninganna 1931. En vegna hvers var rofið þingíð 1931? Vegna þess að þá hafði verið samþ. till. um það í Ed., að það mætti inn í kosningalög taka ákvæði um það, að þm. skyldu kosnir með hlutfallskosningu; þó lá ekkert fyrir um það, en á þeim tíma voru öll ákvæði um kjördæmaskipun og kosningaaðferð í kosningalögum, en ekki í stjórnarskránni.

En upp úr þessum kosningum 1931 er það lóst, sem margvitnað hefur verið til, þegar Framsfl. fær hreinan meiri hl. eða 60% þm. á liðlega þriðjung kjósendanna, að það verður ekki skotið á frest lausn á þessu máli, og er þá unnið mikið að því að fá leiðréttingar í málinu. Þá strax kemur það alveg greinilega fram, að stefna sjálfstæðismanna er ótvíræð í þessu máli. Þeir eru þá þegar á móti því, að landið verði gert allt að einu kjördæmi, eins og fram kom þó till. um frá þáverandi formanni Alþfl., eins og vitnað hefur verið til, Jóni Baldvinssyni. Þeir lögðu fram ýtarlegar till. um, að landinu væri skipt öllu í einmenningskjördæmi og þó hlutfallskosning í Reykjavík, og það var alltaf ófrávíkjanlegt skilyrði hjá sjálfstæðismönnum og í till. þeirra, að hlutfallskosningar væru samhliða einmenningskjördæmakosningunum til þess að jafna á milli flokka.

Framsfl. hefði þá, ef hann hefði viljað standa að einhverjum leiðréttingum í þessu máli, getað náð samstöðu með sjálfstæðismönnum um einmenningskjördæmi í landinu, ef hann hefði viljað samhliða því fallast á, að settar væru inn í kosningalöggjöfina reglur um, að það misræmi eða misrétti milli flokka, sem skapazt gæti af einmenningskjördæmum, skyldi leiðrétt með uppbótarþingmönnum eða hlutfallskosningum samhliða einmenningskjördæmunum. En till. sjálfstæðismanna voru þær, að landinu væri auk einmenningskjördæma skipt í sex umdæmi og í þessum sex umdæmum væru svo leiðréttar misfellurnar með uppbótarþm. eftir nánar tilteknum reglum. Og það er mjög athyglisvert og ástæða til þess að vekja athygli á því hér, að í stjórnarskrárnefnd, mþn., sem starfaði í þessu máli á árinu 1932, eru þrjár megintill., sem greiða skal atkvæði um að lokum, þessar:

1. Að þingmannatala þingflokkanna verði jafnan í sem fyllstu samræmi við kjósendatölu þeirra.

2. Sem jafnastur réttur kjósenda til áhrifa á fulltrúaval til Alþingis.

3. Réttur núverandi kjördæma til eigin fulltrúa.

Þegar fyrsta till. var borin fram, að þingmannatala þingflokka verði jafnan í sem fyllstu samræmi við kjósendatöluna, eru þeir sammála um það fulltrúar Alþfl. og Sjálfstfl., en fulltrúar Framsfl. greiða ekki atkvæði.

Þegar borin er fram till. um, að sem jafnastur sé réttur kjósenda til áhrifa á fulltrúaval til Alþingis, segir fulltrúi Framsfl., Tryggvi Þórhallsson, nei.

Og svo, þegar borin er fram þriðja till. um rétt núverandi kjördæma til eigin fulltrúa, þá eru fulltrúar Framsfl. sammála fulltrúum Sjálfstfl. um þetta atriði.

En þegar þessar þrjár till. eru bornar upp í heild, að þingmannatala sé í sem fyllstu samræmi við kjósendatölu, að sem jafnastur sé réttur kjósenda til áhrifa á fulltrúaval til Alþingis og réttur núverandi kjördæma til eigin fulltrúa sé tryggður, — þegar þetta er borið upp í heild, þá fær það tvö atkvæði, tveggja sjálfstæðismanna, og nær ekki meiri hl. í n., vegna þess að báðir fulltrúar Framsfl. sitja hjá.

Þarna var opin leið hjá Framsfl. til þess að ná samstöðu við Sjálfstfl. um að varðveita gömlu kjördæmin, sem hann leggur nú svo mikið upp úr, ef hann vildi samhliða því fallast á, að aðrar reglur eða hliðarreglur væru viðhafðar til að tryggja jafnrétti á milli flokka, en það hefur Framsfl. aldrei fengizt til að fallast á. Ranglætið, sem hann hefur skákað í skjóli við, miðað við aðra flokka, hefur verið honum veiga meira, en réttur hinna gömlu og einstöku kjördæma. Það hefur verið honum veigameira, en réttur kjördæmanna, og það kemur ljóst fram þegar í afstöðu Framsfl. 1933.

Þegar svona er komið, þegar slík till. eða tilraun til þess að viðhalda gömlu kjördæmunum 1932 og 1933 er eyðilögð af Framsfl., þá lýsir formaður nefndarinnar, sem er fulltrúi Framsfl., því yfir, að samkvæmt atkvgr., þeirri atkvæðagreiðslu, sem var í því fólgin, að tveir fulltrúar Framsfl. sátu hjá, hafi ekki náðst samkomulag um grundvöll fyrir starfi nefndarinnar. Það var þess vegna Framsfl., sem þarna eyðilagði möguleikann til þess að vernda hin gömlu kjördæmi. En fulltrúar Sjálfstfl. lögðu megináherzluna á þessum árum á þetta tvennt, að tryggja jafnrétti á milli flokka, jafnhliða því að viðhalda hinum gömlu kjördæmum, en þegar það náðist ekki fram, lýstu þeir einnig þá, á þessum árum, strax yfir, að þá væru þeir að öðrum kosti samþykkir því að fylgja þeirri kjördæmaskipun, sem stungið hafði verið upp á þá af Jóni Baldvinssyni, að skipta landinu í nokkur stór kjördæmi með hlutfallskosningum.

Eins og menn muna, var gangur málsins sá, að stjórnarskránni var breytt 1933 og 1934 með öðrum hætti en þeim, sem nú stendur til. En ég hef viljað benda á þetta til þess að sýna mönnum fram á, að afstaða sjálfstæðismanna þá var sú, að þeir gátu hugsað sér, eins og margsinnis hefur verið tekið fram, annað tveggja einmenningskjördæmi með tryggðu jafnrétti á milli flokka eða stór kjördæmi með hlutfallskosningum. Alveg sama kom fram í stjórnarskrárnefndinni, eins og hv. 1. þm. Reykv. lýsti áðan, hjá fulltrúum Sjálfstfl. þar 1952 í nóvembermánuði. Þá voru lagðar fram till. um þetta mál af hálfu fulltrúa Sjálfstfl. varðandi kjördæmaskipunina sérstaklega, þar sem tekið var fram eftirfarandi: Kosningafyrirkomulagið verði hið sama um land allt, þ.e. annaðhvort alls staðar einmenningskjördæmi eða stærri kjördæmi, þar sem 4–6 menn verði kosnir í hverju með hlutfallskosningu.

Það hefur enginn vandi verið fyrir sjálfstæðismenn og er ekki að standa við fyrri yfirlýsingar í þessum málum. Og það er rétt að vitna til þess, sem þeir segja einmitt Jón Þorláksson og Pétur Magnússon í lok nál. síns, 22. febr. 1932; um afstöðuna til stærri kjördæma, því að það hefur verið vitnað sérstaklega hér æ ofan í æ í Jón Þorláksson um það, að hann hefði umfram allt viljað viðhalda rétti hinna gömlu kjördæma. Hann vildi það, eins og ég sagði, með því að um leið væri skapað réttlæti á milli flokka, en að öðru leyti sögðu þeir Jón Þorláksson og Pétur Magnússon eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta: „Hins vegar höfum við lýst yfir því í n., að við mundum til vara eða til samkomulags geta fallizt á uppástungu Alþfl. um hlutfallskosningar í 6 hlutfallskjördæmum.“

Eins og þetta hefur allt frá þessum tíma legið ljóst fyrir, þá var þetta einnig staðfest af landsfundi Sjálfstfl. 1953, þar sem hann benti á þær tvær leiðir í þessu máli, annaðhvort að fara leið einmenningskjördæmanna eða hlutfallskosningakjördæmanna. Og nú hefur nýafstaðinn landsfundur Sjálfstfl. lýst sig samþykkan því, þar sem meirihlutasamkomulag hefði getað náðst um það, að standa að stjórnarskrárbreytingu eins og þeirri, sem flutt er nú hér, að landinu sé skipt í stór kjördæmi með hlutfallskosningum.

Það er enginn vafi á því, að margt hefur skeð á skemmri tíma, en fjórðungi aldar eða lengri tíma en það, sem getur nokkuð breytt viðhorfum manna. Og ég er ekki í nokkrum vafa um það, að einmitt bardagaaðferðir Framsfl. í hinum minni kjördæmum með því ofurvaldi, sem kaupfélagavaldið og fjármagn kaupfélaganna og Sambandsins hefur skapað þessum flokki, það hefur sýnt mönnum fram á, að það kynni að vera nokkuð varhugavert að hafa það kosningafyrirkomulag, þar sem mjög smá einmenningskjördæmi væri um að ræða, einmitt vegna þess, að menn þekkja þá gerla hverjir aðra og kosningaúrslitin velta á atkv. örfárra manna, sem mörg dæmi eru til að liggja undir ofurþunga, sem er þannig vaxinn, að það ætti ekki að eiga sér stað í íslenzku þjóðfélagi eða neinu lýðræðisþjóðfélagi, hvernig menn hafa bæði verið beittir atvinnukúgun og fjárkúgun í því sambandi og beinlínis notaðar aðferðir æ ofan í æ til þess á óbeinan og beinan hátt að láta fjármagnið og atvinnuaðstöðuna hafa áhrif á kosningar. Við munum ósköp vel eftir því — það er bara eitt dæmi, sem ég nefni — í síðustu kosningum, þegar Kaupfélag Vestur-Skaftfellinga á sitt aldarfjórðungsafmæli í ágústmánuði. Þá náttúrlega stóð mikið til, átti að halda upp á afmælið. En hvernig stóð á því, að það var ekki haldið upp á það í ágúst? Nei, kosningarnar fóru fram í júní, í lok júnímánaðar. Tilstandið var haft um miðjan júní. Þá kom forstjóri Sambandsins með pomp og pragt austur í þessa litlu sýslu, og menn geta getið sér til, hver muni hafa verið ástæðan fyrir því, að hátíðahöldunum var flýtt, til þess að það væri búið að ljúka þeim fyrir kosningar.

Þeir menn, sem hafa þessa aðstöðu, ættu sízt að tala um það, eins og sumir þm. Framsfl. gerðu hér síðdegis í dag, að hér í Reykjavík væri beitt mikilli atvinnukúgun og fjárkúgun í sambandi við kosningar. Engin einstök dæmi voru nefnd, en það var talað um, að þetta væri alkunna, og hv. 1. þm. S-M. sagði, að hann vissi sjálfur, að það hefði verið eytt mörgum dagsverkum í að reyna að veiða eina sál hér í kosningum. Menn gera sér alveg ljóst, að það er engin aðstaða til þess að hafa úrslitaáhrif á kosningu í jafnstóru kjördæmi og Reykjavík, miðað við það, þar sem er búið að sigta kjósendurna niður þannig, að það er aðeins handfylli af kjósendum, sem menn eru í vafa um lengur, hvorum megin muni vera, — og allir vita, að svona er þetta. Hér sveiflast kjörfylgið miklu meira, en annars staðar og einmitt eftir almennum málum, en ekki eftir því, hver áhrif einstakir atvinnurekendur eða aðrir geta haft á einstaka kjósendur til eða frá.

Hverjar hafa svo þessar glöggu tillögur Framsfl. verið? Ef við byrjum 1932, þá var afstaða Framsfl. að hafna þar tilboði sjálfstæðismanna um einmenningskjördæmi, en koma fram með tillögur um það að fjölga í Reykjavik, gera Þingeyjarsýslu að tvímenningskjördæmi, ég held Siglufjörð að kjördæmi og skipta Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi. Þegar maður athugar þetta nánar, þá eru allar líkur fyrir því, að úrslitin um þau viðbótarþingsæti, sem um var að ræða, mundu verða nokkurn veginn þau sömu og þau voru í heild í þinginu, áður en þetta kom til, m.ö.o., það væri nokkurn veginn alveg öruggt, að það ranglæti, sem til stóð að leiðrétta, skyldi ekki leiðrétt, Framsókn skyldi hafa sama hlutfallið eftir sem áður. En hlutfall þessa flokks hafði verið það, að í kosningunum 1927 fékk Framsfl. 46% meira þingfylgi, en honum bar, miðað við kjörfylgi í landinu, og 1931 fékk Framsfl. 53% meira þingfylgi, en honum bar, miðað við kjörfylgi í landinu. En það er kannske eftirtektarverðast af öllu, að þá þótti þetta herfilegt, og síðan hefur verið lappað upp á stjórnarskrána 1934 og 1942, en ef við lítum á kosningaúrslitin 1953 eða 20 árum og 25 árum eftir að þetta gerðist, þá erum við enn í alveg sama farinu. Framsfl. fær í kosningunum 1953 46% meira þingfylgi, en hann átti rétt til, miðað við kjörfylgi hans í kosningunum. Það er enn, eftir allar þær leiðréttingar, sem búið var að gera, þannig komið. En þetta þótti Framsfl. ekki nóg, heldur gekk hann á það lagið að stofna til bandalags við annan flokk til þess að reyna að hagnýta sér ágallana á kjördæmaskipuninni og ná enn þá meira til sín af rangfengnum þingmönnum, og þess vegna er niðurstaðan þannig, að í síðustu alþingiskosningum,1956, fær Framsfl. 112% meira þingfylgi, en honum ber, miðað við kjörfylgi. Það er laglega af sér vikið, og það er kannske mannlegt, að hv. þingmenn Framsfl. vilji ekki sleppa þessum ránsfeng. En þeir eiga þá ekki að vera með neina skinhelgi hér og segja: „Við erum að vernda hagsmuni héraðanna“. Þeir eiga þá bara að koma hreinskilnislega fram, eins og einhver var að segja við mig í dag, eins og Magnús gamli Torfason hefði gert hér á sínum tíma: Það er alls ekki von, að við viljum sleppa þessu, þetta er auðvitað hagsmunamál fyrir okkur, og það er bezt að játa það. — En hver hefur játað það hér af framsóknarmönnum? Hver hefur talað um það hér, að þeir væru að berjast fyrir hagsmunum Framsfl.? Nei, þeir koma hver á fætur öðrum og segja: Framsfl. gerir þetta ekkert til, en það eru bara aumingja héruðin, það eru veslings héruðin, það þarf að passa þau.

Ég hef rekið mig á dálítið skemmtilega sögulega staðreynd og minni á hana hér í sambandi við þetta tiltæki, sem Framsfl. hafði forustuna um 1956, að mynda kosningabandalag til að fá fleiri þm. en honum bar með réttu. Það hefur margsinnis verið tekið fram, þegar því hefur verið haldið fram hér, að sjálfstæðismenn hafi kannske ekki verið nógu skeleggir í því á fyrri árum að berjast fyrir kjördæmabreytingu, að eftir að Hræðslubandalagið hafði verið stofnað og fram hefðu komið þær myndir í kosningunum, sem það sýndi, þá gat ekki dregizt, að efnt yrði til breytinga á kjördæmaskipuninni, og þess vegna er einmitt þetta kosningabandalag orsökin til þess, að þessu máli hefur ekki verið lengur frestað nú. Þá varð lýðum ljóst, að hér var um svo mikið ranglæti að ræða, að því varð að breyta. En það, sem ég ætlaði að vitna til í sambandi við þetta, er það, að Danir tóku upp hjá sér nýja kosningaaðferð 1918, hlutfallskosningar í sambandi við einmenningskjördæmi, þ.e.a.s. svipað og sjálfstæðismenn vildu 1932, að hafa einmenningskjördæmi og svo uppbótarsæti eða hlutfallskosningar í sambandi við einmenningskjördæmi til að jafna á milli. Kosningarnar fóru skaplega fram, og það var lítil óánægja með þessar kosningar. Þá skeði það, að það tók sig til einn af vísindamönnum Dana, Zeuthen hagfræðingur, og skrifaði í Nationalökonomisk Tidsskrift grein um kosningarnar og sýndi fram á, að með alls konar brellum hefði getað komið út úr þessum kosningum svo hróplegt ranglæti, að minni hl. hefði getað átt stóran meiri hl. á þingi. Hann sýndi fram á þetta. Þá byrjaði að koma dálítil óánægja með þetta fyrirkomulag, og það var ekki beðið eftir kosningum, heldur tóku Danir sig til, þegar þessar kenningar Zeuthens um það, sem hann kallaði „illoyal Alliance“, voru fram komnar, eða óheiðarlegt bandalag, og breyttu kjördæmaskipuninni og tóku upp hlutfallskosningar í stórum kjördæmum. Það kostaði eina grein í Danmörku að hverfa frá þessu óheiðarlega bandalagi og breyta löggjöfinni, en það kostaði Hræðslubandalagið hér á Íslandi í síðustu kosningum, þar sem menn fengu að sjá framan í, hvernig menn gátu fengið sig til að misnota okkar ófullkomnu kosningalöggjöf.

Annars var það eitt, sem fram kom og hefur fram komið í ræðum, ekki aðeins í ræðu 1. þm. S-M., heldur flestra þeirra, sem talað hafa af hálfu Framsfl., að þeir telja í raun og veru, að það sé höfuðstefna þeirra að viðhalda einmenningskjördæmum í landinu og sú stefna hafi verið mörkuð af flokksþingi þeirra, með engum uppbótarsætum. Hitt eru svo tilslakanirnar, eins og margsinnis hefur verið sýnt fram á, að hér eru í raun og veru ekki þeirra tillögur.

Það er dálítið gaman að athuga það, að till. um einmenningskjördæmi hafa komið fram hér á landi áður, í byrjun þessarar aldar. 1907, þegar til meðferðar eru á þinginu till. Hannesar Hafsteins um stór kjördæmi og hlutfallskosningar, flytur meiri hl. þeirrar nefndar, sem fjallaði um það mál og var andvíg þessu frv., till. um einmenningskjördæmi, 34 einmenningskjördæmi í landinu. Það, sem er athyglisvert í sambandi við þetta, er það, að þessar till, um einmenningskjördæmi kolféllu með 16:8 atkv., en hins vegar féll frv. Hannesar Hafsteins eða stjórnarinnar þá með eins atkv. mun, og sátu þó hjá tveir menn, sem báðir höfðu efnislega lýst sig samþykka frv. En það er annað, sem er nokkuð athyglisvert, að í þessum till. um einmenningskjördæmi er algerlega raskað öllum grundvellinum, sem nú á að vera helgastur undir kjördæmaskipuninni, þ.e.a.s. sýsluskiptingunni. Nú tala menn hér fjálglega um hina fornhelgu sýsluskiptingu, sem væri hreinasta goðgá að rjúfa sem grundvöll kjördæmaskipunar. En ætli þeir hafi verið óþjóðhollari þessir menn, sem 1907 báru fram till. um einmenningskjördæmi, en rugluðu algerlega sýsluskiptingunni í landinu?

Aðeins til fróðleiks og uppbyggingar fyrir þá þm. Framsfl., sem mest hafa talað um helgi sýsluskiptingarinnar sem grundvöll fyrir kjördæmaskiptingu, vil ég minna á, að till. þessar voru ekki aðeins fluttar af meiri hl. nefndarinnar, heldur tók meiri hl. nefndarinnar upp till., sem áður voru sendar stjórninni frá öllum héraðsstjórnum landsins, svo að það voru héraðsstjórnirnar um gervallt land þá, á árunum 1903–1907, sem kváðu upp þann úrskurð, að sýsluskiptingin út af fyrir sig væri alls ekki neitt atriði, sem vernda bæri í sambandi við kjördæmaskiptinguna. Nú á hins vegar þessi sýsluskipting að vera fornhelg vé og bönd. Þá var flutt t.d. till. um það, að Árnessýsla skyldi skiptast í þrjú kjördæmi Skálholtskjördæmi, Hraungerðiskjördæmi og Stokkseyrarkjördæmi, eða til vara í tvö kjördæmi, Skálholtskjördæmi og Stokkseyrarkjördæmi. Á Austfjörðum voru till. um allt aðra skiptingu, en eftir sýslumörkunum. Það var gerð till. um það, að þrír þm. verði kosnir fyrir Norður-Múlasýslu: eitt kjördæmi átti að vera Skeggjastaðahreppur og Vopnafjarðarhreppur, annað kjördæmi Jökuldalshreppur, Hlíðarhreppur, Hróarstunguhreppur, Fella-, Fljótsdals- og Hjaltastaðahreppur, og svo þriðja kjördæmið átti að vera Seyðisfjarðarkaupstaður og Seyðisfjarðarhreppur, Loðmundarfjarðarhreppur og Borgarfjarðarhreppur. Í Skagafirði var talað um tvö kjördæmi, fyrra kjördæmið austan Vatna og hitt vestan Vatna. Og þegar litið er á þessar till. allar, þá er það úr miklum meiri hl. sýslnanna, sem koma till. um það frá þeim sjálfum að miða ekki kjördæmaskipunina við sýsluskiptinguna.

Þetta hef ég viljað benda hér á vegna þeirra umr., sem fram hafa farið um sögulegt gildi þess að viðhalda sýsluskiptingunni sem grundvelli fyrir kjördæmaskiptingu, sem eitt með öðru sannar það, að sýsluskiptingin er á engan hátt neinn fornhelgur grundvöllur undir kjördæmaskipuninni, en hitt miklu réttara, sem við höfum haldið fram, að þeirri kjördæmaskipun, sem lögð er til í þessu frv., svipi miklu meira til þeirra reglna, sem giltu á þjóðveldistímanum hér, eins og ég hef áður vitnað til og fært til stuðnings máli mínu greinar og ummæli Tómasar Sæmundssonar, Jóns Sigurðssonar og Einars Arnórssonar og fleiri, sem sögulega hafa skoðað þetta mál og skrifað um þetta samtímis því, sem Alþingi var endurreist um miðja 19. öldina, bæði Tómas Sæmundsson og Jón Sigurðsson forseti.

En þessar till. um einmenningskjördæmin, sem ég vék nú að, í byrjun aldarinnar spruttu upp úr till. stjórnarinnar um hlutfallskosningar, og það minnir mig á það, sem hv. 1. þm. S-M. sagði hér í dag, að fyrir svona till. eins og hér eru bornar fram, till. um stór kjördæmi með hlutfallskosningum, standa aðeins þeir, sem eru slitnir úr sambandi við landið. Það eru bara einhverjir aulabárðar, sem láta sér detta í hug að flytja svona till., segir hv. 1. þm. S-M. Ja, það voru nú engir aulabárðar á sínum tíma, sem létu sér detta í hug að flytja svona till. T.d. Þórhallur biskup var einn af þeim, sem fylgdu þessum till., og hann vildi gera meira, hann vildi stækka kjördæmin, ekki sjö kjördæmi, eins og stjórnarráðið stakk þá upp á, nei, heldur bara fjögur kjördæmi, eins og fjórðungarnir fornu, og með hlutfallskosningum. Ólafur Briem studdi mjög sterklega þessar till. þá. og sagði um þær, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég get ekki betur séð, en að fyrirkomulag frv. veiti einmitt meiri tryggingu fyrir því, að þingið vinni að því einu, er þjóðfélaginu í heild sinni er fyrir beztu, sérstaklega að því er snertir fjárhagsmálin. Oft og einatt mun þeim, er hlustað hafa á fjárlagaumr. á þingi, hafa komið til hugar, að stundum sé það ekki sem heppilegast, að þingmenn einatt skoða sig fremur sem ulltrúa einstakra kjördæma, en sem fulltrúa þjóðarinnar og láta hag þeirra sitja í fyrirrúmi fyrir hagsmunum landsins í heild sinni.“

Ég vildi alveg sérstaklega viðhafa þessi ummæli vegna þess, að nú virðist það eiga að vera í málflutningi hér á þingi eitt aðalatriðið gegn þessu máli, að eftir það hugsi menn ekkert um hin einstöku kjördæmi og hagsmuni hinna einstöku kjördæma, en þá höfðu þingmenn þann víðari sjóndeildarhring, að þeir töldu einnig, að það væri nokkurs virði að hugsa — ekki sízt í fjármálum og efnahagsmálum þjóðarinnar — í nokkuð stærri sviðum, en í hinni þrengstu hreppapólitík og þrengstu eiginhagsmunum minni kjördæma eða flokka. Nú þora menn helzt ekki að segja það, og þykist sá mestur, sem er reiðubúinn til þess að halda fram sem þrengstum sjónarmiðum fyrir sem fæsta eða minnsta hagsmuni í landinu.

Ég ætla að vitna í ummæli Péturs Jónssonar frá Gautlöndum um þetta mál eða hliðstætt mál af þessum sökum, að nú er það álitið, að það séu ekki nema aulabárðar, sem fylgi fram svona till., og menn, sem eru slitnir úr tengslum við landið. En hann sagði einmitt um þær till. að skipta landinu í stór kjördæmi:

„Því hefur verið haldið fram, að hlutfallskosning nyti sín ekki fullkomlega, nema flokkaskiptingin í landinu væri skýrari, en hér á sér stað og pólitískt líf meira þroskað. Þetta er satt að vísu. En sama má segja um núgildandi kosningaaðferð. Hún nýtur sín ekki heldur, án slíks þroska. Og heimti hlutfallskosningaaðferðin öllu meiri þroska, þá miðar hún líka þeim mun meira að því að efla hann og yfir höfuð hina betri þætti pólitíska lifsins, elns og ég hef bent á í nál. minni hl., enda tel ég margt illt, sem fram hefur komið í kosningabaráttunni eftir núgildandi aðferð. Ég er því sannfærður um það, að þessi kosningaaðferð mun einmitt verða til þess að efla sannan pólitískan þroska í landinu, en það, sem þm. Vestm. færði sem meginástæðu fyrir sínu máli, að kjósendur væru yfirleitt þessu fyrirkomulagi mótfallnir, finnst mér vera mjög léttvægt. Það hafa viðurkennt nálega allir, sem á þetta mál hafa minnzt, að hlutfallskosningin er sú réttasta kosning, sú kosning, sem leyfir flestum skoðunum að koma fram á sjónarsviðið á eðlilegan hátt, ef þær hafa nokkurt verulegt fylgi í landinu, í stuttu máli fegursta kosningaaðferðin.“

Ég vitnaði áðan í till. Þórhalls biskups Bjarnarsonar um að skipta landinu aðeins í fjögur kjördæmi í samræmi við fjórðungana, en sjálfur sagði hann um málið: „Fyrir mér eru góð hlutfallskosningalög hita- og kappsmál, því að þau eru runnin af rót réttlætishugsjónar.“

Síðar hefur einnig komið fram vitnisburður höfundar Framsfl., sem nokkuð hefur spunnizt inn í þessar umræður, einmitt um annars vegar einmenningskjördæmi og hins vegar stærri kjördæmi með hlutfallskosningum, og það hefur verið vitnað til þess, þótt það hafi ekki beinlínis verið orðrétt eftir haft, en það er ástæða til þess, að orðrétt sé til þess vitnað. Hann segir í bók sinni „Komandi ár“ um stjórnmálin, með leyfi hæstv. forseta:

„Hins vegar mætti greiða götu glöggrar flokkamyndunar á ýmsan hátt, en með engu fremur en að stækka kjördæmin og beita hlutfallskosningum. Þá koma stefnurnar fram fremur, en einstaklingsáhrif, ættarfylgi og fjármagn.“

Honum hefur dottið í hug, gamla manninum, að fjármagn gæti komið til greina í sambandi við sjálf kjördæmin, þó að arftaka hans í flokknum nú, hv. 1. þm. S-M., virðist ekki vera kunnugt um það. Hann heldur áfram, Jónas Jónsson, og segir:

„Ef 3–4 væru í sama kjördæmi og kosið með hlutfallskosningum, reynir minna á síðustu atkvæðin, úrskurð þeirra andlega ómyndugu, sem fluttir eru í bifreiðum á kjörstaðinn eins og sauðir til slátrunar.“

Nei, það er bæði, að við höfum töluvert fyrir okkur í stjórnmálasögu okkar um afstöðu manna til einmenningskjördæma og stórra hlutfallskosningakjördæma, eins og nú er lagt til að tekin séu upp, og það með töluvert öðrum hætti, en hv. fulltrúar eða þingmenn Framsfl., er hér tala um þetta mál, vilja nú vera láta eða dæma um kosti eða ókosti þessara mismunandi skipulaga. Þeir bera sér það mjög í munn, framsóknarmenn, að hér séu þrír menn í raun og veru að setja stjórnarskrá, flm. þessa frv., sem hér liggur fyrir. Það er náttúrlega fyrst og fremst Alþingi, sem fjallar um málið á fyrsta stigi, og við stjórnarskrárbreyt. skal sá háttur einnig á hafður, að kosningar fara fram og breyt. nær ekki lagagildi, fyrr en Alþ. hefur aftur samþykkt hana, eftir að kosningar hafa farið fram og kjósendur látið í ljós álit sitt um málið. Og sumir þingmenn Framsfl. nú hafa nokkuð digurbarkalega vitnað til þess, að það eigi nú eftir að fara fram kosningar um þetta mál, og kosningar hafi farið fram um stjórnarskrárbreyt. vegna þess, að Framsfl. rauf þingið 1931, og þá hafi þjóðin tekið í taumana. Ég vil aðeins gera dálitla leiðréttingu á því, hvort þjóðin hafi tekið í taumana 1931. Það er rétt, eins og ég sagði, að Framsfl. fékk 60% þingfylgisins út á rúmlega 30% kjörfylgisins, en þjóðin tók ekki meira í taumana en það, að Framsfl. hafði í þingkosningunum 1927 30% atkv. og fékk 35.9% atkv. í þessum mektarkosningum 1931. Það er næstum því alveg nákvæmlega sama prósentuaukning, sem Sjálfstfl. fékk í kosningunum 1956, miðað við kosningarnar næstu þar á undan, 1953. En við það að auka á sjötta prósent atkvæðafylgi sitt þá, tapaði Sjálfstfl. nokkrum þingsætum, en Framsfl. með 5-6% aukningu 1931 fékk 60% af þingmönnunum. Það var nokkur aukning hjá Framsfl., en það var sannarlega ekki þjóðin, sem tók í taumana, því að mikill meiri hl. þjóðarinnar var á móti Framsfl. í þessu máli. 2/3 hlutar þjóðarinnar voru á móti því að stöðva þetta mál, og það má þess vegna segja, að Framsfl. hafi gripið í taumana, fram fyrir hendur þjóðarinnar, með ranglætinu, eins og fyrr og síðar í þessu máli.

Hv. þm. Dal. talaði hér um það, að við talsmenn þessa máls hefðum forðazt að tala um jafnrétti fólksins, sem í landinu býr, við værum aðeins að tala um jafnréttið á milli flokkanna. Þetta er síður en svo. Ég hef einmitt og margir fleiri af okkar hálfu, leitt athygli að því, að það er ekki aðeins um að ræða ranglæti eða misrétti á milli flokka í sambandi við núverandi kjördæmaskipun, heldur ákaflega mikið misrétti á milli fólksins í landinu, og ég sýndi m.a. fram á, að það væri svo mikið ranglæti, að kjósendur í Gullbringu- og Kjósarsýslu þyrftu að una því að hafa rétt til þess að kjósa einn fulltrúa með álíka háa kjósendatölu og kjósendur í öðrum níu kjördæmum landsins, sem kysu tíu þm. Og þetta er m.a. ranglæti, sem á að leiðrétta, þetta misrétti á milli hinna einstöku kjördæma. Og þetta kemur miklu víðar við. Það er t.d. alveg furðulegt, að við skulum vera með kosningafyrirkomulag þannig, að við erum með sýslu eins og Norður-Múlasýslu, sem kýs tvo þm., tvímenningskjördæmi með 1.475 kjósendur. Svo höfum við einmenningskjördæmi eins og Suður-Þingeyjarsýslu með 2.485 kjósendur, Barðastrandarsýslu með 1.470, Snæfellsnessýslu með 1.845, Borgarfjarðarsýslu með 2.630 og Gullbringusýslu með 7.515. M.ö.o.: það er ekki aðeins Norður-Múlasýsla, heldur fleiri af tvímenningskjördæmunum, sem hafa lægri kjósendatölu, en mörg einmenningskjördæmi. Engar till. gerir Framsfl. um að leiðrétta þetta, heldur viðhalda þessu ranglæti eins og öðru og að lappa upp á hið gamla fat.

Hverjar eru svo tillögur framsóknarmanna í þessu máli nú? Það hefur verið sýnt fram á, að í meginatriðum er í raun og veru um það sama að ræða. Það er sama þingmannatala, og það eru sömu uppástungur um þingmannatölu einmitt í Reykjavík og á Reykjanesskaganum. En það er hins vegar stungið upp á því að fjölga þm. um 8, og það vill svo til, að það er eiginlega alveg sama uppi á teningnum og var 1932, þegar Framsfl. skarst úr leik við samkomulag í kjördæmamálinu þá og flutti breytingartillögur. Þá vildi svo til, að það voru allar líkur fyrir því, að sama ranglætið mundi haldast í hlutföllunum á millí þeirra nýju þingmanna, sem lagt var til að kosnir yrðu, miðað við það, sem menn geta gizkað á í slíku efni. Og eins er það nú, það er farið svo höndulega að þessu, að það er ósköp sennilegt, að við hefðum alveg nákvæmlega sama misréttið á milli flokkanna eftir sem áður að óbreyttri kjósendatölu, miðað við þessar till., eins og þær eru fram bornar af framsóknarmönnum. Hvort um það hefur verið sérstaklega hugsað eða ekki, get ég látið mönnum eftir að ráða í.

Þeir báru það nokkuð í munni sér hér síðdegis í dag, bæði 2. þm. Rang. og 1. þm. S-M., að Sjálfstfl. gæti allra sízt verið að ásaka menn um það að beita atvinnukúgun og fjárkúgun í sambandi við kosningar, þessi flokkur, sem allra ósvífnastur væri í þessu skyni. Ég vék svolítið að þessu áðan, en á ekkert sérstakt var bent í þessu sambandi. En það var þó eitt, sem fram kom hjá hv. 2. þm. Rang. og hann vitnaði í: Er ekki verið með þetta stóra landshappdrætti Sjálfstfl. núna, það er alltaf verið að safna peningum í kosningasjóð og til eflingar Sjálfstfl. — Það er vel á minnzt að, að þessu sé vikið. Hvenær efnir Framsfl. til happdrættis í kosningasjóð eða þarf að hafa við hendur almenna fjáröflunarstarfsemi í kosningasjóð? Hvenær gerir hann það? Halda menn, að það sé vegna þess, að það kosti ekkert kosningarnar hjá Framsfl.? Hvar fær hann peninga til þess að kosta sínar kosningar, fyrst hann þarf ekki að efna til almennrar fjársöfnunar? Ætli nokkur geti gizkað á það? Nei, sá er munurinn, að Sjálfstfl. getur ekki gengið á eina jötu til þess að gefa ávísanir, sem eiga að borga kosningakostnaðinn. Hann þarf þess vegna bæði að hafa happdrætti og hlutaveltu og margvíslega almenna fjáröflun á vegum samtaka sinna og sjálfstæðisfélaganna, fulltrúaráðanna og um gervallt land. Og það er sannarlega íhugunarefni, hvernig það má vera, að Framsfl. getur æ ofan í æ og án þess að á honum finnist fjárhagslega nokkur bilbugur staðið í kosningum, en aldrei orðið vart við, að hann þurfi að afla neins fjár til þess. Við fáum kannske einhverjar skýringar á þessu, áður en þessum umr. lýkur.

Ég vil svo ljúka máli mínu með því að leggja áherzlu á það, sem ég hef áður gert í þessu máli, að fyrir mér er hér um mikið réttlætismál að ræða, sem trú mín er að muni leiða til þess að hefja íslenzk stjórnmál upp á hærra stig, víkka sjóndeildarhringinn og koma í veg fyrir margar þær misfellur, sem í stjórnmálunum hafa átt sér stað á undanförnum árum, einmitt vegna og í skjóli þeirrar þröngu og óheilbrigðu kosningalöggjafar og kjördæmaskipunar, sem við höfum búið við.